4.11.2006 | 00:11
Ólína segir söguna alla í nýju Mannlífi
Auk stjúpdætra forsetans sem eru í býsna skemmtilegu viðtali við Kristján Þorvaldsson er ítarlegt viðtal við Ólínu Þorvarðardóttur sem ég skrifaði. Þar segir hún frá því sem raunverulega kom af stað þeim átökum sem urðu til þess að hún sagði starfi sínu við Menntaskólann lausu. Í viðtalinu er Ólína hreinskilin og málefnaleg og gangrýnir bæði Félag framhaldskólakennara og menntamálaráðuneytið harkalega. Frásögn hennar af því sem gerðist er studd rökum en ekki byggð á óstaðfestum sleggjudómum. Að því leyti er gaman að lesa þetta viðtal en Ólína skefur ekki utan af hlutunum fremur en endranær og kallar hlutina sínum réttu nöfnum.
Rétt er að leiðrétta það sem fram kemur í forsíðutilvitnun, en þar segir að Ólína hafi fengið hjartaáfall en það fékk hún ekki. Hún veiktist hins vegar illa í tvígang af svokallaðri hjartaöng sem er þess eðlis að kransæðarnar kreppast saman og blóð nær ekki að renna til hjartans, rétt eins og þegar þær stíflast. Hún vill lítið gera úr veikindum sínum sem ég hef þó heimildir fyrir að hafi verið býsna alvarleg. Auk þess léttist hún mikið meðan á þessum hamagangi stóð og víst er að fjölmiðlaumræða og ástandið í skólanum gekk mjög nærri henni.
Þegar Ólína er spurð hvernig lætin hafi byrjaða svarar hún:
Sérhagsmunagæsla og pólitísk afskipti eru eitruð blanda. Eftir nokkra umhugsun heldur hún áfram: Breytingar eru alltaf erfiðar, jafnvel þótt þær séu til batnaðar. Þær eru sérstaklega erfiðar þeim sem þær beinast að ég tala nú ekki um ef þeir sem fyrir verða treysta sér ekki til að rísa undir nýjum kröfum. Ef starfsmaður hefur lengi komist upp með það að mæta ekki tvo til þrjá daga í viku en þarf svo skyndilega að standa undir kröfum um verkskil og viðveru segir sig sjálft að honum líður ekki vel. Sama má segja um kennara sem hefur lengi komist upp með að kasta til höndum. Fólki sem lengi hefur farið sínu fram líður ekki vel þegar gerðar eru til þess kröfur um ný vinnubrögð. Það er fátt erfiðara en að breyta sjálfum sér ég tala nú ekki um ef fólk þarf að viðurkenna vangetu sína eða að vinnubrögðum sé ábótavant. Þeir sem töldu hag sínum ógnað vegna nýrrar stjórnunarstefnu skólameistara áttu ættingja og vini í starfsliðinu sem drógu taum þeirra í hverju sem var. Þannig byrjaði samblásturinn gegn mér og atburðarásin vatt upp á sig.
Ólína talar einnig um hinn þögla meirihluta sem stóð hjá og vildi ekki láta blanda sér í máilin:
"Stærsti hluti starfsmanna var þó hinn þögli meirihluti sem fylgdist aðgerðalaus með framvindu málsins og beið átekta. Ólína segir það stundum hafa reynst sér erfitt að horfa upp á aðgerðarleysi hins svokallaða hlutlausa hóps, því hann hafi í reynd ráðið mestu um það hvernig fór. Þetta er hópurinn sem ímyndar sér að hann beri enga ábyrgð af því að hann aðhefst ekkert. En í raun og veru er því öfugt farið. Hópurinn sem horfir á ofbeldi framið án þess að lyfta litlafingri til þess að stilla til friðar eða kalla til aðstoð er samsekur. Þannig er það í öllum eineltismálum að stærsti gerandinn er hópur hinna meðvirku einstaklinga sem hafa sig ekki í frammi. Í þessu máli hefðu ýmsir getað lagt gott til mála sem gerðu það ekki. Því verður líklega erfiðast að kyngja svona eftir á að hyggja.
Síðar í viðtalinu sakar hún embættismenn í menntamálaráðuneytinu um býsna alvarleg brot gegn sér og eru um að ræða hreint ótrúleg vinnubrögð að hálfu menntamálaráðuneytisins. Það var nú einu sinni ráðherra þessa sama ráðuneytis sem skipaði hana í embætti. En orðrétt segir hún:
Þetta urðu einfaldlega nornaveiðar, byggðar á sömu aðferðafræði og tíðkaðist í galdramálum 17. aldar heldur hún áfram. Ég hef í höndum gögn sem sanna það að ákveðnir embættismenn í menntamálaráðuneytinu fóru á bak við mig, leyndu mig upplýsingum sem hefðu getað breytt framvindunni mér í hag. Mánuðum saman stóð ég í ströggli við að fá afhent gögn sem ráðuneytið hafði undir höndum og því bar að láta mig fá um leið og þau bárust því. Hefði ráðuneytið staðið rétt að málum hefði það án efa breytt framvindu málsins. Svo virðist sem fjölmiðlar hafi átt geiðari aðgang að þessum upplýsingum en ég, einhverra hluta vegna. Oft fékk ég fyrstu vitneskju um tilvist gagna og innihald þeirra í gegnum fjölmiðla sem ég hefði átt að hafa frá ráðuneytinu. Þessi framkoma ráðuneytisins var með öllu óviðunandi og ekki í neinu samræmi við eðlilega stjórnsýsluhætti."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.