22.6.2007 | 14:25
Ragnheiður systir sætir líflátshótunum frá vafasömum móturhjólamönnum!
Ragnheiður systir mín sem er forvarnarfulltrúi hjá VÍS og mikill umferðarpostuli eins og margir kannast við. Einhverra hluta vegna eru umferðarmál hennar hjartans viðfangsefni og hefur verið svo allt síðan hún var í lögreglunni og var einn stofnandi kvenna sem vildi bætta umferðarmenningu.
Minnir að aðalsprauturnar hafi verið leikarar sem blésu í lúðra og kölluðu menn til samstarf í kjölfar banaslyss á Skúlagötu. Það var eiginkona Jóhanns Sigurðarsonar leikara sem fórst þar af völdum drukkins ökumanns. Þori samt ekki alveg að hengja mig fyrir að þetta sé kórrétt.
En hvað sem því líður hefur systir mín verið ötul í baráttunni, allar götur síðan og ekkert lát er á. Ekki það að ég sé henni alltaf sammála enda er ég svo andfélagsleg í eðli mínu og hata ekkert meira en forræðishyggju.
En ég get ekki anað en verið henni sammála í því að taka beri hart á þessum drengkjánum eða mönnum sem hegða sér eins og klárir hálfvitar og leika sér að eigin lífi og limum svo ekki sé talað um annarra vegfaranda með framferðinu.
Ragnheiður eins og fleiri í fjölskyldunni; talar tæpitungulaust og er ekkert að skafa utan af hlutunum. Hún hefur því farið mikinn í gagnrýni sinni á ofsaakstur mótorhjólamanna að undanförnu.
Nú hafa þeir skorið upp herör gegn Ragnheiði og freista þess til að koma á hana höggi. Meðal annars sætir hún líflátshótunum og í hennar rólegu botnlangagötu í Hafnarfirði er talsverð trafffík mótorhjólamanna sem gera sér að leik að þenja mótorinn. Nú eða aka hægt framhjá og góna að h´sinu hennar. En Ragnheiður kallar ekki allt ömmu sína; hún óttast ekki og ef eitthvað er, þá blæs þessi framkoma þeirra henni eldmóð í brjósti. En mikið fjári geta menn verið takmarkaðir að láta svona. Og það sem meira er; allir mótorhjólamenn eru settir undir sama hatt og þessir örfáu kjánar sem halda að með því að stöðva Ragnheiði geti þeir haldið án afskipta áfram að aka á 200 kílómetra hraða á þjóðvegum. Svei þessum mönnum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eða yfir höfuð að halda að þeir geti stöðvað Ragnheiði.
Annars hefurðu alveg kórrétt fyrir þér með stofnun áhugahópsins. Móðir mín og móðursystir voru einmitt tvær af stofnendunum með Ragnheiði. Þarft verk sem þar var á ferð.
Elfur Logadóttir, 22.6.2007 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.