9.6.2007 | 13:34
Skelfileg lífsreynsla 400 metra utan vegar niður Kambana
Ég varð fyrir skelfilegri lífsreynslu í vikunni þegar ég ók niður Kambana á heimleið síðla dags. Í bílnum með mér voru tveir hunda minna í búri og sjö ára dóttursonur minn. Ég var komin neðarlega í Kambana þegar bíll ók hægra meginn fram úr mér. Áður en ég vissi af var ég komin utan vegar á hentist niður Kambana yfir hraun og hæðir. Bílinn hoppaði yfir allar ójöfnur og skall niður og upp á víxl. Í hvert sinn sem hann skall niður var eins og hnífi væri stungið í bakið á mér og eftir um það bil 400 metra stöðvaðist hann.
Ég ætla ekki að reyna að skýra líðan mína á meðan þessu stóð en ég sá mína sæng upp reidda og átti ekki von á að ég yrði til frásagnar um þetta atvik. Lögreglan ók á eftir mér og þeir hentust út úr bíl sínum og hjálpuðu mér og drengnum út. Ég gat alls ekki skýrt hvað hafði gerst en hef lengi óttast að ég ætti eftir að sofna undir stýri á þessari leið. Hélt í fyrstu að það hefði hent mig en eftir að mesta sjokkið leið hjá og ég gat farið að hugsa skýrt, áttaði ég mig á að svo var ekki. Held að ég hafi blokkerast þegar bílinn fipaði mig dottið út.
Bakið á mér er í maski,ég get ekki beygt mig eða sest niður án þess að ég finni verulega til. Það er svakalegt að finna takmarkanir sínar og geta ekki gert það sem maður vill. Drengurinn slapp vel en kvartaði yfir eymslum í hálsi. En ég er ekki til neins og á von á að þetta eigi eftir að plaga mig lengi ef ég þá næ mér nokkurn tíma.
Þegar ég flutti austur hefur Suðurlandsvegurinn valdið mér ótta. Það kom á daginn að það var ekki að ástæðulausu sem ég bar þann beyg innra með mér. Bílinn minn er gjörónýtur og skoðunarmaðurinn hafði á orði að ég hlyti að vera öll úr lagi gengin eftir þau svakalegu högg sem komu á bílinn í hvert sinn sem hann skall niður í loftköstum sínum niður hlíðina. Ég get hvorki gegnið nema taki í bakið, hnerrað eða hóstað. Eftir nóttina; það er að segja ef ég næ að sofa almennilega er ég lengi að ná úr mér stirðleikanum.
Ég hefði aldrei trúað að hægt væri að sjokkerast svona, ég sé þetta fyrir mér aftur og aftur en þakka guði og öllum góðum vættum fyrir að ég skuli ekki vera dauð eða örkumla. Ég tala nú ekki um drenginn sem virðist bara nokkuð brattur.
Því segi ég, það er kominn tími til að hefja framkvæmdir og breikka veginn. Nýr samgönguráðherra og þingmenn Suðurlands láta vonandi til sín taka og setja allt á fullt og láta verkin tala.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.