Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert.

Þetta orðatiltæki notuðu foreldrar mínir gjarnan og ég man að þegar ég var krakki, ja líklega undir 8-9 ára aldri. Þetta  átti ég erfitt með að skilja meiningu þess. Mamma skýrði fyrir mér hver hún væri og síðan hefur mér oft verið hugsað til þessara orða.Önnur spakmæli sem mér voru kennd í árdaga hljóðuðu eitthvað á þessa leið: Gakktu fyrir hvers manns dyr og segðu ekkert nema sannleikann og þú munt hverjum manni hvimleiður verða. Ég fór ekki alveg rétt með þetta í gær en þetta mun vera svo næst sem rétt, eftir því sem móðir mín segir en mér fannst þetta eitthvað skrýtið þegar ég skrifaði það. Treysti mömmu sem hefur minni sem fíll þegar ljóð eða orðariltæki eru annars vegar.

Ég man alltaf þegar mamma þrumaði þessum vísdómi yfir mig en þá hafði ég gengið helst til langt í hvatvísinni og hreinskilninni. Orð mín sem ég man ekki einu sinni hver voru kostuðu grát og sársauka. Og mér var ljóst að oft má satt kyrrt liggja. Maður þarf ekki alltaf að ganga fram í því að segja skoðun sína, ef maður er ekki beðin um hana. Og svo má auðvitað segja hlutina á svo margan hátt. Og þögnin er jú  gulls ígildi.

En á hvaða stig er ég komin núna; farin að fabúlera á heimspekilegum nótum. Jú, ég hef orðið þess vísari oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á minni löngu ævi hvaða merkingu orðið vinur hefur og er oftar en ekki er það  holt að innan. Hjóm eitt þegar á reynir.

Og þar kem ég að fyrirsögn þessarar færslu; hver er ég og hverja hef ég talið vini mína? Það ætti samkvæmt því tómahljóði sem í orðinu felst að koma alls ekki á óvart að mínir vinir séu meira eða minna holir að innan. Viðhlæjendur eða í mesta falli kunningjar og vinnufélagar sem ekkert eiga sameiginlegt með mér þegar skilur á milli.

En þrátt fyrir það kemur mér það alltaf jafn mikið á óvart þegar á mér skellur blákaldur veruleikinn. Hvernig maður horfir undir iljar "vinanna" þegar þeir hraða sér burtu sem mest þeir mega þegar á reynir. Einmitt þegar maður þarf hvað mest á þeim að halda.

Líklega er sannleikurinn sá að þeir sem maður taldi vini voru það bara alls ekki og hafa aldrei verið þeir vinir sem maður í einfeldni sinni taldi. Hvers er þá að vænta? Einskis, því ekki getur maður saknað þess sem aldrei var til!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Merkilegt nokk.  Var í dag að rifja upp hvernig ég og mínir félagar notuðum þetta sama.  Segðu mér hvað þú heitir og ég skal segja þér hvað þú ert...

Þetta ber allt að sama brunninum á endanum. 

Komdu til dyranna eins og þú ert klæddur - á meira við um sálartetrið en skrokkinn.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 31.5.2007 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband