The day after

Fyrir margt löngu var mér gefin bók með þessum titli í jólagjöf. Bókina las ég aldrei enda fjallaði hún um, það ég helst man, daginn eftir kjarnorkusprengju.

Þessi titill kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til jarðskjálftans sem hér gekk yfir á fyrir þremur vikum.  Hvílík martröð en fram til þessa hef ég ekki verið smeyk við jarðskjálfta; jafnvel fundist dálítið spennandi að finna fyrir því magnaða náttúrufyrirbrigði og getað talað um það næstu daga við hina og aðra hvar þeir hafi verið staddir og hvernig þeim leið þegar þeir fundu skjálftann.

En þeir skjálftar sem ég og svo ótalmargir aðrir hafa fundið fyrir, fram að þessu eru hreint ekki annað en smá núningur miðað við það þá skelfilegu upplifun að sitja inn i húsi í mestu makindum þegar allt í einu eins og hendi sé veifað brýst fram sú ægilegasta orka sem maður hefur nokkru sinni fundið og líf manns og limir eru gjörsamlega undir valdi örlagana.

Þannig sat ég við þessa sömu tölvu og ég rita þessi orð á þegar titringurinn hófst. Rétt er að geta þess að sólarhringinn áður fann ég kippi annað slagið og sumir voru jafnvel mjög snarpir þannig að gler titraði og ekki var hjá því komist að verða skjálftanna var. En ég kippti mér ekki upp við það því hér í bæ er smávægilegur hristingur ekki til að nefna. Ég kippti mér ekki upp við það og hreyfði mig ekki.

Þennan föstudag sat ég einnig sem fastast þegar lætin hófust; bjóst við að um venjulegan skjálfta væri að ræða. En ég varð þess skjótt vör að það var eitthvað miklu meira á ferðinni en vanalega. Áður en ég gat snúið mér við þá nær féll yfir mig bókaskápur við hlið mér fullur af möppum með heimilisbókhaldi síðustu tíu ára eða svo. Skápurinn stóð af sér skjálftann en fleygði úr hillunum möppunum yfir mig. Húsið hristist og skalf dinglaði til og frá og hlutir féllu af skrifborðinu.

Ég varð ofsahrædd og sá fyrir mér mynd af annarri löpp minni sem aðeins var sýnileg í spýtnabraki þegar húsið hafði jafnast við jörðu. Ruslaði af mér möppunum og öðru smálegu og kallaði á hundana. Það eina sem komst að var að koma mér undir dyrastafinn og ég skreið á meðan bækurnar úr hillunum handan við mig hrundu yfir mig. Undir dyrastafinn komst ég loks og tíkurnar hnipruðu sér fast að mér. Ég man ekki hvað ég hugsaði annað en ég var þess nær fullviss að ég slyppi ekki lifandi frá þessu. 

En jafn skyndilega og þessi hörmung hófst, stöðvaðist allt. Og ég æpti á hundana út, út. Greip páfagaukinn og hljóp yfir pallinn og út í garð, en kötturinn var hvergi sjáanlegur. Allt var undarlega hljótt og eitt augnablik rann í gegnum hugann hvort ég hefði verið ein í þessum skjálfta. Greip símann á á borðinu á pallinum og hringdi í 112 og spurði hvort ég væri nokkuð að ímynda mér; hafði ekki verið jarðskjálfti? 

112 röddin var ekki alveg með á nótunum og sagði að slökkvibílinn væri áleiðinni! Taldi mig konu sem hafði hringt á slökkvibílil skömmu áður. Hann var nefnilega ekki búin að frétta af skjálftanum. En svo kom upp í mér fréttamaðurinn og ég fór af stað í einu taugakasti til að líta á ummerki í næstu húsum. Menn voru í sjokki rétt eins og ég en samt var allt hljótt; það heyrðist ekki í bíl, engir hamarslættir úr nýbyggingunum næst mér. Aðeins samtal okkar íbúana sem voru heima í botnlanganum mínum við Lyngheiðina. 

Ég fór aftur yfir  til mín og æddi um pallinn, út í garðinn og inn í húsið. Í hvert sinn sem ég reyndi það kom eftirskjálfti. Og það var eins og stungið væru hundrað nálum í endann á mér, svo snögg var ég að koma mér undir bert loft aftur. Skyndilega gerði ég mér ljóst að hundarnir voru hvergi sjáanlegir; ekki komust þeir út úr garðinum og ég kallaði inn í húsið en fékk ekkert svar. Ég áræddi því að fara inn og leita þeirra og auðvitað voru dýrin í einum hnapp við þvotthúsdyrnar, skjálfandi og titrandi. Af eðlislægum hvötum sínum viðist sem þeir hafi snúið inn í húsið án þess að ég yrði þess vör og sem leið lá að  þeirra vanalega útgangi  í þvottahúsinu. Það var ekki viðlit að fá þá í garðinn með mér; út skyldu þeir og það sem í þeirra huga var út í frelsið; dyrnar sem þær vanalega fara út um í gönguferðir Það eina í stöðunni var að koma þeim út í bíl.

Ég var heppin; bý líklega í vel byggðu húsi því ekki er að sjá annað en húsið hafi gefið vel eftir og það er eins heilt og það var fyrir þennan dag. Allar hurðir falla eðlilega að stöfum og skápahurðir standa ekki á sér. Skemmdir urðu hins vegar á öllu smálegu sem hrundi í gólfið niður á harðar steinflísarnar.

Nokkrum dögum síðar var ég komin af landi brott - og átti fyrir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Velkomin heim, kæra systir. Vonandi er mesti skjálftinn úr þér eftir hremmingar í Hveragerði og skyndilegt fráfall Birtu þinnar.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 20.6.2008 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband