11.12.2006 | 19:53
Stríðni Reynis hvolpaföður hittir hann sjálfan fyrir
Reynir minn Traustason sendir mér orð í athugsemdakerfinu og telur mig ekki rökstyðja mál mitt varðandi færslu mína um Pál Ásgeir. Hún er eftirfarandi:
Óskráður (Reynir Traustason), 11.12.2006 kl. 17:43
Það er hárrétt hjá Reyni, ég fór ekki út í að nefna dæmi um slakleg vinnubrögð Páls Ásgeirs, enda þarfnast það tíma að fara í gegnum þau tilvik þar sem hann fer með rangt mál í öllum þremur greinunum sem hann hefur látið frá sér um fallna fjölmiðla. Hver veit nema að ég geri það ef mér gefst tími til.
Í færslu minni nefndi ég einungis að hann hefði mátt tala við fleiri, nefna heimildarmenn og tala við þá sem að málum komu og vissu gjörla hvernig mál þróuðust. Ég gagnrýndi hann fyrir það og nefni hér að aldrei heyrði ég orð frá Páli Ásgeiri, þrátt fyrir að ég hafi verið í þeirri stöðu á DV að vita nákvæmlega hvað þar fór fram, sat flesta fundi þar um stefnu blaðsins og lagði hjarta mitt og sál í þetta blað. Enda var ég, þó utanaðkomandi fólki væri það ekki kunnugt, í nánu samstarfi við ritstjórana Jónas og Mikael, fréttastjóra og blaðamenn og hafði þar með talsverð áhrif á daglega ritstjórnarstefnu og þróun.
Fleiri blaðamenn á ritstjórn sem vissu hvernig mál þróuðust, kannski betur en margur annar, kom hann ekki að máli við. Þegar ég las greinina fór ekki fram hjá mér hvað var ofsagt og hvað skorti til að gefa sem réttasta mynd af því sem fram fór á DV síðasta árið áður en upp úr sauð.
Þegar ég las síðan grein hans um NFS fann ég að þar var ekki allt sannleikanum samkvæmt. Bæði vegna þess að NFS var við hlið okkar og samgangur á milli, margir starfsmenn þar mér vel kunnugir og vinir margra okkar. Í mín eyru bárust gagnrýnisraddir þeirra, þar sem einstakra dæma var getið um skort á heimildavinnu Páls Ásgeirs.
Umfjöllun um Birting og Fróða sem Páll Ásgeir fjallaði um nú í síðustu Ísafold var með sama marki brennd; ekki rætt við þá sem skiptu máli og vissu manna best hvað þar fór fram.
Það væri að æra óstöðugan að nefna öll þau dæmi hér, en það er allt eins víst að ég ég gefi mér tíma og taki allar þessar greinar Páls Ásgeirs og fari lið fyrir lið ofan í fullyrðingar og nefni dæmi því til sönnunar að þar er ekki allt sem sýnist.
Ætlun mín var alls ekki að særa Reyni eða gera lítið úr honum. Hann treystir sínu fólki og ver það eðlilega fyrir gagnrýni og eða áskökunum; það skil ég mæta vel. Vona að Reynir minn taki það ekki til sín enda á ég síður en svo nokkuð sökótt við hann blessaðan sem nú er orðin fjögurra hvolpa faðir. Neita því hins vegar ekki að ég hef meira en gaman af að stríða honum dálítið; hann er nefnilega með stríðnari mönnum sjálfur. Það er bæði gömul og ný saga að stríðnispúkar eins og hann sjálfur, eiga manna efiðast með að taka sjálfur stríðni. Einmitt þess vegna er svo gaman að stríða honum.
Flokkur: Fjölmiðlar og fólk | Breytt 12.12.2006 kl. 11:23 | Facebook
Begga mín kæra. Væri ekki rétt af þér að tilgreina hverjar rangfærslur PÁÁ eru í stað þess að fullyrða eins og þú gerir. Sjálf ertu fórnarlamb Ólínu Þorvarðardóttur sem lýst hefur opinberlega rangfærslum þínum og Mannlífs og þú veist hve auðvelt er að skjóta sendiboðann án ástæðu. Ekki verða eins og bloggari hins fallna forsætisráðherra og staðhæfa án þess að innistæða sé fyrir því. Þú ert alltof vönduð til þess þótt hliðarhoppin séu nokkur þegar kappið ber þig ofurliði. Og meðan ég man; það eru komnir hvolpar.