Mogginn og hundablaðið þeirra einhæft

Finnur Hugi og hvolparÍ síðustu viku fylgdi Morgunglaðinu sérstakt hundablað. Og enginn fjórblöðungur það, heldur yfir tuttugu síður. Ljóst er að þar á bæ eru menn að gera sér grein fyrir hve gífurleg aukning hefur orðið á hundaeign Íslendinga undanfarin ár og áhugi á þeim "dýrðarinnar dásemdum" hefur aukist. Mogginn ætlar sannarlega að vera í takt við mannlífið og þjóna stórum hópi lesenda sinna með efni sem þessu.

Sjálf leyfi ég mér að fullyrða að vikuleg síða um dýr í DV sem hóf göngu sína fyrir þremur árum undir nafninu; Begga og dýrin hafi heilmikið með það gera hve aðrir fjölmiðlar hafa tekið við sér og fjalla æ oftar um dýr. Einkum hunda sem fjölgað hefur gífurlega á undanförnum árum. Ætla því að gerast svo djörf að fullyrða að ég eigi þar hlut að máli. Og svo ekki sé talað um framsýni Mikaels Torfasonar sem átti hugmyndina að þessari vikulegu síðu minni því ekki flögraði að mér að ég fengi frjálsar hendur með efni um dýr vikulega. Þess utan var mér alltaf tekið vel ef ég var með fréttir sem tengdust dýrum.

 Sybbinn

Fyrri reynsla mín undir stjórn annarra ritstjóra og fréttastjóra gaf ekki tilefni til annars en ég yrði gerð brottræk með allar fréttir sem tengdust dýrum; það var ekki nógu töff og taldist til mýkri mála sem ekki eiga alltaf upp á pallborðið hjá þröngsýnum fréttastjórum á fjölmiðlum.

En Morgunblaðið fær marga plúsa hjá mér fyrir fylgiblaðið um hunda. Get þó ekki annað en tæpt aðeins á hvað skorti og hverju var ofaukið. Vonandi eru það bara byrjunarörðugleikar.´

Í fyrsta lagi undraðist ég mjög hve mikla áherslu ritsjórnin lagði á stærri hunda þegar veruleikinn er sá að smáhundar eru langtum fjölmennari og sækja stöðugt á. Þeim fjölgar hratt og á undanförnum fimm árum hafa þeir stigð langt fram úr þeim stóru. Cavalierinn er einn þeirra hunda sem er að sprengja öll met og er nú vinsælasta hundategund landsins ásamt íslenskum fjárhundi og líklega Chihuahua. Þrátt fyrir það var ekki svo mikið ein almennileg mynd af þessum vinsælasta hundi landsins í moggablaðinu.

Ekki það, við ræktendur þurfum ekki á auglýsingu að halda því eftirspurnin er svo mikil að það eru stundum allt að tíu til tuttugu manns um hvern hvolp sem fæðist. En einmitt þess vegna finnst mér furðulegt að ekki skuli hafa verið fjallað um Cavaler ef markmiðið var að þjóna lesendum. Um áhuga lesenda var ekki spurt því þá hefði vinsælustu hundunum verið gerð betri skil. En vonandi er hægt að flokka þetta undir þekkingarskort.

En það sem var öllu alvarlega, var auglýsingin á forsíðu blaðisns frá HUNDAFRAMLEIÐSLUNNI DALSMYNNI. Einkar ógeðfeld auglýsing sem enginn fjölmiðill með vott af sjálsvirðingu annarstaðar í Evrópu myndi birta. Fyrir þá sem ekki vita hvað um ræðir ættu að googla orðið "puppy mills" og komast þá væntanleg að því að um er að ræða ólöglega starfsemi sem fégráðugir óprúttnir aðilar reka; oftast í felum. Þar eru hvolpar framleiddir í massavís og tíkur gjörnýttar og síðan lógað. Hundar á puppy mills lifa í búrum og sjá aldrei dagsbirtu. Þeim er haldið á lífi ef líf skildi kalla til þess eins framleiða hvolpa. Hér á landi hafa dýraunnendur barist hatrammri baráttu fyrir því að framleiðslunni í Dalsmynni verði lokað en dýraverndarlög á Íslandi eru svo úrelt og úr sér gengin að ekki hafa menn haft erindi sem erfiði enn.

Vonandi taka menn á Morgunblaðinu þessari ábendingu vel og íhuga vandlega hvað þeir eru að fá greitt fyrir áður en næsta hundablað kemur út hjá þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þú átt tvímælalaust þinn þátt í að opna áhuga fjölmiðla á dýrum og síðan þín var ótrúlega skemmtileg. Ég reyndi að vekja áhuga ritstjórans míns á dýrum og umfjöllun um þau og notaði einmitt þessi rök að þeim hefði fjölgað afskaplega hratt og margir eyddu öllum sínum frítíma í dýrin. Ég hafði hins vegar ekki erindi sem erfiði.

Steingerður Steinarsdóttir, 4.3.2007 kl. 13:06

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég saknaði þess að sjá ekki umfjöllun um "mína" tegund, sem er chihuahua og almennt saknaði ég þess að sjá ekki fjallað um smáhunda í hundablaði Moggans. Var einmitt að hugsa hvort að þetta endurspeglaði áhugasvið blaðamannanna sem unnu blaðið eða hvað.

Ég kannast líka við þessa hugmynd margra ritstjóra að dýrafréttir séu ekki nógu "töff", þó að ég hafi einu sinni (með semingi) fengið að skrifa eina hundagrein á mínum stutta blaðamannaferli.

Dýrasíðan þín í DV á sínum tíma var mjög skemmtileg og ég las hana alltaf. Væri til í að hafa svoleiðis síðu í einhverju dagblaðanna í dag.

Svala Jónsdóttir, 6.3.2007 kl. 01:21

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Iss stórir hundar með sperrt eyru eru miklu flottari

Þýska Fjárhundakynið er nú lang-flottast

Annars að öllu gamni slepptu, þa´eru þessar elskur hver annarri fallegri og yndislegri.

Við sem erum ,,farnir í hundana" lítum á okkar elskur, sem fallegustu og bestu ,,tegundina", hvort þar um séu rök eða ekki.  Hér ráða tilfinningarnar og ekkert annað eins og vera ber.

Kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 6.3.2007 kl. 13:17

4 Smámynd: Púkinn

Púkinn segir nú bara voff.

Hundur Púkans er blendingur sem kom undir fyrir slysni - Irish Setter, Golden Retriever, og sennilega einhver Labrador meðal forfeðra hans.

Aldrei fær hann ættbók og aldrei kemst hann á hundasýningu, en hann uppfyllir allar kröfur sem Púkinn gerir: Barnvænn, geðgóður, hýðinn og gáfaður.

Bara ef Púkinn gæti nú sagt það sama um allar mannverur líka. 

Púkinn, 6.3.2007 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband