Fólk er fífl - enn og aftur missir þjóðin sig í múgæsingi

Ég segi eins og Tómas Möller í frægum tölvupósti fyrir margt löngu og er fáum gleymt: "Fólk er fífl". Þeir sem hins vegar eru ungir eða ekki muna þessi fleygu orð sem í þann tíð fór afar mikið fyrir brjóstið á landsmönnum skal til upprifjunar bent á að póstur Tómasar var í tengslum við samráð Olíufélaganna. Á einfaldri íslensku þýddu þessi orð Tómasar; "það er hægt að plata þennan lýð upp úr skónum og engin mun átta sig á neinu."

Menn hneyksluðust upp úr skónum og þótti hroki mannsins með eindæmum. En ég get ekki annað en velt þessum orðum fyrir mér þessa dagana eins og svo oft áður þegar upp koma mál sem fjölmiðlamenn tönglast á dag eftir dag og mata almenning á. Sem síðan kokgleypir án þess svo mikið sem leiða hugann að því að hvert mál hefur fleiri en einn flöt.

Ætla má að í þessu landi nenni menn ekki lengur að hafa fyrir því að mynda sér upplýsta rökstudda skoðun á því sem þeir eru mataðir á; fréttum sem miðlað er í gegnum fjölmiðla, heldur jamma og jáa með sjálfum sér; svona er þetta. Og svo éta menn hvað upp eftir öðrum. Svo ekki sé talað um þegar sjálfskipaðir sérfræðingar sitja í sjónvarpssal frammi fyrir fréttamönnum og lýsa vanþóknun sinni á tilteknu máli og allt ber að sama brunni því fjölmiðlamenn kynda undir; þeir þurfa jú að halda dampi og vilja áframhaldandi hasar.

Nýjasta dæmið er hvernig mannskapurinn hamast við að taka Vilhjám Þ. af lífi; Maðurinn á götunni er spurður álits og þora ekki annað en vera sammála vitringunum í Kasljósi. Ekki skera sig úr; allir segja að hann sé óhæfur´, rúinn trausti og trúverðugleika og þá hlýtur það að vera rétt...

Mér finnst svona múgæsingur óhugnanlegur og minnir mig á hvernig harðstjórar sögunnar komu innrætingu um það sem þeim hentaði inn í huga almennings, sbr. Hitler eins og önnur dusilmenni sögunar honum líkir hafa gert svo lengi sem menn muna.

Og múgurinn æsist og æpir meira blóð, meira blóð! Nákvæmlega eins á öldum fyrr þegar aftökur fóru fram á torgum. Enginn eðlismunur; aðeins stigsmunur á aftökum nútímans sem fara nú fram í fjölmiðlum og villimennskunni í eina tíð.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn borgarfulltrúi til fjögurra ára í síðustu kosningum. Oddviti flokksins er hann hvort sem valdasjúkum ungliðum innan flokksins líkar betur eða verr.

Hvort hann hefur sagt ósatt oftar en aðrir, mismælt sig eða gleymt get ég ekkert um sagt en ætli hann hafi bara ekki logið klaufalega og treyst um of þeim sem ekki voru traustsins verðir. Efast ekki um að Hanna Birna, Gísli Marteinn eða hver annar hafi gripið til lyginnar snúið sannleikanum við í sínu pólitíska framapoti. Lygin kemst bara ekki alltaf upp og menn komast upp með að hagræða sér í vil.

Klúður Villa var að hafi ekki almennilegt vit á hlutunum og ráðgjafarnir leyfðu sér að skara eld að eigin köku. Fyrir vanþekkingu og klaufaskap á Villi ekki að vera hengdur undir hrópu og köllum lýðsins. Mönnum er mis mikið gefið og það fór ekki framhjá neinum fum hans á fát í kringum blaðamannafundinn fræga. Honum fer augljóslega ekki vel að búa svo um hnúta að fá lýðinn með sér. Átta mig raunar ekki hvernig að flaug að honum að halda þennan blaðamannafund einn og óstuddur.

En hann verðskuldar ekki vanþóknun og fyrirlitningu samflokksmanna í borgarstjórn fyrir það eitt að vera ekki nógu klókur að koma sér úr þeirri krísu sem hann kom sér í með dyggri aðstoð eigin pólitískra samstarfsmanna. Hann skorti einfaldlega skynsemi og hæfni til að snúa umræðunni sér í hag.

 

Mitt ráð er að hann haldi sér til hlés og láti vinda blása þangað til kulnað er í glóðunum. Ég skora á hann að skella skollaeyrum við þeim háværu en örfáu röddum sem æpa hvað hæst og almenningur heldur i forheimsku sinni að þar fari kór meirihluta þjóðarinnar. Villi á að halda sínu striki og láta ekki bola sér í burtu. Stattu fast á þínu Vilhjálmur og láttu ekki beygja þig niður í duftið.

Tek það fram að ég er ekki búsett í Reykjavík og enn síður fylgi ég Sjálfstæðisflokki að málum. Það breytir ekki því að ég á illt með að horfa upp á hvernig róið er undir af ákveðnum öflum sem æsa upp múginn og beita honum  í eigin þágu. Ég hef óbeit á slíkum áróðursmeisturum sem fá "fíflin"; fólkið í landinu til trúa því sem best hentar.

Hvernig væri nú að hver og einn tæki sig til og velti málum fyrir sér og skoðaði atburðarásina upp á nýtt og noti eigin dómgreind til skoðunarmyndunar. Mér segir svo hugur að ýmsir sæju þá hlutina í öðru ljósi og muni í fyllingu tímans skammast sín; það hafa dæmin undanfarin ár sýnt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Einarsson

Já áfram Villi. Sumir hafa bara ekki tíma til að klifra upp metorða stigann halda að þeir séu í einskonar slönguspili þar sem stytting á leiðinni er í boði....sbr það að "reykna með að verða búinn með námið þegar símaskráin kæmi út" Ég segi nú bara sumra tími kemur vonandi aldrei og annarra á réttum tíma.

Sverrir Einarsson, 27.2.2008 kl. 09:57

2 identicon

Þarft innlegg í annars leiðindar mál sem er hvorugum, með eða á móti til sóma !

Diana (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband