Miðlar lifandi vita sínu viti -- Birtíngur að flytja á gamlar slóðir

Miðlar lifandi sögðu frá því fyrir nokkrum dögum að Birtíngur væri á leið í Lynghálsin.

lg_st2Þeir virðast vita sínu viti, því Birtingur er einmitt að flytja í Lynghálsinn eftir nokkra daga. Þar verður fyrirtækið með neðstu hæðina og loksins þá verða allir blaðamenn í opnu rými. Nokkuð sem þau okkar fagna sem vön erum að vinna við þær aðstæður að vera í kallfæri við aðra vinnufélaga. Áttum erfitt með að sætta okkur við það vinnulag að hver væri í sínu horni. Fyrir utan hvað húsnæðið í Höfðabakkanum var óaðlaðandi og leiðinlegt. 

Flutningar gera það líka að verkum að hægt er endurskipuleggja vinnulag og nýting á mannskapnum ætti að verða betri. Starfsandinn er góður og eftir flutingana ætti samheldnin að verða enn þá meiri og vinnustaðurinn skemmtilegri. Það skiptir ekki svo litlu máli að vinna við góðar aðstæður og að starfsmönnum líði vel í vinnu.

 


Eilíf vandamál með fjárans digitalið

Ég er orðin illa þreytt á þessum digital myndlykli sem ég er með. Í gegnum hann á ég að sjá allar þær stöðvar sem ég greiði fullt gjald fyrir og svo hinar sem fljóta með. Þeir yrðu líklega fljótir að loka ef upphæðin sem ég greiddi væri bara si svona eftir eigin geðþótta, 2500 einn mánuðinn og 3000 þann næsta. Nei, þetta er bara á annan veginn.

Sjaldnast er Skjár 1 til friðs en þar stoppar myndin á 20 sekúnda fresti og stendur kyrr. Það er alveg sama hvað ég reyni þegar sá gállinn er á bölvuðu digitalinu, 20 sekúndur eða ekki neitt. Auðvitað gefst ég upp og stilli á aðra stöð ef ég fæ þá ekki meldingu um að smart kortið sé rangt inn sett. Og ég tek það út og set aftur inn, slekk á digitalinu, sjónvarpinu og öllu heila galleríinu; fæ þá frið svo lengi sem ég reyni ekki að skipta um stöð. Þá hefst sama baráttann aftur.

Í dag þegar við ætluðum að horfa á Silfrið var allt dautt. "Smart card wrong insert" á öllum stöðvum. Magnús hringdi í Stöð 2 og fékk þær upplýsingar að hann væri tíundi í röðinni í símanum. Á meðan fór ég inn á vísir.is í tölvunni og reyndi að ná Silfrinu þar. Það gekk ekki heldur; mér var bent á að slá inn leyniorðum sem ég er löngu búin að gleyma.

Það var ekki fyrr en þátturinn var hálfnaður að röðin var loks komin að Magnúsi í símanum og um svipað leyti birtist tengill á visir.is sem opnaði fyrir Silfrið. Náði helmingnum gegnum tölvuna. Ég íhuga alvarlega að skipta og fá lykil hjá Símanum og sleppa Sstöð 2. Eða bara að taka Stöð 2 í gegnum ADLS og horfa þannig. Vita menn hvernig það gengur fyrir sig, er það flókið mál?


Að murka lífið úr sjálfum sér

sígaretta

Ýkjulaust, þá er ég að murka hægfara úr sjálfri mér lífið með reykingum. Er farin að finna verulega fyrir fylgikvillum þessara djöfullegu reykinga. Hefur ekkert að segja, kveiki bara í annarri og hugsa allan tímann hve illa hún fari með mig. Segi við sjálfa mig um leið og ég drep í að nú sé nóg komið, á morgun hætti ég!

Og morgundagurinn rennur upp. Eins og alla aðra daga geng ég blindandi að kaffikönnunni og kveiki á henni. Klára nauðsynleg morgunverk, klæði mig, laga einn rótsterkan og bráðhollan expressó, smyr eina brauðsneið, drattast fram að dyrum og tíni upp blöðin, sest við eldhúsborðið, neyði ofan í mig brauðsneiðina og með sömu þrælslundinni og alla morgna frá nítján hundurð og sextíu og eitthvað - kveiki ég í sigarettunni.

Hef aldrei náð að hætta lengur en þrjá daga. Þá var ég á spítala og gat ekki reist höfuð frá kodda. Sigarettupúkinn var mættur á öxlina á mér um leið og ég skrölti á fætur og hvíslaði í eyrað á mér að kveikja nú í. Svo fann ég hvernig hann kættist og fitnaði. Þrælinn var ekki sloppinn!

Og Winston kallinn í Ameríku verður alltaf ríkari og ríkari. Ég aumari og aumari enda dyggur þræll hans. Markmiðið er auðvitað að halda mér reykjandi þar til að hann kemur mér í gröfina. Kannski að sigarettunum hans takist að kippa undan mér löppunum áður. Huggulegt að rúlla sér áfram í hjólastól með sígarettuna í kjaftinum og kútinn á öxlinni.


Fordómar og forheimska

Magnús, minn ekta maki lenti í heljarinnar debat í vinnunni í gærmorgun þegar ein frúin sem vinnur með honum mátti vart mæla af vandlætingu og hneykslun þegar hún hún lýsti yfir þeirri skelfilegu lífsreynslu sem hún varð fyrir í verslunarleiðangri í Bónus kvöldið áður. Ástæðan varð sú að hún, heiðvirð konan sem átti sér einskis ills von, gekk í flasið á dæmdum morðingja.

Blessuð manneskjan, sem ég þekki reyndar ekki nema af góðu einu, átti þarna við Atla Helgason lögfræðing sem hefur síðust sex ár setið af sér dóm á Litla Hrauni fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana eins og mönnum er vafalaust í fersku minni. Við kaffiborðið sátu fleiri álíka litlar sálir sem tóku undir og fannst það meira en ótækt að heiðvirt fólk gæti átt von á því hitta þennan mann og aðra viðlíka í framtíðinni. Og það í verslunarleiðangri í Bónus!

Þegar Magnús sagði mér frá þessu í kvöld komu mér fordómar vinnufélaga hans ekki á óvart. Ég hef svo oft orðið þess vör hvernig "venjulegt fólk" hugsar; fólk sem telst "réttu megin" í samfélaginu. Hefur gengið áfallalaust í gegnum lífið, vafið inn í bómull. Margir geta ekki með nokkrum móti sett sig í spor þeirra sem lent hafa röngu megin í lífinu.

Ég spyr mig hins vegar, hvernig fólk sem telst þokkalega menntað og hefur jafnvel stundað nám víða um lönd, fer í gegnum virta háskóla án þess að temja sér gagnrýna hugsun, víðsýni og þekkingu á samfélaginu sem það lifir í?

Þess heldur gapir það hvert upp í annað og kokgleypir skoðanir hins án þess svo mikið sem leiða hugann að því að fleiri hliðar kunni að vera á hverju máli. Nei, kristilegu kærleiksblómin spretta ekki á heimilum þessa fólks. 

Fátt gerir mig eins reiða eins og forheimska af þessu tagi. Atli hefur þegar afplánað sex ár af þeim átta sem menn með ævilangan dóm alla jafna sitja af sér. Menn geta varla ætlast til að fangar sem  hafa verið einangraðir frá umheiminum í mörg ár, fái enga aðlögun áður en endanlegri vist þeirra er lokið.  Atli á konu og börn, systkini og móður. Öll hafa þau tekið út sinn dóm, án þess að hafa nokkuð brotið af sér.

Sjálf hef ég hitt Atla Helgason austur á Litla Hrauni þegar ég tók við hann langt viðtal fyrir tveimur eða þremur árum. Auk þess hef ég oft rætt við hann í síma eins og margir fleiri blaðamenn. Hann kemur afskaplega vel fyrir og er elskulegur í alla staði. Áður en hann framdi voðaverknaðinn sem hann var dæmdur fyrir var ég honum málkunnug. Þegar hann var handtekinn á sínum tíma trúði ég ekki að hann hefði orðið manni að bana. Ég sagði það útilokað að hann gæti framið slíkan verknað og taldi lengi vel að hann væri að taka á sig sök. Slík voru kynni mín af honum. Það var ekki fyrr en ég hitti hann sjálfan í fangelsinu að ég trúði að hann hefði verið einn að verki. 

Ég hef tekið viðtöl við fleiri dæmda morðingja sem sitja inni á Litla Hrauni. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Undantekningarlaust hef ég haft mikla samúð með öllu þessu fólki. Ekkert þeirra kaus að lenda í þeim aðstæðum sem urðu til þess að það braut af sér. Það var alkahólismi og ofneysla eiturlyfja sem sljóvgaði dómgreind og heilbrigða hugsun sem vék fyrir þeim dimon sem tók völdin í huga þessa fólks. 

Það vita líklega fáir hvað gerist upp í höfði þeirra sem lengi hafa tekið örvandi efni án þess að hvíla heilann. Hann hættir einfaldlega að funkera eðlilega. Paranojan heltekur fólk og mér hefur verið sagt af þeim sem þekkja slíkt af eigin raun, að gjörðir þeirra stjórnist af því að verja eigið líf.

Þeir sem setja sig í dómarasæti og fordæma þá sem lent hafa röngu megin í lífinu ættu að hugleiða að fordómarnir gætu hitt þá sjálfa fyrir. Allir eiga fjölskyldu og nána ættingja. Enginn getur stjórnað því hvort einhver manni náin lendir í þeim aðstæðum að grípa til örþrifaráða. Hver veit hvað bíður manns við næsta horn?

Atli Helgason var á grænni grein í lífinu. Vinsæll, vel menntaður og þekktur íþróttamaður sem átti framtíðina fyrir sér. Á einu augabragði hrundi allt hans líf og hann er fordæmdur og á allra vörum. En nú er mál að linni. Hann er langt kominn með að afplána sinn dóm og hefur tekið ábyrgð á sínum gjörðum. Nú er komið að því að fyrirgefa.

 

 

 


Morgundreifingin eða -sme?

Hvort það er -sme og breytingin á Blaðinu sem hefur afgerandi áhrif á velgengni Blaðsins í nýrri könnun á dagblaðalestri er ég ekki viss um. Tel það ekki síður vera morgundreifinguna. Í það minnsta er það svo á mínu heimili að Blaðið lenti beint í ruslafötunni þegar ég tók það upp með póstinum við heimkomu á kvöldin.

Nú berast öll blöðin inn um lúguna fyrir klukkan sjö á hverjum morgni heima hjá mér. Oftast byrja ég að að fletta Blaðinu og er fljót að því. Það er svo tilviljun ein hvort ég tek Moggann á undan Fréttablaðinu eða öfugt. Líklega er það þó hvor forsíðan höfðar meira til mín sem stjórnar því.

En hvort sem morgundreifingin eða -sme og Janus sem hafa þessi áhrif er eigi að síður ástæða til að óska þeim feðgum til hamingju með útkomuna. Reyndar eru Blaðið og Fréttablaðið svo áþekk að ég ruglast stundum á þeim. Ætla að lesa Fb. en átta mig svo þá því þegar ég er búin að fletta nokkrum síðum að ég er að lesa Blaðið.

Skýringin á slakri útkomu Moggans tel ég ekki vera breytinguna á blaðinu. Það er eitthvað annað sem þar spilar inn í. Mogginn er svo langum skemmtilegri aflestrar en hann var. Í það minnsta höfðar hann frekar til mín en áður.

Svo má ekki gleyma því að hin blöðin eru fríblöð og berast mönnum hvort sem þeir vilja eða ekki. Moggann þarf að borga og það þarf að hafa fyrir því að taka upp tólið og gerast áskrifandi. Í það minnsta var það mér ofraun lengi vel því ég keypti hann ekki eftir langt hlé fyrr en hringt var í mig og mér boðin hann.


Að bera ábyrgð á orðum sínum

 

Tóta Pönk nefnir í bloggi sínu að hún hafi látið vera að lesa yfir viðtal sem Kolla Bergþórs tók við hana um Þórberg Þórðarson um daginn. Í hennar blaðamennskutíð hafi farið mikið í taugarnar á henni þegar fólk lúslas viðtöl sem tekin voru við það og breytti öllu því það kunni ekki að koma frá sér óbrengluðum setningum. 

Ég held að flestir blaðamenn geti tekið undir þessi orð Þórunnar Hrefnu. Ég get að minnsta kosti gert þau að mínum. Ég lít svo á að viðtal sem ég skrifa eftir einhverri manneskju, túlka í skrifum mínum þau áhrif sem manneskjan hefur á mig og hvernig hún kemur mér fyrir sjónir, sé mitt höfundarverk. Viðmælandi minn á ekki að fá að grufla í mínum texta og slíta allt úr samhengi.

Þetta er leiðinlegur siður og við blaðamenn ættum að afleggja hann eins og við komum honum á. Hér í gamla daga skrifuðu blaðamenn viðtöl og ekki tíðkaðist að þau væru lesin. Ég held að þannig sé það líka víða í útlöndum. Leiðréttið mig þið sem betur vitið ef það er ekki rétt hjá mér.

Þess vegna ætti fólk að gera sér ljóst að það er í viðtali og það sem það segir verður ekki aftur tekið, nema það taki það sérstaklega fram að það sem það segi sé off the record. Það á að bera ábyrgð á orðum sínum því blaðamenn eru ekki komnir til að tjatta bara um daginn og veginn.

Allt annar handleggur er að lesa yfir viðtöl við fólk í síma svo viðkomandi geti leiðrétt staðreyndavillur en ekki efnislega það sem blaðamaður skrifar. Þannig eru siðareglur Fréttablaðsins og DV sem Jónas Kristjánsson samdi, þess eðlis að ekki má senda óbirt viðtöl og fréttir út úr húsi. Á Fréttablaðinu á sínum tíma tókum við þessa reglu mjög alvarlega og fórum eftir henni. Lásum hins vegar yfir viðtöl í síma og það er sko allt önnur Ella því menn gera miklu færri athugasemdir þannig en ef það fær handrit í hendurnar og hefur frjálsar hendur með að grufla í texta. 


Mannlíf rokselst

 

Mannlif-forsida-1006Roksala er í októberhefti Mannlífs en forsíðuna prýðir Þórarinn Tyrfingsson, læknir á Vogi. Viðtalið tók ég og hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma til að vinna það. Lesendur taka vonandi viljann fyrir verkið.

Það gat brugðið til beggja vona með blaðið en það er ekkert gefið í þessum efnum. Aldrei veit maður 100% hvort það efni sem maður býður lesendum hugnast þeim. Þórarinn vekur greinilega forvitni manna.

Það er alltaf léttir þegar þegar ljóst er að fólk vill lesa þau blöð sem maður er búin að streða við að skrifa. Þetta blað fór langt yfir væntingar okkar og skorar hátt í samanburði við önnur blöð ársins. Nú er bara að herða sig á lokasprettinum fyrir nóvemberblaðið og vona að þar veðjum við einnig á réttan hest.


Hveragerði eða Hafnarfjörður?

Það trúa því kannski fáir að svo virðist sem fleiri sæki vinnu austur fyrir fjall heldur en þaðan og á höfuðborgarsvæðið. Þess verð ég vísari þegar ég ek til vinnu frá Hveragerði. Umferðin er mun meiri á móti mér en með mér. Þannig er það líka á kvöldin. Hefði ekki trúað því að óreyndu.

Mönnum finnst það kannski stórmál að aka þessa leið og það fannst mér líka áður en ég flutti austur. Nú skrepp ég hvenær sem ég þarf og mér þykir það ekki meira mál en fara á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það er nefnilega stórmálm ef miðað. er við fjarlægðina. Ég var ekki skemur en 20-25 mínútur þaðan og í Skaftahlíðina á annatíma. Sat því oftast í vinnu þar til eftir klukkan sex á kvöldin til að sleppa við umferðina. Mætti heldur sjaldnast fyrr en eftir níu á morgnanna.

Með þeim tilfæringum komst ég í vinnu á 12- 15 mínútum. Það tekur mig ekki lengri tíma að aka úr Hveragerði á Höfðann. Leit á klukkuna þegar ég fór af stað í morgun og hún var 8:43. þegar ég lagði bílnum fyrir utan Birtíng sýndi hún, 9:06. Samtals 18 mínútur. Einu sinni hef ég farið þetta á 15 mínútum. Fyrir utan það hvað það er afslappandi að aka þessa leið; engin umferð og alltaf á sama hraða.

Óli Palli talaði einmitt um þetta í morgun á RUV. Hann býr í Hafnarfirði og sagðist vera fullsaddur á að aka þessa leið í vinnu. Með hverjum deginum ykist umferðarþunginn. Sú staðreynd vó enda þungt þegar ég ákvað að flytja austur. Ég sá það í hendi minni að ég yrði ekki lengri tíma á leið í vinnu þaðan en úr Firðinum. Hveragerði er rétt eins og Mosfellsveitin var fyrir 10-15 árum.

Það er kominn tími til að þeir sem yfir aurunum ráða fari að gera eitthvað í þessu. Annars verður flótti úr Firðinum. Það á ekki eftir að hugnast Lúlla.


Ekkert slor í Kjöt & Kúnst

Matarverð kemur hins vegar ekki lengur eins mikið við mína buddu. Eftir að ég sleit naflastrenginn á milli mín og dætra minna og flutti burtu frá þeim, þá er létt matarkarfan hjá mér. Magnús borðar í vinnunni í hádeginu og ég líka. Hann sér um innkaupin og kemur tvisvar í viku við í Bónus og kaupir það helsta eins og mjólk, brauð og álegg. Tvisvar þrisvar í viku kaupum við tilbúinn mat í Kjöt & Kúnst hér í Hveragerði. Það er sko ekkert slor sem kokkurinn þar býður manni upp á. Besti matur sem ég bragða.

Í Kjöt & Kúnst er á boðstólum 5-6 réttað á hverjum degi. Og það er eðal matur, ekkert gamalt hráefni eða sparað þar til að draga úr gæðum. 1 flokks matur sem kostar fyrir okkur bæði 15-1800 í hver skipti. Um helgar förum við svo saman að versla og ég reyni að leika húsmóður og elda eins og manneskja. En það gæti ég svarið að ef Kjöt & Kúnst væri opið um helgar, þá myndi ég sannarlega einnig vera í fæði þar.

Þar er aðeins boðið upp á heimilismat; lambalkæri með ekta bearnessósu, svínahrygg með puru, hakkað buff með lauk og eggi, og það er ekkert brasað og hart í löðrandi í fitu. Nei, það er alvöru nautakjöt. Steiktur fiskur, fiskbollur og lærisneiðar með raspi. Meðlætið er ótrúlega gott, gulrætur mátulega soðnar og skornar í kúlur þar sem ekki svo mikið sem ögn af skrælningi fylgir með. Ævintýralega gott tómatasallat og í gær fékk ég heimalagað remúlaði með fiskinum - ekki ættað frá "Gunnars" enda bragðaðist það vel.

Vikan hjá okkur gerir því kannski 8-12 þúsund í mat og trúið mér, ég er ekki nísk í matrakaupum. Og því síður Magnús. Áður fór helmingurinn af öllu sem keypt var inn í ruslatunnuna þegar líða tók að næstu helgi. Fyrir utan sparnaðinn, þá er það náttúrulega yndislegt að þurfa ekki að elda á kvöldin; nema stundum. Svo ekki sé minnst á þægindin af því að geta bara sest niður og borðað betri mat en ég elda sjálf. Það skal tekið fram að maturinn í Kúnst líkist ekki þeim mat sem ég hef stundum gripið með mér heim úr Nóatúni eða matborðum úr viðlíka verslunum. Ó, nei.

Þeir þekkja það sumarbústaðaeigendu á Suðurlandi hve gott er að koma við í Hveragerði á leið í bústaðinn og kaupa mat í þessari eðalverslun eða matsölustað, því þar er einnig hægt að setjast niður og borða. Ég tek hins vegar matinn með heim.

 


Trúi ekki fyrr en ég tek á

Trúir einhver í fullri alvöru að matarverð muni lækka til framtíðar? Ekki ég! Svo gömul er ég í hettunni að ég þekki það af reynslu að svona lækkun skilar sér ekki til okkar. Ekki það, ég efast ekki um að í fyrstu þá fara færri krónur úr buddunni. En eftir svona einn tvo mánuði þegar umræðan um lækunina fjarar út, þá verða kaupmenn búnir að setja nýja verðmiða á sínar vörur.

Þannig hefur það verið með svipaðar aðgerðir svo lengi sem ég man. Og ég man nokkuð langt. Kaupmenn hafa verið fljótir að lækka undir svipuðum kringumstæðum. Þegar fjölmiðlar þagna og menn farnir að gleyma verður allt eins og áður var.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband