Doktor Christina Folke Ax og ást hennar á landinu

Fyrir réttum tuttugu árum sóttum við Magnús til Keflavíkur feimna nítján ára stúlka frá Danmörku. Hún hafði nokkru áður svarað auglýsingu þar sem óskað var eftir aupair til árs á Íslandi. Ég var þá blaðamaður á Tímanum og önnur yngri dætra minna var að ljúka leikskóla og átti að byrja í skóla um haustið. Reynsla mín af aupairstúlkum var góð frá því þær voru undir leikskólaaldri og mér fannst þjóðráð að fá aftur stúlku til að annast dæturnar á meðan ég var að vinna. Christina skrifaði kurteislegt bréf sem mér leist strax vel á og ég fékk vinkonu mömmu, Ingu Birnu Jónsdóttur menntaskólakennara í Danmörku til að spjalla við hana fyrir mig og hún gaf grænt ljós

Fyrstu vikurnar voru Christinu sem við kölluðum Stínu erfiðar. Hún kom frá góðu millistéttarheimili í Fredriksværk þar sem allt var í föstum skorðum og lítið um uppákomur og havarí eins og á okkar bilaða heimili þar sem börnin mín og Magnúsar voru að lemja börnin okkar, eða því sem næst.

Seinna sagði Christina okkur að hún hafi haldið þetta út með því að ákveða að gefa okkur séns í viku í einu og framlengja svo aftur um viku þar til að hún var orðin það sjóuð að sjá fram á að hún héldi kannski út til jóla. En hún var allt árið og hefur aldrei séð eftir því enda held ég að það sé óvanalegt að slíkt samband við aupair eða skiptinema haldist eins lengi og okkar við Stínu. Og á án vafa eftir að haldast ævi okkar á enda.

Ég held að hvorki hún né við gleymum seint fyrsta borðhaldinu á heimilinu eftir að hún kom. Stína settist niður, þráðbein í baki pen og kurteis og bjó sig undir klukkustundar borðhald eins og hún var alin upp við og Dana er gjarnan siður. Hún var rétt að stinga pent upp í sig fyrstu bitunum þegar obbinn af fjölskyldunni var búin að hesthúsa í sig á methraða og allt að því rokin frá borðum. En eftir árið hjá þessari Adamsfamely hafði hún líka þroskast um minnst fimm ár. Hún var því þakklát þrátt fyrir allt að fá að upplifa þessa reynslu sem hún gerði ekki annað en græða á þegar upp var staðið. 

Nú tuttugu árum síðar er Stína enn eina ferðina á Íslandi. Hún er orðin doktor í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla ogs stundaði auk þess nám við háskólann í Cambridge. (Ég sagði ranglega í upphafi að hún hafi varið ritgerð sína við háskólann í Oxford. Það er hér með leiðrétt.) en doktorsritgerð hennar fjallaði um atvinnuhætti og líf almennings á Íslandi og samskipti landsmanna við herraþjóðina, Danina. Hún er einn fremstri sérfræðingur í Íslenskri sögu í Danmörku og lifir og hrærist í rannsóknarvinnu á þessu tímabili í lífi þessarar þjóðar.

Á milli okkar og hennar hefur verið samband allar götur síðan hún var hér. Eftir mesta kúltursjokkið fór henni að líka þessa þokkafjölskyldu sem átti fátt sameiginlegt með hennar akkúrat fólki heima í Danmörku. Og að ári liðnu hafði hún tekið ástfóstri við landið. Síðan hefur hún verið ein af fjölskyldunni og alltaf velkomin. Fyrstu tíu fimmtán árin kom hún fast að því árlega, var hér einn vetur í Háskóla Íslands og annan við rannsóknarvinnu á Þjóðskjalasafni. Við höfum heimsótt hana, foreldrar hennar og bróðir hafa komið í heimsókn til okkar og við lítum á hana sem eina af fjölskyldunni.

Það gladdi mig því mjög þegar hún tilkynnti komu sína fyrir nokkru en í för með henni er bandarískur vinur hennar sem er pólarfræðingur. Þau hafa verið hér í tíu daga en Stína þekkir landið og fór með vin sinn í ferð um Snæfellsnesið og vestur á firði. 

Þar sem Stína er ein af fjölskyldunni höfum við ekkert fyrir henni og hún veit að hverju hún gengur; ekkert stjan og ekkert vesen. Ef hún er svöng verður hún að fá sér eitthvað í gogginn sjálf og ef hún þarf eitthvað að fara veit hún að hún getur farið á mínum bíl; þarf ekki annað en spyrja hvort ég þurfi að nota hann. Við setjum ekki upp sparisvipinn og þykjumst vera einhver önnur en við erum. Þvert ámóti; við erum jafn biluð og við höfum alltaf verið, eða réttara sagt ég. Ætla ekki að væna Magnús minn um mína klikkun. En koma Stínu raskar ekki nokkru, er reyndar ekki neitt nema ánægjuleg.  

Nokkru sinnum á þessum tuttugu árum hefur hún komið þegar við höfum ekki verið heima og þá segi ég henni bara að ná í lykla og hafa sína hentisemi. Allir afslappaðir og glaðir að hittast. Á morgun eru þau Ken vinur hennar á förum aftur eftir stórkostlegt frí á Íslandi. Hann átti ekki orð til yfir fegurð þessa lands og Vestfirðirnir heilluðu hann gjörsamlega.

Það hefur verið ósköp notalegt að hafa þau hérna og ég efa ekki að ég á eftir að sakna þeirra. Stína er náttúrulega alveg sérstök; talar íslensku eins og innfædd og hefur alltaf fylgst með fjölmiðlum hér; fyrst með því að kaupa Moggann á Ráðhústorginu í Höfn en nú hefur hún náttúrulega netið og getur fylgst með því sem hún kærir sig um.

Doktor Cristina hefur ekki sungið sitt síðasta og langar að halda áfram rannsóknum sínum á lífi okkar hér fyrir tveimur öldum. Hún hefur sérstakan áhuga á skoða betur verslunarhætti okkar eftir að einokun lauk og samskipti Dana og Íslendinga bæði á því sviði og hvernig umgengni á milli aðfluttra Dana og Íslendinga var háttað.

Ef einhverjum dettur í hug hvert hægt er að sækja styrk til slíkrar rannsóknar, fyrir utan Rannnís, þá endilega bendið mér á með tölvupósti á mef@centrum.is eða bed@internet.is Mér finnst það okkar frekar en Dana að styrkja svona verkefni. Þetta er partur af sögunni og aldrei að vita nema eitthvað nýtt kunni að líta dagsins ljós ef grannt er skoðað. Ég held líka að það sé fengur í að annarra þjóða manneskja vinni að svona rannsókn einkum og sér í lagi vegna þess að þannig fáum við ugglaust annan flöt á söguna en séð með okkar Íslendingsaugum.

Og svona til viðbótar þá virðast  ungir Danir vera með svipuð viðhorf til menntunar og við. Þar ætla allir að verða ríkir og vilja litið hafa með hugvísindi eða félagsvísindi að gera en fjölmenna í viðskiptafögin í öllum einkaháskólunum þar. Síðan Christina lauk doktorsnámi sínu hafa að minnsta kosti átta stöður sem hentað gætu henni losnað við Kaupmannahafnarháskóla. Í enga þeirra hefur verið ráðið, heldur eru stöðurnar einfaldlega lagðar niður. Nemendum í hugvísindum fækkar stöðugt. Það er ekki í tísku lengur að vera heimspekingur eða sagnfræðingur enda ekki mikla peninga að græða á því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg frásögn og alveg á kláru ad svona samband  myndast ekki oft á mili fjölskylfu og au pair. Hvað með öll þessi stórfyrirtæki, eru þau ekki með einvherja sjóði sem úthlutað er úr til menningrmála og annara verkefna. Myndi prófa það.

Anna (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 18:24

2 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Gaman að heyra af Dr. Stínu og afrekum hennar á menntabrautinni.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 13.6.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband