Færsluflokkur: Matur og drykkur

Árinu eldri og engin leið að snúa til baka - Tröllafjölskyldan sjálf trommaði inn með afmælisveislu í vasanum

Já, já, það styttist í að ég standi við hliðið hjá Lykla Pétri og geri upp allar mínar syndir; rétt eins og bíður okkar allra. Eða ég ætla rétt að vona að ég fái forvitni minni svalað hinu megin og geti fylgst með hvað menn eru að bardúsa hér niðri. Og ef rétt er að maður geti jafnvel flogið um allt og fylgst með öllu, þá er víst ekki neinu að kvíða hjá mér.

Ef rétt er sem Smári minn, ömmubarnið mitt segir að við hverja sígarettu sem ég svæli (veit ekki hvort þær eru taldar með sem brenna upp á meðan ég sit við skriftir; þá brenna auðveldlega heilu pakkarnir ) styttist líf mitt um tíu mínútur. Tek það samt fram að það er bannað að reykja heima hjá mér en sjálf hef ég sett mér þau lög að ekki sé bannað að stelast; svo lengi sem Mef veit það ekki! Samt veit hann um syndir mínar ef ég er ekki dugleg við að lofa allt út og sprauta sítrónuilmi um allt hús áður en hann kemur.

 

Ég hef ekki lagt í að reikna út hve mörgum áratugum ég missi af við það að hafa áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu. En mig grunar samt að ef rétt er hjá Smára mínum ætti hann öngva ömmu Beggu. Þess í stað væri ég í kaldri gröf brennd eða bæði möðkuð og morknuð. Smári minn litla skinnið væri líkast til dæmdur til að sitja í umferðarhnút alla aðfangdaga lengi vel á eftir til að setja ljós eða kerti á leiðið hennar ömmu Begg. Standa þar góða stund og hugsa um hve góð amma hafi nú alltaf verið. Og ég þori að veðja að þá man hann ekki þegar ég var vonda amma Begga og sýndi honum framá að ég réði en ekki hann.

Veit ekki hvers vegna hvers hugarfar mitt hefur tekið þessa kúvendingu en áður grét ég að kvöldi ef allir vinir og fjölskyldumeðlimir höfðu ekki hringt. Þá elskaði ég líka gjafirnar og fannst ég eiga daginn og allir ættu að taka tillit til mín. Kannski finnst mér ég ekki þess verð að fá eitthvað sértrítment.

Satt best að segja hefði ég helst kosið í einveru í afmælisgjöf. Það hefði orðið mín besta gjöf: að fá að vera ein heima, án allra skuldbindinga til miðnættis. Reykja eins og skepna, kjafta í símann fara út með hundana vafra um í tölvunni, leggja mig, horfa á sjónvarp, lesa og bara gera allt sem mig langaði þennan eina dag og enginn ætti neinar kröfur til mín; ekki einu sinni hundarnir.

Þrátt fyrir þá löngun mína þá gleymdi fólkið mitt mér ekki og vel flestir hringdu og ég sagðist ekki ætla að vera með neitt eða gera neitt. Þá tóku hluti Tröllafjölskyldunnar sig til, þau móðir mín og tvö yngstu systkinin; töluðu við Magnús til að sjá um að ég yrði heima um kvöldmatarleytið og enginn matur eldaður.

Síðan ruddust tröllin inn með kvöldverð og allt sem honum tilheyrði. Þau höfðu tekið sig til og langað að bjóða mér í mat með því að koma mé að óvörum. Ég skrökva ekki en ég hafði smá pata af því sem til stóð. Magnús gat ekki alveg þagað og mamma hálfkjaftaði af sér.

En það gladdi það mig mikið að tröllafólkið mitt nennti að leggja á sig að koma með allt sem máltíðinni tilheyrði. Dregið var fram allt það fínasta, dúkar og borðbúnaður sem aldrei er brúkað nema á jólum og öðrum stórhátíðum. Davíð bróðir sem er meistarakokkur klikkaði ekki fremur venju og ég sat og gerði ekki neitt á eigin heimili. Fín kvöldstund, komst að minnsta kosti næst því að vera ein heima. Ætli að ég sé þunglynd, eða bilaðri en ég held?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband