9.7.2007 | 16:00
Snemma beygist krókurinn...
Fyrir nokkrum misserum skrifaði ég nærmynd af Magnúsi Ármann og vini hans Sigurði Bollasyni fyrir DV. Ég falaðist eftir upplýsingum um þá félaga hjá mörgum sem þekktu þá vel og sumir höfðu verið samhliða þeim allt frá barnæsku.
Mér er minnistætt hvernig félagar Magnúsar lýstu honum en allir voru þeir sammála um að viðskiptaeðlið væri honum í blóði borið og hefði vaknað snemma. Smágutti í Breiðholtinu var hann komin í hörkubissnes og hugmyndaflug hans var ótakmarkað. Margir þeirra sem tjáðu sig um Magnús sögðu að ekki hefði farið á milli mála að hann ætti eftir að spjara sig, sem síðan hefur komið á daginn. Sögurnar af Magnúsi flögruðu upp í huga minn fyrir helgina þegar dóttursonur minn sem er rétt sjö ára kom heim með box fullt af smámynt. Um hann miðjan hékk taska hálf full af grjóti. "Hvar fékkstu alla þessa peninga?" spurði ammanáhyggjufull og sá stutti svaraði sannleikanum samkvæmt að hann ætti þá. "Fólkið borgaði mér fyrir steinana mína," svaraði hann og vísaði í grjót sem hann hafði fundið hér og þar og safnað inn á pallinn á bak við hús. Í ljós kom að hann hafði farið af stað með vini sínum,gengið í húsin í hverfinu og boðið fólki grjót til sölu fyrir 30 krónur stykkið.Afraksturinn, um það bil 2000 krónur voru í boxinu sem hann rétti afa sínum og sagði: "Afi, bankinn á að fá þessa peninga líka. Hvað á ég þá mikið inn í bankanum?"
Drengurinn er óþrjótandi safnari. Heim ber hann allskonar drasl sem hann hefur hinar mestu mætur á. En að honum dytti í hug að fara af stað og selja grjót á 30 kall stykkið fannst mér með ólíkindum. Ég spurði hvort hann hefði ekki gefið til baka þegar fólk borgaði með gullpening. Nei aldeilis ekki, hann vildi sko ekki gefa peningana aftur sem hann var búinn að selja fyrir og safna. Peningavitið nær ekki lengra en það að hann áttar sig ekki einu sinni á verðgildi þeirra. En peningarnir eru vel geymdir hjá afanum sem á eftir að gera sér ferð í bankann með þá auk þeirra aura sem barnið fékk í afmælisgjöf en allir peningar sem honum áskotnast fara beint í sparnað og hefur svo verið allt frá því hann fæddist. Svo er bara spurningin hvort þeir fuðra upp og verða að engu eins og peningar móður hans gerðu frá því hún var á svipuðum aldri.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.