Eins og nýhreinsaður hundur

Ég var að koma heim úr tveggja vikna endurhæfingu á sál og líkama;og veitti ekki af. Fólk þekkti mig ekki lengur á götu ef svo bar til að ég sást á meðal manna, svo illa leit ég út. 

En við hjónin fórum okkar árlegu hvíldarferð til Andalúsíu. Þar á systir mín meðal annars á hús í fjöllunum og á þangað og á til bæjanna við ströndina hefur leið okkar legið síðustu 10- 15 árin. Lán okkar er að Jakobína systir bjó í 15 ár á þessum slóðum og kenndi okkur að meta spænska menningu eins og hún gerist best; einkum í mat og drykk.

Við erum því sjaldnast innan um strandtúristana en leigjum okkur íbúð í gamla bænum í Torrimolinus sem er orðin með fjölskylduvænni bæjum við strandlengju Spánar. Þar er mýgrútur góðra matsölustaða, ekta spænskra og þá þræðum við bæði í hádeginu og kvöldin. Eina trúristamengaði maturinn sem on´í okkur fer, er beikonið og eggin sem við gæðum okkur á áður en við höldum á, í trimm dagsins. Já, segi og skrifa; fyrir hádegi höfum við lokið við 7-10 kílómetra göngu. Undir það síðasta hlaupum við, eða hérumbil, upp tröppurnar löngu upp í bæinn sem stendur á klöpp. Það þarf ekki að spyrja hvernig ég dregst upp þær í byrjun, en mikið fjári er þolið fljótt að koma þegar maður fer að taka reglulega á. En það væri skreytni að segja að ég stæði í manninummínum, hann er mér langtum fremri í gögngunum þrátt fyrir að vera sex árum eldri. Hann lætur sér ekki muna um 15-20 kílómetra ef því er að skipta. Ég afsaka mig með að hann taki þetta á skrefunum. Tvö á móti einu; það munar um það, enda lengra upp í hans klof en mitt.

En blessuð elskan horfir samt á mig með forundran skokka þetta léttilega upp því hann hefur prédikað yfir mér síðustu 20 árin að lungun á mér séu ónýt af reykingum. Það kann vel að vera að þau séu orðin sýkt af einhverri banværri óværu tengdum bölvuðum reykingunum. Lungun eru lúmskt líffæri sem láta ekki vita ef skemmtum fyrr en það er orðið of seint. Den tid den sorg.

En við sumsé lifðum sældarlífi; lásum, sváfum í síestunni, slökuðum á og ráfuðum um milli þess sem við settumst niður yfir dásamlegu kaffi þeirra spænsku, vatninu sem ég drakk ómælt af "agva kon gas" bað hún um blessuð. Það kunni ég að panta. Eins expresso italino eða bjór sem ég reyndar drekk ekki; finnst hann vondur. 

Nú svo heilluðu búðargluggarnir, en ég elska að skoða í búðir og finnst það eins skemmtilegt og mér finnst leiðinlegt að versla. Hef reyndar tekið þá ákvörðun að hætta alfarið að kaupa ódýrt drasl en þess í stað stunda fínu búðirnar; bara sjaldnar. Veit að það margborgar sig að kaupa það sem maður er virkileg ánægur með en drasl sem hangir áfram á herðatrénu eftir heimkomuna þar til ég pakka því niður og sendi í Rauðakrossinn eða bílskúrinn. Auk þess fer maður langum betur með það sem kostar mann stóra peninga.

Á kvöldin lásum við og horfðum á spænsku stöðvarnar og æfðum okkur í að ná því sem um var fjallað. Oftar en ekki vissi maður minnst um hvað var í gangi en latínan sem Mef lærði í menntó á sínum tíma, kom sér oftar en ekki vel til að ná samhengi. 

Ég hefði gjarnan viljað vera í svona heilsuprógrammi í mánuð til, en því miður; það var ekki um það að ræða. Mef er hins vegar enn úti með vini sínum Örnólfi sem kom með vélinni sem ég fór með. Örnólfur tekur gjarnan við af mér og þeir eru góðir saman félagarnir í spænsku menningunni en fáir eru betur að sér þar en einmitt Örnólfur enda gaman að vera með honum á Spánarströndum því hann talar tungumálið eins og innfæddur og kann skil á öllu. Auk þess er hann í oftast essinu sínu og segir skemmtilegar sögur af kynnum sínum við þetta yndislega land og kann að biðja um nákvæmlega það sem maður vill. Ekki amalegt það.

En heilsan hefur ekki verið betri lengi og nú er um að halda henni við með heimsóknum í Laugarskarðið á morgnanna, göngutúrum og sitt lítið af öðru sem auðgar andann og styrkir líkamann. Og svo á ég von á hjóli en hvar á landi er betra að þeysa um á reiðfák en einmitt í Hveragerði! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Það var reyklaus dagur í gær, kæra systir. Vildi bara koma því svona að...

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 1.6.2007 kl. 14:32

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Ranka míin þú ættir að þekkja hana systur þina; þú veist að það er til einskis að tala um sígareturnar mínar. Þær hverfa vísast með mér í gröfina. Nema ég verði lostin eldingu eða fái vitrun. Hver veit?

Anna mín; kallinn er fínn, langar ekki í ungan enda er hann Magnús minn svo flottur hvar sem á er litið. Hann telur sko ekki eftir sér að þjóna mér bæði til borðs og sængur; ó nei.

Forvitna blaðakonan, 4.6.2007 kl. 02:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband