Færsluflokkur: Ferðalög

Hvílík dýrð - hvílík dásemd í yndislegu veðri vestur á fjörðum

Ég er í sumarfríi vestur á fjörðum; okkar Magnúsar unaðsreitum þaðan sem við bæði eigum rætur okkar og vorum borin í þennan heim. Magnús á Ísafirði og þar áttu foreldrar hans sumarbústað í Tungudal. Hann dvaldi þar öll sumur sem krakki með fjölskyldunni en "Skógarbúar" fluttu jafnan á sumrin inn í skóg. Mæðurnar voru þar með börnin sem ekki þurfti að reka út að leika enda sáust þau varla fyrr en sól var sest nema rétt til að næra sig. Þau höfðu meira en nóg fyrir stafni daginn langan. Feðurnir sem voru heima í bæ komu síðan eftir vinnu eða um helgar. Það var síðan ekki fyrr en í enda sumars sem mæðurnar fluttu aftur inn í bæ krakkana. 

Magnús á yndislegar minningar frá þessum árum í gamla bústaðnum en þau systkinin og makar keyptu nýjan bústað fyrir nokkrum árum sem fjölskyldan skiptist á að dvelja í. Við höfum verið hér síðan fyrir helgi og veðrið er ótrúlega gott en það hefur varla fallið dropi úr lofti síðan í byrjun júní hér vestra. Hitinn á pallinum á milli hárra trjánna við bústaðinn er slíkur að maður helst helst ekki við.

Í gær sóttum við minn unaðsstað í Dýrafirðinum. Í Haukadalnum þar sem ég fæddist er aðeins búið á einum bæ en flestir hinir eru í eigu afkomenda sem byggt hafa upp gömlu bæina eða byggt sér nýjan bústað á sínum reitum.

Í gamla skólanum á staðnum, þar sem afi minn var skólastjóri og kenndi börnunum í sveitinni í sinni tíð er nú fallegt athvarf frænku minnar en faðir hennar og móðurbróðir min, Bjarni heitinn Helgason skipherra keypti skólann fyrir margt löngu. Frændfólk mitt hefur verið meira en ljúft að eftirláta okkur Magnúsi tíma í skólanum sínum í Haukadal á hverju sumri síðustu tuttugu ár.  Haukadalur er Paradís á jörðu en þar bjó Gísli Súrsson forðum og má finna menjar eftir þá búsetu enn í dag.

Dalurinn skartaði sínu fegursta í gær en í enda hans trónaði Kaldbakur, hæsta fjall hér fjórðungsins. Í hlíðum hans kvaddi Einar Oddur deginum áður Á meðan við dáðumst af fegurð hans reikaði hugur okkar til Einars heitins og fjölskyldu sem við vottum samúð okkar. En okkur var líka hugsað til þess að ef einhverstaðar eru forréttindi að fá að kveðja þetta mannlíf, þá er það í hlíðum þessa fallega fjalls í heiðríkjunni daginn þann. 

Í Húsatúni, eina byggða bænum í dalnum hjá Unni, ekkju Valdimars frænda míns var gestkvæmt að vanda. Hún stóð við eldavélina og bakaði pönnukökur ofan í alla gestina sem alla jafnan sækja hana heim. Hemmi Gunn. var brúnn eins og svertingi eftir nokkurra vikna dvöl. Hann þurfti suður í dag og var ekki sérlega spenntur að þurfa að yfirgefa þennan unaðsreit sinn. 

Litlu tíkurnar mínar. þær Fura og Vilja voru í essinu sínu og nutu þess að fá að hlaupa um tún og engi frjálsar eins og fuglinn. En þær gættu þess vel að fara ekki lengra en svo að við værum í augsýn.

Spáin framundan er góð og eftir því sem sólin og hitinn bræðir mann, því latari verður maður. En það er enginn hætta; hér er hreint ekki hægt að láta eftir sér letina. Ísafjörður þessi fallegi bær iðar af mannlífi og í kaffihúsum og veitingahúsum bæjarins er fullt út úr dyrum og hvarvetna setið utandyra langt fram eftir kvöldi í logninu sem einkennir bæinn. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband