Færsluflokkur: Bloggar
2.10.2006 | 23:57
Reynir í Kasljósi
Loksins upplýsti Reynir forvitna fjölmiðlamenn um bakhjarllinn sinn í Kasljósi kvöldsins. Hann gat heldur ekki annað því kvissast hafði út að Jón Ásgeir væri maðurinn. Mínar heimildir herma að Hjálmar Blöndal, fyrrum samstarfsmaður Reynis á gmala DV sé potturinn og pannan í þessu. Það skýrir líka nafnið á félaginu, Hjálmur.
Ég skil hins vegar ekki hvað er á bak við þetta allt. Hvers vegna Jón Ásgeir er reiðubúin að kasta tugum milljónum í svona útgáfufyrirtæki. Það er deginum ljósara að erfitt er að halda svona rekstri réttum meginn við núllið og borin von að það takist fyrstu árin. Niðurstaðn er því að peningar skipti manninn engu máli. Hann eigi einfaldlega svo mikla peninga að hann geti leikið sér með nokkur hundruð milljónir - bara si svona.
Ekki það, ég óska svo sannarlega Reyni vini mínum alls hins besta og vona að honum gangi vel. En hans velgengni er tap Birtíngs því það er ekkert sem gefur til kynna að Ísafoldin hans verði viðbót á markaðnum. Hætt er hins vegar að allir tapi í svona slag, en það getur varla verið ætlunin.
Mér segir svo hugur að eitthvað sé í gangi hjá 365 miðlum. Þar verði hætt við alla útgáfu á tímaritum innan skamms. Annað væri órökrétt. Tja, nema Jón Ásgeir sé bara að leika sér með gullin sín.
Simmi talaði við Reyni og mátti svo sannarlega þjarma meira að honum. Hefði mátt spyrja hvers vegna þetta var leyndarmál allan þennan tíma. Hvers vegna að segja frá því nákvæmlega núna. Var eitthvað sem gaf tilefni til þess, eða var það ákvðið frá upphafi að tilkynna þetta 2 október? Því mátti bara ekki segja frá þessu strax?
Já, og hann hefði að ósekju mátt ganga harðar fram í því að fá svör við því hvaða tegund blaða þeir ætli að koma með í framhaldi Ísafoldar. Og meira og meira sem mig þyrstir í að vita. Nú er fjör því það rekur hver fréttin aðra í fjölmiðlaheiminum þessa dagana. Og ekki allt búið en. Sannarlega spennandi tímar fyrir fjölmiðlafíkla framundan.
Bloggar | Breytt 3.10.2006 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 15:17
Betra seint en aldrei
Ég veit ekki hvers vegna ég er að byrja að blogga; hef líklega smitast af öllum hinum. En þörfin fyrir að vera með í umræðunni knýr mig líklega áfram í þessu. Nú hef ég nefnilega ekki lengur vettvang til að láta móðan mása um allt og ekkert eins og á meðan ég skrifaði bæði leiðara og fjölmiðlapistil í DV og áður í Fréttablaðið.
Ekki það, oft var ég í stökustu vandræðum og sat fyrir framan tölvuna heilu og hálfu dagana þegar að mér var komið að skrifa. Datt ekkert í hug eða það sem hvarflaði að mér að skrifa um taldi ég ekki nógu gott. Þess á milli var ég með svo mörg járn í eldinum að ég gat ekki valið. En frómt frá sagt þá hafði ég sjaldnast tíma til að setjast niður og skrifa leiðara fyrr en fréttaskrifum dagsins var lokið. Og það var auðvitað allt of skammur tími því best er að skrifa, láta pistilinn síðan gerjast í kollinum á sér og breyta svo. Til þess var aldrei tími. Mesta furða hvað ég gat oft sætt mig við það sem síðan birtist daginn eftir. Breytir því samt ekki að aðra daga hefði ég helst að öllu vilja vera í felum.
En hér er ég minn eigin ritstjóri og skrifa þegar ég vil og þegi þess á milli. Get meira að segja tekið út færslur eða breytt þeim. Svo er bara að sjá hve dugleg ég verð við þetta því ekki get ég annað sé en þetta sé hið einfaldasta forrit hjá mbl.is.
Er með síðu fyrir hundana mína þar er mun meira vesen að setja inn færslur. Hefur komið í veg fyrir margan góðan molann frá mér. Nú er ég sumsé komin af stað og aldrei að vita nema eitthvað vitsmunalegt og jafnvel skemmtilegt hrökkvi upp úr mér við og við.
Bloggar | Breytt 3.10.2006 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)