Færsluflokkur: Ljóð

Skúra, skrúbba og bóna

 

ÞSjonvarpetta er nú bara létt grín en það er svo merkilegt með mig að þegar ég verið öskrandi bálreið, þá rík ég af stað eins og bavíani og hamast við að þrífa hátt og lágt, þvo allt sem ég kemst yfir. Skrúbba, skúra og bóna og enda með tannstöngul og gamlan tannbursta upp um alla veggi og út í öll horn. Get svo ekki hætt og geng alltaf lengra og lengra.Ef reiðin rennur ekki af mér fljótlega get ég átt til að fara af stað með húsgöngin og renna með þau um allt hús á fjórum ullarsokkum.

nyi sofi

Nú hef ég hamast síðan um kvöldmat og búin að breyta stofunni. Árangurinn má sjá hér á skelfilegum myndum sem ég tók með símanum því myndavélin mín er enn biluð. Skapið orðið gott og ég gæti alveg hugsað mér að fara að tala aftur, en hef auðvitað engan til að tala við núna. En mikið svakaleg orka leysist úr læðingi þar sem reiðin er annars vegar. Og svo er bara að bíða eftir þeim hjá Innlit útlit, Veggfóðri eða hvað þeir nú heita allir þessir þættir. Vona bara að Gautinn komi ekki með Ásgeir Kolbeins með sér og þeir segi hvor í kapp við annan, ojbara ógeðslegt, hræðilegt.


Vondar fréttir um þáttagerð á Stöð 2

 

Mér þykja það vondar fréttir ef sannar eru, að til standi að laugardagsþáttur um stjórnmál sem verið er að undirbúa, verði í umsjá Össurar, Guðfinnu Bjarna og Björns Inga. Skil ekki hvað hugsun er að baki þegar í stéttinni eru fjölmargir góðir fréttamenn hvort sem er af ljósvakamiðlum eða fréttamenn af dagblöðum, sem létt færu létt með að stjórna svona þætti.

Hvers vegna er líka verið að hampa stjórnmálamönnum sem fyrir vikið eru meira í umræðunni en kollegar þeirra nú rétt fyrir kosningar. Veit ekki betur en þeir sjónvarpsmenn sem í gegnum árin hafa vent sínu kvæði í kross og hafa farið í framboð, hætti störfum löngu áður en þeir annars þyrftu þess; aðeins vegna þess að með því að vera alltaf á skjánum ná þeir ákveðnu forskoti á hina. Það hefur ekki þótt siðlegt fram að þessu. Hvers vegna þykir þetta þá hið besta mál núna?

Það er ekki eins og Stöð 2 þurfi að leita langt að góðum stjórnendum að þætti sem þessum. Veit ekki betur en að innanborðs hjá þeim séu bæði þær Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sólveig Bergman. Báðar fantagóðar fréttakonur. Það hefði staðið þeim nær að þær fengju svona þátt til umsjónar fremur en menn sem eru í fullri vinnu annarsstaðar.

Allt annað mál væri ef í svona þætti væri gestastjórnandi í hverjum þætt og þá gætu þeir Össur, Guðfinna og Bingi verið fín til þess brúks. Hvað myndu menn segja ef Róbert Marshall færi að vinna fyrir Stöð 2 núna og fram að kosningum?


Er fólk fífl?

Umræður um um meint kosningabrað Frjálslyndaflokksins, finnst mér hafa farið langt út fyrir þau mörk sem Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson raunverulega fóru af stað með fyrir og um síðustu helgi. Mál sem er ekki annað en stormur í vatnsglasi. Viðbrögð þingmanna í öðrum flokkum eru helst til of harkaleg enda ætla allir að slá sig til riddara með stefnu sinni í þessum málum og græða á þessari umræðu. Hampa sér af víðsýni og fordómalaeysi í málefnum innflytjenda. Og þessi umræða er ekki lengi að skila sér eins og sjá má í skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna.

Ótrúlegt en satt, margfalt fleiri en áður sögðust styðja Frjálslynda flokkinn, styðja hann nú. Sýnir aðeins hve skammt menn hugsa ef þetta tiltekna mál ræður útslitum um hverja menn styðja í kosningum til Alþingis Íslendinga. Burtséð frá öðrum stefnumálum flokksins. Mönnum er greinilega gjarnt að gleyma því sem raunverulega skiptir máli í stjórnmálum.

Því segir ég nú ekki annað en Tómas Möller skrifaði forðum daga í frægum tölvupósti: "Fólk er fífl! Já, hrein og klár fífl ef þetta mál er tengt mikilvægasta vandi þessarar þjóðar í nánustu framtíð.

Vissulega er hægt að taka undir ýmislegt sem fram hefur komið í málflutningi þeirra frjálslyndu og ekki síður er hægt að vera sammála þeim sem gagnrýna þeirra málflutning hvað mest. Veröldin er nefnilega ekki bara svört og hvít.

Ég skil mæta vel hvað það er sem Frjálslyndir eru að vara við og finnst að málefni innflytjenda sé rædd af skynsemi og á málefnalegum grunni. Að við séum vakandi fyrir hver þróunin verði í framtíðinni ef ekki er vel staðið að málum frá upphafi.

Og ég er ekki að tala um að menn af útlendu bergi brotni séu ekki velkomnir til landsins. Það þarf hins vegar að undirbúa komu þessa fólks og læra af nágrannaþjóðum okkar sem eitt sinn stóðu frammi fyrir því sama. Til að mynda megum við spyrja okkur hvað Danir gerðu rangt eða hvað Svíar gerðu rétt?  Hvernig var þetta í Þýskalandi, Frakkland og öðrum Evrópulöndum? Þau voru langt á undan okkur að taka við vinnuafli frá vanþróaðari löndum.

Því segi ég að menn ættu að staldra við og ræða þetta af skynsemi. Ekki úthrópa  menn kynþáttahatara þó þeir vilji ræða þessi mál. Ég er hlynnt því að hér sé fjölmenningalegt samfélag og er þess full viss að við getum mikið og margt lært af þessu fólki sem hér sest að. Ef við vinnum þetta af alúð og leggjum okkur fram við undirbúa komu útlendinga í atvinnuleit til landsins. Veitum fé til þeirra stofnanna og samtaka sem hafa það á sínum herðum að taka á móti og skipuleggja vaxandi straum þeirra sem hér vilja setjast að. Ef vandað er til frá byrjun verður það ekki til annars en auðga okkar menningu. Það er nefnilega mergurinn málsins að gera þetta vel. Og til þess þurfa að fara fram umræður og vilji til að læra af mistökum annarra.


Ég á hvergi heima í kosningum

samfylking

Ég fór út í úrhellinu í dag til að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar hér á Suðurlandi. En mitt nafn fannst hvergi á skrá. Það þótti mér slæmt því ég vildi sannarlega hafa áhrif á hverjir veldust á lista flokksins fyrir Alþingiskosningar. Ekki veit ég hvers vegna ég var ekki á skrá en það eru örugglega tveir mánuðir síðan ég tilkynnti aðsetursskipti. Eitthvað hefur þar misfarist og skýrir allar hringingarnar, sms boðin og tölvupóstinn sem ég hef fengið frá frambjóðendum í Kraganum síðustu daga. Ég skildi samt eftir atkvæði mitt í tveimur umslögum ef ske kynni að nafn mitt dúkkaði einhverstaðar upp þegar betur væri að gáð.

En ég hef hins vegar enga skýringu á hvar eða hvernig frambjóðendur hafa haft upp á farsímasímanúmeri mínu sem skráð er á 365 miðla. Og enn enn síður veit ég hvernig þeir hafa fundið netfangið mitt hjá Birtíngi, einkum þar sem ég hef nýlega skipt um vinnustað. En kannski er maður sýnilegri en maður heldur. Já, og maður þekkir mann sem þekkir annan sem þekkir mig. Líklega er því þannig háttað.

Annars er ótrúlegt hve frambjóðendur og starfsmenn stjórnmálaflokka eru seigir við að elta mann uppi. Framsóknarmenn eru þar fremstir meðal jafningja en þeir eru fljótir að átta sig á að nýr sauður hafi bæst í hjörðina í kjördæminu.

Annars hef ég aldrei gengið í annan stjórnmálaflokk sjálfviljug með fullri rænu, nema Samfylkinguna. Hins vegar hef ég verið í Framsóknarflokknum allt frá því ég man eftir mér. Það skýrist af því að mitt fólk var mikið framsóknarfólk. Amma mín heitin var þar framarlega í flokki og heima hjá henni á Laugaveginum voru haldnir sellufundir þar sem makkað var um málin. Hún var aldrei í fararbroddi en mikill baktjaldamakkari. Það hef ég víða lesið og eldri framsóknarmenn hafa upplýst mig um þá gömlu. Ég hef aldrei tapað á því að vera kennd við hana blessaða þegar ég hef verið spurð hverra manna ég væri á lífsleiðinni.

En oft hef ég reynt að skrá mig úr flokknum en ekki gengið. Hef reyndar ekki reynt það síðustu árin enda vita tilgangslaust því nafn mitt hreinlega strokast ekki út úr flokksskrá þeirra. Sætti mig vel við að fá jólakort frá Sif og Húnboga og fundarboð frá Landsambandi framsóknarkvenna. Hef aldrei mætt á þá fundi nema starfs mín vegna. Það breytir engu, þeir eru hollir sínu fólki framsóknarmenn þó engin fái þeir félagsgjöldin.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband