Reynir að fara á taugum

 

Ég held að vinur minn Reynir Traustason sé að fara á taugum ef marka má það sem haft er eftir honum í fjölmiðlum þessa dagana.  „Blaðið er uppselt þrátt fyrir skæruliðasveitir Fróða. Þeir keyra milli verslana og henda blaðinu okkar til hliðar en við tökum þessu sem hverju öðru hundsbiti og lögum jafnóðum til eftir þá,“ segir Reynir í samtali við Fréttablaðið og tekur dæmi af blaðabunka í innkaupakerru í einhverri verslun þar sem blað hans Ísafold er til sölu. Ég segi nú ekki margt; hefur Reyni ekki dottið í hug að eðlileg skýring geti legið á bak við blaðahrúgu í innkaupakerru?

Reynir á að þekkja Mikka betur en svo að hann haldi að hann standi í svona skæruhernaði. Svo mikið veit ég að það er ekki líkt Mikka að berja á þennan hátt á samkeppnisaðilanum. Og það veit Reynir líka. Ég finn ekki aðra skýringu en að hann sé nervös og vilji hafa á takteinum skýringu ef blað hans selst ekki nógu vel.

Ég frétti líka af honum í viðtali sem ég heyrði ekki á einhverjum ljósvakamiðlinum. Þar talaði hann eina ferðina enn um meinta stjórnsemi Mikka. Við Reynir höfum bæði unnið undir stjórn Mikka og vitum hvernig hann er. Hann er aktívur og kraftmikill og tekur starf sitt alvarlega. Hann er aðalritstjóri Birtíngs og vinnur samkvæmt því eins og ætlast er til af honum. Hann var að sama skapi ritstjóri DV og bar það nafn með rentu, rétt eins og alvöru ritsjórar eiga að gera.

Ég átta mig því ekki hvað Reynir er alltaf að fara. Eru ritstjórar ekki til þess að stjórna og eiga síðasta orðið um hvað fer inn í blöð og hvað fer ekki inn í þau ef einhver vafi leikur á því? Að öðru leyti kannast ég ekki við að Mikki sé að blanda sér í vinnu blaðamanna, ritstjóra eða fréttastjóra og mín reynsla er að hann treysti sínu fólki betur en margur annar sem yfir mér hefur trjónað um dagana.

Blaðið hans Reynis er alveg prýðilegt og stendur fullkomlega undir því eitt og sér. Reynir þarf ekki að hnýta í samkeppnisaðilann til að afla sér samúðar ... eða hvað svo sem hann er að reyna með ummælum sínum um Mikka.

Sjálfur er Reynir einn allra klárasti blaðamaður sem ég hef unnið með og alveg unun að vinna með honum Það stendur honum enginn snúninginn þegar þefur af fréttum er annars vegar. Svo er hann frjór og skemmtilegur með mikinn húmor sem hann notar óspart á allt og alla í kringum sig. "Haltu þér þar áfram Reynir og láttu af svona leiðindum!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband