Þrjár lóðatíkur og graðir rakkar!

 

P1010014GGHeimili mitt hefur verið umsetið síðustu daga. Frá því á föstudag hafa þrír sperrtir og þolinmóðir rakkar meira eða minna setið um húsið. Inni eru þrjár tíkur sem allar eru að lóða á sama tíma. Þær vita af þeim úti og rjúka upp um miðjar nætur og heimta að fara út. Fyrir utan óþægindin af þessu umsátri er merkilegt að fylgjast með hvernig náttúran í málleysingjunum brýst út.

Einn þessara höfðingja er sýnu þolinmóðastur, eða líklega er það eitthvað annað en þolinmæði þar á ferð. Hann hefur vomað í kringum húsið og í hvert sinn sem ég hleypi dömunum út í garð kemur hann eins og eldibrandur. Þær dilla skottum og kjá í kauða og síðan sér maður hvernig skottið leggst til hliðar. Tilbúnar í hvað sem er. Ræfillinn getur ekkert gert þar sem girðingin kemur í veg fyrir nánara samneyti. Þá leggst hann niður á lappirnar og ýlfrar. Og mikið sem ég vorkenni karlræflinum.

Ég hef verið hálf óstyrk og ekki þorað að hleypa tíkunum út nema vera með þeim í garðinum af ótta við að hann finni sér leið inn í garðinn. Og viti menn, í kvöld var hann kominn inna á pallinn hjá mér. Ég prísaði mig sæla fyrir að sjá hann í tíma, því ég hefði allt eins getað opnað og þær hlaupið út og það er of seint að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í. Svona reynsluboltar eru ekki lengi að skella sér á bak; og allt fast.

Í ljós kom að hann hafði grafið sig undir girðinguna. Já, í sex stiga frosti tókst honum klóra freðna jörðina þannig að hann gæti smogið undir. Hann var hundslegur þegar ég vísaði honum út. Í kvöld kom annar; frekur djöfull sem hrakti þann þolinmóða á braut. Sá er svo ágengur að hann hamast á bréfalúgunni með tilheyrandi hamagangi sem setur allt í uppnám innandyra.

En um það get ég vitnað að það er ekki það sama, lóðatík og graður rakki. Það get ég svarið að dömurnar mínar sækjast ekki eftir þessum "unaði" eins þeir. Fjarri lagi, þær sofa hinar rólegustu en eðlilega eru þær spenntar þegar allt morar af félagskap í kringum húsið.

Það er nefnilega eftir öllu öðru í málinu, orðið lóðatík. Fyrir utan upphaflegu merkingu orðsins er það eins og allir vita viðhaft um lauslátar konur sem ekki njóta mikillar virðingar. En ég þekki ekki orð sem rakið er til rakka sem lætur sig hafa það að hoka úti í fimm daga og fimm nætur, matarlaus og vatnslaus í þeirri von að komast á tík.

Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að því að finna að neikvæð og niðurlægjandi orð um konur. Um þá er ekki til sambærilegt orð. En þetta eru svo sem engin ný vísindi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband