Ritstjórar DV á lausu - í boði Stefáns Pálssonar

 "Blaðamannahjörðin hefur meira að segja gert hlé á hver-fer-að-vinna-á-nýja-tímaritinu færslunum sínum..."

Hver annar en Stefán Pálsson hefði getað orðað þetta skemmtilegra? Já og til að gleðja hann blessaðan og í þakklætisskyni fyrir yndislega hnyttinn texta ætla ég einmitt að skrifa færslu um uppáhalds efnið hans hér á Moggabloggi sem hann les af hjartans list á hverjum degi. Í þínu boði Stefán:

Jæja þá eru fréttirnar af DV og öllu makkinu sem þar hefur verið í gangi öllum ljósar. Nokkuð sem maður vissi og annaðhvort mátti ekki segja eða gat sér til og vildi ekki upplýsa. Það er eins og hvert mannsbarn veit ekki hægt að halda fréttum af svona breytingum leyndum lengi. Of margir vita hvað er í gangi og óhjákvæmilegt að eitthvað leki.

Ég get ekki annað en fagnað því að fá DV aftur á hverjum degi og efast ekki um að sme á eftir að gera fína hluti með blaðið. Hann kann til verka og hans sterka hlið er að rífa eitthvað upp úr öldudal og hann er snillingur í að fá fólk til að vinna með sér. Sjálfur er hann ósérhlífinn og kraftmikill og elskar að vera kallinn í brúnni.

En að er enginn án lasta, hvorki ég, Sigurjón, né neinn annar. Út í þá sálma verður ekki farið hér enda alltaf skemmtilegra að horfa á björtu hliðarnar. Ég efast hins vegar ekki um að sme er sjálfum fullkunnugt um hvar hans veiku hliðar liggja og ætti ekki að vera skotaskuld úr að taka sig í gegn.

Mest um vert er þó að kallinn fái góða áhöfn á ritstjórnina og ef honum tekst að manna hana vel og honum ber gæfa til að láta fagmennskuna ráða en ekki blessaðar tilfinningarnar, er mikils að vænta. Þeim feðgum óska ég velfarnaðar en Janus er kominn á heimaslóðir aftur og með honum þekking og reynsla frá fyrri mentorum sem er ekki svo lítils virði þegar af stað er farið.

Ekki er ljóst hvar þeir Óskar og Freyr enda, en ég furða mig á að ekki skuli vera boðið í þá úr öllum áttum. Báðir snillingar á sínu sviði. Freyr ótrúlega klár í framsetningu á efni og hefur auga fyrir smáatriðum auk þess að vera hugmyndaríkur og með með mikla næmni fyrir því sem öðrum er ekki alltaf augljóst.

Óskar er hins vegar fréttahaukur af Guðs náð, með ótrúlega gott auga fyrir vinkli á frétt og framsetningu hennar. Hann er svakalega vel tengdur og hefur þann hæfileika að geta spurt þannig að hann fái svör. Óskar er líka sérlega næmur á að sjá hvar styrkleiki annarra fréttamanna liggur og tekst alltaf að fá það besta út úr fólki enda mjög hvetjandi og uppörvandi. Það er líka gott að vinna undir hans stjórn og hann hefur góðan aga á mannskapanum án þess að þurfa að grípa til þeirra ráða að hækka róminn eða vera á einhvern hátt óægilegur. Hann nær að virkja að besta í manni og gera vinnuna ánægjulega og mikilvæga. Svo er hann eldklár, skrifar góðan texta og er í alla staði frábær fréttastjóri.

Ég trúi ekki öðru en aðrir fjölmiðlar verði á höttunum eftir þeim félögum, nema að menn geri sér alls ekki grein fyrir hve hæfileikamiklir þessir strákar eru. Þeir hafa haldið sig til hlés og forðast að láta bera á sér þvert á það sem aðrir í þeirra stöðum gjarnan gera. Það kann það að koma þeim í koll núna þegar tækifæri gefst til að selja sig dýrt. Með fullri virðingu fyrir Trausta mínum fyrrveransi vinnufélaga og núverandi ritstjóra Blaðsins, held ég að sú staða hefði verið sniðin fyrir Óskar og ar hefði hann sæmt sér vel.

En oflof er háð og best að láta staðar numið: Ætlun mín er alls ekki sú að þessum pistli verði tekið þannig, því það var ekki meininginn. Mér er bara annt um báða þessa stráka sem ég hef unnið með á erfiðum tímum sem tengt hafa menn betur en ella. Vona bara að þeir endi þar sem þeim ber.

------------------------------------------------------- 0 ---------------------------------------------------

 

Og svona í blálokin fyrir þá mjúku; Gná mín er enn ekki komin af stað. Hún er á 62 degi á morgun og ég get ekki ímyndað mér annað en allir þessir hvolpar fari að vilja sjá dagsljósið og hún fari af stað á hverri stundu. Einn sólahringur hjá tík er eins og fimm dagar hjá konu. Og þar hafið þið þann fróðleik. Segið svo að það sé ekki ýmislegt hægt að læra af blogglestri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Hvernig fer núna með ykkur hjá Mannlífi, ef það á að leggja blaðið niður? Sem mér finnst reyndar mjög slæmt.

Svala Jónsdóttir, 29.12.2006 kl. 15:33

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Mannlíf verður ekki lagt niður; kannski verða breyttar áherslur. Það er ekki neitt nema spennandi að taka þátt í að móta það að nýju.

Forvitna blaðakonan, 29.12.2006 kl. 18:37

3 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Gott að heyra! Fréttin á Vísi er þá röng. Það verður spennandi að fylgjast með þessu. :)

Svala Jónsdóttir, 29.12.2006 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband