Veggirnir hafa eyru

Ég gef mig út fyrir að vera forvitin í meira lagi og legg áherslu á þann eiginleika hér. Reyndar er bloggið ekki komið í það horf sem því er ætlað því enn hef ég ekki "fattað" hvernig á að linka á aðra með þeim heitum sem ég vel. Kannski að einhver sérfræðingurinn sem þetta les og þekkir mig geti hjálpað mér með þetta?

En þetta með "fattið" hefur stundum vafist dálítið fyrir mér. Enda segir Magnús, minn ekta maki að gleymst hafi að setja í mig nóg af "fatti". Fullyrðir að það sé hægt að kaupa dós með því í apótekinu. Eins og gefur að skilja hef ég ekki látið reyna á það. Geri mér þetta auðvelt og fæ til liðs við mig þá sem eiga nóg slíku eðalefni í sínum heila - eða hafa keypt það í dósum.

En aftur að  forvitninni. Þegar ég var smápeð að alast upp vestur undir Jökli þar sem foreldrar mínir ákváðu að væri góður staður til að fara af stað með búhokur í lok sjötta áratugarins. Staðurinn var valinn til að pabbi, sem var húsasmíðameistari gæti starfað áfram hjá Íslenskum aðalverktökum sem hann reyndar var einn stofnandi að. Fyrirtækið vann þá fyrir herinn sem rak Lóransstöð á Gufuskálum.

Hann vélaði mömmu vestur með þeim orðum að rétt fyrir neðan bæinn væri yndisleg tjörn. Eftir að hafa lýst náttúrfegurðinni, þar sem jökulinn bæri við himinn. Fallegar sauðkindur í haga og ómótstæilegt hús stæði upp á hól, þaðaðn sem víðsynt væri til allra átta. "Og þar synda líka yndislegir svanir á fallegri lítill tjörn, rétt neðan við bæinn. Söngurinn þaðan hljómar eins og fallegasta sinfónía á kyrrum sumarkvöldum. Er hægt að hugsa sér eitthvað dámsamlegra," spurði hann blessaður og mamma féll fyrir þessum töfra stað.

Fimm árum síðar þegar hann vildi flytja í burtu þaðan en hún var treg til. Þá notaði hann þessa yndislegu röksemdarfærslu. "Hvað heur þú eignlega að gera hér lengur kona. Við þennan stað er ekkert fallegt. Af jöklinum blæs kuldi, rollurnar eru eins ljótar og í Landeyjunum. Húskofinn sem við búum í er er ekki skepnum bjóðandi. Og svo þessi drullupollur hér fyrir neðan þar sem gargandi svanir bægsla með vængjaþyt og hávaða."  Þau fluttu skömmu síðar. Þessi fallegi staður hefur vitanlega alltaf verið eins.

En það var forvitni mín sem öllum varð ljós og kom hvað gleggst fram, einmitt þarna undir Jökli. Talsverður gestaganur var á heimilinu og sátu gestir venjulega í eldhúsinu og skeggræddu um landsmálin, hitt fólkið í sveitinni og vitanlega póitíkina. Ég var sex sjö ára gömul og sat vanalega þar sem lítið fór fyrir mér og eyrun á mér blökuðu. Oft sló þögn á umræðurnar þegar mín varð vart og bentu menn þá að eins gott væri að segja ekki margt því veggirnir hefðu eyru. Og var síðan send í rúmið.

En ég engdist sundur og saman í rúminu af forvitni. Hélst ekki við og tókst alltaf með ýmsum brellibrögðum að koma mér fram aftur. Sá mér leik á borði  og mjakaði mér þá, án þess að nokkur tæki eftir, undir borð sem stóð við hornglugga og pabbi hafði smiðað forláta bekk í kringum. Í horninu var holrúm þar sem sjö ára kríli gat troðið sér í. Og það gerði ég og lá í hnipri og drakk í mig hvert einasta orð sem sagt var. Það vildi til að ég var mjög svefnlétt og átti aldrei í vanda við að vakna á morgnanna. Síðar hafði ég þann háttinn á að koma mér í hornið um leið og gestir beygðu inn afleggjaran að bænum. Var tilbúin þegar sest var niður og umræurnar hófust og enginn vissi neitt.

Forvitnin hefur síður en svo rjátlast af mér. Það eina sem hefur breyst er að ég hef meiri stjórn á henni, sem ég alls ekki gat þá. Um þessa forvitni mína var talað eins um eitthvað neitkvætt fyrirbæri væri að ræða. En ég veit núna að er ekki annað en góður kostur sem ekki ber að skammast sín fyrir. Þvert á móti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að forvitni sé einn stærsti kostur sem nokkur manneskja getur haft. Forvitnin sýnir að viðkomandi manneskja hefur áhuga á lífinu og tilverunni og fylgist vel með eða vill fylgjast með. Mér finnst forvitni vera merki um að það sé kveikt á manni. Og mér finnst það ótvíræður kostur!

ghs (IP-tala skráð) 5.10.2006 kl. 22:29

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Sammála! en lengi vel taldi ég þetta mikinn ókost og reyndi að leyna þessum mikla "galla". Í æsku minni var talað um forvitina sem óþolandi leiðindi sem ég ætti að venja mig af. Var áminnt um að vera ekki alltaf með þessar spurningar; mér kæmi þetta eða hitt bara alls ekki við. En það er svo margt sem hefur breyst síðustu 30-50 árin. Það mátti til dæmis ekki hrósa ef eitthvað var vel gert því þá var hætta á að maður ofmetnaðist. Ekki taldist það til kosta heldur að hafa sjálfstraust því þá var maður montinn og leiðinlegur. Það var kostur að ganga með hausinn undir hendinni, lítillátur og gangast alls ekki við því að maður væri einhvers virði. Sem betur fer er þessu öfugt farið í dag.

Forvitna blaðakonan, 6.10.2006 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband