Færsluflokkur: Sjónvarp

Silfurtöngin eða Gullhamarinn og miklu fleiri frægir

 

Oft hef ég amast yfir hinum og þessum Eddum í sjónvarpinu, en nú er ég hætt því. Finnst ekkert nema gaman að horfa á fræga skemmta sér og sýna sig. Það ljómar af öllum selebunum sem elska ekkert meira en vera í sviðsljósinu, heilsa öðrum frægum og hlægja af einhverju skemmtilegu. Mig langar ekki lengur að vera í hópi frægra, verð bæði feimin og fámál. Svona fer aldurinn og þroskinn með mann; gersneyðir mann allri von og allri löngun um að verða einhvern tíma frægur.

En ég fylgdist með af athygli og missti ekki af einni mínútu. Þurfti að bregða mér af bæ í miðri Eddu og þakkaði í hljóði fyrir plúsið sem bjargaði því að sá Baltasar og Ómar, Jóhannes og Ingvar þakka fyrir Eddurnar. Áður var ég með tár á hvarmi búin að sjá Bubba með sætu kærustuna performera af list. Vel æft og enn betur leikið. Og til að sýna hve mikið hann lagði í þetta minntist hann á það sem særði hann mest af öllu og hann fór í mál út af; Bubbi fallinn! Hugsaði strax að líklega væri Eddan að ári í höfn fyrir bestan leik í aukahlutverki.

En grínlaust þá var sjóið bara fínt; flottir kjólar, sætir strákar og allir glaðir. Sé alveg fyrir mér að fleiri stéttir komi á svona hátið. Hvað með Gullhnífinn fyrir lækna, Silfurkrítina fyrir kennara og Gullhamarinn eða Silfurtöngina fyrir byggingaiðnaðinn. Verktakinn sem byggði fjölbýlishúsið að Engjavöllum 30 fengi Hamar fyrir einstaklega vel byggt hús. Rafvirkinn og píparinn fengju sína Silfutöng fyrir fábærar lagnir. Við myndum fá að sjá lagnirnar, flottar fittings og samsett rör.

Já því ekki það, fínt sjónvarpsefni og enn fleiri frægir til að taka myndir af og fjalla um í blöðunum. Ekki veitir af og enginn yrði glaðari en við blaðamenn. Það er okkar lifibrauð að tala við og fjalla um fræga. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband