16.11.2006 | 11:46
Lárétt og hreyfingalaus í átta sundir
Ég þurfti að nýta mér þá heilbrigðisþjónustu sem okkur stendur til boða í vikunni. Mætti kvöldið fyrir aðgerð inn á sjúkrahús og svaf eina nótt. Morgunin eftir fór ég í rannsókn sem leiddi í ljós að ég þarf að fara aftur í næstu viku í aðgerð.
Um mig var vel hugsað og ég held að ég hafi fengið bestu mögulega hjúkrun þar sem ég lá á bakinu með farg yfir mjöðmum og mátti mig ekki hræra í átta klukkustundir. Það trúir því enginn hve það getur verið erfitt að liggja þannig. Ég reyndi að sofa en það var lítill friður. Í hver sinn sem ég var að festa svefn kom einhver inn og athugaði eitthvað. Mældi blóðþrýsting, fiktaði eitthvað í vökvanum sem ég fékk í æð eða kannaði líðan mína.
Ég gat ekki lesið því ég mátti ekki reisa mig upp og því síður gat ég skrifað viðtalið sem ég ætlaði að skrifa þennan dag í rúminu. Mér var hugsað til þess hve lánsamir þeir eru sem hafa heilsuna í lagi. Hvað ef ég hefði veikst eða slasast þannig að ég gæti mig ekki hreyft? Sumir liggja þannig árum saman en ég var í nokkrar klukkustundir hreyfingalaus og vældi samt.
Ég þurfti ekkert að borga fyrir þjónustuna og var auðvitað ánægð með það. Einhver annar sem þyrfti í svipaða rannsókn og væri hjá lækni sem hefði aðstöðu utan sjúkrahúss til að gera hana, þyrfti hins vegar að borga tugir þúsunda. Ég hef aldrei skilið þetta kerfi. Það er semsagt lotterí að vera hjá lækni sem getur lagt mann inn á meðan rannsókn fer fram. Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Flokkur: Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 16:34 | Facebook
Athugasemdir
Ég vona bara að þú sért búin að ná þér. Ekki gott að vita af þér á sjúkrabeðinu.
Kv. Valur Grettisson
Valur Grettisson (IP-tala skráð) 17.11.2006 kl. 10:21
Þakka þér fyrir umhyggjuna Valur minn. Já, er búin að jafna mig en er á leið aftur á þriðjudagsmorgun í aðgerð. Verð frá í nokkra daga en vonandi lifi ég þetta af...Nei, grínlaust þá er engin ástæða til að ætla annað en ég jafni mig en það er verið að gera við æðaþrengsl í hægri fæti. Reykingarnar hafa ekki bætt ástandið en fyrst og fremst er um ættgegnan kvilla að ræða.
Forvitna blaðakonan, 20.11.2006 kl. 01:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.