Olíuhreinsunarstöð á Þingvöllum?

IS061524A

Varla gæti hvarflað að neinum heilvita manni að vanhelga Þingvelli með olíhreinsunarstöð: það er svo absúrd tilhugsun sem frekast getur verið.

Í mínum huga gildir það sama um Vestfirði. Ég get ekki með nokkrum móti séð fyrir mér olíuskrímsli í friðsælum vestfirskum firði eins og Arnarfirði eða Dýrafirði þar sem náttúrufegurðin ein ræður ríkjum

Ég er fædd fyrir vestan og er stolt af því. Flutti raunar barnung þaðan í hús ömmu minnar að Laugavegi 69. Áar mínir bæði í föður og móðurætt hafa þreytt Þorrann og Góuna þar að minnsta kosti þrjár síðustu aldir; ömmur mínar eru fæddar beggja vegna við Dýrafjörðin, í Arnarfirði annars vegar og Önundarfirði hins vegar.

Í æsku minni var mikið talað um fólkið fyrir vestan og æskustöðvar foreldra minna og ömmu. Mikill samgangur var við brottflutta Vestfirðinga og þeir sem eftir voru komu í heimsóknir þegar þeir tóku sér ferð til höfuðborgarinnar. Aldrei var talað um æskustöðvar og fæðingastað minn nema með lotningu.

Mér var innprentað að hvergi væri fegurra en í Haukadal í Dýrafirði þar sem Kaldbakur, hæsta fjall fjórðungsins trónir fyrir botni og Kolturnshornið með sinni sérstöku lögun lútir fyrir miðjum dal. Með móðurmjólkinni fékk ég ást á fæðingarstað mínum og ávalt var talað um Vestfirðinga með ákveðnum tón. Í mínum eyrum hljómaði það sem þeir væru merkilegt, harðduglegt og atkvæðamikið fólk. Og ég var stolt af uppruna mínum

Fjölskyldan heimsótti auðnustaðinn sinn annað slagið eftir að ég varð 11-12 ára og dalurinn sem ég hafði svo mikið heyrt talað um reyndist enn fegurri í mínum augum en lýsingar þeirra eldri höfðu gefið til kynna. Fyrir tæpum tuttugu árum fór ég að sækja firðina heim á hverju sumri enda minn ekta maki einnig Vestfirðingur.

Þegar við komum vestur þá finnum við bæði fyrir breyttri líðan. Þessi háu dökku fjöll taka mann í fangið og vernda þannig að ekki er annað hægt en fyllast öryggi og vellíðan auk þess sem orka mín eykst og svefnþörfin verður sáralítil. Hvergi í veröldinni finnst mér fallegra en á Vestfjörðum. Þar er landið ómengað og andrúmsloftið óbreytt ár frá ári þar til síðustu þrjú til fjögur árin.

Breytingin felst í því að gestum á ferð um fjórðunginn hefur fjölgað ár frá ári. Á hverju sumri hitti ég fleiri og fleiri sem eru að heimsækja Vestfirði í fyrsta sinn; fólk sem hefur ferðast hringinn í kringum landið ótal sinnum en sneytt hjá Vestfjörðum. Undantekningalaust kvaðst þetta fólk ekki getað ímyndað sér hve fallegt væri vestra og landslagið einstakt. Hér eftir yrðu Vestfirðir sóttir heim aftur og hringnum sleppt.

Tilfinning mín er að ferðamannastraumurinn vestur á firði eigi eftir að aukast með hverju ári; jafnvel margfaldast. Stór hluti þjóðarinnar sem ekki á rætur vestur hefur látið hjá líða að taka krók inn á kjálkann enda vegir lengi verið mjög slæmir á Vestfjarðarkjálkanum. Auðveldara er flengjast hringinn sumar eftir sumar. Nú er svo komið að straumurinn liggur á Vestfirði og ég skal hundur heita ef það gengur ekki eftir. Erlendir ferðamenn og leiðsögumenn hafa einnig sneytt hjá Vestfjörðum utan einstaka furðufuglar sem sést hefur til, þá gjarnan einir á ferð.

Mín tilfinning segir mér einnig að á næstu árum muni erlendir ferðamenn í skipulögðum ferðum um landið taka stefnuna á Vestfirði; eina landsvæðið sem hreint er af mengun og stóriðju; náttúruperla sem á fáa sína líka. Og ekki aðeins firðirnir, heldur ekki síður friðlandið norðan við Djúp. Fleiri og fleiri kjósa að ganga um Vestfirði. Þeir sem mörg undanfarin ár hafa haldið sig á fjölmennari gönguleiðum eins og við Landmannalaugar og Þórsmörk, Kjalveg og víða um hálendi Íslands; þekkja svæðið orðið vel og vilja upplifa eitthvað nýtt.

Framtíðin er Vestfirðinga í þessum efnum og á það er engin spurning að verðmætin og atvinnusköpunin mun verða í þjónustu við ferðamenn í framtíðinni ef rétt er á málum haldið. Að nokkur heilvita maður skuli láta sér detta í hug að setja niður spúandi olíuhreinsistöð við friðsælan fallegan fjörð, hreina náttúruperlu eins og Arnarfjörð er ofar mínum skilningi.

Það má aldrei verða. Vestfirðinga bíður annað og arðbæra hlutverk. Ef forheimskan nær yfirhöndinni og sú andlega fætæka hugsun einstakra manna sem ekki sér annað en olíuskrímsli, fær að ráða verð ég fyrst manna til hlekkja mig við byggingakrana til verndar ómengaðri náttúru Vestfjarðakjálka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mæl þú manna heilust. Það er óþolandi að menn skuli ekki geta látið sér detta annað í hug að gera úti á landsbyggðinni en mengandi stóriðju.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.3.2008 kl. 09:32

2 Smámynd: Adolf Dreitill Dropason

Heyr heyr ekki meir !

Sammála þessu.

Á að nota okkur Ísland sem klósettpappír olíuríkja sem þurka af sér drullu og skít með sínum gróða á leið um hafið til evrópu og skilja drulluna eftir hér ?  Við höfum nóg annað að gera við þá littlu raforku sem við eigum eftir !!! sjá HÉR

kveðja

Dolli Dropi

Adolf Dreitill Dropason, 7.3.2008 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband