Betra seint en aldrei

Begga og GnáÉg veit ekki hvers vegna ég er að byrja að blogga; hef líklega smitast af öllum hinum. En þörfin fyrir að vera með í umræðunni knýr mig líklega áfram í þessu. Nú hef ég nefnilega ekki lengur vettvang til að láta móðan mása um allt og ekkert eins og á meðan ég skrifaði bæði leiðara og fjölmiðlapistil í DV og áður í Fréttablaðið.

Ekki það, oft var ég í stökustu vandræðum og sat fyrir framan tölvuna heilu og hálfu dagana þegar að mér var komið að skrifa. Datt ekkert í hug eða það sem hvarflaði að mér að skrifa um taldi ég ekki nógu gott. Þess á milli var ég með svo mörg járn í eldinum að ég gat ekki valið. En frómt frá sagt þá hafði ég sjaldnast tíma til að setjast niður og skrifa leiðara fyrr en fréttaskrifum dagsins var lokið. Og það var auðvitað allt of skammur tími því best er að skrifa, láta pistilinn síðan gerjast í kollinum á sér og breyta svo. Til þess var aldrei tími. Mesta furða hvað ég gat oft sætt mig við það sem síðan birtist daginn eftir. Breytir því samt ekki að aðra daga hefði ég helst að öllu vilja vera í felum.

En hér er ég minn eigin ritstjóri og skrifa þegar ég vil og þegi þess á milli. Get meira að segja tekið út færslur eða breytt þeim. Svo er bara að sjá hve dugleg ég verð við þetta því ekki get ég annað sé en þetta sé hið einfaldasta forrit hjá mbl.is.

Er með síðu fyrir hundana mína þar er mun meira vesen að setja inn færslur. Hefur komið í veg fyrir margan góðan molann frá mér. Nú er ég sumsé komin af stað og aldrei að vita nema eitthvað vitsmunalegt og jafnvel skemmtilegt hrökkvi upp úr mér við og við. 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband