Fordómar og forheimska

Magnús, minn ekta maki lenti í heljarinnar debat í vinnunni í gærmorgun þegar ein frúin sem vinnur með honum mátti vart mæla af vandlætingu og hneykslun þegar hún hún lýsti yfir þeirri skelfilegu lífsreynslu sem hún varð fyrir í verslunarleiðangri í Bónus kvöldið áður. Ástæðan varð sú að hún, heiðvirð konan sem átti sér einskis ills von, gekk í flasið á dæmdum morðingja.

Blessuð manneskjan, sem ég þekki reyndar ekki nema af góðu einu, átti þarna við Atla Helgason lögfræðing sem hefur síðust sex ár setið af sér dóm á Litla Hrauni fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana eins og mönnum er vafalaust í fersku minni. Við kaffiborðið sátu fleiri álíka litlar sálir sem tóku undir og fannst það meira en ótækt að heiðvirt fólk gæti átt von á því hitta þennan mann og aðra viðlíka í framtíðinni. Og það í verslunarleiðangri í Bónus!

Þegar Magnús sagði mér frá þessu í kvöld komu mér fordómar vinnufélaga hans ekki á óvart. Ég hef svo oft orðið þess vör hvernig "venjulegt fólk" hugsar; fólk sem telst "réttu megin" í samfélaginu. Hefur gengið áfallalaust í gegnum lífið, vafið inn í bómull. Margir geta ekki með nokkrum móti sett sig í spor þeirra sem lent hafa röngu megin í lífinu.

Ég spyr mig hins vegar, hvernig fólk sem telst þokkalega menntað og hefur jafnvel stundað nám víða um lönd, fer í gegnum virta háskóla án þess að temja sér gagnrýna hugsun, víðsýni og þekkingu á samfélaginu sem það lifir í?

Þess heldur gapir það hvert upp í annað og kokgleypir skoðanir hins án þess svo mikið sem leiða hugann að því að fleiri hliðar kunni að vera á hverju máli. Nei, kristilegu kærleiksblómin spretta ekki á heimilum þessa fólks. 

Fátt gerir mig eins reiða eins og forheimska af þessu tagi. Atli hefur þegar afplánað sex ár af þeim átta sem menn með ævilangan dóm alla jafna sitja af sér. Menn geta varla ætlast til að fangar sem  hafa verið einangraðir frá umheiminum í mörg ár, fái enga aðlögun áður en endanlegri vist þeirra er lokið.  Atli á konu og börn, systkini og móður. Öll hafa þau tekið út sinn dóm, án þess að hafa nokkuð brotið af sér.

Sjálf hef ég hitt Atla Helgason austur á Litla Hrauni þegar ég tók við hann langt viðtal fyrir tveimur eða þremur árum. Auk þess hef ég oft rætt við hann í síma eins og margir fleiri blaðamenn. Hann kemur afskaplega vel fyrir og er elskulegur í alla staði. Áður en hann framdi voðaverknaðinn sem hann var dæmdur fyrir var ég honum málkunnug. Þegar hann var handtekinn á sínum tíma trúði ég ekki að hann hefði orðið manni að bana. Ég sagði það útilokað að hann gæti framið slíkan verknað og taldi lengi vel að hann væri að taka á sig sök. Slík voru kynni mín af honum. Það var ekki fyrr en ég hitti hann sjálfan í fangelsinu að ég trúði að hann hefði verið einn að verki. 

Ég hef tekið viðtöl við fleiri dæmda morðingja sem sitja inni á Litla Hrauni. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Undantekningarlaust hef ég haft mikla samúð með öllu þessu fólki. Ekkert þeirra kaus að lenda í þeim aðstæðum sem urðu til þess að það braut af sér. Það var alkahólismi og ofneysla eiturlyfja sem sljóvgaði dómgreind og heilbrigða hugsun sem vék fyrir þeim dimon sem tók völdin í huga þessa fólks. 

Það vita líklega fáir hvað gerist upp í höfði þeirra sem lengi hafa tekið örvandi efni án þess að hvíla heilann. Hann hættir einfaldlega að funkera eðlilega. Paranojan heltekur fólk og mér hefur verið sagt af þeim sem þekkja slíkt af eigin raun, að gjörðir þeirra stjórnist af því að verja eigið líf.

Þeir sem setja sig í dómarasæti og fordæma þá sem lent hafa röngu megin í lífinu ættu að hugleiða að fordómarnir gætu hitt þá sjálfa fyrir. Allir eiga fjölskyldu og nána ættingja. Enginn getur stjórnað því hvort einhver manni náin lendir í þeim aðstæðum að grípa til örþrifaráða. Hver veit hvað bíður manns við næsta horn?

Atli Helgason var á grænni grein í lífinu. Vinsæll, vel menntaður og þekktur íþróttamaður sem átti framtíðina fyrir sér. Á einu augabragði hrundi allt hans líf og hann er fordæmdur og á allra vörum. En nú er mál að linni. Hann er langt kominn með að afplána sinn dóm og hefur tekið ábyrgð á sínum gjörðum. Nú er komið að því að fyrirgefa.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér með þetta flest, en það fer alveg ferlega í taugarnar á mér þegar fólk hefur brotið af sér, hvort sem það er að verða mannsbani í eiturlyfjarússi, keyra á ljósastaur fullur eða ræna og rupla allsgáður, að tala alltaf um að aumingja maðurinn hafi "lent í þessu"! Fólkið sem verður fyrir barðinu á óyndismönnunum "lendir í þessu" Og hefur oftast ekkert til þess unnið. Ég get ekki vorkennt fólkinu sem "lendir í" að gera svona hluti, eða jú ég vorkenni því, en ábyrgðin er þeirra, það kom sér sjálft á þann stað sem það er á.

Elma (IP-tala skráð) 18.10.2006 kl. 13:22

2 Smámynd: Davíð Logi Sigurðsson

Er ekki heldur aumt að kenna vímuefnunum um? Er það ekki kallað að neita að taka ábyrgð á eigin gjörðum? Myndirðu líka kalla ættingja hins myrta smásálir ef þau kvörtuðu undan því að hafa rekist á morðingjann í Bónus áður en hann hefur lokið afplánun sinni? Eða er hugsanlegt, að þú hefðir jafn mikla samúð með þeim og þú hefur með morðingjanum í þessu tilfelli? Hvernig er það, þarf morðinginn ekki í reynd að borga skuld sína til samfélagsins áður en honum er veitt sakaruppgjöf - þ.e. á hann ekki að afplána öll átta árin (en ekki bara sex) áður en til þess kemur? Getur verið að fordómarnir sem þú talar um í fyrirsögn séu þín megin, nefnilega byggðir á því að þú þekktir morðingjann fyrir?

Með vinsemd og virðingu,

Davíð Logi Sigurðsson, 18.10.2006 kl. 13:43

3 identicon

Ég myndi nú frekar tala um að líf fórnarlambsins og fjölskyldu hans hafi hrunið, heldur en líf morðingjans. Það "lendir enginn í" því að myrða annan mann. Það lendir heldur enginn í því að neyta ólöglegra eiturlyfja. Fólk hefur alltaf val, að minnsta kosti í byrjun.

Átta ár er ekki langur dómur fyrir mannslíf og í raun má spyrja sig hvort að skuldin við samfélagið verði nokkurn tímann greidd. Ég er ekki fylgjandi dauðarefsingum, en örfá ár í fangelsi geta varla talist hátt endurgjald fyrir líf annarrar manneskju.

farfuglinn (IP-tala skráð) 18.10.2006 kl. 23:10

4 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Fyrir mér vakti ekki að afsaka gjörðir þeirra sem brjóta af sér undir áhrifum. Ég benti einungis á að það er sjaldnast mannvonnska sem þar býr að baki. Einhver okkur kær gæti framið svona verknað án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Því ættum við að líta okkur nær og setja okkur í spor aðstandenda. Atli hefur tekið ábyrgð á sínu voðaverki og kvartar ekki undan því að taka út sína refsingu. Hann er langt kominn með það og bæði hans vegna og fólksins hans fær hann helgarleyfi enda verið fyrirmyndar fangi.

Ef þú Davíð Logi lest út úr þessum pistli mínum fordóma þá verður svo að vera. Ég gagnrýni hins vegar þá sem þannig líta á þessi mál að Atli eigi sér ekki viðreisnar von. Hann skuli fá að dúsa inn allt sitt líf. Ein af undirstöðum trúar okkar er að fyrirgefa. Að ala á hatri og beiskju fer verst með þá sem það gera.

Og að lokum; þeir sem missa börnin sín fyrir hendi morðingja eiga sannarlega alla mína sammúð. Það hlýtur að vera skelfileg lífreynsla en ég trú ekki að það bæti líðan nokkurs manns að vera uppfullur af reiði og hatri. Kynni mín af Atla hafa ekkert með skoðanir mínar að gera; ég hef reynt að temja mér að skoða hlutina frá öllum hliðum og kveða ekki upp dóma yfir fólki. Allir eiga tilverurétt - líka fangar.

Forvitna blaðakonan, 18.10.2006 kl. 23:20

5 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Farfugl: Ég vakti máls á þessu út frá viðhorfi fólks til fanga en fjölskylda fórnarlamsins var ekki til umræðu. Maðurinn fékk dóm sem hann afplánar möglunarlaust og hvort sá dómur hefði átt að vera þyngri eða ekki er útaf fyrir sig ekki spurning. Spurningin er viðhorf fólks til fanga.

Annað; það ætlar enginn að verða alkahólisti þegar hann smakkar fyrst vín. Það er heldur ekki ásetningur þeirra sem í barnaskap eða fikti prófa fíkniefni. Mér hefur hins vegar verið sagt, nú síðast fyrir nokkrum vikum þegar ég ræddi við Þorarinn Tyrfingsson fyrir Mannlíf, að alkahólismi og fíkn sé sjúkdómur sem eigi sér uppruna í heila sumra manna sem bregst á annan hátt við efnum en annarra. Hrein og klár efnafræði. Mér hefur alltaf fundist í þessu öllu fólgin mikil þversögn. En það er önnur saga.

Forvitna blaðakonan, 18.10.2006 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband