Færsluflokkur: Lífstíll

Vond amma eða gömul og lúin?

100_2212Þrjú minna fjögurra barnabarna eru í pössun hjá ömmu og afa.

Reyndar er eitt þeirra, hann Smári  svo að segja heimilisfastur hjá okkur og hefur verið meira eða minna síðan hann fæddist. En nú eru þær Eldey sjö ára og Ísey tveggja ára í pössun og hafa verið frá því eftir hádegi á laugardag.

Smári sjö ára á myndinni hér til hliðar ásamt bróðursyni mínum, syni Davíðs.

Og það veit sá sem allt veit að það eru mikil viðbrigði að vera með þrjú börn og þar af eitt bleiubarn. Ég hef varla sest niður alla helgina, taka upp þetta, ná í hitt, gefa að borða, þvo og skeina og koma í svefn. En það er ekki vinnan sem fylgir því að annast lítil börn sem þreytir kellur eins og mig. Það er áreitið; að vera með stöðugt með hugann við börnin og að þau fari sér ekki að voða. Já, og þau eldri gera miklar kröfur. Í raun er miklu léttara að haf litlu Ísey en hin tvö.

Annað hvort er ég vaxin uppúr því að þola svona áreiti eða ég er svona vond amma. Sjálf var ég komin með börn á minn smáa handlegg níu ára þegar Davíð bróðir minn fæddist. Mamma fór í frystihúsið að vinna fjóra tíma á dag og ég passaði ungbarnið rétt fjögurra mánaða gamalt. Reyndar hugsaði ég um Davíð fyrstu æviár hans að mestu því tveimur árum síðar fæddist Jakobína og það var nóg að gera hjá móður minni með sex börn, drykkjumann, fátækt og basl.

Mömmu leið vafalaust ekki mjög vel á meðan hún vann en ég veit að hún treysti mér enda var ég mjög ábyrgðarfullt barn, elst alsystkina og var vön því að taka á mig ábyrgð. Forvitnin var líka að drepa mig og ég heyrði oftar á tal þeirra en mér var hollt á þeim árum.

Þegar elsta dóttir mín, Erna fæddist fékk ég mikla hjálp hjá tengdamóður minni. Var að fljúga og oft í burtu svo dögum skipti á þeim árum. Erna átti því sitt annað heimili þar. Síðan eignaðist ég þær Ragnheiði og Silju með 18 mánaða millibili og ég er ekki búin að gleyma hve erfitt mér þótti að halda öllu í horfinu með tvö börn á erfiðum aldri. Það var nefnilega ekki þá eins og nú þegar feðurnir eiga börnin líka. Faðir minna barna hafði ekki miklar áhyggjur af því hvort þær væru svangar, þreyttar, blautar eða yfirhöfuð hvernig þeim reiddi af. Það var í helst að hann tæki þær og segði gúllla gúlla og kitlaði undir hökuna.

Hann leit svo á að umönnun barnanna væri mitt hlutverk - og það sem verra var; mér fannst það líka ég lét það yfir mig ganga: fannst ég ekki hafa rétt á að gera kröfur um að hann hugsaði um börnin til jafns á við mig. Var sjálf alin upp við að mamma hugsaði um okkur og pabbi hefði ekkert með okkur að gera fyrr en hann gat farið að halda uppi vitrænum samræðum við okkur En þannig var tíðarandinn þá; slíkt myndi ekki viðgangast nú enda sé ég ekki annað á heimilum dætra minna og jafnaldra þeirra að feðurnir séu ábyrgir til jafns á við konurnar þegar börnin eru annars vegar.

En svo mikið er víst að ég héldi ekki út að passa barnabörnin nema fyrir það hve Magnús, minn ekta maki tekur þátt í umönnun þeirra. Hann var vel taminn hjá sinni fyrrverandi konu, eða bara að réttlætiskenndin er svona sterk i honum. Hann er auk þess mjög barngóður. En bæði eigum við það sameiginlegt að það er yndislegt að fá börnin; bara ekki of lengi í einu.


Kaupmaðurinn sem selur lifandi hamstur fyrir frosk að gæða sér á, kominn á hausinn!

images hamsturSvo segir hann í Fréttablaðinu í dag og kvartar hann heil ósköp yfir framkvæmdum á vegum borgarinnar fyrir utan dyrnar hjá honum sem komið hafi í veg fyrir eðlileg viðskipti. Já, ég segi ekki annað að en menn uppskera eins og þeir sá. Ekki vorkenndi ég mannræflinum í það minnsta. Hefnist honum bara ekki?

En hann er vísast ekki eini dýrakapmaðurinn sem iðkar þessa andstyggilegu sölumennsku á lifandi dýrum eftir því sem ég kem næst. Og svo má spyrja hvaðan koma þessir stóru froskar; er leyfilegt að flytja þá inn eða er þeim smyglað eins og slöngunum?

Ég kalla eftir svörum frá dýralæknum; hvað finnst þeim um svona óþverrahátt. Varpaði þeirri spurningu líka í gær til forstjóra UST, Ellýjar Þorsteinsdóttur, eða er Davíð þar enn við völd? Hvort sem er, heyrir það undir stofnunina að sjá til með að farið sé með dýr á mannúðlegan hátt. Já og hvar er frú Sigríður Ásgeirs; finnst henni þetta í besta lagi eða hefur hún ekki heyrt neitt af þessu?

Gaman væri að fá viðbrögð frá lesendum en hvorki fleiri en færri en tæpleg sex hundruð manns hafa ratað hingað inn síðasta sólahring. Eru menn alveg skoðanalausir eða yppa þeir bara öxlum og finnst allt í lagið að fara svona að. Varla erum við aðeins innan við fimm sem fyllumst óhuggnaði og reiði, eða er ég bara svona móðursjúk og yfirmáta viðkvæm? Nei þaðþarf ekki að segja mér það.

 sem

Að mata froska á lifandi hamstri!

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að dýrabúðir selji börnum lifandi hamstur on´í gapandi gin annarra dýra. Rök þessarra þokkakaupmanna eru að svona sé náttúran!! En það á ekkert skylt við náttúruna að setja lítinn hamstur til átu ofan í búr frosks. Út í náttúrunni eiga dýrin alltaf séns. Þar er háð barátta upp á líf og dauða. Ljónin fá ekki dádýrin borin að kjafti þeirra. Þau þurfa á hlaupa þau uppi og dádýrin eiga alltaf tækifæri til að forða sér. Froskurinn þarf líka að hafa fyrir því að ná í músarungann úti í náttúrunni; honum er ekki færður hann lifandi á fati.

Það er þess vegna sem þetta er svo viðbjóðsleg meðferð; að setja lítið dýr nær dauða en lífi af hræðslu fyrir gin frosksins er villimennska mannsins og kemur ekki náttúrunni á nokkurn hátt við.

Þetta er andstyggileg kaupmennska í meira lagi. Það er svívirðilegt að vita til þess að á meðan einu barni er seldur hamstur til að eiga og elska, skuli öðru seldur sá við hliðina til að bera lifandi fyrir fros að gæða fsér á. Eru foreldrar virkilega að kaupa lifandi dýr fyrir börn sín í þessu skyni?

Svo mikið er víst að einhverjir gera þetta og ég spyr hvað er verið að kenna börnum með þessu?

Sex ára dóttursonur minn eignaðist lófastóran frosk sem faðir hans gaf honum og á heimili hjá pabbanum. Þegar dóttir mín kom til hans um helgina þá var pabbinn búinn að kaupa lítinn hamstur sem átti að bera fyrir frosinn. Dóttir mín fylltist viðbjóði og var fljót að forða hamstrinum sem var nær dauða en lífi úr hræðslu úr búri frosksins sem var líklega vel saddur og hafði ekki lyst. Hún tók hamsturinn með heim og keypti búr fyrir hann þar sem hann unir sér nú vel. Drengurinn var miður sín og grætur nú hver örlög litla hamstursins hefu orðið ef mamma hans hefði ekki komið í tæka tíð.

Hvað er eiginlega að fólki? Hvar er Umhverfisstofnun og héraðsdýralæknar sem eiga að sjá til þess að mannúðlega sé farið með dýr. Veist þú af þessu, nýráðin forstjóri UST?


Mamma töffari og ástin hans Jóa í Bónus í Mannlífi

Mannlíf des 06Nýtt og spennandi Mannlíf er komið út en hæst ber viðtal við Jóhannes Jónsson í Bónus og konu hans Guðrúnu Þórsdóttur. Jói er beinskeyttur að vanda og segir hlutina hreint út. Hann talar um stóru ástina sína, Guðrúnu Þórsdóttur, sem hann hefur búið með í nokkur ár. Og svo auðvitað aðförina að fjölskyldu hans sem tekið hefur meira en lítið á þau öll.

Í blaðinu er einnig viðtal við Þórdísi Filipsdóttur, dóttur Vigdísar Grímsdóttur rithöfundar. Yfirskriftin er, "Mamma töffari" en hún sat háólétt á sjúkrabeði móður sinnar sem veiktist lífhættulega í vor og var vart hugað líf. Það var ekki fyrr en Vigdís var úr allri hættu að Þórdís gaf sér tíma til að fara á fæðingardeildina og það lá beint við að sú stutta fengið nafnið, Vigdís Grace. Hún segir líka frá uppeldinu á "Kaffi Njálu" eins og hún kallar æskuheimili sitt og persónunum í bókum móður sinnar sem þar sátu sem fastast.

Grein um hina nýju Gullkynslóð er í blaðinu og viðtal við Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleika sem talar af einlægni um nýlegan skilnað, sársaukann sem fylgir því að missa fóstur og löngunina til að eignast barn. 

Mulningsvélin hin eina og sanna þekkja þeir sem fylgdust með handboltanum fyrir 20-30 árum. Það voru strákarnir í Val sem fengu nafnið á sig fyrir ótrúlega sterk vörn liðsins sem. En mulningsvélinr tikkar en þá, þó að strákarnir séu komnir á sextugsaldur og sumir jafnvel yfir það. Þeir hafa haldið hópinn og eru líklega betri vinir en nokkru sinni fyrr.


"Ekki fara allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor."

 

Það er fínt fyrir stjórnmálamenn að deila út dúsum til að stinga upp í lýðinn þessa dagana. Kosningar í vor og svo mikið er víst að "ekki fara allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor".
Það getur enginn verið viss um að stíga dansinn þar, en það breytir engu fyrir pólitíkusa sem þurfa á atkvæðum að halda. Og kemur ekki í veg fyrir að loforðum er dreift bæði til hægri og vinstri.

Þannig er samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson óhræddur að lofað umbótum og fé í Suðurlandsveg til að þagga niður í fjölmiðlum og róa lýðinn. Það er eins gott að við það loforð verði staðið og líklega er Sturla borubrattur þar sem hann veit að það er þverpólitísk samstaða meðal þingmanna Suðurlands fyrir tvöföldun vegarins. En það er gott að eigna sér verkið og berja sér á brjóst og segja; "Í minni ráðherratíð var tekin ákvörðun um breikkun vegarins. Ég átti frumkvæðið.

Er hún ekki furðuleg þessi pólitík?

 


Mannlíf eykur lesturinn um tæp 70%

medallestur_timarit

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að Forvitna blaðakonan ég, Kristján Þorvaldsson, Guðmundur Arnarson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband