10.10.2006 | 13:27
London er hryllilega dýr!
London er dýr! Er komin til baka eftir tveggja daga dvöl. Útkeyrð á sál og líkama. Það er varla að það sé fyrirhafnarinnar og peningana virði að fara þangað. Það tekur óratíma að komast í gegnum allt eftirlitið á flugvellinum. Og annan eins tíma að komast til og frá vellinum. Og Oxfordstreet á sunnudegi! Úff!
Við vorum á hóteli niður við Thames; rándýru með lélaga þjónustu. Ekta uppahótel þar sem kellingar eins og ég finna sig alls ekki. Má ég þá biðja um eitthvað lítið og notalegt. Síðan ég var að fljúga hef ég forðast svona hótel. Fékk mig fullsadda af þannig lífi. Við hjónin höldum okkur frekar við lítil hótel eða gistheimili þar sem þjónustan er persónuleg. Líki því ekki saman að búa þannig fremur en á stórum kassahótelum. Er fegin að fera komin heim og tíkurnar mínar voru ekki minna glaðar að sjá mig en ég þær. Þær misstu sig alveg í gleðinni og er ég vel sleikt og knúsuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2006 | 18:25
Hvað hefði breyst með sme?
Bæði Pétur Gunnarsson og Denni tala um ritstjóraskipti á DV en hver á sinn máta. Denni spyr hvort nýir ritsjórar á DV kunni að segja satt? Það get ég fullvissað Denna um að sannleikurinn vefst ekki fyrir þeim sómamönnum. Ég þekki þá Frey Einarsson og Óskar Hrafn ekki af öðru en vera menn orða sinna. Þeir eru báðir eldklárir gæðadrengir og hafa verið að gera góða hluti með DV í sumar.
En allt er þetta dálítið skondið. Á meðan sme dundaði sér við að senda Andrési Magnússyni uppsagnarskeytið, var hann í hörku viðræðum við Ara hjá 365 miðlum, um að koma aftur og taka við DV. Ef ég þekki hann rétt hefur það kitlað hann en samkvæmt heimildum Péturs var það Sigurður Guðjónsson sem kom í veg fyrir það.
Sá sami Sigurður sem einnig á útgáfufélagið Birtíng, vissi líklega ekki að með því halda sem fastast í SME, var hann að öllum líkindum að koma í veg fyrir að Birtíngur fengi þá þungavigtarmenn og núverandi ritstjóra DV, Óskar Hrafn og Frey yfir til Birtings.
Sigurjón tók með sér tvo fréttastjóra og son sinn, Janus þegar hann fór á Blaðið. Hann hefði varla farið þaðan án þeirra. Ekki sé ég fyrir mér að það hefði gengið upp að Óskarr Hrafn og Freyr yrðu áfram í vinnu á DV með sme og hans fólki ef það hefði gengið eftir. Ekki er vafi á að þeirra hefði beðið starf hjá Mikka sem tekið hefði þeim meira en fagnandi enda réð hann þá báða til starfa á DV á sínum tíma og þekkir til verka þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2006 | 01:21
Birtíngur til London
Birtíngur eins og hann leggur sig er á leið til London um helgina (starfsmenn fyrirtækisins auðvitað). Menn fara í tveimur hópum en sá fyrri leggur í hann í fyrramálið og sá síðari á laugardagsmorgun. Ætlunin er að skemmta sér saman á árshátíð og hrissta saman hópinn um leið.
Ég sem er óskipulagðari en nokkur manneskja sem ég hef haft spurnir af ætti að vera gera allt annað en rita þessar línur hér því ég er ekki farin að svo mikið sem hugsa um það hverju ég ætla að skrýðast við það tilefni. Enn síður hef ég hugmynd hvernig ég ætla að lengja sólahringinn til að geta komið frá mér þeim verkum sem ég á ólokið áður en ég held af stað.
Hve oft sem ég lofa sjálfri mér því að vera nú tímanlega í því og draga ekki allt til síðustu stundar, breytist ekkert. Þetta er ljótur ávani sem veldur því að ég er alltaf yfirspennt og stressuð. Nokkrir dagar fara í að stressa mig upp áður en ég byrja. Þegar ég loks hef mig af stað er svo skammur tími til stefnu að ég sit í stresskasti við að klára. Ég þoli þetta ekki en geri mér þetta samt. Mér segir svo hugur að fleiri blaðamenn kannist við þessi vinnubrögð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2006 | 19:46
Burburrys aðeins fyrir ríka
Ingibjörg Sólrún upplýsti á þingi í dag að aðeins sextíu hjón í landinu greiddu meirihluta alls þess fjármagnstekjuskatts sem rennur í ríkissjóð. Bilið á milli þeirra ofsaríku og ríku er sem sagt að aukast. Svo ekki sé talað um þá gjá sem er á milli okkar almúgans og hinna sem ekki einu sinni teljast ríkir ef miðað er við þá ofsaríku. Við skiljum ekki þær tölur sem þessir menn höndla með daglega.
En þetta bil er ekki aðeins að aukast hér. Í gamla daga þegar ég var fljúga var það ekki venjulegri flugfreyju ofviða að kaupa sér við og við dýra merkjavöru sem ekki fékkst hér á landi. Þá gat maður gengið um í Gucci skóm í Channel dragt með Burberrysfrakka utan um sig og með Dior tösku á öxlinni án þess að finna sérstaklega fyrir því. Ekki það; maður kippti þessum flíkum ekki af slánni og sagðist ætla fá eina svona dragt takk! Nei, alls ekki en maður gat eignast þessa hluti ef maður hélt aðeins í við sig annarsstaðar.
Ég sæi sjálfa mig núna fara með mánaðarhýruna og kaupa mér eitthvað í líkingu við það sem ég gat þá. Ég veit ekki hvað Burberrysfrakki kostar hér en rakst á verslun í USA á netinu sem bauð þá á útsölu á 1700 dollara. Eitthvað nálægt 120 þúsund. Hvað kostar hann þá fullu verði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 13:08
Veggirnir hafa eyru
Ég gef mig út fyrir að vera forvitin í meira lagi og legg áherslu á þann eiginleika hér. Reyndar er bloggið ekki komið í það horf sem því er ætlað því enn hef ég ekki "fattað" hvernig á að linka á aðra með þeim heitum sem ég vel. Kannski að einhver sérfræðingurinn sem þetta les og þekkir mig geti hjálpað mér með þetta?
En þetta með "fattið" hefur stundum vafist dálítið fyrir mér. Enda segir Magnús, minn ekta maki að gleymst hafi að setja í mig nóg af "fatti". Fullyrðir að það sé hægt að kaupa dós með því í apótekinu. Eins og gefur að skilja hef ég ekki látið reyna á það. Geri mér þetta auðvelt og fæ til liðs við mig þá sem eiga nóg slíku eðalefni í sínum heila - eða hafa keypt það í dósum.
En aftur að forvitninni. Þegar ég var smápeð að alast upp vestur undir Jökli þar sem foreldrar mínir ákváðu að væri góður staður til að fara af stað með búhokur í lok sjötta áratugarins. Staðurinn var valinn til að pabbi, sem var húsasmíðameistari gæti starfað áfram hjá Íslenskum aðalverktökum sem hann reyndar var einn stofnandi að. Fyrirtækið vann þá fyrir herinn sem rak Lóransstöð á Gufuskálum.
Hann vélaði mömmu vestur með þeim orðum að rétt fyrir neðan bæinn væri yndisleg tjörn. Eftir að hafa lýst náttúrfegurðinni, þar sem jökulinn bæri við himinn. Fallegar sauðkindur í haga og ómótstæilegt hús stæði upp á hól, þaðaðn sem víðsynt væri til allra átta. "Og þar synda líka yndislegir svanir á fallegri lítill tjörn, rétt neðan við bæinn. Söngurinn þaðan hljómar eins og fallegasta sinfónía á kyrrum sumarkvöldum. Er hægt að hugsa sér eitthvað dámsamlegra," spurði hann blessaður og mamma féll fyrir þessum töfra stað.
Fimm árum síðar þegar hann vildi flytja í burtu þaðan en hún var treg til. Þá notaði hann þessa yndislegu röksemdarfærslu. "Hvað heur þú eignlega að gera hér lengur kona. Við þennan stað er ekkert fallegt. Af jöklinum blæs kuldi, rollurnar eru eins ljótar og í Landeyjunum. Húskofinn sem við búum í er er ekki skepnum bjóðandi. Og svo þessi drullupollur hér fyrir neðan þar sem gargandi svanir bægsla með vængjaþyt og hávaða." Þau fluttu skömmu síðar. Þessi fallegi staður hefur vitanlega alltaf verið eins.
En það var forvitni mín sem öllum varð ljós og kom hvað gleggst fram, einmitt þarna undir Jökli. Talsverður gestaganur var á heimilinu og sátu gestir venjulega í eldhúsinu og skeggræddu um landsmálin, hitt fólkið í sveitinni og vitanlega póitíkina. Ég var sex sjö ára gömul og sat vanalega þar sem lítið fór fyrir mér og eyrun á mér blökuðu. Oft sló þögn á umræðurnar þegar mín varð vart og bentu menn þá að eins gott væri að segja ekki margt því veggirnir hefðu eyru. Og var síðan send í rúmið.
En ég engdist sundur og saman í rúminu af forvitni. Hélst ekki við og tókst alltaf með ýmsum brellibrögðum að koma mér fram aftur. Sá mér leik á borði og mjakaði mér þá, án þess að nokkur tæki eftir, undir borð sem stóð við hornglugga og pabbi hafði smiðað forláta bekk í kringum. Í horninu var holrúm þar sem sjö ára kríli gat troðið sér í. Og það gerði ég og lá í hnipri og drakk í mig hvert einasta orð sem sagt var. Það vildi til að ég var mjög svefnlétt og átti aldrei í vanda við að vakna á morgnanna. Síðar hafði ég þann háttinn á að koma mér í hornið um leið og gestir beygðu inn afleggjaran að bænum. Var tilbúin þegar sest var niður og umræurnar hófust og enginn vissi neitt.
Forvitnin hefur síður en svo rjátlast af mér. Það eina sem hefur breyst er að ég hef meiri stjórn á henni, sem ég alls ekki gat þá. Um þessa forvitni mína var talað eins um eitthvað neitkvætt fyrirbæri væri að ræða. En ég veit núna að er ekki annað en góður kostur sem ekki ber að skammast sín fyrir. Þvert á móti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2006 | 15:46
Allt veit Reynir
Reynir hringdi í mig í dag til að segja mér að það væri Baugur sem ætti með honum útgáfuna. Eins og ég vissi það ekki. En hann lagði óvenjulega mikla áherslu á að troða því inn í minn ljúfa koll að það væri Baugur en ekki Jón Ásgeir.
Og svo spjölluðum við um hunda, bækur, fjölmiðla og allt og ekkert eins og við erum vön. Síðan kom athugasemd um Hjálmar Blöndal. Og það fóru að renna á mig tvær grímur. Ekki gat hann verið búin að lesa þessar örfáu færslur frá mér hérna. Á blogginu sem ég setti af stað í bríari í gær...? "Bíddu minn kæri hvaðan kom þetta"?, spurði ég og hann hló bara. En jú, hann var búinn að lesa nýja bloggið mitt, svo að segja áður en ég sjálf skrifaði það. Hvar hann fann það veit ég ekki en Reynir var ógurlega leyndardómsfullur þegar ég gekk á hann með það. Sagði að ekkert færi fram hjá honum. Það visssi ég svo sem fyrir, en ekki að hann væri með augu og arma allsstaðar.
Reynir vildi ekki játa að Svanhildur Hólm yrði á fyrstu forsíðu Ísafoldar. Ég var hins vegar búin að fá það staðfest annarsstaðar. Hann gerði tilraun til að neita, en kjaftaði svo af sér þessi elska. Ég er á hinn bóginn hundsvekt yfir því, vegna þess að fyrir um það bil þremur vikum talaði ég lengi við Loga í þeim tilgangi að fá þau á Mannlíf. Ég vissi það ekki þá að Reynir kallinn hafði verið með vaðið fyrir neðan sig og þegar tryggt þau til sín.
Svona er þessi fjölmiðlaheimur; eins gott að vera snöggur og maður getur ekki annað en nagað sig í handabökin fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við. Ljóst að það er hörku slagur framundan. Eins gott að bretta upp ermarnar og fresta ekki til morguns því sem hægt er að gera í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 00:30
Orðið á götunni ekki með á nótunum
Orðið á götunni var lengi að kippa við sér og menn þar voru ekki með fréttina um Reyni og bakhjarlinn fyrr en í kvöld. Það var hins vegar Denni sem skúbbaði eins og svo oft áður. Hann veltir því fyrir sér i ánægjulegri kaldhæðni hvers vegna allir fjölmiðlar fóru jafnt af stað. Vissi enginn af hinum eða lásu allir bloggið hans? Orðið á götunni má svo sannarlega fara að leggja eyrun betur eftir því sem hvíslað er á götuhornum ef þeir ætla að standa undir nafni.
Því er til að svara að fyrir helgi voru umræður um þetta komnar á fullt skrið. Á sunnudag fékk ég það síðan endanlega staðfest að rétt væri að Baugur stæði á bak við Reyni. Þá loguðu allar símalínur í bransanum og menn kjöftuðu sig hása. En það skal ekki af Denna tekið að hann er skúbbari mikill. Því verður gaman að fylgjast með því hvort hann hefur hitt naglann á höfuðið og Svanhildur Hólm verði með ungann sinn á forsíðu Ísafoldar þegar það kemur út.
Ef ég þekki minn mann, Reyni rétt, þá hefur það klárlega flogið í gegnum huga hans að fá þá mætu konu á forsíðuna sína. Og honum er ekki alls varnað og aldrei að vita nema honum hafi tekist það. Kannski að þeim þyki það ekki eins leitt og þau láta, Bergman - Hólm hjónunum að baða sig í sviðsljósinu. En Reynir fær engu að síður prik fyrir ef sú verður niðurstaðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 23:57
Reynir í Kasljósi
Loksins upplýsti Reynir forvitna fjölmiðlamenn um bakhjarllinn sinn í Kasljósi kvöldsins. Hann gat heldur ekki annað því kvissast hafði út að Jón Ásgeir væri maðurinn. Mínar heimildir herma að Hjálmar Blöndal, fyrrum samstarfsmaður Reynis á gmala DV sé potturinn og pannan í þessu. Það skýrir líka nafnið á félaginu, Hjálmur.
Ég skil hins vegar ekki hvað er á bak við þetta allt. Hvers vegna Jón Ásgeir er reiðubúin að kasta tugum milljónum í svona útgáfufyrirtæki. Það er deginum ljósara að erfitt er að halda svona rekstri réttum meginn við núllið og borin von að það takist fyrstu árin. Niðurstaðn er því að peningar skipti manninn engu máli. Hann eigi einfaldlega svo mikla peninga að hann geti leikið sér með nokkur hundruð milljónir - bara si svona.
Ekki það, ég óska svo sannarlega Reyni vini mínum alls hins besta og vona að honum gangi vel. En hans velgengni er tap Birtíngs því það er ekkert sem gefur til kynna að Ísafoldin hans verði viðbót á markaðnum. Hætt er hins vegar að allir tapi í svona slag, en það getur varla verið ætlunin.
Mér segir svo hugur að eitthvað sé í gangi hjá 365 miðlum. Þar verði hætt við alla útgáfu á tímaritum innan skamms. Annað væri órökrétt. Tja, nema Jón Ásgeir sé bara að leika sér með gullin sín.
Simmi talaði við Reyni og mátti svo sannarlega þjarma meira að honum. Hefði mátt spyrja hvers vegna þetta var leyndarmál allan þennan tíma. Hvers vegna að segja frá því nákvæmlega núna. Var eitthvað sem gaf tilefni til þess, eða var það ákvðið frá upphafi að tilkynna þetta 2 október? Því mátti bara ekki segja frá þessu strax?
Já, og hann hefði að ósekju mátt ganga harðar fram í því að fá svör við því hvaða tegund blaða þeir ætli að koma með í framhaldi Ísafoldar. Og meira og meira sem mig þyrstir í að vita. Nú er fjör því það rekur hver fréttin aðra í fjölmiðlaheiminum þessa dagana. Og ekki allt búið en. Sannarlega spennandi tímar fyrir fjölmiðlafíkla framundan.
Bloggar | Breytt 3.10.2006 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 15:17
Betra seint en aldrei
Ég veit ekki hvers vegna ég er að byrja að blogga; hef líklega smitast af öllum hinum. En þörfin fyrir að vera með í umræðunni knýr mig líklega áfram í þessu. Nú hef ég nefnilega ekki lengur vettvang til að láta móðan mása um allt og ekkert eins og á meðan ég skrifaði bæði leiðara og fjölmiðlapistil í DV og áður í Fréttablaðið.
Ekki það, oft var ég í stökustu vandræðum og sat fyrir framan tölvuna heilu og hálfu dagana þegar að mér var komið að skrifa. Datt ekkert í hug eða það sem hvarflaði að mér að skrifa um taldi ég ekki nógu gott. Þess á milli var ég með svo mörg járn í eldinum að ég gat ekki valið. En frómt frá sagt þá hafði ég sjaldnast tíma til að setjast niður og skrifa leiðara fyrr en fréttaskrifum dagsins var lokið. Og það var auðvitað allt of skammur tími því best er að skrifa, láta pistilinn síðan gerjast í kollinum á sér og breyta svo. Til þess var aldrei tími. Mesta furða hvað ég gat oft sætt mig við það sem síðan birtist daginn eftir. Breytir því samt ekki að aðra daga hefði ég helst að öllu vilja vera í felum.
En hér er ég minn eigin ritstjóri og skrifa þegar ég vil og þegi þess á milli. Get meira að segja tekið út færslur eða breytt þeim. Svo er bara að sjá hve dugleg ég verð við þetta því ekki get ég annað sé en þetta sé hið einfaldasta forrit hjá mbl.is.
Er með síðu fyrir hundana mína þar er mun meira vesen að setja inn færslur. Hefur komið í veg fyrir margan góðan molann frá mér. Nú er ég sumsé komin af stað og aldrei að vita nema eitthvað vitsmunalegt og jafnvel skemmtilegt hrökkvi upp úr mér við og við.
Bloggar | Breytt 3.10.2006 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)