31.12.2011 | 02:05
Hvers vegna að byggja öryggisfangelsi fyrir veikt fólk?
Ég hef ekki skrifað blogg í heilt ár, eða því sem næst. Þó liggur mér ævinlega mikið á hjarta og hef mikla þörf fyrir að láta í mér heyra. En einhverra hluta vegna hef ég þagað þetta árið; kannski vegna þess hve hátt heyrðist stundum í mér og gott að gefa fólki grið.
Oftar en ekki er ég á skjön við aðra og skoðanir mínar fara ekki alltaf saman við fjöldann. Mörg undanfarin ár hafa ráðamenn talað um að byggja yrði nýtt fangelsi. Litla Hraun væri of lítið og tugir fanga biðu afplánunar. Fjölmiðlar hafa étið þessar fréttir upp gagnrýnislaust, eins og flest sem fjallað er um. Það er ekki mannskapur til að skoða fréttir eða fylgja þeim eftir á fjölmiðlum og því eru þær oftar en ekki hraðsoðnar fréttir, skrifaðar upp úr fréttatilkyningum og tveimur símtölum við ráðamenn. Punktur.
Fréttir um vöntun á öryggisfangelsi eru meðal þeirra sem lesa má reglulega um. Ein viðlíka birtist í einhverjum miðlinum fyrir fáeinum dögum og í henni er upplýst að meira en helmingur fanga á Litla Hrauni hafi hlotið dóm vegna fíkniefnabrota. Sem væntanlega þyðir að þeir hafi verið dæmdir vegna innflutnings þeirra, neyslu eða sölu. Jafnvel einungis fyrir að hafa fíkiefni undir höndum, burtséð hver tilgangurinn var.
Ég hef alla tíð haft einhverja óskilgreinda samúð með föngum; veit ekki hvers vegna, en er helst á því að ég trúi innst inni að alvöru glæpamenn séu í miklum minnihluta þeirra sem sitja inn í fangelsum landsins.
Ekki get ég rekið þessa samhyggð mína til þess að ég sé blóðskyld eða vel kunnug nokkrum manni sem dæmdur hefur verið í fangelsi. Jú vissulega kannast ég við einhverja, en ekki meira en svo að það snerti mig þess vegna.
Hins vegar er ég tengd og skyld mörgum fíklum, raunar svo mörgum að þeir hafa haft verulega mikil áhrif á líf mitt. Sjálf er ég fíkill; fíkill dauðans frómt frá sagt. Fíknin hefur setið í mér frá því ég man eftir mér, en einhvern veginn komst ég hjá því að verða alkahóli að bráð.
Fyrir margt löngu notaði ég lyf í óhófi og botnaði ekkert í því hvers vegna mér leið svo illa sem raun bar vitni. Það eru mörg mörg ár síðan ég áttaði mig á þeirri óhollustu og lét af henni eða svo gott sem, en tek lyf ef ég þarf þess en missi mig ekki í magnylitöflum eða þeim lyfjum sem ég þarf á að halda.
En þrátt fyrir það lifi ég vart svo mikið sem einn dag að ég sé ekki fíkin í eitthvað. Það kann að vera allt frá eplum til skúringa, tölvunar eða bóka.
Fíkn mín lýsir sér í því að ég ofnota það sem ég ég er æstust í þá stundina. Síðustu vikurnar hef ég látið ofan í mig ómælt magn af ostakökum. Líklega þremur fjórum tertum á viku sem ég sporðrenni með gosdrykkjum. Já, gosdrykkjum sem ég nær aldrei drakk. Vatn var það heillin og það með klökum. Þau gátu orðið tíu tuttugu yfir sólahringinn. Lengi vel leið vart sá dagur að Prins Póló og maltöl varð mitt daglega brauð. Og svona gæti ég lengi talið upp. Sama á við um athafnir daglegs lífs. Ég festist í einhverju ákveðnu og má ekki missa af því hvað sem það kostar. Líklega ná tvo orð öðrum betur vel utan um þssa fíkn eða áráttu. Allt eða ekkert, eða on or off.
En ég er aukaatriði í þessu öllu. Það sem ég er svo ósátt við er að fíklar séu aðeins fíklar, eftir því hvernig vindar blása, en fíkill er samkvæmt skilgreiningu WHO sjúklingur. Sama gildir hér á landi og á Vogi eru fíklar sjúklingar og Vogur er sjúkrahúsið Vogur. Því spyr ég mig, hvers vegna þarf að byggja milljarða öryggisfangelsi fyrir veikt fólk?
Á meðan við lokum veikt fólk, sem er svo veikt að það hefur öngva stjórn á lífi sínu og gerir hvað sem er til að ná í eitthvað efni sem líkami þess æpir á, spanderum við milljörðum árlega, aðeins fyrir að loka þetta fólk inn í fangelsi því kostnaðurinn við upphald og gæslu eins fanga á ári slagar langt upp í legudag á sjúkrahúsi.
Í stað þess að læsa fíkla inni fyrir afbrot ættum við að gefa þeim kost á afvötnun og endurhæfingu. Það er nefnilega svo með þennan sjúkdóm að hann er ekki virkur í manneskjunni ef efnið sem hún er svo fíkin í nær ekki að breyta heilastarfseminni og þar með dómgreindinni og jafnvel þegar líða tekur á bata, vitinu til að greina á milli hvort er betra er að vera undir áhrifum eða með heila hugsun.
Og það sem betra er, sjúkdómurinn að mestu óvirkur þeir og gætu menntað sig, starfað við einföld verkefni og síðar meir orðið fullfærir vinnukraftar á meðan afplánun stendur. Og það þarf ekki öryggisfangelsi til. Þeir gætu jafnvel verið heima hjá sér, með takmarkað frelsi. Það kostar samfélagið ekki eina krónu, heldur myndi klingja í kassanum.
Í guðs bænum takið á þessum málum af viti, áður en milljörðum verður kastað í nýtt fangelsi sem engin þörf er á. Það þarf aðeins breytt hugarfar.
Flokkur: Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 01:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.