Rússnesk rúlletta að búa í Hveragerði!

Ég hef alltaf verið svag fyrir að búa í útjaðri byggðar þar sem stutt er út í náttúruna. Tók því þá ákvörðun í sumar að flytja í Hveragerði. Þorði þó ekki að taka skrefið til fulls og kaupa mér hús þar, heldur leigði mitt í Hafnarfirði og fékk lánað annað eystra með það í huga að ganga alla leið ef mér vel líkaði. Það sem eftir lifði sumars var ég sæl og ánægð og fannst ekki mikið mál að skreppa þetta á milli.

En eftir að vetur fór að herja á og myrkur að hellast yfir hafa runnið á mig tvær grímur; það er nefnilega ekkert grín að aka Suðurlandsveg í myrkri, hálku, hríðarmuggu eða bara yfirhöfuð við bestu skilyrði. Það er rússnesk rúlletta eins og sýndi sig um helgina þegar helgarfaðir með börnin sín ók í mesta sakleysi þessa leið með  hörmulegum afleiðingum.

Ég þarf ekki að taka það fram hve innilega ég samhryggist því blessaða fólki sem nú á um sárt að binda. En það breytir ekki því að mig hryllir við að allt eins hefði það getað verið minn maður, mín börn eða einfaldlega ég sjálf sem lægjum á líkbörum eða örkumluð nú.  En í þetta sinn var það mitt lán; hver veit hvort það verður á morgun eða í næstu viku?

Þrátt fyrir stór orð þegar við á, að mannslíf séu ekki metin til fjár, þá er Suðurlandsvegur talandi dæmi um að mannlíf eru einmitt metin til fjár. Það fé nota þeir sem stjórna bara í annað, eins og tryggja sjálfum sér himinhárra eftirlauna eða í eitthvað síður huggulegt.

Ég á útgönguleið og þarf ekki að búa áfram í Hveragerði. Ég þarf því ekki að vera með lífið í lúkunum eins og nú í hvert sinn sem ég fer um veginn eða veit af mínu fólki á ferðinni. En það er hart fyrir þá sem vilja búa í jafn ágætum bæ og Hveragerði að lifa við stöðugan ótta. Við getum ekki réttlætt það lengur að gera ekkert í þessum málum. Við eigum valið og getum haft áhrif á hverjir halda um stjórnartaumana að vori. Gleymum ekki og notum þann rétt okkar.

  ----------------------------                ----------------------------

 

Bæti því við hér að gefnu tilefni að Hellisheiðin er sannarlega ekki erfiðasti tálminn á leið austur; það er Svínahraunið og niður fyrir Bláfjallaafleggjara sem erfiðast er að aka. Þar er vegurinn þröngur og 2+1 kaflar þar aðeins einn á suðurleið og tveir á austurleið. Ég hef það fyrir vana að fara aldrei framúr, heldur bíð þess að koma á 2+1 kafla og nota þá tækifærið. Þegar vegurinn er blautur og stirnir á hann í myrkri og umferðarþungi mikill er vonlaust að nota háu ljósin. Það þarf ekki mikið út af að bera né hraðinn að vera mikill til að maður missi tökin því vegurinn er svo þröngur að ljósin á móti blinda auðveldlega enda engin lýsing til að draga úr áhrifunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Júlía

Ein meginástæða fyrir því að ég vil ekki búa í Hveragerði er einmitt þessi, vont ferðaveður á veturnar, hálka og skafrenningur á heiðinni.  Maðurinn minn er úr Hveragerði og foreldrar hans búa þar. Tengdapabbi keyrði í fjöldamörg ár í og úr vinnu til Reykjavíkur og fannst það nú lítið mál.  En hann er líka soddan jaxl .  Samhryggist innilega fólkinu sem á sárt að binda vegna slyssins um helgina .  kv. Ester

Ester Júlía, 4.12.2006 kl. 08:36

2 identicon

Af hverju ekki bara að fara Þrengslin? Þar er nánast alltaf auður vegur og svo á á lýsa þau upp á næsta ári. Prófaðu bara að flytja í Þorlákshöfn ;)

Saxi (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 14:44

3 identicon

Það er von að Borgarbúum bregði í brún og N.B. átta sig á því hver hættulegur akstur getur verið á Þjóðvegunum.  En sumir sjá ekki fyrri en þeir sjálfir reyna!

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband