Ég er ósköp fegin að þurfa ekki að vera lengur í samkeppni við Reyni vin minn Traustason. Það hefur líklega ekki fari mér vel að standa í hnútakasti við hann sem andstæðing. Mun betur fellur mér að vera með honum í liði og ég hlakka til að taka til starfa á nýju ári og byggja áfram upp gott blað með nýjum liðsmönnum; eða gömlum, allt eftir því hvernig á það er litið.
Elsku kallinn hefur stundum verið sár út í mig; ekki fundist hann eiga það skilið frá mér að ég væri að hnýta í hann og verk hans hér á síðunni minni. Mest hef ég samt verið að stríða honum; einmitt vegna þess að ég varð þess vör að sú stríðnin sú hitti í mark. En það var fjarri mér að einhverjar meiningar lægju að baki. Þeir þekkja það sem hafa verið í íþróttum að engin er annars bróðir í leik. Og Reynir sjálfur fór ekki dult með að svo er ekki.
Sjálf var ég í mörg ár í keppnisliði og stelpurnar í KR, Víkingi eða Fram voru svarnir óvinir á vellinum. En þess á milli vorum við bestu vinkonur. Þannig er keppni á milli liða. Reynir gekk úr liðinu og fór í annað og þar með var hann svarinn óvinur á vellinum. En lengra náði það ekki; hann var vinur minn eftir sem áður utan vallar. En ósköp þykir mér gott að við skulum vera komin í sama liði aftur.
---------------------------------------0000-----------------------------------------
Annars voru áramótin nokkuð góð hjá mér ef frá eru talin lætin á gamlárskvöld og langt fram eftir nóttu á nýju ári. Ekki það að ég sé orðin svo gömul að ég þurfi að loka mig inni á baði í beinu sambandi við 112, eins og blessuð gömlu hjónin í Garðabænum sem sagt var frá í fréttum í gærkvöld. En hundarnir mínir áttu bágt, ekki síður en þau gömlu. Gná, tíkin mín sem var með sólahringsgamla hvolpa, (sjá www.sifjar.is ) var frávita af hræðslu við hvern hvell allan daginn.
Um miðnætti skrúfaði ég sjónvarpið með tónleikum frá Hallgrímskirkju á fullt, lokaði öllum gluggum og hurðum til að hún heyrði sem minnst og reyndi að láta sem ég vissi ekki af látunum. Ég óttaðist að hún missti alla mjólk og hamaðist við að gefa henni að borða og drekka allt það besta sem hún vissi. Hún fékk helminginn af kengúrusteikinni sem við snæddum í kvöldmat og þeyttan rjóma eins og hana lysti. Ég vakti alla nóttina yfir henni og það var ekki möguleiki á að koma henni út að pissa; og ekki enn með góðum móti.
En allt fór þetta vel. Hún mjólkar sínum yndislegu sex hvolpum vel og er að róast. Þær voru svona hræddar þrjár af fimm tíkunum en sú elsta og kötturinn sem eru jafngömul, rótuðu sér ekki, enda lífsreynd og öllu vön.
Við vorum bara tvö heima í fyrsta sinn frá því ... jaa ég veit bara ekki hvenær. Líklega á ævinni. Mér þotti það gott; líkar illa partýstand þetta kvöld. Hef reyndar alla tíð frá því ég eignaðist börn, verið þeirrar skoðunar að gamlárskvöld sé ekki til drykkju fallið. Finnst öll önnur kvöld ársins betur til þeirra iðju gerð.
Auk þess finnst mér það nánast helgispjöll að ganga inn í nýtt ár illa fyrirkallaður. Þá á maður einmitt að vera góðu formi, vel út sofin og hress. Mér finnst ömurlegt að vakna á nýju ári einhvern tíma síðdegis grúttimbruð og ómöguleg. Hef ekki gert það síðan ég var nítján og á klárlega ekki eftir drekka mig timbraða úr þessu á gamlárskvöld.
Flokkur: Fjölmiðlar og fólk | Facebook
Athugasemdir
kvitt
Ólafur fannberg, 6.1.2007 kl. 00:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.