Glæpamenn, perrar og níðingar þessa lands önduðu léttar í byrjun árs og una nú glaðir við sitt

Ekki get ég sagt að ég sakni ársins sem var að ljúka. Skelfilega erfitt og leiðinlegt ár er að baki. Það byrjaði illa með ofsóknunum og múgsefjun sem beindust að okkur vinnufélögum á ónefndu blaði. Og ég skef ekki utan af því; vikan sú um miðbik janúar, var ein sú erfiðasta sem ég hef lifað. Það tók mikið á að vera í hringiðu þeirra átaka.

Aumt var að fylgjast með Þórðargleði kollega okkar; þeim sem komnir voru með glampandi geislabaug um leið og helgislepjan vall út úr þeim skinhelgustu sem nutu þess að æsa upp lýðinn sem brást við af heift. Þar apaði einn eftir öðrum. Menn voru ekki menn með mönnum nema fyllast heilagri vandlætingu; hlaupa til umhugsunarlaust eins og þeir sem hæst höfðu og æða áfram með kyndla og heimta aftöku dómstóls götunnar. Ótrúlegt var að fylgjast með skýrleiksmönnum, vel gefnum og virtum af sínum verkum, breytast í blóðþyrst villidýr.

Minna fór fyrir skýrri hugsun og það var í lagi að meintur barnaníðingur væri hafinn upp til skýjanna. Ekkert skipti máli annað en hengja sendiboða þeirra válegu tíðinda sem flutt voru á síðum þessa skelfilega blaðs, sem átti upptök af öllu illu sem aflaga fór í þessu samfélagi okkar; eða gott sem. Og verstu perrar og níðingar þessa þjóðar vörpuðu öndinni léttar; þeir áttu ekki lengur á hættu að verða nafngreindir í fjölmiðlum þessa lands og gætu því haldið áfram sinni þokkaiðju.

Og það hafa þeir svo sannarlega nýtt sér... Allt í fína, enginn veit hverjir þeir eru. Aðeins að titrings gæti hjá einhverjum þeirra vegna Kompás. En það er lítið að óttast; Kompás er bara einu sinni í viku. Og perrar og níðingar eiga enn hauk í horni meðal skinhelgra fjölmiðlamanna og þeirra háværu vandlætingarradda sem fordæma áfram.

Já, svona viljum við augljóslega hafa þetta áfram og ekki er von til að mikið breytist á þessu herrans ári, 2007 frekar en þeim næstu sem á eftir koma, trúi ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband