Þá hellist minnisleysi yfir sauðsvartan almúgann

Hvurslags skynhelgi er þetta eiginlega í mönnum sem fjalla hér í bloggheimi um ríkisborgararétt  sem veittur var tengdadóttur Jónínu Bjartmarz. Hvenær urðu menn svo heilagir að þeir furði sig á því að Jónína reyni að hafa áhrif á að allsherjarnefnd sýni lipurð að veiti tengdadótturinni þennan rétt fyrst ekkert ólöglegt er við það. Nefndin fer ekki eftir neinum reglum og ekki segja menn þar, ugla sat á kvisti þegar þeir ákveða hverjir skuli fá undanþágu. Nefndin hlýtur að hafa einhverjar upplýsingar sem hún byggir skoðanir sínar á.

Það er fáránlegt að ætla ekki að Jónína hafi ekki hnippt í vini sína innnan nefndarinnar og beðið þá um að horfa mildum augum á umsókn tengdadótturinnar. Ég hefði gert það í hennar sporum og þeir eru ófáir sem nýtt hafa sér tengslanet sín til að koma málum áfram. Oft í viku reyna menn að plögga fréttum og blaðamenn eru mannlegir eins og alþingismenn. Við tökum efni frá kollegum, vinum og kunningjum og reynum að gera eitthvað úr því ef við getum. Mér dettur ekki í hug að neita því að ég hafi orðið vís að því eins og aðrir.

Ég vann líka eitt sinn í banka. Ég fékk betri fyrirgreiðslu þar, en óbreyttur almúginn sem beið í röð fyrir utan Landsbankann á hverjum morgni í þeim tilgangi að fá viðtal við bankastjórana. Þá var skortur á lánsfé og víxlar gengu kaupum og sölu. Fyrir jólin var röðin vanalega langt út í Austurstrætið. Sumir fengu nei, aðrir já, og fæstir þeirra þá upphæð sem þeir þurftu.

Ég var átján ára tryppi og vann á bankastjóraganginum við að vísa fólki inn til stjóranna og sendast fyrir þá um bankann með skjöl. Jónas Haraldz lánaði mér eitt sinn 100 þúsund sem ég bað hann um fyrir frænda minn. Frændanum hafði áður verið hafnað. Tengsl mín hjálpuðu honum.

Þannig hafa kaupin gerst á eyrinni í okkar litla samfélagi svo lengi sem ég man. Ég get talið upp ótal dæmi um kunningjafyrirgreiðslu sem mér hefur verið veitt innan kerfisins, frá því ég komst til manns. Það er eins mannlegt og hugsast getur að vilja hjálpa vinum sínum svo lengi sem maður brýtur ekki lög með því. Ég veit ekki betur en Jónína og þingmenn í allsherjarnefnd séu af holdi og blóði!

Á ég að trúa að allir sem hamast hafa vegna þessa máls séu svo heilagir og siðvandir að þeir þurfi að vera fjargviðrast vegna þessa ríkisborgararéttar. Ég er mest hissa á Jónínu að fara í þessa bullandi vörn. Það hefði verið smart ef hún hefði sagt að hún hefði hringt í Guðrúnu Ögmunds og hvíslaði í eyra Bjarna að tengdadóttir hennar ætti umsókn hjá nefndinni. Nei, mönnum þykir flottara að neita þessu öllu, bæði hún og nefndarmenn.

Jú, jú, ég þekki þetta um að þingmenn eigi að vera okkur fyrirmynd og nýta sér ekki aðstöðu sína til að hygla sínum. Já, já, veit allt um það. Man hins vegar ekki hvenær þingmaður eða ráðherra hér á landi hefur þurft að segja af sér vegna þess að upp um hann hefur komist, nema hamaganginn í kringum Guðmund Árna um árið þegar hann réði vini og kunningja í ráðuneytið.

Það er svo margt sem maður á ekki að gera en gerir samt; vegna þess að það gera það allir. Siðvendnin hefur ekki verið að drepa okkur nema þegar í hlut eiga opinberir starfsmenn, þingmenn, ráðherrar og fjölmiðlar. Þá hellist minnisleysi yfir sauðsvartan almúgann sem man alls ekki eftir að hafa nýtt sér aðstæður sínar eða tengsl til að koma málum áfram.

Jónas Haralz braut ekki lög þegar hann lánaði mér fyrir frændann, blaðamenn brjóta engin lög með því plögga inn fréttum, vinkonur mínar hjá skattinum brutu ekki lög í þau skipti sem þær hafa troðið framtalinu mínu inn, löngu eftir að skilafrestur rann út og Allsherjarnefnd braut engin lög með því að veita tendadóttur Jónínu Bjartmarz ríkisborgararétt. Veit vel að þetta er spurning um siðferði, en það er einmitt það sem ég er að benda á að siðferðinu er kastað fyrir róða þegar í hlut eiga vinir og kunningjar í litla "maður þekkir mann" samfélaginu sem við lifum í.

Það er eins og enginn kannist við að hafa otað sínum tota. Ó, nei sauðsvartur almúginn festir á sig geilsabauginn áður en klifrað er upp í dómarasætið og hamarinn mundaður. Gaman væri að þeir sem hneysklast sem mest spyrji sjálfa sig hvenær þeir nýttu síðast tengsl sín við mann og annan til að fá einhverju framgengt sem ekki var í boði fyrir aðra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert skemmtilega hreinskilin. Sennilega nokkuð víðsýn. Þetta var nýtt sjónarhorn.

Sigríður G (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband