Breytt gildismat á krepputímum - hundur á heimilið í stað utanlandsferða

DSC04531Mínir uppáhalds hvolpakaupendur eru yfir fimmtugt
Hvolpar eru að fara frá mér rétt eina ferðina. Og það venst aldrei. Með hverju árinu er erfiðara og erfiðara að sjá á bak þeim.
Ég hef hins vegar verið lánsöm því mikil eftirspurn er eftir hvolpum þetta vorið. Trúlega hefði ég getað ráðstafað sex sinnum sex hvolpum á góð heimili ef ég hefði átt svo marga.
Er þetta ekki dásamlegt?
Stærsti hluti þeirra sem falast hafa eftir hvolpum hjá mér síðustu sjö árin, eru hjón á milli þrítugs og fertugs. Oftar en ekki er verið að láta undan þrýstingi barnanna en einnig er um að ræða fólk sem komið hefur sér vel fyrir og inn í myndina vantar aðeins heimilishundinn.
Reynslan hefur kennt mér að þegar á bak við löngun eftir hvolpi eru aðeins þessir þessir tveir þættir, er rétt að halda vöku sinni. Margir eru svo ótrúlega illa upplýstir og halda að hægt sé að rjúka einn tveir þrír í hvolpakaup og kappið ber forsjónina yfirliði. Meira að segja eru sumir foreldrar  þeirrar skoðunar að hægt sé að leggja ábyrgðina á hundinum á börnin; þau eru látin lofa því sem þau alls ekki hafa þroska til að meta og geta í fæstum tilfellum staðið við; að hugsa um hundinn og fara með hann út að ganga. Vinnusjúkir stressaðir foreldrar hafa ekki tíma í slíkt og jafnvel ekki áhuga.
DSC04517
Dömurnar þrjár sex vikna 

Það þarf ekki að taka fram að þessi hugsun er út í hött og foreldrar geta ekki sett  miklar kröfur og ábyrgð á börnin sín til að friða eigin samvisku. Oftast er þetta nefnilega fólkið sem er ekki reiðubúið að fórna neinu fyrir þá ánægju sem það veitir að halda hund á heimilinu.
Hugurinn stefnir hátt, og á besta aldri er mönnum allir vegir færir. Það er ekki til sú áskorun sem sjálfsöruggt ungt menntað fólk er ekki til í að taka til að festa sig í sessi.
Hjón á þessum aldri eru á fullu í að vinna sig upp og það stöðvar það ekkert á þeirri braut enda hafa margir hverjir lagt mikið á sig á meðan námi hefur staðið og því kominn tími til að uppskera. En frami upphefð þýðir stundum breytingar með skömmum fyrirvara. Atvinna býðst í öðrum löndum eða ákveðið er að bæta við sig í námi og harkan sex er allsráðandi Og á þessu aldurskeiði eru einnig flestir skilnaðirnir sem þýða oftar en ekki miklar breytingar á búsetu og aðstaða þeirra sem skyndilega verða einhleypir er ekki hagstæð litlum hundi.
Hvað er einn hundur á milli vina þegar hvort sem um er að ræða frama, bættan efnahag eða hið öndverða hjónabandið er í húfi.
Auðvitað er hundinum fórnað.
“Því miður, getum við ekki haft hann lengur þar sem aðstæður hafa breyst,” hef ég heyrt oftar en ég hef viljað. Ég verð alltaf sorgmædd því hundurinn á engan að nema fjölskylduna sem ég úthlutaði honum ungum. Líf hans er alfarið undir duttlungum og eiginhagsmunum mannkindarinnar komið.
Og því mega hvolpakaupendur aldrei gleyma; hundurinn elskar fólkið sitt án skilyrða og hjarta þeirra er kramið þegar senda á þá eitthvað og eitthvað. Svo lánsöm er ég að hafa tekið sjálf að mér hvolpana mína, fullorðna þegar eitthvað viðlíka kemur uppá. Og svo merkilegt sem það er; hvolparnir sem jafnvel eru orðnir nokkurra ára hundar gleyma ekki kellingunni sinni; muna lyktina og una glaðir við sitt hjá mér.
En það er önnur saga; ég skil alls ekki þann hugsunarhátt að kasta frá sér þeim sem minnst mega sín innan fjölskyldunnar fyrir eitthvað sem ekki gefur neitt þegar upp er staðið. Í mínum huga eru hundarnir mínir mér ekki minna kærir en börnin mín og barnabörn. Ég er líka komin á þann aldur að harkan hefur vikið fyrir mýktinni.EGnár hvolpurins og fyrr sagði átti ég ekki von á því fyrirfram að svo mikil eftirspurn yrði eftir hvolpunum mínum líkt og raunin varð. Í miðri kreppu þar sem flestir halda aftur af sér og reyna að spara eins og frekast getur.
En ég komst að því að hvolpaeftirspurnin var ekki sprottin af sömu þörfum og fyrr, fólkið sem spurðist fyrir og vildi kaupa hvolp tilheyrði í mun minna mæli fyrrnefndum hópi, aðrar ástæðaur lágu að baki lönguninni eftir hvolpi en fyrr. Og ég áttaði mig einnig á að í raun er hvolpaeftirspurnin í nokkrum tilfellum í sparnaðarskyni því eins og menn vita þá hefur hugsunarháttur fólks og viðhorf til hlutana breyst afar mikið á síðustu mánuðum.

Sjö vikna dama sem úr síðari goti Gnár.
Hún hefur gert það gott á sýningum þessi
Fjölskyldugildið er þar einn stærsti þátturinn. Gildismatið er mýkra og það er ekki lengur fínt að aka um á dýrum jeppum, þvælast til næstu landa mánaðarlega eða spaða peningum í óþarfa. Nú er aðhaldið, nægjusemin og samveran við nánustu fjölskyldu það sem fólk kýs.
Og hvar kemur hundur inn í það dæmi? Jú, það er stór hluti þess að sameina fjölskyldur. “Nú verður ekki farið til útlanda heldur kaupum við lítinn hund og förum í útilegur og sumarbústað.
Tveir hvolpanna minna fara til eigenda sem komnir eru yfir sextugt. Fólk sem á uppkomin börn og barnabörn. Þetta fólk er að kaupa hvolp sem ætlað er að vera hluti stórfjölskyldunnar. Dætur og synir hafa verið með í því að velja og barnabörnin eru yfir sig spennt. Foreldrarnir hafa ekki treyst sér til að kaupa hund þar sem flestir vinna langan vinnudag. Afi og amma eru hins vegar farin að hægja á sér og hafa ömmurnar minnkað svo við sig vinnu að þær eru heima að minnsta kosti hálfan daginn. Dætur og synir eru reiðubúin að gæta litla fjölskyldumeðlimsins hvenær sem verkast vill og amman og afinn þurfa ekki að hafa áhyggjur af bindingunni sem felst í að taka lítinn hvolp að sér. Hvolp sem verður hundur og á jafnvel eftir að lifa 10 til 15 ár.
Hundurinn er því meira eða minna á ábyrgð allra og börnin er sæl með næst besta kostinn; að amma og afi kaupi hvolp þar sem foreldrar þeirra geta ekki vinu sinnar vegna tekið inn á heimilið lítið kríli sem þarf að hugsa um og gæta að eins og barni. Og allir una glaðir við sitt.
Það hefur verið yndislegt að fylgjast með þessu fólki sem er ekki að ana að neinu, hefur þroska og reynslu og næga blíðu og ást til að gefa litlum hvolpi. Sem jafnvel sameinar hjón, sem ekki lengur hafa það sem áður sameinaði þau; börnin. Á þessum aldri er fólk afslappaðra og það hefur meiri tíma.
Hvolpakríli
Tómið sem brauðstrit og börn skilja eftir sig þarf að fylla og hvað er betra til þess en einmitt lítill hvolpur?
Ég get svarað því vegna þess að ég hef svo oft orðið vitni þess hve lítill hvolpur hefur bætandi áhrif á hjón sem vaxið hafa hvort í sína átt og finna ekki lengur sama tilgang með að vera saman.
Ég hef séð eigin augum að lítill hvolpur hefur gjörbreytt sambandi hjóna og fyllt það tómarúm sem fólk yfir fimmtugt, sextugt finnur svo oft fyrir þegar það stendur skyndilega eftir með hvort annað. Börnin farin, efnahagurinn betri og tíminn rýmri.
Hver öðrum yndislegri og erfitt að gera upp á milli
Ég hef því notið þess sérstaklega að fylgjast með þessum stórfjölskyldum sameinast í kringum lítinn hvolp. Allir jafn spenntir og innilega reiðubúnir að leggja sitt að mörkum til að styrkja enn frekar samband fjölskyldunnar með þeirri ákvörðun að taka að sér lítinn hvolp. Og sjálf gleðst ég manna mest því litlu gersemin mín sem ég hef vakað og sofið yfir síðustu tíu vikurnar fá óskaheimili þar sem hlýjan og elskan +a sér engin takmörk. Og ég fæ eðlilegan nætursvefn; er örugg ánægð og sátt. Ömmur og afar eru mínir uppáhalds hvolpaeigendur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Þú getur verið stolt yfir því hvað þú hefur glatt marga með yndislegum hundum. Það er ómetanlegt framtak.Váli er hérna við hliðina á mérá meðan ég blogga og veitir mér hlýju.

Helga Þórðardóttir, 25.5.2009 kl. 00:47

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þakka þér fyrir Helga mín; þið Gunnar eruð í hópi minna bestu hvolpaeigenda enda þori ég að hengja mig upp á að Váli hefur þjappað fjölskyldunni saman og bætt gott smaband enn frekar.

Eru einhverjar nýlegar myndir af Vála til? Gaman væri að fá sent eða skoða inn á fésbókinni.

Og eitt til; það er sýning núna í júní 26-7 jún og aftur í ágúst en þá er afmælissýning HRFÍ. Mikið væri gaman f Váli yrði sýndur; geturðu komið því við?

Forvitna blaðakonan, 25.5.2009 kl. 00:56

3 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Og eitt til; einn vinnufélaga þinna er að fá hvolp hjá mér. Það er tík og henni er sko ekki í kot vísað þar sem blíðan og umhyggjan eru í fyrirrúmi. Það er yndislegt að fylgjast með þeim tilvonandi eiganda, þeim dáðadreng þegar hann tekur litluna sína í fangið.

Forvitna blaðakonan, 25.5.2009 kl. 00:59

4 identicon

Fannst gott og áhugavert að lesa pistilinn þinn, gangi ykkur áfram sem allra best.  Búum reyndar erlendis og hundlaus, en einn góðan veðurdag vonumst við til að fá okkur hund.  Við erum búin að vera gift í rúm 20 ár og erum bæði miklir hundadýrekendur en þ.s. við verið mikið á ferðinni hingað til þá hefur það ekki hentað að fá okkur hund.  En um leið og hægist um þá ætlum við að láta verða af því, vonandi finnum við þá jafn frábæran hundaræktandi og þig þegar þar að kemur :-)

ASE (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 01:23

5 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þakka þér hlý orð ASE. Ég er hjartanlega sammála um að maður á ekki að fara út í hvolpakaup fyrr en maður hefur tíma til þess og farin að hægja aðeins á þannig að maður geti notið þess enn betur.

Ég var að nálgast fimmtugt loks þegar ég eignaðist mína fyrstu tík á fullorðinsárum en ég átti hunda sem barn. Það var mesta upplifun lífs míns, fyrir utan barnsfæðingar að eignast Birtu mína árið 1999.

Forvitna blaðakonan, 25.5.2009 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband