Alvöru hundaræktunarsýning eða framleiðslusýning Dalsmynnisfjölskyldunnar

Sigmar Guðmundsson skrifar um hundasýningu sem hann fór með dóttur sína á og olli honum miklum vonbrigðum. Ég hefði getað sagt honum það fyrirfram að á þeirri uppákomu væri lítið að græða. En á móti finnst mér gott að óhlutdræg manneskja skuli hafa farið á sýningu Íshunda og ljá síðan máls á þeirri reynslu. Það er þá ekki hægt að segja að mat hans byggist á ríg á milli hundaræktarfélaga.

Hér eru þrjú slík félög, ef félög skyldi kalla. Íshundasýningin sem Sigmar fór á með dóttur sína er einkasýning þeirra Dalsmynnisframleiðanda og ekki við miklu að búast. En Sigmari til upplýsinga er aðeins eitt viðurkennt hundaræktarfélag en það er Hundaræktarfélag Íslands. Ræktunarsýningar á þess vegum eru þrisvar á ári, í byrjun mars, byrjun júní og síðan er stærsta sýningin í október.

Þess á milli hafa verið hundadagar bæði í Garðheimum og Blómavali þar sem kynningar eru á hundum en það er ekki það sama og alþjóðlegar ræktunarsýningar þar sem hundar keppa sína á milli. Ef Sigmari langar að sýna dóttur sinni hunda af öllum tegundum og stærðum verður hann að bíða fram í byrjun júní og sækja þá sýningu í Víðidal og þá fær hann eitthvað fyrir sinn snúð. Búast má við að yfir fimm hundruð hundar keppi þar af tugum tegunda. Þar eru einnig hundategundir sem skoða má í návígi.

Ef Sigmar vill fræðast nánar um hunda áður en hann heldur á hundasýningu getur hann farið inn á síðu HRFÍ eða það sem mér stendur nær; mína eigin síðu, sifjar.is og síðu cavalierdeildarinnar. Það er oft betra að kynna sér málin svo menn verði ekki fyrir vonbrigðum og kasti peningum út í loftið.

Og svo er rétt að taka fram að HRFÍ er ekki bara eitthvað félag sem gleypir allt og hin félögin séu stofnuð vegna þess að klofningur hafi orðið á milli félaga. Það er einfaldlega þannig að í þessum bransa getur aðeins verið eitt viðurkennt ræktunarfélag í hverju landi. Þetta er nefnilega ekki eingöngu spurning um hagsmuni, heldur er HRFÍ fyrst og fremst ræktunarfélaga og það er strangar reglur í kringum slík félög sem ekki er von að leikmenn átti sig á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er erfitt Bergljót að fá fólk til að skilja hvermunurinn er á ræktunarfélagi eins og Hundaræktarfélagi Íslands eða enhverjum venjulegum félagskap eins og bridgefélagi eða skákklúbb. Menn halda að þeir sem kljúfa sig út úr HRFÍ séu óángæðir félagsmenn punktur basta og þess vegna stofni þeir nýtt félag. Þetta er annars eðlis því þeir sem ekki eru í HRFÍ eru þeir sem ekki uppfylla skilyrði sem þarf til að vera þar og sýna hunda á vegum félagsins. Eða hafa brotið reglurnar og verið vísað úr félaginu. Aðeins eitt ræktunarfélag getur verið í hverju landi en það er auðvitað hverjum sem er frjálst að stofna félagskap í kringum áhugamál sitt, en það verður aldrei annað en svo og getur aldrei orðið ræktunarfélag. Þetta hafa menn eðlilega ekki getað skilið, því þeir þekkja ekki og vita ekki út á hvað þetta gengur.

Anna Sig. (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 22:12

2 identicon

Góðan dag, ég datt hingað inn á bloggflakki. Mig eiginlega rak í rogastans yfir færslunni - ekki það að ég viti neitt um hunda eða hundaræktun og hvað þá hundasýningar. Bara vangaveltur.

Þú segir: "Íshundasýningin ... er einkasýning þeirra Dalsmynnisframleiðanda og ekki við miklu að búast."

Nú spyr ég, er  ekki öllum framleiðendum frjálst að halda sýningar á því sem þeir hafa að bjóða? Velti því bara fyrir mér vegna þess að mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Ef að sýningarnar eru lélegar hlýtur þetta að dæma sig sjálft. Er tilefni til niðurrifs hér?

Á ræktunarfélagið þitt í samkeppni við þessa framleiðendur?  Ef svo er, er ekki rétt að mæta þeirri samkeppni með höfuðið hátt í stað þess að leggjast í leðjuslag? Ef samkeppnin er hins vegar ekki til staðar, er þá ekki rétt að láta þennan framleiðanda einfaldlega í friði, láta hann ekki bögga sig.

Annað, þú segir að félögin séu þrjú talsins, hvert er það þriðja og hvar stendur það í þessu?

Bestu kveðjur,

Soffia H (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 11:01

3 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Anna svarar þessu held ég nokkuð vel hér að ofan en þetta snýst um að aðeins eitt ræktunarfélag getur verið til í hverju landi. Önnur félg sem stofnuð eru af þeim sem ekki uppfylla skilyrði til að vera í þessu eina, geta aldrei verið tekin alvarlega. Ég segi því eins og Anna: Hundaræktarfélag er ekki sambærilegt við skákklúbb eða bridgefélag. í eðli sínu er um allt öðruvísi félagskap að ræða. Þeir sem standa að Dalsmynnis framleiðslunni geta ekki verið innan HRFÍ vegna þess að þeim var vísað þaðan enda ekki færir um að  fara að reglum; þar eru hvolpar framleiddir í stað þess að um ræktun sé að ræða. Þeir sem kaupa þaðan hvolp, geta ekki verið vissir um að uppruni hans sé sá sem haldið er fram enda hefur komið á dagainn með DNA prófum að svo er. Því setja þeir upp einkasýningu og það var sýningin sem Sigmar fór á með dóttur sína. Hinn félaskapurinn heitir hundaræktarfélagið Rex en þau klufu sig frá Dalsmynnisfjölskyldunni því þeim blöskruðu vinnubrögðin. Það fólk hefði vafalaust viljað veria inna HRFÍ, en því miður geta þau það ekki vegna þess að hundar þeirra eru upprunnir frá Dalsmynni. Það er ekki hægt að taka hunda þá inn vegna þess að það er enginn sönnun fyrir því að þeir séu hreinræktaðir og á bak við þá séu þeir hundar sem tilteknir eru í ættbók.

Þetta snýst alls ekki um neina illsku eða valdabaráttu, heldur eindaldlega fagmennsku.

Forvitna blaðakonan, 20.4.2007 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband