29.1.2007 | 01:24
Geggjaðar tíkur draga dám af eiganda sínum
Hún kom vel við vondan auglýsingin frá SAFT sem sýnd hefur verið í sjónvarpi undanfarna daga. Þessi um drenginn sem kallaði vin sinn fávita og lenti illa í því. Ég þekki það af eigin raun að hafa skrifað tóma tjöru inn á þessa síðu og fengið vondan sting í magann í hvert sinn sem ég hef hugsað til orða minna.
Skrýtið; ég er ekki óvön að skrifa pistla í þau blöð sem ég hef starfað við og man sjaldan eftir að hafa fengið verulega bakþanka. Stundum dálítinn bjánahroll þegar blaðið er komið út og ég les yfir skrif mín, en aldrei hefur neitt valdið mér slíku hugarangri í marga daga eins og skrif mín hér á þessari síðu hafa stundum gert. Jú, jú, ég veit, ég gæti hæglega þurrkað út bullið eftir mig en ég hef frekar kosið að stinga hausnum í sandinn og láta sem ég viti ekki af skömm minni með því að opna alls ekki síðuna.
Þannig hef ég pyntað sjálfa mig í fleiri fleiri daga og tuldrað on'í barm minn: "Þér er þetta mátulegt Bergljót, fljótfærni þín hvatvísi og dómgreindarbrestur á einhverntíma eftir að valda þér verulegum vanda." Eins og það hafi ekki komið fyrir mig. Ó jú! En ég róa mig síðan með því að segja við sjálfa mig: "Já þú ert ekki eins og fólk er flest og vinir þínir vita það. Samt eru þeir vinir þínir. Hinir mega halda það sem þeir vilja."
Ekki nóg með það að ég sé léttgeggjuð, þá eru tíkurnar mínar það líka. Þær taka nefnilega upp á að mjólka hvolpum hvort sem þær hafa gotið þeim eða ekki. Það dugar þeim að önnur eignist hvolpa. Nokkrum dögum síðar eru komin júgur full af mjólk á hina sem leggst hjá móður og hvolpunum og hjálpar til við uppeldið. Þannig er ég með tvær mæður núna sem hugsa saman um sex hvolpa þeirrar yngri eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Þriðja tíkin sker sig ekki síður úr, en best að segja ekki frá því hér að sinni.
Svona hefur þetta verið hjá mér í þrjú síðustu got en þegar ég sagði einni hundavinkonu minni fyrir skemmstu frá þessu undri, fannst henni það ekki einkennilegt; eigandinn væri skrýtinn; hvernig ætti annað að vera en hundarnir væru það líka?
Svo má ég til með að láta eina yndislega fljóta með.
Meginflokkur: Fjölmiðlar og fólk | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Þeir eru svo fallegir!
Brynja Björk (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 10:49
Þeir eru ekki bara fallegir Brynja, þeir eru æðislegir; fallegasta gotið mitt til þessa; allir jafnflottir en enginn sker sig úr eins og allgengt er í sex hvolpa goti. Þú þarft að fara að undirbúa þig fyrir svona hvolp góan mín. Kannski verður kominn hundaleikskóli þegar þú eignast hvolp. Þá ferðu bara með barnið og hundinn í leikskólann á morgnanna; ekki málið.
Kveðja BD
Forvitna blaðakonan, 30.1.2007 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.