Ég á hvergi heima í kosningum

samfylking

Ég fór út í úrhellinu í dag til að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar hér á Suðurlandi. En mitt nafn fannst hvergi á skrá. Það þótti mér slæmt því ég vildi sannarlega hafa áhrif á hverjir veldust á lista flokksins fyrir Alþingiskosningar. Ekki veit ég hvers vegna ég var ekki á skrá en það eru örugglega tveir mánuðir síðan ég tilkynnti aðsetursskipti. Eitthvað hefur þar misfarist og skýrir allar hringingarnar, sms boðin og tölvupóstinn sem ég hef fengið frá frambjóðendum í Kraganum síðustu daga. Ég skildi samt eftir atkvæði mitt í tveimur umslögum ef ske kynni að nafn mitt dúkkaði einhverstaðar upp þegar betur væri að gáð.

En ég hef hins vegar enga skýringu á hvar eða hvernig frambjóðendur hafa haft upp á farsímasímanúmeri mínu sem skráð er á 365 miðla. Og enn enn síður veit ég hvernig þeir hafa fundið netfangið mitt hjá Birtíngi, einkum þar sem ég hef nýlega skipt um vinnustað. En kannski er maður sýnilegri en maður heldur. Já, og maður þekkir mann sem þekkir annan sem þekkir mig. Líklega er því þannig háttað.

Annars er ótrúlegt hve frambjóðendur og starfsmenn stjórnmálaflokka eru seigir við að elta mann uppi. Framsóknarmenn eru þar fremstir meðal jafningja en þeir eru fljótir að átta sig á að nýr sauður hafi bæst í hjörðina í kjördæminu.

Annars hef ég aldrei gengið í annan stjórnmálaflokk sjálfviljug með fullri rænu, nema Samfylkinguna. Hins vegar hef ég verið í Framsóknarflokknum allt frá því ég man eftir mér. Það skýrist af því að mitt fólk var mikið framsóknarfólk. Amma mín heitin var þar framarlega í flokki og heima hjá henni á Laugaveginum voru haldnir sellufundir þar sem makkað var um málin. Hún var aldrei í fararbroddi en mikill baktjaldamakkari. Það hef ég víða lesið og eldri framsóknarmenn hafa upplýst mig um þá gömlu. Ég hef aldrei tapað á því að vera kennd við hana blessaða þegar ég hef verið spurð hverra manna ég væri á lífsleiðinni.

En oft hef ég reynt að skrá mig úr flokknum en ekki gengið. Hef reyndar ekki reynt það síðustu árin enda vita tilgangslaust því nafn mitt hreinlega strokast ekki út úr flokksskrá þeirra. Sætti mig vel við að fá jólakort frá Sif og Húnboga og fundarboð frá Landsambandi framsóknarkvenna. Hef aldrei mætt á þá fundi nema starfs mín vegna. Það breytir engu, þeir eru hollir sínu fólki framsóknarmenn þó engin fái þeir félagsgjöldin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband