"Minningagreinar" Páls Ásgeirs um látna fjölmiðla

 

Páll Ásgeir Ásgeirsson skrifar enn eina "minningargreinina" um fallna fjölmiðla í nýjasta hefti Ísafoldar. Páll Ásgeir er að mörgu leyti skemmtilegur penni og kann að orða hlutina. En þar með eru gæði þessara greina upptalin, því rangfærslurnar eru svo margar að ég furða mig á því hvernig hann gat látið þetta frá sér.

Ég get sagt þetta því það vill svo til að ég hef unnið á tveimur þeirra fjölmiðla sem hann skrifar um og þekki prýðilega til eins til viðbótar. Hann skrifaði grein í Mannlíf, á meðan Reynir ritstýrði því, um fall DV og vitnaði þar í nokkra fyrrverandi og þáverandi starfsmenn sem sumir að minnsta kosti, báru að ekki væri rétt eftir þeim haft, heldur bætt í og tekið út. Ég var í mitt í hringiðunni allan tímann sem DV kom út sem dagblað og veit giska vel hvað fram fór á ritstjórninni. Ég kannaðist ekki við helming þeirra fullyrðinga sem fram kom í þeirri grein.

Í Ísafold nú, er Fróði til umfjöllunar allt frá upphafi fram að eigendaskiptum og jafnvel eftir að Birtingur varð til. Ég get ekki tjáð mig um fyrri ár, því um þau veit ég lítið, en svo mikið veit ég að Páll Ásgeir veður í villu og svima í síðari hluta greinarinnar. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim hluta sem mér ætti að vera vel kunnugur og spurning hvort verra er allt sem hann lætur ósagt eða sagt.

Hann vitnar ekki í nokkurn mann og gaman væri að vita við hvern hann hefur talað við vinnslu þessarar greinar. Eða hlustaði hann bara á orðið á götunni og skrifaði síðan grein?


Kostar blóð, svita og tár að finna gjafir sem enda inn í skáp

Ég lofaði sjálfri mér því að taka ekki þátt í öllu kaupæðinu fyrir jólin og mér hefur tekist það nokkuð vel að vera í rólegheitum og smitast ekki af því brjálæði sem hvarvetna blasir viði þegar maður nálgast verslunarkjarna eða miðbæinn. Hvað mér býður kaupæðinu og brjálæðinu í þjóðfélaginu þessa dagana!

Ég get eigi að síður ekki breytt því að ég þarf að kaupa jólagjafir fyrir mitt fólk. Gjafir sem kannski enda inn í skáp eða í einhverju rusli eins og hjá mér. Í sumar þegar ég flutti þá pakkaði ég niður úr heilum skáp ósnertum jólagjöfum frá fyrri árum. Glösum í kössum, innpökkuðum bollum, sleifum, kertastjökum og hinu og þessu sem fólkið mitt hafði af gæsku sinni valið til að gefa mér.

Ég efast ekki um að það hefur kostað margan blóð, svita og tár að finna réttu gjöfina fyrir mig sem síðan endaði inn í skáp. Ég efast heldur ekki um að í skápum fólksins míns er að finna það sem ég snerist í hringi yfir í fyrra og árið þar áður við að velja handa því í jólagjöf. Kannski ekki hjá öllum en klárlega mörgum.

En staðreyndin en er nú samt sú að hvorki mínu fólki né mér sjálfri er ekki nokkur greiði gerður með öllum þessum gjöfum. Væri ekki nær að þeir sem þyrftu á að halda fengju andvirði þeirra? En þá er spurningin hverjir og hvernig ætti ég að koma því við?


Mamma töffari og ástin hans Jóa í Bónus í Mannlífi

Mannlíf des 06Nýtt og spennandi Mannlíf er komið út en hæst ber viðtal við Jóhannes Jónsson í Bónus og konu hans Guðrúnu Þórsdóttur. Jói er beinskeyttur að vanda og segir hlutina hreint út. Hann talar um stóru ástina sína, Guðrúnu Þórsdóttur, sem hann hefur búið með í nokkur ár. Og svo auðvitað aðförina að fjölskyldu hans sem tekið hefur meira en lítið á þau öll.

Í blaðinu er einnig viðtal við Þórdísi Filipsdóttur, dóttur Vigdísar Grímsdóttur rithöfundar. Yfirskriftin er, "Mamma töffari" en hún sat háólétt á sjúkrabeði móður sinnar sem veiktist lífhættulega í vor og var vart hugað líf. Það var ekki fyrr en Vigdís var úr allri hættu að Þórdís gaf sér tíma til að fara á fæðingardeildina og það lá beint við að sú stutta fengið nafnið, Vigdís Grace. Hún segir líka frá uppeldinu á "Kaffi Njálu" eins og hún kallar æskuheimili sitt og persónunum í bókum móður sinnar sem þar sátu sem fastast.

Grein um hina nýju Gullkynslóð er í blaðinu og viðtal við Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleika sem talar af einlægni um nýlegan skilnað, sársaukann sem fylgir því að missa fóstur og löngunina til að eignast barn. 

Mulningsvélin hin eina og sanna þekkja þeir sem fylgdust með handboltanum fyrir 20-30 árum. Það voru strákarnir í Val sem fengu nafnið á sig fyrir ótrúlega sterk vörn liðsins sem. En mulningsvélinr tikkar en þá, þó að strákarnir séu komnir á sextugsaldur og sumir jafnvel yfir það. Þeir hafa haldið hópinn og eru líklega betri vinir en nokkru sinni fyrr.


"Ekki fara allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor."

 

Það er fínt fyrir stjórnmálamenn að deila út dúsum til að stinga upp í lýðinn þessa dagana. Kosningar í vor og svo mikið er víst að "ekki fara allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor".
Það getur enginn verið viss um að stíga dansinn þar, en það breytir engu fyrir pólitíkusa sem þurfa á atkvæðum að halda. Og kemur ekki í veg fyrir að loforðum er dreift bæði til hægri og vinstri.

Þannig er samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson óhræddur að lofað umbótum og fé í Suðurlandsveg til að þagga niður í fjölmiðlum og róa lýðinn. Það er eins gott að við það loforð verði staðið og líklega er Sturla borubrattur þar sem hann veit að það er þverpólitísk samstaða meðal þingmanna Suðurlands fyrir tvöföldun vegarins. En það er gott að eigna sér verkið og berja sér á brjóst og segja; "Í minni ráðherratíð var tekin ákvörðun um breikkun vegarins. Ég átti frumkvæðið.

Er hún ekki furðuleg þessi pólitík?

 


Ekki sama hvort Reynir túlkar fréttirnar eða sú forvitna

 

Það er hreint ekki sama hvernig sagt er frá hlutunum; ein og sama fréttin kann að verða að tveimur gjörólíkum, allt eftir því hver túlkar og hverra hagsmunir eru í húfi. Það sýnir sig best á fréttinni hér á undan þar sem sagt er frá 70% aukningu á lestri Mannlífs á milli ára og annarri frétt af þessari söm könnun á vef Ísafoldar

Aukning á lestri Mannlífs verður ekki véfengt eins og sjá má ef skoðaðar eru niðurstöður könnunnar sem Capacent gerði og vitnað er í. En í frétt Reynis vinar míns Traustasonar er sem minnst fjallað um aukningu á lestri Mannlífs, enda ekki hans hagsmunir að tala of hátt um það.

Hann notar hins vegar allt púðrið í að segja frá samdrætti á lestri á Séð & heyrt frá því í vor, þegar Bjarni Brynjólfsson var ritstjóri. Telur sig líklega ná þar góðu skoti á núverandi ritstjóra, Mikael Torfason. Hann lætur þess hins vegar ógetið að S&H var dreift í miklu magni frítt í könnunarvikunni í vor en ekki svo mikið sem einu blaði núna. Þannig liggur í því en Reynir man það kannski ekki eða langar ekkert að muna það enda miklu skemmtilegra fyrir hann að segja frá hrapi S&H en að lestur Mannlífs hafi aukist efir að hann hætti.

Svona gerast kaupin á eyrinni þegar kappið er mikið. Og ekkert nema gaman að því að vera í virkri samkeppni. Ég er jú blaðamaður á Mannlífi og að vonum ánægð. En til gamans geta menn lesið báðar fréttirnar og skoðað könnunina.

Blogg mitt frá í gær er hér:

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að við Kristján Þorvaldsson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.

Og Reynis frétt á Ísafoldarfefnum hér:

Nýjasta könnun Capasent varðandi lestur tímarita felur í sér slæm tíðindi fyrir skemmtiritið Séð og heyrt. Blaðið fellur úr rúmlega 35 prósentustiga lestri í maí 2006 undir ritstjórn Bjarna Brynjólfssonar og niður í 23 prósentustig nú. Þetta er eitt mesta fall sem sést hefur frá því mælingar á lestri tímarita hófust. Á sama tíma er Hér og nú með 16,8 prósentustiga lestur og dregur saman með skemmtiritunum. Nýtt líf tekur einnig djúpa dýfu og mælist með 16,3 prósentustig í stað 19,3 stig áður. Kristján Þorvaldsson, ritstjóri Mannlífs, má vel við una því tímarit hans hans heldur sínu og vel það frá seinustu könnun og mælist með 22,4 prósentustig í lestri sem er tæpu stigi undir sérstakri könnun sem gerð var á lestri blaðsins í fyrrahaust og tveimur prósentustigum undir bestu könnun blaðsins á seinustu tveimur árum. En hástökkvarinn í Fróðasamsteypunni er þó Bleikt og blátt, undir ritstjórn Guðmundar Arnarsonar, sem eykur lestur sinn´um 25 prósent ...

 


Mannlíf eykur lesturinn um tæp 70%

medallestur_timarit

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að Forvitna blaðakonan ég, Kristján Þorvaldsson, Guðmundur Arnarson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.


Rússnesk rúlletta að búa í Hveragerði!

Ég hef alltaf verið svag fyrir að búa í útjaðri byggðar þar sem stutt er út í náttúruna. Tók því þá ákvörðun í sumar að flytja í Hveragerði. Þorði þó ekki að taka skrefið til fulls og kaupa mér hús þar, heldur leigði mitt í Hafnarfirði og fékk lánað annað eystra með það í huga að ganga alla leið ef mér vel líkaði. Það sem eftir lifði sumars var ég sæl og ánægð og fannst ekki mikið mál að skreppa þetta á milli.

En eftir að vetur fór að herja á og myrkur að hellast yfir hafa runnið á mig tvær grímur; það er nefnilega ekkert grín að aka Suðurlandsveg í myrkri, hálku, hríðarmuggu eða bara yfirhöfuð við bestu skilyrði. Það er rússnesk rúlletta eins og sýndi sig um helgina þegar helgarfaðir með börnin sín ók í mesta sakleysi þessa leið með  hörmulegum afleiðingum.

Ég þarf ekki að taka það fram hve innilega ég samhryggist því blessaða fólki sem nú á um sárt að binda. En það breytir ekki því að mig hryllir við að allt eins hefði það getað verið minn maður, mín börn eða einfaldlega ég sjálf sem lægjum á líkbörum eða örkumluð nú.  En í þetta sinn var það mitt lán; hver veit hvort það verður á morgun eða í næstu viku?

Þrátt fyrir stór orð þegar við á, að mannslíf séu ekki metin til fjár, þá er Suðurlandsvegur talandi dæmi um að mannlíf eru einmitt metin til fjár. Það fé nota þeir sem stjórna bara í annað, eins og tryggja sjálfum sér himinhárra eftirlauna eða í eitthvað síður huggulegt.

Ég á útgönguleið og þarf ekki að búa áfram í Hveragerði. Ég þarf því ekki að vera með lífið í lúkunum eins og nú í hvert sinn sem ég fer um veginn eða veit af mínu fólki á ferðinni. En það er hart fyrir þá sem vilja búa í jafn ágætum bæ og Hveragerði að lifa við stöðugan ótta. Við getum ekki réttlætt það lengur að gera ekkert í þessum málum. Við eigum valið og getum haft áhrif á hverjir halda um stjórnartaumana að vori. Gleymum ekki og notum þann rétt okkar.

  ----------------------------                ----------------------------

 

Bæti því við hér að gefnu tilefni að Hellisheiðin er sannarlega ekki erfiðasti tálminn á leið austur; það er Svínahraunið og niður fyrir Bláfjallaafleggjara sem erfiðast er að aka. Þar er vegurinn þröngur og 2+1 kaflar þar aðeins einn á suðurleið og tveir á austurleið. Ég hef það fyrir vana að fara aldrei framúr, heldur bíð þess að koma á 2+1 kafla og nota þá tækifærið. Þegar vegurinn er blautur og stirnir á hann í myrkri og umferðarþungi mikill er vonlaust að nota háu ljósin. Það þarf ekki mikið út af að bera né hraðinn að vera mikill til að maður missi tökin því vegurinn er svo þröngur að ljósin á móti blinda auðveldlega enda engin lýsing til að draga úr áhrifunum.

 


Ekki fleiri karlkonur - verið konur!

Talandi um karlkonur, þá er ég þeirrar skoðunar að þær einar nái einhverjum frama sem karlgeri sig. Hegði sér eins og karlar, komi fram eins og karlar og taki upp þeirra hegðun. Það þykir mér slæmt, því íslenskt stjórnkerfi þarf einmitt á alvöru konum að halda; konum sem eru það inn að beini.

Ég hef heyrt það utan að mér að ég sé svo mikill antifeministi og lesa megi það í gegnum skrif mín þegar þau mál beri á góma. Ég átti til að skrifa leiðara í DV á sínum tíma, þar sem ég gagnrýndi feminista. Og það er alveg satt; ég er ekki feministi út frá skilgreiningu Feministafélagsins á því fyrirbæri. En ég er jafnréttissinni og kona; alveg inn að beini meira að segja. Hins vegar held ég að einhver misskilji mig og ég veit hvaða færsla mín varð þess valdandi ef hún var lesin með því hugarfari að ég væri karlremba.

Ég áttaði mig á þessu á mínum eftirminnilegu dögum á DV. Það var Mikki sem benti mér á hvar bæri á milli. Hann var að tala um að okkur vantaði fleiri ekta konur á ritstjórnina. Ég taldi upp nokkrar konur spurði hvað við hefðum að gera með fleiri. Jú, hann þurfti ekki karkonur, hann vildi konur með það í farteskinu sem greindi að konur og karla. Það sem þær hefðu fram yfir karla, kvenlega hugsun og aðra nálgun á málin. Hann vildi meina að konur sem leyfðu sér að vera það og nýttu sér til framdráttar í starfi, þroska sinn sem þær höfðu; einmittt fyrir þær sakir að vera konur, væru allra bestu blaðamenn sem völ væri á. Taldi sig meira að segja hafa eina slíka á ritstjórninni. 

Mikki var ekki að tala um starfkraft til að skrifa um bakstur og bleiuþvott. Hann var að tala um konu í harða blaðamennsku. Hann hafði áttað sig á hvað konur höfðu fram yfir karla við að nálgast erfið mál. "Það er hægt að fá nóg að kröftugum karlkonum með metnað, en þær hef ég ekkert að gera við, get alveg eins ráðið einhvern karlmann. Ég vil alvöru konu," sagði hann blessaður.

Og við fórum í huganum yfir blaðakonur, stjórnmálakonur og aðrar konur sem náð höfðu langt; Þegar að var gáð voru þær flestar svona karlkonur. Og það hafði fleytt þeim þangað sem þær voru; því miður. Mér finnst það aumt og sé ekki tilgang í að konur karlgeri sig til að ná sínu fram. Þannig fjölgar bara "körlunum" á kostnað kvenna.

 

 


Margrét ætti að þakka pent og segja bless

 

Mér hefur alltaf fundist sú mikla sómakona, Margrét Sverrisdóttir alls ekki eiga heima innan Frjálslynda flokksins. Það sýnir sig gjörla þessa dagana þegar kverúlantarnir í flokknum hafa fengið sitt fram og otað henni úr starfi; konunni sem var sálin og hjartað í þessum flokki. Ef meðal áhagenda þessa furðulega flokks eru einhverjir með viti, er ég hrædd um að þeir snúi við honum baki núna.

Þá sitja þeir eftir karllufsurnar og Guðrún Ásmundsdóttir. Skil ekki í að þau verði mörg atkvæðin sem þeir telji upp úr kössunum í vor, þegar kynþáttahatararnir og aðrir kverúlantar verða búnir að gleyma útspili þeirra Magnúsar Hafsteinssonar og Jóns Magnússaonar. Eftir sitja lúserarnir sem halda að þeir græði eitthvað á að styðja flokkinn.

Margrét á hvergi heima annars staðar en í Samfylkingunni og hún hefði betur verið búin að stíga skrefið til fulls og gefa karllufsunum langt nef og kveðja. En hún er eins og aðrar konur; trygg sínum og hverfur ekki svo glatt frá hálfunnu verki. Ekta kona Margrét, en ekki karlkona eins og margar þær konur sem náð hafa langt í pólitík.


Menn hafa sannarlega kippt við sér...

...og hvorki færri né fleiri en átta komment þegar ég opnaði síðuna í morgun. Ég er eins og krakki sem á vona á dóti í pakka þegar ég opna fyrir. Hvort það er ekki í lagi að vera ögn barnalegur stundum. Þakka ykkur sem sýnt hafið mér viðbrögð. Og endilega haldið áfram að setja fram skoðanir ykkar ef þið eruð mér sammála eða ósámmála. Og líka þið sem ég þekki, minnst heyri ég frá ykkur sem ég veit að fylgist með. Lofa að ég reyni að vera skemmtileg.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband