Færsluflokkur: Ljóð

Ekki sama hvort Reynir túlkar fréttirnar eða sú forvitna

 

Það er hreint ekki sama hvernig sagt er frá hlutunum; ein og sama fréttin kann að verða að tveimur gjörólíkum, allt eftir því hver túlkar og hverra hagsmunir eru í húfi. Það sýnir sig best á fréttinni hér á undan þar sem sagt er frá 70% aukningu á lestri Mannlífs á milli ára og annarri frétt af þessari söm könnun á vef Ísafoldar

Aukning á lestri Mannlífs verður ekki véfengt eins og sjá má ef skoðaðar eru niðurstöður könnunnar sem Capacent gerði og vitnað er í. En í frétt Reynis vinar míns Traustasonar er sem minnst fjallað um aukningu á lestri Mannlífs, enda ekki hans hagsmunir að tala of hátt um það.

Hann notar hins vegar allt púðrið í að segja frá samdrætti á lestri á Séð & heyrt frá því í vor, þegar Bjarni Brynjólfsson var ritstjóri. Telur sig líklega ná þar góðu skoti á núverandi ritstjóra, Mikael Torfason. Hann lætur þess hins vegar ógetið að S&H var dreift í miklu magni frítt í könnunarvikunni í vor en ekki svo mikið sem einu blaði núna. Þannig liggur í því en Reynir man það kannski ekki eða langar ekkert að muna það enda miklu skemmtilegra fyrir hann að segja frá hrapi S&H en að lestur Mannlífs hafi aukist efir að hann hætti.

Svona gerast kaupin á eyrinni þegar kappið er mikið. Og ekkert nema gaman að því að vera í virkri samkeppni. Ég er jú blaðamaður á Mannlífi og að vonum ánægð. En til gamans geta menn lesið báðar fréttirnar og skoðað könnunina.

Blogg mitt frá í gær er hér:

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að við Kristján Þorvaldsson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.

Og Reynis frétt á Ísafoldarfefnum hér:

Nýjasta könnun Capasent varðandi lestur tímarita felur í sér slæm tíðindi fyrir skemmtiritið Séð og heyrt. Blaðið fellur úr rúmlega 35 prósentustiga lestri í maí 2006 undir ritstjórn Bjarna Brynjólfssonar og niður í 23 prósentustig nú. Þetta er eitt mesta fall sem sést hefur frá því mælingar á lestri tímarita hófust. Á sama tíma er Hér og nú með 16,8 prósentustiga lestur og dregur saman með skemmtiritunum. Nýtt líf tekur einnig djúpa dýfu og mælist með 16,3 prósentustig í stað 19,3 stig áður. Kristján Þorvaldsson, ritstjóri Mannlífs, má vel við una því tímarit hans hans heldur sínu og vel það frá seinustu könnun og mælist með 22,4 prósentustig í lestri sem er tæpu stigi undir sérstakri könnun sem gerð var á lestri blaðsins í fyrrahaust og tveimur prósentustigum undir bestu könnun blaðsins á seinustu tveimur árum. En hástökkvarinn í Fróðasamsteypunni er þó Bleikt og blátt, undir ritstjórn Guðmundar Arnarsonar, sem eykur lestur sinn´um 25 prósent ...

 


Mannlíf eykur lesturinn um tæp 70%

medallestur_timarit

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að Forvitna blaðakonan ég, Kristján Þorvaldsson, Guðmundur Arnarson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.


Margrét ætti að þakka pent og segja bless

 

Mér hefur alltaf fundist sú mikla sómakona, Margrét Sverrisdóttir alls ekki eiga heima innan Frjálslynda flokksins. Það sýnir sig gjörla þessa dagana þegar kverúlantarnir í flokknum hafa fengið sitt fram og otað henni úr starfi; konunni sem var sálin og hjartað í þessum flokki. Ef meðal áhagenda þessa furðulega flokks eru einhverjir með viti, er ég hrædd um að þeir snúi við honum baki núna.

Þá sitja þeir eftir karllufsurnar og Guðrún Ásmundsdóttir. Skil ekki í að þau verði mörg atkvæðin sem þeir telji upp úr kössunum í vor, þegar kynþáttahatararnir og aðrir kverúlantar verða búnir að gleyma útspili þeirra Magnúsar Hafsteinssonar og Jóns Magnússaonar. Eftir sitja lúserarnir sem halda að þeir græði eitthvað á að styðja flokkinn.

Margrét á hvergi heima annars staðar en í Samfylkingunni og hún hefði betur verið búin að stíga skrefið til fulls og gefa karllufsunum langt nef og kveðja. En hún er eins og aðrar konur; trygg sínum og hverfur ekki svo glatt frá hálfunnu verki. Ekta kona Margrét, en ekki karlkona eins og margar þær konur sem náð hafa langt í pólitík.


