5.9.2007 | 14:24
Eyjólfur að hressast á DV með tilkomu Reynis
Las DV í fyrsta sinn eftir að Reynir kom að blaðinu og finnst að Eyjólfur sé að hressast. Mun skemmtilegra blað en áður. Þakka það Reyni en hvað sem hver segir um hann eða hvaða skoðun menn hafa á honum, þá er svo mikið víst að hann er á réttum stað á blaði eins og DV.
Forsíðufréttin um að Úlfar Nathanelsson sé kominn á stjá á ný botnaði ég hvorki upp né niður í. Hún hefur augljóslega verið sett saman í miklum flýti og ég sem man eftir Úlfari þegar hann var upp á sitt besta fyrir 20-25 árum átti í mestu erfiðleikum með að átta mig á fréttinni. Hvað þá yngra fólk sem ekkert veit hvað Þjóðlíf var eða man eftir tilvist Úlfars sem titlaður var lögmaður í fréttinni, sem hann alls ekki er.
Hvar var Brynjólfur fréttastjóri sem jafnan les vel yfir fréttir blaðamanna og setur mark sitt á þær: Stundum til góðs en kannski oftar aðeins breytinganna vegna. ( Binni minn ég meina ekki neitt illt með þessu ). En ég ætti líklega síst að gagnrýna þar sem ég veit hve tímapressan er mikil á blaði eins og DV og blaðamenn vilja gjarnan vinna fréttir sínar betur en hafa ekki tíma eða svigrúm til þess.
Það er augljóst að Trausti Hafsteinsson sem mér hefur sýnst vera prýðilegur blaðamaður þekkir lítið til þess sem hann er að fjalla um, enda ungur maður. Sýnir sig hve nauðynlegt er að hafa á hverri ritstjórn eldri blaðamenn sem muna og þekkja þjóðfélagsumræðuna langt aftur í tímann.
En fingraför Reynis eru augljós og ég vona að hann haldi áfram á sömu braut og að efnistökin verði ekki með þeim alvarlega tóni sem sme er svo hrifinn af nú, en þannig þekkti ég hann ekki á þeim tíma sem við unnum saman. Og ekki síst að blaðið leggi áherslu á að segja fréttir og skemmtilega mola af fólki, frægum jafnt sem venjulegum almúgamönnum. Kannski að ég og fleiri fari að lesa blaðið aftur. Það má svo sannarlega við því að lesturinn aukist.
Flokkur: Fjölmiðlar og fólk | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.