11.5.2007 | 13:16
Fíkilinn verður að fá sinn skammt
Það eru víst allir mínir dyggu lesendur að hverfa af blogginu mínu og við engan að sakast nema sjálfa mig. Allt snýst þetta auðvitað um að vera iðinn við kolann og viðra skoðanir sínar reglulega, vitna í önnur blogg, skrifa smásögur eða rífa kjaft.
Ég hef ekki verið í formi til skrifta að undanförnu enda heima í veikindafríi. Það er erfitt að vera ekki í vinnu þar sem hún er svo stór hluti af lífi manns. Nánustu samstarfsmenn verður hluti þess og þau nánu tengsl sem maður myndar við vinnufélagana eru rétt eins og við fjölskylduna. Síðustu sex ár hef ég unnið mikið og vinnan hefur verið mitt líf. Hvergi hefur mér liðið betur en einmitt þar og helst sem lengst hvern dag. Ég hef heldur ekki látið mitt eftir liggja og eins mikill fíkill og ég er þá hefur langur vinnudagur, spennan og félagarnir verið mitt dóp.
Í mínu lífi er víst lítið um milliveg; það er annað hvort eða. Ég var að tala við einhvern í síma um daginn sem var að tala um að einhver honum tengdur væri að vinna svo mikið. Það var hjúkrunarfræðingur á skurðstofu sem var á aukavakt. Hafði mætt átta þann morgun og það var svo mikið að gera á skurðstofunni að hún reiknaði með að vera fram á nótt. Og trúi því hver sem vill; um mig fór sæluhrollur, ja svona rétt eins og ein allsherjar víma og fann fyrir öfund. Mikið ógeðslega átti hún gott.
"Það átti nú við hana Vindu" að vera í slíku ati þar sem allt var á fullu adrenalínið og endorfínið á bullandi í heilanum. Ég kannaðist svo við tilfinninguna í fluginu forðum daga þegar mikið var að gera eins og pílagrímaflugi. Þá var aðeins tekin lögboðin hvíld og síðan farið aftur af stað. Samfelld víma í heilan mánuð eða tvo. Fyrstu árin á Fréttablaðinu voru ekki síðri þegar við unnum eins og þurftum; stundum fram að miðnætti eða lengur; heim að sofa nokkra tíma og mætt aftur eldsnemma um morgun.
Á DV, skemmtilegasta vinnustað sem ég hef verið á voru ófáir dagarnir þeim líkir; allt á fullu þar sem staðið var yfir manni á meðan lögð var lokahönd á viðtal eða frétt. Rifið úr höndum manns og komið í lestur og umbrot. Eða þegar eitthvað mikið var að gerast í fréttum og legið í símanum til að ná því sem maður þurfti í forsíðufrétt. Það var æðislegt kikk þegar það tókst. Jess, þetta er komið! Hvílík fullnægja!
En að vera vinnualki hittir mann í bakið; það eru takmörk fyrir öllu. Maður getur gengið á varagasinu í einhver ár, en svo kemur skellurinn og álagið segir til sín. Og það er sannarlega hægara í að komast í en úr að fara. En það er engin hætta; þegar ég sný til baka mun ég láta til mín taka. Og að ætla mér að fara varlega og vinna eins og manneskja er ekki inn í myndinni; það er annað hvort eða; ekki vegna þess að það væri mér ekki fyrir bestu heldur þekki ég það allt i kringum mig og jafnvel af eigin raun að fíkilinn getur aldrei neytt dóps í hófi. Hann verður að bergja flöskuna til botns og hugsar ekki eitt andartak um hvað er honum fyrir bestu; fíknin tekur völdin. Það er þó mitt lán, kannski í óláni að eiga sér vinnuna að fíkn.
Á meðan ræðst maður ekki á eitthvað sýnu verra eins og kókaín gras eða önnur þaðan af verri efni. Svo ég tali nú ekki um blessað helvítis brennivínið. Ef mér þætt víman sú eins góð, þyrfti ekki að spyrja hvað um mig hefði orðið. Vísast væri ég full alla daga. Og hjálpi mér þá; þá væri ekki mikið skrifað. Sætti mig því við af mörgu slæmu að vera bullandi vinnualki. Þannig held ég trúlega hinum öfgunum niðri.
Meginflokkur: Fjölmiðlar og fólk | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt 12.5.2007 kl. 12:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.