Mistök Fréttablaðsins og Hugrún

Ég er sammála Pétri Gunnarssyni um frétt Fréttablaðsins í morgun, þar sem rætt var við Dofra Hermannsson. Rak í rogastans þegar ég las þetta. En ég er ekki sammála honum um að Hugrún hafi vísvitandi unnið þessa frétt í annarlegum tilgangi eða misnotað aðstöðu sína í pólitískum tilgangi. Ég er heldur ekki sammála um að ábyrgðin sé hennar.

Ég þekki Hugrúnu ekki nema af góðu einu. Hún er dugleg fréttakona og heiðarleg. En hún hefur ekki langa reynslu, raunar mjög skamma, hefur aðeins verið í blaðamennsku í eitt og hálft ár. Því lít ég svo á að ábyrgðin sé fyrst og fremst fréttastjóranna eða vaktstjóranna sem eiga að leiðbeina fólki. Þeir eiga líka að fara yfir fréttir og senda þær til baka með athugasemdum ef þær eru ekki í lagi. 

Ef sá sem var á vakt hefði unnið vinnuna sína, hefði fréttin ekki farið svona í gegn. Nú nema fréttastjóri hafi óskað sérstaklega eftir vinnslu fréttarinnar á þennan hátt. Sé ekki fyrir mér að þau Trausti, Sigga eða Arndís vinni þannig.


Taumlaus foringjadýrkun í Framsókn

 

Þeir lesa augljóslega ekki bloggið mitt þeir Pétur og Denni, nema þeim finnist spurning mín svo arfa vitlaus að hún sé ekki svara verð. Ótrúlegt þykir mér að ég hafi orðað spurninguna svo illa að þeir hafi ekki áttað sig á hvað ég var að fara. Það var augljóst og ég hefði þess vegna getað spurt hreint út: Er það taumlaus foringjadýrkunin í Framsókn sem hefur komið veg fyrir að þingmenn og flokksmenn hafa setið með stein í hjarta allan þennan tíma og ekki sagt múkk vegna þessa máls.

Ég gat ekki skilið Hjálmar Árnason öðruvísi í Kastljósi í kvöld. "Maður stendur með formanni sínum," sagði hann. Í mínum huga er það ekki annað en flokkseinræði og ég spyr: Hvernig er að vinna innan flokks þar sem ekki má segja múkk og menn þurfa að bíða eftir línunni frá formanninum áður en þeir tjá sig um mál? Svo mikið veit ég, að ekki færi ég vel í þeim flokki. Það er kannski þess vegna sem ég hef aldrei starfað innan stjórnmálaflokks þrátt fyrir að hafa átt þess kost nokkrum sinnum í gegnum tíðina.


Eins og sprautuð með spítti!

Það er eins og ég hafi verið sprautuð með spítti á spítalanum í vikunni en eins og lesendur mínir hafa geta ráðið í, var ég víðs fjarri í vikunni og kom heim með löppina í fatla á föstudag. Síðan hef ég verið óstöðvandi, þrátt fyrir að vera ekki gróin meina minna. Það er barnaleikur einn að vera með 60 eða 80 heft í löppinni (nú eru menn ekki lengur saumaðir saman heldur heftir með venjulegu hefti), miðað við krankleika minn áður en löppin var löguð. Mér finnst ég bókstaflega fljúga um.

Ég áttaði mig sumsé ekki á því hve slæm ég væri orðin og hve handikapperuð og þjökuð ég var af slæmskunni. Ég hef augljóselga verið að versna smátt og smátt og átti orðið bágt með gang. Svo bágt að það var farið að taka verulega á að vinna léttustu verk, eins og taka til heima hjá mér og ganga úti með hundana mína. Menn töldu mig þjást af þunglyndi og einskærri leti.

Þessa tvo daga hef ég ekki kunnað mér læti og verið eins og lamb að vori. Ætt um allt í göngutúrum með hundræflana mína sem hafa sannarlega fengið að kenna á slæmsku minni síðast liðið ár. Ég hef skúrað og skrúbbað og ætla út nú á eftir að þvo bílinn minn bæði að utan og innan. Hef hreinlega ekki getað stoppað.

Ég hefði ekki trúað hve gott er að fá aftur löpp með fullum krafti. Ég meira að segja get hugsað mér að fara að hlaupa upp um allt, en síðustu ár hef ég fengið hroll ef minnst hefur verið á líkamsrækt og fjallgöngur. Lét duga að segja að göngutúrar væru mín líkamsrækt. Það er ekki að furða og ég átta mig nú á að ég hef líklega verið orðin slæm fyrir 6-8 árum. Gleði mín er fölskvalaus og meira að segja er ég léttari og hamingjusamari í skapinu, en þeir sem þekkja mig vita að ég hef svo sem sjaldan verið þung og gleðisnauð.

En þið vinir og vinnufélagar sem hitt hafið illa á mig, ef einhverjir eru, vitið þá núna að ég var kona verulega bækluð, bæði andlega og líkamlega. Afsakið mig og mína leti sem var sum sé ekki nein leti. Nú er lífið farið að vera skemmtilegt aftur, eins og það á að vera.

 


Hefði verið meira hissa ef Adda borgaði launin

 

Ég er ekki krossbit yfir þeim fréttum að Jóhann Hauksson þiggi laun fyrir vinnu sína á Útvarpi Sögu frá Hjálmi í eigu Jóns Ágeirs. Hefði reyndar verið meira hissa ef staðfest hefði verið að Arnþrúður greiddi honum launin. Eftir því sem ég kemst næst hefur fjárhagur Öddu minnar ekki verið með þeim hætti að hún geti haft dýra menn á launaskrá hjá sér.

Eins og mönnum er kunnugt er Hjálmur meðeigandi að Fögru dyrum útgáfufélagi Ísafoldar sem  Reynir ritstýrir en Hjálmar Blöndal kom heim frá London til að stjórna Hjálmi eftir því sem ég best veit. Guðmundur Magnússon veltir fyrir sér í bloggi sínu hvort eðlilegt geti talist að Jóhanni að þiggi laun utan úr bæ fyrir vinnu sína. Vitnar þar í viðtal við Jóhann sjálfan í DV og segir:

Breytir þetta einhverju? Það finnst Jóhanni ekki samkvæmt viðtalinu í DV. Ég er smeykur um að ekki séu allir á sama máli. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Baugur er ekki (svo kunnugt sé) rekstraraðili eða hluthafi í Útvarpi Sögu. Margir munu því telja að aðild útgáfufélagsins Hjálms að dagskrárliðnum Morgunhaninn þarfnist sérstakrar skýringar. Fyrirtækið  Hjálmur ehf. er væntanlega rekið þannig að á móti útgjöldum koma tekjur. Menn spyrja: Hverjar eru tekjur félagsins af Morgunhananum? Hver er hagur félagsins af samningnum?

Líklega er mikið til í þessu hjá Guðmundi en það má eigi að síður spyrja sig hvort Hjálmi er ekki sjálfsvald sett hvað þeir bera úr býtum fyrir kostun á útvarsþætti. Það er ekki eins og það tíðkist ekki hjá útvarps-og sjónvarpsstöðvum að þættir séu kostaðir. Það er væntanlega samningsatriði á milli viðkomandi hvernig þeim málum er háttað.


Komin aftur - með löppina í fatla

 

 

Komin til baka með löppina í fatla. Bara fjári brött eftir þetta inngrip vísindanna. Brátt fer ég að geta hlaupið um eins og fjallaljón; og ætla að gera það.

Við hlið mér lá stúlka sem á nýfætt barn, rétt þriggja vikna. Á meðan hún fór í aðgerð var maðurinn hennar heima með barnið og fjögurra ára son þeirra. Hann gat sannarlega ekki skellt barninu á brjóst í hvert sinn sem það vaknaði á næturnar eins og mamman, en hann kvartaði ekki. Kom á hverjum morgni til konu sinnar með litla barnið, eftir að hafa komið því eldra í leikskólann og sat hjá henni fram eftir degi.

Fór síðan heim og sótti eldra barnið í leikskóla og heim með börnin. Og því er ég að segja frá þessu; á þetta ekki að vera sjálfsagður hlutur? Einmitt; en það segir meira en nokkur orð að mér skuli þykja það í frásögu færandi. Það gerir mig urrandi vonda.


Að forða sér með skottið á milli lappanna

 

Ég velti fyrir mér viðbrögðum Valdimars L. Friðrikssonar við stórtapi hans í prófkjöri Samfylkingarinnar. Hans svar er að segja sig úr flokknum. Það hlýtur að vera einhver önnur ástæða fyrir furðulegum viðbrögðum hans en að hann kunni ekki að tapa.

Mér hefur alltaf fundist tapsárir menn, litlir menn. Í mínum huga er það skortur á þroska að geta ekki sætt sig við tap. Nú þekki ég ekki þennan mann nokkuð skapaðan hlut, veit ekki hver uppruni hans er eða hvað hann hefur afrekað og hverju klúðrað. En svo mikið er víst að hann kynnir sig ekki þannig að hægt sé að bera virðingu fyrir honum.

Það er sárt að tapa. Ég þekki það sjálf og get vel sett mig í spor mannsins. Að upplifa sig lúser innan hópsins er alveg skelfilega erfitt. Efst er manni í huga að taka á sprett og forða sér á brott. Fæstir láta það eftir sér, heldur þrauka. Valdimar kýs að forða sér með skottið á milli lappanna. Því velti ég fyrir mér hvort úrsögn hans úr flokknum fyrri hann þeirri ábyrgð mæta í í vinnuna það sem eftir lifir vetrar? Þarf hann ekki að gera neinum skil á sínum mætingum og sinni vinnu? Getur hann bara farið í felur og þarf ekki lengur að horfast í augu við samþingmenn sína sem HANN telur að líti hann vorkunnaraugum og telji hann allgjöran lúser? 

              ---------------------------------------------------------

Viðbrögð Árna Johnsen eru svipuð við umræðunni um heiðarleika hans. Hann á erfitt með viðurkenna að hann hafi gert mistök. Ég held að viðbrögð hans stjórnist ekki af siðblindu, heldur af misskildu stolti og skömm. Ég get líka sett mig í spor hans en mikið óskaplega er það vanhugsað að koma fram eins og hann gerir. Maðurinn ræður greinilega ekki við tilfinningar sínar og lætur þær hlaupa með sig í gönur.

...segir forvitna blaðakonan sem er farin að sálgreina menn. En svona er að vera hokin af reynslu og þroska.

 


Íslendingar eru skrýtnar skepnur

 

Ellert Schram er úti í kuldanum og komst ekki á blað. Guðrún Ögmundsdóttir líka. Bæði höfðuðu til minnihlutahópa í samfélaginu sem fæstir þingmenn hafa áhuga eða nennu til að berjast fyrir. Jú vissulega tala ráðherrar fallega um gamla fólkið á tyllidögum og lofa hjúkrunarheimilum, hækkun á ellilífeyri og sitthvað fleira til að þagga niður í Ólafi Ólafssyni. Eldri borgar skipta hvort eð er ekki máli. Það kann að styttast í að þeir fari að berja nestið sitt. Og þá eru þeir sem þiggja loforðin að minnsta kosti úr sögunni.

Guðrún Ögmunds hefur barist af krafti fyrir réttindum samkynhneigða. Hommar og lesbíur sem gengu í hjónaband í kirkju eins og annað fólk á árinu eða ættleiddu börn, fjölmenntu víst ekki í prófkjör Samfylkingarinnar í gær og merktu við Guðrúnu. Nei, það var engin þörf á því, þeirra réttindi eru í höfn.

Eldir borgarar hafa vísast ekki heldur séð ástæðu til að greiða Ellert Schram atkvæði sitt í þessu prófkjöri. Þeir hafa líklega kosið Ingibjörgu eða Össur og síðan hafa flotið með nöfn sem þeir þekktu.

Ég átta mig ekki á hvers vegna Samtök eldri borgarar sem talað hafa um að fara sjálfir fram ef engin breyting verði á þeirra kjörum, nýttu ekki þetta tækifæri. Hvers vegna tryggði þessi hópur ekki Ellert setu á lista þannig að hann væri öruggur inn á þing. Með því hefði þessi hópur átt talsmann á þingi sem hefði getað haft áhrif og talað

Nei, þeir þegja núna. Það heyrðist ekki múkk í Ólafi Ólafssyni þar sem hann brýndi sitt fólk til að kjósa fulltrúa þeirra á þing. Alveg finnst mér það furðulegt hvað borgarar þessa lands eru fastir í hjólförunum þegar prófkjör og kosningar eru annars vegar. Konur kjósa karla, þeir eldri þá yngri, öryrkjar þá hraustu og hommar og lessur kjósa... ja, ekki veit ég það. Í það minnsta kusu þeir ekki þann sem barist hafði hvað harðast fyrir rétti þeirra. Kannski þeir hafi bara kosið þá fordómafyllstu. Já, manskepnan er skýtin hér á norðurhveli jarðar.

     -----------------------------            ------------------------------             

Fleir bera afhroð í prófkjörum helgarinnar. Drífa Hjartardóttir sem sannarlega hefur staðið fyrir sínu, hörkudugleg og klár kona, afkastamikil og kraftmikill talsmaður kvenna. Þær stóðu ekki með henni konurnar í kjördæminu, en völdu Unni Brá nágranna Drífu, unga konu og efnilega og Kjartan Ólafsson sem menn eru ekki á eitt sáttir umhvort nýtist Sunnlendingum á þingi.

Ég átti satt að segja ekki von á að Árni Matt riði feitum hesti frá þessu prófkjöri hér á Suðurlandi. Hann mátti þakka fyrir að ná fyrsta sætinu og það er alveg deginum ljósara eð Árni Johnsen hefði haft hann ef Guðjón HJörleifsson hefði ekki skipt atkvæðum með Vestmannaeyjajarlinum . En hann rétt hefur fyrsta sætið en ekki á trúverðurgan hátt. Meira en helmingur þátttakenda í prófkjörinu hafnar honum. Það er varla sterkt fyrir dýralækninn að leiða listann með svo slakst fylgi.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband