Vond amma eða gömul og lúin?

100_2212Þrjú minna fjögurra barnabarna eru í pössun hjá ömmu og afa.

Reyndar er eitt þeirra, hann Smári  svo að segja heimilisfastur hjá okkur og hefur verið meira eða minna síðan hann fæddist. En nú eru þær Eldey sjö ára og Ísey tveggja ára í pössun og hafa verið frá því eftir hádegi á laugardag.

Smári sjö ára á myndinni hér til hliðar ásamt bróðursyni mínum, syni Davíðs.

Og það veit sá sem allt veit að það eru mikil viðbrigði að vera með þrjú börn og þar af eitt bleiubarn. Ég hef varla sest niður alla helgina, taka upp þetta, ná í hitt, gefa að borða, þvo og skeina og koma í svefn. En það er ekki vinnan sem fylgir því að annast lítil börn sem þreytir kellur eins og mig. Það er áreitið; að vera með stöðugt með hugann við börnin og að þau fari sér ekki að voða. Já, og þau eldri gera miklar kröfur. Í raun er miklu léttara að haf litlu Ísey en hin tvö.

Annað hvort er ég vaxin uppúr því að þola svona áreiti eða ég er svona vond amma. Sjálf var ég komin með börn á minn smáa handlegg níu ára þegar Davíð bróðir minn fæddist. Mamma fór í frystihúsið að vinna fjóra tíma á dag og ég passaði ungbarnið rétt fjögurra mánaða gamalt. Reyndar hugsaði ég um Davíð fyrstu æviár hans að mestu því tveimur árum síðar fæddist Jakobína og það var nóg að gera hjá móður minni með sex börn, drykkjumann, fátækt og basl.

Mömmu leið vafalaust ekki mjög vel á meðan hún vann en ég veit að hún treysti mér enda var ég mjög ábyrgðarfullt barn, elst alsystkina og var vön því að taka á mig ábyrgð. Forvitnin var líka að drepa mig og ég heyrði oftar á tal þeirra en mér var hollt á þeim árum.

Þegar elsta dóttir mín, Erna fæddist fékk ég mikla hjálp hjá tengdamóður minni. Var að fljúga og oft í burtu svo dögum skipti á þeim árum. Erna átti því sitt annað heimili þar. Síðan eignaðist ég þær Ragnheiði og Silju með 18 mánaða millibili og ég er ekki búin að gleyma hve erfitt mér þótti að halda öllu í horfinu með tvö börn á erfiðum aldri. Það var nefnilega ekki þá eins og nú þegar feðurnir eiga börnin líka. Faðir minna barna hafði ekki miklar áhyggjur af því hvort þær væru svangar, þreyttar, blautar eða yfirhöfuð hvernig þeim reiddi af. Það var í helst að hann tæki þær og segði gúllla gúlla og kitlaði undir hökuna.

Hann leit svo á að umönnun barnanna væri mitt hlutverk - og það sem verra var; mér fannst það líka ég lét það yfir mig ganga: fannst ég ekki hafa rétt á að gera kröfur um að hann hugsaði um börnin til jafns á við mig. Var sjálf alin upp við að mamma hugsaði um okkur og pabbi hefði ekkert með okkur að gera fyrr en hann gat farið að halda uppi vitrænum samræðum við okkur En þannig var tíðarandinn þá; slíkt myndi ekki viðgangast nú enda sé ég ekki annað á heimilum dætra minna og jafnaldra þeirra að feðurnir séu ábyrgir til jafns á við konurnar þegar börnin eru annars vegar.

En svo mikið er víst að ég héldi ekki út að passa barnabörnin nema fyrir það hve Magnús, minn ekta maki tekur þátt í umönnun þeirra. Hann var vel taminn hjá sinni fyrrverandi konu, eða bara að réttlætiskenndin er svona sterk i honum. Hann er auk þess mjög barngóður. En bæði eigum við það sameiginlegt að það er yndislegt að fá börnin; bara ekki of lengi í einu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband