26.11.2006 | 07:57
Eins og sprautuð með spítti!
Það er eins og ég hafi verið sprautuð með spítti á spítalanum í vikunni en eins og lesendur mínir hafa geta ráðið í, var ég víðs fjarri í vikunni og kom heim með löppina í fatla á föstudag. Síðan hef ég verið óstöðvandi, þrátt fyrir að vera ekki gróin meina minna. Það er barnaleikur einn að vera með 60 eða 80 heft í löppinni (nú eru menn ekki lengur saumaðir saman heldur heftir með venjulegu hefti), miðað við krankleika minn áður en löppin var löguð. Mér finnst ég bókstaflega fljúga um.
Ég áttaði mig sumsé ekki á því hve slæm ég væri orðin og hve handikapperuð og þjökuð ég var af slæmskunni. Ég hef augljóselga verið að versna smátt og smátt og átti orðið bágt með gang. Svo bágt að það var farið að taka verulega á að vinna léttustu verk, eins og taka til heima hjá mér og ganga úti með hundana mína. Menn töldu mig þjást af þunglyndi og einskærri leti.
Þessa tvo daga hef ég ekki kunnað mér læti og verið eins og lamb að vori. Ætt um allt í göngutúrum með hundræflana mína sem hafa sannarlega fengið að kenna á slæmsku minni síðast liðið ár. Ég hef skúrað og skrúbbað og ætla út nú á eftir að þvo bílinn minn bæði að utan og innan. Hef hreinlega ekki getað stoppað.
Ég hefði ekki trúað hve gott er að fá aftur löpp með fullum krafti. Ég meira að segja get hugsað mér að fara að hlaupa upp um allt, en síðustu ár hef ég fengið hroll ef minnst hefur verið á líkamsrækt og fjallgöngur. Lét duga að segja að göngutúrar væru mín líkamsrækt. Það er ekki að furða og ég átta mig nú á að ég hef líklega verið orðin slæm fyrir 6-8 árum. Gleði mín er fölskvalaus og meira að segja er ég léttari og hamingjusamari í skapinu, en þeir sem þekkja mig vita að ég hef svo sem sjaldan verið þung og gleðisnauð.
En þið vinir og vinnufélagar sem hitt hafið illa á mig, ef einhverjir eru, vitið þá núna að ég var kona verulega bækluð, bæði andlega og líkamlega. Afsakið mig og mína leti sem var sum sé ekki nein leti. Nú er lífið farið að vera skemmtilegt aftur, eins og það á að vera.
Meginflokkur: Fjölmiðlar og fólk | Aukaflokkur: Ljóð | Breytt s.d. kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.