20.11.2006 | 01:37
Að forða sér með skottið á milli lappanna
Ég velti fyrir mér viðbrögðum Valdimars L. Friðrikssonar við stórtapi hans í prófkjöri Samfylkingarinnar. Hans svar er að segja sig úr flokknum. Það hlýtur að vera einhver önnur ástæða fyrir furðulegum viðbrögðum hans en að hann kunni ekki að tapa.
Mér hefur alltaf fundist tapsárir menn, litlir menn. Í mínum huga er það skortur á þroska að geta ekki sætt sig við tap. Nú þekki ég ekki þennan mann nokkuð skapaðan hlut, veit ekki hver uppruni hans er eða hvað hann hefur afrekað og hverju klúðrað. En svo mikið er víst að hann kynnir sig ekki þannig að hægt sé að bera virðingu fyrir honum.
Það er sárt að tapa. Ég þekki það sjálf og get vel sett mig í spor mannsins. Að upplifa sig lúser innan hópsins er alveg skelfilega erfitt. Efst er manni í huga að taka á sprett og forða sér á brott. Fæstir láta það eftir sér, heldur þrauka. Valdimar kýs að forða sér með skottið á milli lappanna. Því velti ég fyrir mér hvort úrsögn hans úr flokknum fyrri hann þeirri ábyrgð mæta í í vinnuna það sem eftir lifir vetrar? Þarf hann ekki að gera neinum skil á sínum mætingum og sinni vinnu? Getur hann bara farið í felur og þarf ekki lengur að horfast í augu við samþingmenn sína sem HANN telur að líti hann vorkunnaraugum og telji hann allgjöran lúser?
---------------------------------------------------------
Viðbrögð Árna Johnsen eru svipuð við umræðunni um heiðarleika hans. Hann á erfitt með viðurkenna að hann hafi gert mistök. Ég held að viðbrögð hans stjórnist ekki af siðblindu, heldur af misskildu stolti og skömm. Ég get líka sett mig í spor hans en mikið óskaplega er það vanhugsað að koma fram eins og hann gerir. Maðurinn ræður greinilega ekki við tilfinningar sínar og lætur þær hlaupa með sig í gönur.
...segir forvitna blaðakonan sem er farin að sálgreina menn. En svona er að vera hokin af reynslu og þroska.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2006 | 11:46
Lárétt og hreyfingalaus í átta sundir
Ég þurfti að nýta mér þá heilbrigðisþjónustu sem okkur stendur til boða í vikunni. Mætti kvöldið fyrir aðgerð inn á sjúkrahús og svaf eina nótt. Morgunin eftir fór ég í rannsókn sem leiddi í ljós að ég þarf að fara aftur í næstu viku í aðgerð.
Um mig var vel hugsað og ég held að ég hafi fengið bestu mögulega hjúkrun þar sem ég lá á bakinu með farg yfir mjöðmum og mátti mig ekki hræra í átta klukkustundir. Það trúir því enginn hve það getur verið erfitt að liggja þannig. Ég reyndi að sofa en það var lítill friður. Í hver sinn sem ég var að festa svefn kom einhver inn og athugaði eitthvað. Mældi blóðþrýsting, fiktaði eitthvað í vökvanum sem ég fékk í æð eða kannaði líðan mína.
Ég gat ekki lesið því ég mátti ekki reisa mig upp og því síður gat ég skrifað viðtalið sem ég ætlaði að skrifa þennan dag í rúminu. Mér var hugsað til þess hve lánsamir þeir eru sem hafa heilsuna í lagi. Hvað ef ég hefði veikst eða slasast þannig að ég gæti mig ekki hreyft? Sumir liggja þannig árum saman en ég var í nokkrar klukkustundir hreyfingalaus og vældi samt.
Ég þurfti ekkert að borga fyrir þjónustuna og var auðvitað ánægð með það. Einhver annar sem þyrfti í svipaða rannsókn og væri hjá lækni sem hefði aðstöðu utan sjúkrahúss til að gera hana, þyrfti hins vegar að borga tugir þúsunda. Ég hef aldrei skilið þetta kerfi. Það er semsagt lotterí að vera hjá lækni sem getur lagt mann inn á meðan rannsókn fer fram. Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2006 | 09:21
Íslendingar eru skrýtnar skepnur
Ellert Schram er úti í kuldanum og komst ekki á blað. Guðrún Ögmundsdóttir líka. Bæði höfðuðu til minnihlutahópa í samfélaginu sem fæstir þingmenn hafa áhuga eða nennu til að berjast fyrir. Jú vissulega tala ráðherrar fallega um gamla fólkið á tyllidögum og lofa hjúkrunarheimilum, hækkun á ellilífeyri og sitthvað fleira til að þagga niður í Ólafi Ólafssyni. Eldri borgar skipta hvort eð er ekki máli. Það kann að styttast í að þeir fari að berja nestið sitt. Og þá eru þeir sem þiggja loforðin að minnsta kosti úr sögunni.
Guðrún Ögmunds hefur barist af krafti fyrir réttindum samkynhneigða. Hommar og lesbíur sem gengu í hjónaband í kirkju eins og annað fólk á árinu eða ættleiddu börn, fjölmenntu víst ekki í prófkjör Samfylkingarinnar í gær og merktu við Guðrúnu. Nei, það var engin þörf á því, þeirra réttindi eru í höfn.
Eldir borgarar hafa vísast ekki heldur séð ástæðu til að greiða Ellert Schram atkvæði sitt í þessu prófkjöri. Þeir hafa líklega kosið Ingibjörgu eða Össur og síðan hafa flotið með nöfn sem þeir þekktu.
Ég átta mig ekki á hvers vegna Samtök eldri borgarar sem talað hafa um að fara sjálfir fram ef engin breyting verði á þeirra kjörum, nýttu ekki þetta tækifæri. Hvers vegna tryggði þessi hópur ekki Ellert setu á lista þannig að hann væri öruggur inn á þing. Með því hefði þessi hópur átt talsmann á þingi sem hefði getað haft áhrif og talað
Nei, þeir þegja núna. Það heyrðist ekki múkk í Ólafi Ólafssyni þar sem hann brýndi sitt fólk til að kjósa fulltrúa þeirra á þing. Alveg finnst mér það furðulegt hvað borgarar þessa lands eru fastir í hjólförunum þegar prófkjör og kosningar eru annars vegar. Konur kjósa karla, þeir eldri þá yngri, öryrkjar þá hraustu og hommar og lessur kjósa... ja, ekki veit ég það. Í það minnsta kusu þeir ekki þann sem barist hafði hvað harðast fyrir rétti þeirra. Kannski þeir hafi bara kosið þá fordómafyllstu. Já, manskepnan er skýtin hér á norðurhveli jarðar.
----------------------------- ------------------------------
Fleir bera afhroð í prófkjörum helgarinnar. Drífa Hjartardóttir sem sannarlega hefur staðið fyrir sínu, hörkudugleg og klár kona, afkastamikil og kraftmikill talsmaður kvenna. Þær stóðu ekki með henni konurnar í kjördæminu, en völdu Unni Brá nágranna Drífu, unga konu og efnilega og Kjartan Ólafsson sem menn eru ekki á eitt sáttir umhvort nýtist Sunnlendingum á þingi.
Ég átti satt að segja ekki von á að Árni Matt riði feitum hesti frá þessu prófkjöri hér á Suðurlandi. Hann mátti þakka fyrir að ná fyrsta sætinu og það er alveg deginum ljósara eð Árni Johnsen hefði haft hann ef Guðjón HJörleifsson hefði ekki skipt atkvæðum með Vestmannaeyjajarlinum . En hann rétt hefur fyrsta sætið en ekki á trúverðurgan hátt. Meira en helmingur þátttakenda í prófkjörinu hafnar honum. Það er varla sterkt fyrir dýralækninn að leiða listann með svo slakst fylgi.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.11.2006 | 02:10
Skúra, skrúbba og bóna
Þetta er nú bara létt grín en það er svo merkilegt með mig að þegar ég verið öskrandi bálreið, þá rík ég af stað eins og bavíani og hamast við að þrífa hátt og lágt, þvo allt sem ég kemst yfir. Skrúbba, skúra og bóna og enda með tannstöngul og gamlan tannbursta upp um alla veggi og út í öll horn. Get svo ekki hætt og geng alltaf lengra og lengra.Ef reiðin rennur ekki af mér fljótlega get ég átt til að fara af stað með húsgöngin og renna með þau um allt hús á fjórum ullarsokkum.
Nú hef ég hamast síðan um kvöldmat og búin að breyta stofunni. Árangurinn má sjá hér á skelfilegum myndum sem ég tók með símanum því myndavélin mín er enn biluð. Skapið orðið gott og ég gæti alveg hugsað mér að fara að tala aftur, en hef auðvitað engan til að tala við núna. En mikið svakaleg orka leysist úr læðingi þar sem reiðin er annars vegar. Og svo er bara að bíða eftir þeim hjá Innlit útlit, Veggfóðri eða hvað þeir nú heita allir þessir þættir. Vona bara að Gautinn komi ekki með Ásgeir Kolbeins með sér og þeir segi hvor í kapp við annan, ojbara ógeðslegt, hræðilegt.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 08:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2006 | 13:01
Vondar fréttir um þáttagerð á Stöð 2
Mér þykja það vondar fréttir ef sannar eru, að til standi að laugardagsþáttur um stjórnmál sem verið er að undirbúa, verði í umsjá Össurar, Guðfinnu Bjarna og Björns Inga. Skil ekki hvað hugsun er að baki þegar í stéttinni eru fjölmargir góðir fréttamenn hvort sem er af ljósvakamiðlum eða fréttamenn af dagblöðum, sem létt færu létt með að stjórna svona þætti.
Hvers vegna er líka verið að hampa stjórnmálamönnum sem fyrir vikið eru meira í umræðunni en kollegar þeirra nú rétt fyrir kosningar. Veit ekki betur en þeir sjónvarpsmenn sem í gegnum árin hafa vent sínu kvæði í kross og hafa farið í framboð, hætti störfum löngu áður en þeir annars þyrftu þess; aðeins vegna þess að með því að vera alltaf á skjánum ná þeir ákveðnu forskoti á hina. Það hefur ekki þótt siðlegt fram að þessu. Hvers vegna þykir þetta þá hið besta mál núna?
Það er ekki eins og Stöð 2 þurfi að leita langt að góðum stjórnendum að þætti sem þessum. Veit ekki betur en að innanborðs hjá þeim séu bæði þær Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sólveig Bergman. Báðar fantagóðar fréttakonur. Það hefði staðið þeim nær að þær fengju svona þátt til umsjónar fremur en menn sem eru í fullri vinnu annarsstaðar.
Allt annað mál væri ef í svona þætti væri gestastjórnandi í hverjum þætt og þá gætu þeir Össur, Guðfinna og Bingi verið fín til þess brúks. Hvað myndu menn segja ef Róbert Marshall færi að vinna fyrir Stöð 2 núna og fram að kosningum?
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2006 | 00:12
Er fólk fífl?
Umræður um um meint kosningabrað Frjálslyndaflokksins, finnst mér hafa farið langt út fyrir þau mörk sem Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson raunverulega fóru af stað með fyrir og um síðustu helgi. Mál sem er ekki annað en stormur í vatnsglasi. Viðbrögð þingmanna í öðrum flokkum eru helst til of harkaleg enda ætla allir að slá sig til riddara með stefnu sinni í þessum málum og græða á þessari umræðu. Hampa sér af víðsýni og fordómalaeysi í málefnum innflytjenda. Og þessi umræða er ekki lengi að skila sér eins og sjá má í skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna.
Ótrúlegt en satt, margfalt fleiri en áður sögðust styðja Frjálslynda flokkinn, styðja hann nú. Sýnir aðeins hve skammt menn hugsa ef þetta tiltekna mál ræður útslitum um hverja menn styðja í kosningum til Alþingis Íslendinga. Burtséð frá öðrum stefnumálum flokksins. Mönnum er greinilega gjarnt að gleyma því sem raunverulega skiptir máli í stjórnmálum.
Því segir ég nú ekki annað en Tómas Möller skrifaði forðum daga í frægum tölvupósti: "Fólk er fífl! Já, hrein og klár fífl ef þetta mál er tengt mikilvægasta vandi þessarar þjóðar í nánustu framtíð.
Vissulega er hægt að taka undir ýmislegt sem fram hefur komið í málflutningi þeirra frjálslyndu og ekki síður er hægt að vera sammála þeim sem gagnrýna þeirra málflutning hvað mest. Veröldin er nefnilega ekki bara svört og hvít.
Ég skil mæta vel hvað það er sem Frjálslyndir eru að vara við og finnst að málefni innflytjenda sé rædd af skynsemi og á málefnalegum grunni. Að við séum vakandi fyrir hver þróunin verði í framtíðinni ef ekki er vel staðið að málum frá upphafi.
Og ég er ekki að tala um að menn af útlendu bergi brotni séu ekki velkomnir til landsins. Það þarf hins vegar að undirbúa komu þessa fólks og læra af nágrannaþjóðum okkar sem eitt sinn stóðu frammi fyrir því sama. Til að mynda megum við spyrja okkur hvað Danir gerðu rangt eða hvað Svíar gerðu rétt? Hvernig var þetta í Þýskalandi, Frakkland og öðrum Evrópulöndum? Þau voru langt á undan okkur að taka við vinnuafli frá vanþróaðari löndum.
Því segi ég að menn ættu að staldra við og ræða þetta af skynsemi. Ekki úthrópa menn kynþáttahatara þó þeir vilji ræða þessi mál. Ég er hlynnt því að hér sé fjölmenningalegt samfélag og er þess full viss að við getum mikið og margt lært af þessu fólki sem hér sest að. Ef við vinnum þetta af alúð og leggjum okkur fram við undirbúa komu útlendinga í atvinnuleit til landsins. Veitum fé til þeirra stofnanna og samtaka sem hafa það á sínum herðum að taka á móti og skipuleggja vaxandi straum þeirra sem hér vilja setjast að. Ef vandað er til frá byrjun verður það ekki til annars en auðga okkar menningu. Það er nefnilega mergurinn málsins að gera þetta vel. Og til þess þurfa að fara fram umræður og vilji til að læra af mistökum annarra.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2006 | 16:31
Reynir að fara á taugum
Ég held að vinur minn Reynir Traustason sé að fara á taugum ef marka má það sem haft er eftir honum í fjölmiðlum þessa dagana. Blaðið er uppselt þrátt fyrir skæruliðasveitir Fróða. Þeir keyra milli verslana og henda blaðinu okkar til hliðar en við tökum þessu sem hverju öðru hundsbiti og lögum jafnóðum til eftir þá, segir Reynir í samtali við Fréttablaðið og tekur dæmi af blaðabunka í innkaupakerru í einhverri verslun þar sem blað hans Ísafold er til sölu. Ég segi nú ekki margt; hefur Reyni ekki dottið í hug að eðlileg skýring geti legið á bak við blaðahrúgu í innkaupakerru?
Reynir á að þekkja Mikka betur en svo að hann haldi að hann standi í svona skæruhernaði. Svo mikið veit ég að það er ekki líkt Mikka að berja á þennan hátt á samkeppnisaðilanum. Og það veit Reynir líka. Ég finn ekki aðra skýringu en að hann sé nervös og vilji hafa á takteinum skýringu ef blað hans selst ekki nógu vel.
Ég frétti líka af honum í viðtali sem ég heyrði ekki á einhverjum ljósvakamiðlinum. Þar talaði hann eina ferðina enn um meinta stjórnsemi Mikka. Við Reynir höfum bæði unnið undir stjórn Mikka og vitum hvernig hann er. Hann er aktívur og kraftmikill og tekur starf sitt alvarlega. Hann er aðalritstjóri Birtíngs og vinnur samkvæmt því eins og ætlast er til af honum. Hann var að sama skapi ritstjóri DV og bar það nafn með rentu, rétt eins og alvöru ritsjórar eiga að gera.
Ég átta mig því ekki hvað Reynir er alltaf að fara. Eru ritstjórar ekki til þess að stjórna og eiga síðasta orðið um hvað fer inn í blöð og hvað fer ekki inn í þau ef einhver vafi leikur á því? Að öðru leyti kannast ég ekki við að Mikki sé að blanda sér í vinnu blaðamanna, ritstjóra eða fréttastjóra og mín reynsla er að hann treysti sínu fólki betur en margur annar sem yfir mér hefur trjónað um dagana.
Blaðið hans Reynis er alveg prýðilegt og stendur fullkomlega undir því eitt og sér. Reynir þarf ekki að hnýta í samkeppnisaðilann til að afla sér samúðar ... eða hvað svo sem hann er að reyna með ummælum sínum um Mikka.
Sjálfur er Reynir einn allra klárasti blaðamaður sem ég hef unnið með og alveg unun að vinna með honum Það stendur honum enginn snúninginn þegar þefur af fréttum er annars vegar. Svo er hann frjór og skemmtilegur með mikinn húmor sem hann notar óspart á allt og alla í kringum sig. "Haltu þér þar áfram Reynir og láttu af svona leiðindum!"
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2006 | 23:43
Ég á hvergi heima í kosningum
Ég fór út í úrhellinu í dag til að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar hér á Suðurlandi. En mitt nafn fannst hvergi á skrá. Það þótti mér slæmt því ég vildi sannarlega hafa áhrif á hverjir veldust á lista flokksins fyrir Alþingiskosningar. Ekki veit ég hvers vegna ég var ekki á skrá en það eru örugglega tveir mánuðir síðan ég tilkynnti aðsetursskipti. Eitthvað hefur þar misfarist og skýrir allar hringingarnar, sms boðin og tölvupóstinn sem ég hef fengið frá frambjóðendum í Kraganum síðustu daga. Ég skildi samt eftir atkvæði mitt í tveimur umslögum ef ske kynni að nafn mitt dúkkaði einhverstaðar upp þegar betur væri að gáð.
En ég hef hins vegar enga skýringu á hvar eða hvernig frambjóðendur hafa haft upp á farsímasímanúmeri mínu sem skráð er á 365 miðla. Og enn enn síður veit ég hvernig þeir hafa fundið netfangið mitt hjá Birtíngi, einkum þar sem ég hef nýlega skipt um vinnustað. En kannski er maður sýnilegri en maður heldur. Já, og maður þekkir mann sem þekkir annan sem þekkir mig. Líklega er því þannig háttað.
Annars er ótrúlegt hve frambjóðendur og starfsmenn stjórnmálaflokka eru seigir við að elta mann uppi. Framsóknarmenn eru þar fremstir meðal jafningja en þeir eru fljótir að átta sig á að nýr sauður hafi bæst í hjörðina í kjördæminu.
Annars hef ég aldrei gengið í annan stjórnmálaflokk sjálfviljug með fullri rænu, nema Samfylkinguna. Hins vegar hef ég verið í Framsóknarflokknum allt frá því ég man eftir mér. Það skýrist af því að mitt fólk var mikið framsóknarfólk. Amma mín heitin var þar framarlega í flokki og heima hjá henni á Laugaveginum voru haldnir sellufundir þar sem makkað var um málin. Hún var aldrei í fararbroddi en mikill baktjaldamakkari. Það hef ég víða lesið og eldri framsóknarmenn hafa upplýst mig um þá gömlu. Ég hef aldrei tapað á því að vera kennd við hana blessaða þegar ég hef verið spurð hverra manna ég væri á lífsleiðinni.
En oft hef ég reynt að skrá mig úr flokknum en ekki gengið. Hef reyndar ekki reynt það síðustu árin enda vita tilgangslaust því nafn mitt hreinlega strokast ekki út úr flokksskrá þeirra. Sætti mig vel við að fá jólakort frá Sif og Húnboga og fundarboð frá Landsambandi framsóknarkvenna. Hef aldrei mætt á þá fundi nema starfs mín vegna. Það breytir engu, þeir eru hollir sínu fólki framsóknarmenn þó engin fái þeir félagsgjöldin.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 5.11.2006 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2006 | 00:11
Ólína segir söguna alla í nýju Mannlífi
Auk stjúpdætra forsetans sem eru í býsna skemmtilegu viðtali við Kristján Þorvaldsson er ítarlegt viðtal við Ólínu Þorvarðardóttur sem ég skrifaði. Þar segir hún frá því sem raunverulega kom af stað þeim átökum sem urðu til þess að hún sagði starfi sínu við Menntaskólann lausu. Í viðtalinu er Ólína hreinskilin og málefnaleg og gangrýnir bæði Félag framhaldskólakennara og menntamálaráðuneytið harkalega. Frásögn hennar af því sem gerðist er studd rökum en ekki byggð á óstaðfestum sleggjudómum. Að því leyti er gaman að lesa þetta viðtal en Ólína skefur ekki utan af hlutunum fremur en endranær og kallar hlutina sínum réttu nöfnum.
Rétt er að leiðrétta það sem fram kemur í forsíðutilvitnun, en þar segir að Ólína hafi fengið hjartaáfall en það fékk hún ekki. Hún veiktist hins vegar illa í tvígang af svokallaðri hjartaöng sem er þess eðlis að kransæðarnar kreppast saman og blóð nær ekki að renna til hjartans, rétt eins og þegar þær stíflast. Hún vill lítið gera úr veikindum sínum sem ég hef þó heimildir fyrir að hafi verið býsna alvarleg. Auk þess léttist hún mikið meðan á þessum hamagangi stóð og víst er að fjölmiðlaumræða og ástandið í skólanum gekk mjög nærri henni.
Þegar Ólína er spurð hvernig lætin hafi byrjaða svarar hún:
Sérhagsmunagæsla og pólitísk afskipti eru eitruð blanda. Eftir nokkra umhugsun heldur hún áfram: Breytingar eru alltaf erfiðar, jafnvel þótt þær séu til batnaðar. Þær eru sérstaklega erfiðar þeim sem þær beinast að ég tala nú ekki um ef þeir sem fyrir verða treysta sér ekki til að rísa undir nýjum kröfum. Ef starfsmaður hefur lengi komist upp með það að mæta ekki tvo til þrjá daga í viku en þarf svo skyndilega að standa undir kröfum um verkskil og viðveru segir sig sjálft að honum líður ekki vel. Sama má segja um kennara sem hefur lengi komist upp með að kasta til höndum. Fólki sem lengi hefur farið sínu fram líður ekki vel þegar gerðar eru til þess kröfur um ný vinnubrögð. Það er fátt erfiðara en að breyta sjálfum sér ég tala nú ekki um ef fólk þarf að viðurkenna vangetu sína eða að vinnubrögðum sé ábótavant. Þeir sem töldu hag sínum ógnað vegna nýrrar stjórnunarstefnu skólameistara áttu ættingja og vini í starfsliðinu sem drógu taum þeirra í hverju sem var. Þannig byrjaði samblásturinn gegn mér og atburðarásin vatt upp á sig.
Ólína talar einnig um hinn þögla meirihluta sem stóð hjá og vildi ekki láta blanda sér í máilin:
"Stærsti hluti starfsmanna var þó hinn þögli meirihluti sem fylgdist aðgerðalaus með framvindu málsins og beið átekta. Ólína segir það stundum hafa reynst sér erfitt að horfa upp á aðgerðarleysi hins svokallaða hlutlausa hóps, því hann hafi í reynd ráðið mestu um það hvernig fór. Þetta er hópurinn sem ímyndar sér að hann beri enga ábyrgð af því að hann aðhefst ekkert. En í raun og veru er því öfugt farið. Hópurinn sem horfir á ofbeldi framið án þess að lyfta litlafingri til þess að stilla til friðar eða kalla til aðstoð er samsekur. Þannig er það í öllum eineltismálum að stærsti gerandinn er hópur hinna meðvirku einstaklinga sem hafa sig ekki í frammi. Í þessu máli hefðu ýmsir getað lagt gott til mála sem gerðu það ekki. Því verður líklega erfiðast að kyngja svona eftir á að hyggja.
Síðar í viðtalinu sakar hún embættismenn í menntamálaráðuneytinu um býsna alvarleg brot gegn sér og eru um að ræða hreint ótrúleg vinnubrögð að hálfu menntamálaráðuneytisins. Það var nú einu sinni ráðherra þessa sama ráðuneytis sem skipaði hana í embætti. En orðrétt segir hún:
Þetta urðu einfaldlega nornaveiðar, byggðar á sömu aðferðafræði og tíðkaðist í galdramálum 17. aldar heldur hún áfram. Ég hef í höndum gögn sem sanna það að ákveðnir embættismenn í menntamálaráðuneytinu fóru á bak við mig, leyndu mig upplýsingum sem hefðu getað breytt framvindunni mér í hag. Mánuðum saman stóð ég í ströggli við að fá afhent gögn sem ráðuneytið hafði undir höndum og því bar að láta mig fá um leið og þau bárust því. Hefði ráðuneytið staðið rétt að málum hefði það án efa breytt framvindu málsins. Svo virðist sem fjölmiðlar hafi átt geiðari aðgang að þessum upplýsingum en ég, einhverra hluta vegna. Oft fékk ég fyrstu vitneskju um tilvist gagna og innihald þeirra í gegnum fjölmiðla sem ég hefði átt að hafa frá ráðuneytinu. Þessi framkoma ráðuneytisins var með öllu óviðunandi og ekki í neinu samræmi við eðlilega stjórnsýsluhætti."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 01:35
Þrjár lóðatíkur og graðir rakkar!
Heimili mitt hefur verið umsetið síðustu daga. Frá því á föstudag hafa þrír sperrtir og þolinmóðir rakkar meira eða minna setið um húsið. Inni eru þrjár tíkur sem allar eru að lóða á sama tíma. Þær vita af þeim úti og rjúka upp um miðjar nætur og heimta að fara út. Fyrir utan óþægindin af þessu umsátri er merkilegt að fylgjast með hvernig náttúran í málleysingjunum brýst út.
Einn þessara höfðingja er sýnu þolinmóðastur, eða líklega er það eitthvað annað en þolinmæði þar á ferð. Hann hefur vomað í kringum húsið og í hvert sinn sem ég hleypi dömunum út í garð kemur hann eins og eldibrandur. Þær dilla skottum og kjá í kauða og síðan sér maður hvernig skottið leggst til hliðar. Tilbúnar í hvað sem er. Ræfillinn getur ekkert gert þar sem girðingin kemur í veg fyrir nánara samneyti. Þá leggst hann niður á lappirnar og ýlfrar. Og mikið sem ég vorkenni karlræflinum.
Ég hef verið hálf óstyrk og ekki þorað að hleypa tíkunum út nema vera með þeim í garðinum af ótta við að hann finni sér leið inn í garðinn. Og viti menn, í kvöld var hann kominn inna á pallinn hjá mér. Ég prísaði mig sæla fyrir að sjá hann í tíma, því ég hefði allt eins getað opnað og þær hlaupið út og það er of seint að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í. Svona reynsluboltar eru ekki lengi að skella sér á bak; og allt fast.
Í ljós kom að hann hafði grafið sig undir girðinguna. Já, í sex stiga frosti tókst honum klóra freðna jörðina þannig að hann gæti smogið undir. Hann var hundslegur þegar ég vísaði honum út. Í kvöld kom annar; frekur djöfull sem hrakti þann þolinmóða á braut. Sá er svo ágengur að hann hamast á bréfalúgunni með tilheyrandi hamagangi sem setur allt í uppnám innandyra.
En um það get ég vitnað að það er ekki það sama, lóðatík og graður rakki. Það get ég svarið að dömurnar mínar sækjast ekki eftir þessum "unaði" eins þeir. Fjarri lagi, þær sofa hinar rólegustu en eðlilega eru þær spenntar þegar allt morar af félagskap í kringum húsið.
Það er nefnilega eftir öllu öðru í málinu, orðið lóðatík. Fyrir utan upphaflegu merkingu orðsins er það eins og allir vita viðhaft um lauslátar konur sem ekki njóta mikillar virðingar. En ég þekki ekki orð sem rakið er til rakka sem lætur sig hafa það að hoka úti í fimm daga og fimm nætur, matarlaus og vatnslaus í þeirri von að komast á tík.
Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að því að finna að neikvæð og niðurlægjandi orð um konur. Um þá er ekki til sambærilegt orð. En þetta eru svo sem engin ný vísindi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)