2.12.2006 | 00:13
Fjöldamet á tveimur dögum - punktur.
Vikan sem er að líða er er sú fjölsóttasta frá upphafi inn á síðuna mína; nema einhver mistök hafi átt sér stað. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar heimsóknir skiptu hundruðum einn daginn og ekkert lát var á þeim daginn eftir. Mér datt strax í hug að einhver ofurbloggari hafi tengt inn á síðuna mína eða hefði fjallaði um eitthvað sem snerti bloggið mitt.
En ég er engu nær og hef ekki frétt eða rekið mig á neitt sem skýrt getur allar þessar heimsóknir á tveimur dögum. EN þrátt fyrir tíðar heimsóknir virðast kommentum ekki ætla að fjölga hjá mér. Ósköp hvað menn eru misjafnlega duglegir við það. Meira að segja mínir bestu vinir og félagar sem segjast lesa bloggið mitt, sjá ekki ástæðu til að skiptast á skoðunum við mig.
Spyr ykkur því sem jafnan eru með sprungin kommentkerfi, hvað þarf til? Hvers vegna eru sumir að drukkna í kommentum á meðan aðrir virðast ekki hreyfa við neinum. Það er svo dapurt að vera að skrifa eitthvað sem maður vonast til að einhver þarna úti hafi skoðun á og síðan er ljóst að enginn, já, ENGINN hefur nokkurn áhuga á að taka undir með manni.
Svo upplifir maður bara að þetta sé allt svo ómerkilegt sem maður er að berja saman. Hvað veit maður? En ég tóri áfram og held áfram á meðan ég hef gaman af þessu og bíð í voninni.
28.11.2006 | 22:48
Gummi Steingríms veit hvað hann syngur
Gummi Steingríms kemst greinilega að sömu niðurstöðu og ég, eftir að hafa hlustað á klapp Framsóknarmanna á miðstjórnarfundi þeirra þegar Jón talaði um Íraksstríðið að gjörðir Halldórs hafi verið misstök. Ég er þá ekki ein um að spyrja spurninga á þennan veg, þó engin fái ég viðbrögðin við spurningum mínum frá þeim sem geta svarað.
28.11.2006 | 00:43
Mistök Fréttablaðsins og Hugrún
Ég er sammála Pétri Gunnarssyni um frétt Fréttablaðsins í morgun, þar sem rætt var við Dofra Hermannsson. Rak í rogastans þegar ég las þetta. En ég er ekki sammála honum um að Hugrún hafi vísvitandi unnið þessa frétt í annarlegum tilgangi eða misnotað aðstöðu sína í pólitískum tilgangi. Ég er heldur ekki sammála um að ábyrgðin sé hennar.
Ég þekki Hugrúnu ekki nema af góðu einu. Hún er dugleg fréttakona og heiðarleg. En hún hefur ekki langa reynslu, raunar mjög skamma, hefur aðeins verið í blaðamennsku í eitt og hálft ár. Því lít ég svo á að ábyrgðin sé fyrst og fremst fréttastjóranna eða vaktstjóranna sem eiga að leiðbeina fólki. Þeir eiga líka að fara yfir fréttir og senda þær til baka með athugasemdum ef þær eru ekki í lagi.
Ef sá sem var á vakt hefði unnið vinnuna sína, hefði fréttin ekki farið svona í gegn. Nú nema fréttastjóri hafi óskað sérstaklega eftir vinnslu fréttarinnar á þennan hátt. Sé ekki fyrir mér að þau Trausti, Sigga eða Arndís vinni þannig.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2006 | 00:10
Taumlaus foringjadýrkun í Framsókn
Þeir lesa augljóslega ekki bloggið mitt þeir Pétur og Denni, nema þeim finnist spurning mín svo arfa vitlaus að hún sé ekki svara verð. Ótrúlegt þykir mér að ég hafi orðað spurninguna svo illa að þeir hafi ekki áttað sig á hvað ég var að fara. Það var augljóst og ég hefði þess vegna getað spurt hreint út: Er það taumlaus foringjadýrkunin í Framsókn sem hefur komið veg fyrir að þingmenn og flokksmenn hafa setið með stein í hjarta allan þennan tíma og ekki sagt múkk vegna þessa máls.
Ég gat ekki skilið Hjálmar Árnason öðruvísi í Kastljósi í kvöld. "Maður stendur með formanni sínum," sagði hann. Í mínum huga er það ekki annað en flokkseinræði og ég spyr: Hvernig er að vinna innan flokks þar sem ekki má segja múkk og menn þurfa að bíða eftir línunni frá formanninum áður en þeir tjá sig um mál? Svo mikið veit ég, að ekki færi ég vel í þeim flokki. Það er kannski þess vegna sem ég hef aldrei starfað innan stjórnmálaflokks þrátt fyrir að hafa átt þess kost nokkrum sinnum í gegnum tíðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2006 | 09:10
Skiptu Framsóknarmenn um skoðun í gær eða skrökvuðu þeir alltaf?
Ræða Jóns Sigurðssonar á miðstjórnarfundi flokksins var merkileg fyrir margra hluta sakir. Fer nokkuð furðulega leið af stað í kosningabaráttuna við að heilla kjósendur, en án efa árangursríka. En það sem vakti mína eftirtekt var klapp fundarmanna, nánast áður en Jón náði að ljúka játningunni um Íraksstríðið.
Því spyr ég fyrrverandi vinnufélaga mína, Denna og vin minn Pétur Gunnarsson sem báðir eru innstu koppar í búrum í flokknum; hvers vegna flokksmenn hafa haldið fast í þá skoðun að rétt hafi verið að taka þessa ákvörðun á sínum tíma. Hví hafa þingmenn flokksins varið þessa gjörð hægri vinstri frá því þessi hörmungarsamþykkt var gerð? Hvers vegna hefur enginn þorað að taka af skarið og sagt: "Þetta voru skelfilega mistök?". Já, ég veit vel að Kristinn Gunnarsson var aldrei sammála ykkur, tók afstöðu með þjóðinni og hefur sannarlega verið látin gjalda fyrir það.
Augljóst var að heyra á fundarmönnum að þeim var mjög létt og tóku þessum orðum Jóns með mikilli gleði; það sannaði klappið. Því spyr ég ykkur kæru fyrrverandi vinnufélagar: Er ekkert flokkslýðræði til innan Framsóknarflokksins? Voru allir þeir sem klöppuðu alltaf fullvissir um að Halldór og Davíð hafi gert rétt, eða skiptu þeir um skoðun í gær?
Nú getið þið alveg afgreitt þetta með því að segja að ég hafi ekkert vit á pólitík. Þannig sé það nú bara að í flokkum að menn verði að vera sammála um stefnuna. En þetta mál er bara alls ekki þess eðlis. Þetta er líka tilfinningamál og það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með, að meirihluti þjóðarinnar var og hefur verið þessu andvígur. Ég er heldur ekki svo vitlaus að ég viti ekki að í flokkum eru til stefnuskrár sem flokksmenn eru samþykkir í megindráttum. Með stefnuskránni grundvallast það hverjir fylgja flokknum.
Og já, já. Ég hef ekki meira en rétt meðalvit á pólitík. Og kannski minna en það. Hef sett mig inn í einstaka mál starfs míns vegna, en verið fljót að gleyma aftur þegar eitthvað annað kemst í umræðuna. Stundum gleypi ég meira að segja hráar skoðanir annarra. Læt jafnvel snúa mér 90° í einstaka málum, en aldrei án raka sem ég kaupi.
En er ekki orðið eitthvað meira en lítið furðulegt við þetta allt saman, ef þeir sem skipt hafa um skoðun eða voru aldrei sammála, hafa þurft að ljúga upp í opið geðið á okkur öllum með því að halda fast við réttmæti aðgerðanna? Er ekki einmitt það sem blasir við? Nefni í því sambandi viðsnúning Guðfinnu Bjarnadóttur í Sjálfstæðisflokki þegar hún vildi breyta svari sínu um réttmæti ákvörðunar um stuðning í Fréttablaðinu fyrir skömmu.
Hafa ekki allir þingmenn Framsóknarflokksins sagt hvar og hvenær sem þeir hafa verið spurðir að þeir séu sannfærðir um ákvörðunin hafi verið rétt á sínum tíma? Þess vegna er ég að spyrja að þessu.
Bæti hér við eftir að ég skrifaði þessa færslu að ég er greinilega ekki ein um skilja ekki hvers vegna Framsóknarmenn hafa þagð þunnu hljóði, ekki sagt satt eða eru bara hreinar og klárar rolur sem ekki þora öðru en halda sig við flokkslínuna. Þetta las ég í morgun inn á Silfri Egils.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2006 | 07:57
Eins og sprautuð með spítti!
Það er eins og ég hafi verið sprautuð með spítti á spítalanum í vikunni en eins og lesendur mínir hafa geta ráðið í, var ég víðs fjarri í vikunni og kom heim með löppina í fatla á föstudag. Síðan hef ég verið óstöðvandi, þrátt fyrir að vera ekki gróin meina minna. Það er barnaleikur einn að vera með 60 eða 80 heft í löppinni (nú eru menn ekki lengur saumaðir saman heldur heftir með venjulegu hefti), miðað við krankleika minn áður en löppin var löguð. Mér finnst ég bókstaflega fljúga um.
Ég áttaði mig sumsé ekki á því hve slæm ég væri orðin og hve handikapperuð og þjökuð ég var af slæmskunni. Ég hef augljóselga verið að versna smátt og smátt og átti orðið bágt með gang. Svo bágt að það var farið að taka verulega á að vinna léttustu verk, eins og taka til heima hjá mér og ganga úti með hundana mína. Menn töldu mig þjást af þunglyndi og einskærri leti.
Þessa tvo daga hef ég ekki kunnað mér læti og verið eins og lamb að vori. Ætt um allt í göngutúrum með hundræflana mína sem hafa sannarlega fengið að kenna á slæmsku minni síðast liðið ár. Ég hef skúrað og skrúbbað og ætla út nú á eftir að þvo bílinn minn bæði að utan og innan. Hef hreinlega ekki getað stoppað.
Ég hefði ekki trúað hve gott er að fá aftur löpp með fullum krafti. Ég meira að segja get hugsað mér að fara að hlaupa upp um allt, en síðustu ár hef ég fengið hroll ef minnst hefur verið á líkamsrækt og fjallgöngur. Lét duga að segja að göngutúrar væru mín líkamsrækt. Það er ekki að furða og ég átta mig nú á að ég hef líklega verið orðin slæm fyrir 6-8 árum. Gleði mín er fölskvalaus og meira að segja er ég léttari og hamingjusamari í skapinu, en þeir sem þekkja mig vita að ég hef svo sem sjaldan verið þung og gleðisnauð.
En þið vinir og vinnufélagar sem hitt hafið illa á mig, ef einhverjir eru, vitið þá núna að ég var kona verulega bækluð, bæði andlega og líkamlega. Afsakið mig og mína leti sem var sum sé ekki nein leti. Nú er lífið farið að vera skemmtilegt aftur, eins og það á að vera.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 02:30
Hefði verið meira hissa ef Adda borgaði launin
Ég er ekki krossbit yfir þeim fréttum að Jóhann Hauksson þiggi laun fyrir vinnu sína á Útvarpi Sögu frá Hjálmi í eigu Jóns Ágeirs. Hefði reyndar verið meira hissa ef staðfest hefði verið að Arnþrúður greiddi honum launin. Eftir því sem ég kemst næst hefur fjárhagur Öddu minnar ekki verið með þeim hætti að hún geti haft dýra menn á launaskrá hjá sér.
Eins og mönnum er kunnugt er Hjálmur meðeigandi að Fögru dyrum útgáfufélagi Ísafoldar sem Reynir ritstýrir en Hjálmar Blöndal kom heim frá London til að stjórna Hjálmi eftir því sem ég best veit. Guðmundur Magnússon veltir fyrir sér í bloggi sínu hvort eðlilegt geti talist að Jóhanni að þiggi laun utan úr bæ fyrir vinnu sína. Vitnar þar í viðtal við Jóhann sjálfan í DV og segir:
Breytir þetta einhverju? Það finnst Jóhanni ekki samkvæmt viðtalinu í DV. Ég er smeykur um að ekki séu allir á sama máli. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Baugur er ekki (svo kunnugt sé) rekstraraðili eða hluthafi í Útvarpi Sögu. Margir munu því telja að aðild útgáfufélagsins Hjálms að dagskrárliðnum Morgunhaninn þarfnist sérstakrar skýringar. Fyrirtækið Hjálmur ehf. er væntanlega rekið þannig að á móti útgjöldum koma tekjur. Menn spyrja: Hverjar eru tekjur félagsins af Morgunhananum? Hver er hagur félagsins af samningnum?
Líklega er mikið til í þessu hjá Guðmundi en það má eigi að síður spyrja sig hvort Hjálmi er ekki sjálfsvald sett hvað þeir bera úr býtum fyrir kostun á útvarsþætti. Það er ekki eins og það tíðkist ekki hjá útvarps-og sjónvarpsstöðvum að þættir séu kostaðir. Það er væntanlega samningsatriði á milli viðkomandi hvernig þeim málum er háttað.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 01:30
Þegar Davíð pakkaði Össuri
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las þessa færslu um fimi Össurs í ræðustól hvernig fór fyrir honum fyrir margt löngu í viðureign við Davíð. Það er svo langt síðan að ég man ekki einu sinni hve langt, en Össur var þá ritsjóri Þjóðviljans og bauð sig fram fyrir Alþýðubandalagið í borgarstjórn.
Við andstæðingar Davíðs bundum miklar vonir við hann og töldum að ef einhver gæti staðið upp í hárinu á Davíð væri það Össur. Það var með nokkurri eftirvæntingu sem beðið var eftir umræðuþætti í sjónvarpi þar sem þeir tækjust á. Það fór á annan veg. Davíð pakkaði Össuri svo illa saman að meira að segja við, harðir andstæðingar Davíðs máttum viðurkenna ósigurinn. Það fór líka svo að Sjálfstæðisflokkurinn bar sigur úr býtum í kosningunum þetta vor og Davíð varð borgarstjóri. Ætli þetta hafi ekki verið 1982.
Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og Össur kallinn lætur engann eiga neitt inni hjá sér lengur, svo ekki sé meira sagt. Hann þarf ekki lengur að óttast að tapa fyrir neinum í orðsins list - ekki einu sinni Davíð Oddssyni. Það sýndi hann oftar en ég man á meðan báðir voru á þingi.
24.11.2006 | 14:38
Komin aftur - með löppina í fatla
Komin til baka með löppina í fatla. Bara fjári brött eftir þetta inngrip vísindanna. Brátt fer ég að geta hlaupið um eins og fjallaljón; og ætla að gera það.
Við hlið mér lá stúlka sem á nýfætt barn, rétt þriggja vikna. Á meðan hún fór í aðgerð var maðurinn hennar heima með barnið og fjögurra ára son þeirra. Hann gat sannarlega ekki skellt barninu á brjóst í hvert sinn sem það vaknaði á næturnar eins og mamman, en hann kvartaði ekki. Kom á hverjum morgni til konu sinnar með litla barnið, eftir að hafa komið því eldra í leikskólann og sat hjá henni fram eftir degi.
Fór síðan heim og sótti eldra barnið í leikskóla og heim með börnin. Og því er ég að segja frá þessu; á þetta ekki að vera sjálfsagður hlutur? Einmitt; en það segir meira en nokkur orð að mér skuli þykja það í frásögu færandi. Það gerir mig urrandi vonda.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2006 | 22:09
Silfurtöngin eða Gullhamarinn og miklu fleiri frægir
Oft hef ég amast yfir hinum og þessum Eddum í sjónvarpinu, en nú er ég hætt því. Finnst ekkert nema gaman að horfa á fræga skemmta sér og sýna sig. Það ljómar af öllum selebunum sem elska ekkert meira en vera í sviðsljósinu, heilsa öðrum frægum og hlægja af einhverju skemmtilegu. Mig langar ekki lengur að vera í hópi frægra, verð bæði feimin og fámál. Svona fer aldurinn og þroskinn með mann; gersneyðir mann allri von og allri löngun um að verða einhvern tíma frægur.
En ég fylgdist með af athygli og missti ekki af einni mínútu. Þurfti að bregða mér af bæ í miðri Eddu og þakkaði í hljóði fyrir plúsið sem bjargaði því að sá Baltasar og Ómar, Jóhannes og Ingvar þakka fyrir Eddurnar. Áður var ég með tár á hvarmi búin að sjá Bubba með sætu kærustuna performera af list. Vel æft og enn betur leikið. Og til að sýna hve mikið hann lagði í þetta minntist hann á það sem særði hann mest af öllu og hann fór í mál út af; Bubbi fallinn! Hugsaði strax að líklega væri Eddan að ári í höfn fyrir bestan leik í aukahlutverki.
En grínlaust þá var sjóið bara fínt; flottir kjólar, sætir strákar og allir glaðir. Sé alveg fyrir mér að fleiri stéttir komi á svona hátið. Hvað með Gullhnífinn fyrir lækna, Silfurkrítina fyrir kennara og Gullhamarinn eða Silfurtöngina fyrir byggingaiðnaðinn. Verktakinn sem byggði fjölbýlishúsið að Engjavöllum 30 fengi Hamar fyrir einstaklega vel byggt hús. Rafvirkinn og píparinn fengju sína Silfutöng fyrir fábærar lagnir. Við myndum fá að sjá lagnirnar, flottar fittings og samsett rör.
Já því ekki það, fínt sjónvarpsefni og enn fleiri frægir til að taka myndir af og fjalla um í blöðunum. Ekki veitir af og enginn yrði glaðari en við blaðamenn. Það er okkar lifibrauð að tala við og fjalla um fræga.
Sjónvarp | Breytt 26.11.2006 kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)