Færsluflokkur: Menning og listir

Medúsa Eir annar besti hvolpur sýningar og var Sifjarræktun til sóma

Það hefur tæplega farið fram hjá nokkrum manni að ég er hundakona í gegn. Hef mikla ánægju af hundunum mínum og hef verið að rækta mér til ánægju en ekki verið umfangsmikil á því sviði. Frá því ég eignaðist mína fyrstu tík fyrir átta árum hef ég verið með fjögur got. Þykir víst ekki mikil framtakssemi í ræktun að vera með got annað hvort ár að meðaltali.

Medusa

En ég hef notið þess til hins ýtrasta að vera með hvolpa í öll þessi fjögur skipti. Þessi got hafa verið misjöfn að gæðum eins og gengur og í að minnsta kosti þrjú skipti hef ég fengið prýðilega hvolpa. Fallegasta gotið mitt fékk ég án efa síðast, undan henni Gná minni sem gaut þremur tíkum og jafn mörgum rökkum um áramótin síðustu.

Ég hef reynt að sýna að minnsta kosti einu sinni til tvisvar á ári en eigendur hvolpanna minna hafa ekki endilega verið sérlega áhugsamir um sýningar. Nokkrir hafa þó sýnt í byrjun og Sifjarhundar nokkru sinnum lent í sæti en aldrei í því því fyrsta fyrr en á sýningunni um helgina þegar Sifjar Medúsa Eir kom sá og sigraði í hvolpaflokki 4-6 mánaða.

Hún hélt síðan áfram í úrslitin og þar gerði sú stutta sér lítið fyrir og var valin annar besti hvolpur sýningar. Ekki slakur árangur það því allir hvolpar af öllum tegundum öttu þar kappi við Medúsu Eir. Raunar grunar mig að mamman, hún Steingerður Ingvarsdóttir eigi ekki síst þátt í þeim góða árangri. Hún hefur verið mjög dugleg við að þjálfa hana en það hefur mikið að segja að hundur sýni sig vel, á svona stórri sýningu. Öruggur hvolpur, óhræddur kátur og glaður á miklu meiri möguleika en hræddur og óframfærin hvolpur.

 hvolpar%20Berglj%F3t%202007%20072-thumb

Ég er náttúrulega ógurlega stolt af litlu Medúsu Eir en sjálf á ég aðra systur hennar. Ég var í miklum vanda að velja því þær eru svo líkar en en eins og áður þegar ég hef valið hvolp úr goti þá hafa þeir einhvernvegin valið sig sjálfir. Get ekki skýrt það en það hefur innst inni aldrei verið spurning hvort ég ætti að halda eftir hvolpi og hvaða hvolpur yrði þá fyrir valinu. Það hefði verið gaman að vera með þær systur saman en Vilja Jörð er afskaplega kát og lifandi, óhrædd og skemmtileg. En í þetta sinn gat ég ekki verið með og það er miður. En koma tímar og koma ráð; þær eru enn svo ungar þessar prinsessur.

Steingerði óska ég hjartanlega til hamingju og ekki má gleyma eiganda pabbans, Skutuls Marels sem Kristjana mamma hans kallar Mána. Þau hafa greinilega átt svona vel saman hann og hún Gná mín en mér finnst þau bæði gullfalleg.

Myndirnar sem fylgja eru af dömunni með verðlaunin sín í garðinum heima í Mosó og með systrum sínum. Hún er á milli þeirra en Vilja Jörð er lengst til vinstri og hinum megin, Verðandi Jessie.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband