Varð einhver vitni að dauða Asks míns á horni Vitastígs og Grettisgötu

askur_2.jpgdscf0749.jpg010.jpg

Askurinn minn; ljúfurinn minn kæri varð fyrir bíl á horni Grettisgötu og Vitastígs á milli 19-20 fyrir viku síðan.

Hann sem alltaf hlýddi og fór aldrei neitt án okkar lét ekki litla frænda sinn bjóða sér nema einu sinni að fá sér ferskt loft þetta kvöld þegar þriggja ára gamalt barnið opnaði dyrnar.

 Askur mánuði áður en hann dó. Á litlu myndinni er Smári dóttursonur minn í garðinum að leik við Ask og Freyju mömmu hans en þau voru mjög náin.

Við höfum fregnir af því að hann hafi þá rekið augun í hund handan götunnar og fylgt honum eftir. Hann gleymdi öllu öðru og hljóp niður Vitastíginn; uggði ekki að sér og litli líkaminn þoldi ekki höggið og því fór sem fór.

Ég hef verið að reyna að afla mér upplýsinga um þetta atvik og sagði Stefán Eiríksson lögreglustjóri að slysið væri skráð hjá þeim en lögreglan í Reykjavík hafi eigi að síður ekki komið að málinu.

Og haldið ykkur nú; það er ríkislögreglustjóri sem sendir sérsveitina - víkingasveitina sína á vettvang ef dýr lendir í slysi. Jú, þeir eru vopnaðir skammbyssum og eiga að meta hvort aflífa eigi dýr á staðnum!

Sumsé ala 1950. Nei, þeir eiga ekki að kalla til dýralækni sem er með fimm ára menntun að baki og þar af leiðandi sérfræðingur í að meta hvort bjarga megi dýri frá dauða með því að gera aðgerð sem oftar en ekki getur og hefur heppnast; það er að segja hafi sérsveitin ekki verið fyrri til að senda kúlu í höfuð særð dýrs.

Hvers vegna dýralæknar láta bjóða sér að menn án fagkunnáttu gangi í verk þeirra er mér hulin ráðgáta. Auk þess er misjafn sauður í mörgu fé og þetta eru hipp og kúl kallar sem finnst einn hundræfill kannski ekki þess veiði að reyna að bjarga honum.

Þegar Askurinn minn fór voru dætur mínar á hlaupum um hverfið að leita hans. Þær hittu konu sem sögðu þeim að skömmu áður hefði verið ekið á hund. Önnur hringdi samstundis í lögreglu (sem hún hafði þá þegar verið búin að gera og spyrjast fyrir um hvort slys hefði orðið og ekið yfir dýr og þeir ekki kannast við neitt.)

Þá voru menn Halla á leið í með hundinn sem sannað er að ekki dó samstundis upp í Elliðaárdal???? Hvað vakti fyrir þeim veit ég ekki en mér dettur i hug Víðidalur eða dýraspítalinn þar.

UM leið og dóttir mín fékk staðfest að þeir væru með hundinn í bílnum kallaði hún í dýralækni sem var á vakt á stofu Dagfinns 500 metrum fjær. Það datt sérsveitamönnunum ekki í hug.

Sérasveitarmenn Haraldar, þjálfaðir í að meta ástandsslasaðs dýrs komu skjótt og hittu dóttur mína fyrir á slysstað. Lá þá litlim Askurinn minn  aftur í sætinu og var ekki að sjá að þeir bæru minnstu virðingu fyrir dauðanum né eigandanum sem þótti trauðla minna vænt um Ask en barnið sitt.

Hún tók hann í fangið og kallaði nafnið hans og opnaði hann þá annað augað. Honum blæddi trúlega út í aftursætinu í bíl töffaranna; án þess að ég geti um það fullyrt. Óskhyggja dótturinnar hefur kannski verið svo mikil að henni hefur sýnst augað opnast og hann heyra í henni eða ímyndað sér. En ljóst var að hann hafði verið á lífi ekki löngu áður en dýrlæknirinn skoðaði hann þar sem hægt var að greina á lit gómsins hve löngu áður hann komst í hennar hendur Askur varð allur.

Það er okkur mikils virði að vita hvernig þetta bar að og því biðla ég til íbúa í grenndinni sem kynnu að hafa orðið vitni að atburðinum að hafa samband við mig. Eins ef ökumaðurinn sem varð fyrir þessu óláni fréttir af þessu bloggi mínu að hringja í mig.

Það sem sló mig hvað mest er að þegar dóttir mín féll saman og harmurinn tók af henni öll völd yfir missi hundsins Hún grét og grét í taugaáfalli, kallaði nafn hans stöðugt. Lagðist með lífvana líkama Asks í fanginu á gangstéttina, þá kvöddu menn Haraldar ríkislögreglustjóra og áminntu hana um að drífa sig heim. Þeir buðust ekki til að aka henni eða reyna að hugga hana, fara með henni til dýralæknis eða eitt né neitt. Bara fóru og hún lá á gangstéttinni harmi sleginn og gat sig ekki hrært fyrr en dýralæknirinn kom.

Fjarri lagi er að ég áfellist ökumann bílsins. Það þaef ekki að aka nema 30 kilómetra hraða á klukkustund til að deyða svona lítið dýr. Þetta var slys og á því báru dætur mínar sem voru með Ask ábyrgð. Það var þeirra að gæta hans eins og sjáaldur auga síns enda er það rússnesk rúlletta að missa ungan rakka sem finnur lykt langar leiðir út úr húsi.

Við höfum tekið dauða hans afar nærri okkur og dóttir mín kenndi sjálfri sér um. Hún hefur átt skelfilega erfitt og það hefur tekið virkilega á að horfa upp á vanlíðan hennar og sorg.

Það mun hjálpa okkur heilmikið að fá svörun frá sjónarvottum og því það slær kannski á mesta sársaukann.

Askur var af tegundinni Cavlier King Charles Spaniel, 15 mánaða efnilegur rakki. Ég sýndi hann í vor og þá var hann í þriðja sæti í sínum flokki, þótti heldur grannur en fékk excellent og frábæra dóma.

Síminn minn er 8219504 og ég væri meira en þakklát fyrir allar upplýsingar hve litlar þær væru.

Í kvöld er nákvæmlega vika liðin síðan slysið varð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heil og sæl Forvitna blaðakonan.

Ég ætla að votta ykkur samúð mína. Ég geri mér fullagrein hvað það er sárt að missa þann sem manni þykkir vænt um. þetta eru staðreynir sem ekki  er hægt að hrekja.

Það sem mig langaði að koma á framfæri, ég vil ekki hafa dýr inn á mínu heimili því ég hef þurft að fara með dýr til aflífunar þar sem viðkomandi dýr vissi nákvæmlega hvað hennar biði. Hún grét hástöfum þetta er mín mesta kvalastund sem ég hef upplifað að heyra þetta. 

Það sem þetta er heimilisdýr ykkar og hluti af fjölskyldu þinni er ástvinna missir mikill. Ekki má gleyma blessuð börnunum sem hafa þótt vænt um Ask. Ég fullyrði það veit enginn fyrr enn misst hefur. Sjálfsagt renna tár niður kinnar því það léttir á sorginni yfir fráfalls ykkar elskulega Ask sem hefur kvatt þennan heim.

Ég vona að þið getið í framhaldinu fengið ykkur hund að svipuðum toga og með því fært ykkar líf í eðlilegt horf. Guð blessi ykkur öll.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 10.10.2009 kl. 13:15

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þakka þér fyrir kæri Páll. Ég er svo lánsöm að eiga fleiri hunda og þeir hjálpa mikið. Móðir Asks er mín og ég fann hvernig sorgin lamaði hana þegar hún fann nályktina og áttaði sig á hvað hafði gerst, enda voru þau afar samrýmd.

Forvitna blaðakonan, 10.10.2009 kl. 14:06

3 identicon

Samhryggist ykkur innilega vegna þessa hörmulega slyss.

Ef til þess kæmi að lina þyrfti þjáningar dýra sem ekið hefur verið yfir þá eru lögreglumenn sendir sem hafa til þess reynslu og búnað. Ekki þarf 5 ára háskólanám til þess að athuga með lífsmörk á dýrum. Lögreglumenn fá kennslu og þjálfun í því að finna lífsmörk.

Alltaf er haft samband við eiganda hundsins/dýrsins þ.e.a.s. ef að hann er merktur. Eigandinn tekur síðan allar ákvarðanir. Dýraspítalinn í Víðidal er sá spítali sem lögregla fer með ómerkt dýr sem hafa lent undir bifreiðum. Upplýsingum um aðra dýralækna sem sinna útköllum að kvöldi til er tilvalið að koma til lögreglu.  

Hvernig það getur vanvirðing að hafa hundinn í aftursætinu er mér óskiljanlegt. Hundurinn var dáinn, það var augljóst báðum lögreglumönnunum og hinum óheppna bíleiganda sem ók á hundinn. Hundinum blæddi ekki út í lögreglubílnum, það er ljóst. 20 ára reynsla, aðkoma að ótal umferðarslysum þar sem ekið hefur verið á ketti eða hunda, auk margra sumra í sveit hjálpaði til við mat á því hvort hundurinn var lífs eða liðinn.

Á vettvangi kom fram hver búseta eiganda hundsins var. Mjög stutt frá vettvangi.  Eins og þú veist voru þarna fleiri á vettvangi sem voru mun betur til þess fallnir að sinna áfallahjálp heldur en "töffararnir."  Vissulega hefði mátt gera betur, en þetta eru vandrötuð mörk sérstaklega þegar að nánir ættingjar eru einnig á vettvangi. Afsakið samt innilega.

Ekki er auðséð hver tilgangur þess er að skrifa um lögreglumenn sem koma á vettvang og fylgja í einu og öllu starfsreglum, á þann hátt sem þú bloggar. DV hirðir að sjálfsögðu tækifærið og fullyrðir að töffararnir, þú bloggaðir; "hipp og kúl kallar" hafi látið hundinn blæða út aftur í bílnum hjá sér.  Með fullri virðingu þá held ég að þetta sé ekki leiðin fyrir ykkur að vinna úr sorginni; að úthúða lögreglumönnum.

Samúðarkveðjur

"Töffari" (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:19

4 identicon

Heyr heyr "Töffari".....   Vissulega er leitt að hundurinn hafi látið lífið... en það er bara ekki hægt að kenna "töffurunum" um neitt hér.....  Eflaust hefðu þeir verið búnir að athuga með dýralækna ef að ríkið væri ekki með samning við dýraspítalan í Víðidal.... Og ef að lögreglumenn ættu alltaf að vera eins mennskir og við viljum þá myndu þeir brenna upp í starfi á örskömmum tíma.....   Það er allkunna að löreglumenn, sjúkrafluttningamenn og björgunnarsveitar fólk "brynja" sig til að GETA sinnt sinni vinnu ......Skiljanlega.... Setjum okkur í þeirra spor... sem er einhvað sem alltof fáir gera þegar þeir úthúða löggunni....   Heimilisofbeldi... líkamsárásir... unglingavandamál... sjálfsvíg og tilraunir.... gleymt gamalt fólk og listinn er langur...  ég held að þegar maður er í kringum svona mikið af neikvæðum upplifunum þá verði maður kannski "kaldur" útávið... en við skulum bara þakka fyrir að einhver nennir að standa í því að "brynja" sig til að geta sinnt okkur þegar einhvað kemur uppá!!!!!  og það fyrir LÚSARLAUN!!!!!

Enga að síður finnst mér leiðinnlegt að hundurinn hafi látið lífið og skil þig MJÖG vel þar sem að ég hef sjálf átt hunda og ketti....  En pössum okkur hvert við beinum reiðinni....  

Samúðarkveðjur  Valgerður

Valgerður (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 23:12

5 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þakka ykkur báðum og þú sem kallar þig töffara hefur greinilega verið kallaður á vettvang. Það sem ég gagnrýni í þessu sambandi er að ekki skuli brunað með slösuð dýr til læknis eins og fólk. Þau eiga rétt á að lifa eins og við og að allt sé gert til að koma í veg fyrir dauða. Dýrin búa eigi að síður við þau forréttindi að fá að fara án kvala ef þau veikjast því allir alvöru dýraeigendur láta dýrin sín ekki þjást.

Dýralæknirinn á Dýrlæknastofu Dagfinns á horni Skólavörðustígs og Kárastigs sem var í nokkur hundruð metra fjarlægð úrskurðaði Ask dáinn, en staðfesti eigi að síður að það væri ekki lengri tími en svo að hann hafi ekki látið lífið í slysinu. Ég er alls ekki að gera því skóna að hann hefði lifað af, en það var þó alltaf séns, ef hann hefði komist strax til læknis. Svo virðist sem brotnaði hafi bringubein eða rifbein og jafnvel stungist inn í líffæri sem blæddi frá. Innan 10 mínútna hefði hugsanlega verið hægt að gefa honum blóðvökva, röntgenmynda og ákvarða aðgerðir með tillitliti til meiðsla.

Ég veit "töffari" að þið þurfið að vera harðir en mér finnst hart að skilja stúlkuna harmi lostna eftir liggjandi á gangstéttinni og hlú ekki að henni. Þið eruð þjálfaðir til að umgangast fólk i allra handa ástandi og ættuð að nýta ykkur kunnáttuna þar en láta dýralæknana um aflífun og ákvörðun þar að lútandi.

Ég gagnrýni einnig að sérsveit skuli kölluð út undir þessum kringumstæðum því það hlýtur að vera okkur skattborgum dýrara en ef lögregla á viðkomandi svæði sinnti slíkum útköllum og væri með lista yfir dýrlæknastofur í farteskinu og létu fagfólk um málið.

Það vita þeir sem misst hafa dýrin sín að það er erfiðara en hinir sem ekki hafa átt dýr geta ímyndað sér. Askur var yndið okkar allra. Hann var hlýðin, afar blíður og fór aldrei út um opnar dyr nema fá merki um leyfi Í þessu tilfelli var hann spenntur þar sem hann var að flytja eftir mánaðarbið og spennan að finna lyktina af dótinu sínu í nýju íbúðinni var mikil. Hann var ekki alveg búin að átta sig á reglunum.

En staðreyndin er eigi að síður sú að verklagsreglur ykkar eru ekki eins góðar og þær gætu verið. Því er einfalt að breyta og Haraldur ríkislögreglustjóri ætti að geta farið í það mál. Þetta er það mikið tilfinningamál hverri manneskju sem missir dýrið sitt að við eigum að gera allt til að lágmarka áhættuna.

Þakka þér "töffari" fyrir að skrifa en mér þætti líka vænt um að fá að tala við þig. Ég er ekki reið, ég lít á þetta sem örlög sem ekki voru umflúin og tilgangurinn með lífi hans og dauða sé til einhvers. 

Það þykir víst ekki fínt að berjast fyrir dýr, margir líta á það sem veikleika. En ég er mikill dýravinur og hef alla tíð verið. Það er mín hugsjón að bæta aðstöðu dýra og rétt þeirra til búsetu á jörðinni rétt eins og maðurinn hefur tekið sér þennan hnött traustataki og fer með hann að eigin geðþótta. Jörðin er ekki aðeins okkar.

Dýraverndunarlög a Íslandi eru orðin gömul og úr sér gengin en eru sem betur fer í endurskoðun. Ég veit að litið verður til Norðurlandanna og reynt að taka það besta þaðan í ný lög okkur til handa.  En því miður eru endurskoðun laga og keyrsla í gegnum þing ekki dagstundar vinna. Hugsanlega margra ára. Þangað til eigum við að taka höndum saman og gera það sem við getum til að bæta ástandið.Og að lokum langar mig að biðja þig að hringja í mig, ég bít ekki en ég hef verið í sárum vegna ótímabærs  og óvænts brotthvarfs elskulega Asksins míns.

Og að lokum vil ég segja; við stöndum í stað og það verða öngvar framfarir ef ekki er gagnrýnt það sem betur má fara. Einmitt þess vegna verða breytingar til batnaðar.

Dýrlæknastofur á höfuðborgarsvæðinu eru eftirtaldar.

Dýraspítalinn Víðidal. Þar er alltaf vakt allan sólahringinn

Dýralæknastofan Garðabæ og þar er einnig vakt allan sólarhringinn

Dýraspitalinn Jónsgeisla Grafarholti sama þar.

Dýralæknastofa Dagfinns Skólavörðustíg

Dýralæknastofa Mosfellsbæjar

Dýralæknastofa Björgvins Þórissonar á Gustsvæðinu í Lindunum Kópavogi.

Dýralæknastofa Helgu Finnsdóttur Skipasundi 15 Reykjavík.

Ég held að ég geti fullyrt að allar þessar stofur eru með neyðarsíma og sinna útköllum ef þurfa þykir.

Með von um að við getum eitthvða lært og dauði Asksins míns hafi ekki verið til einskis.

Forvitna blaðakonan, 11.10.2009 kl. 00:09

6 identicon

Sæl.

Vil bara segja að ég samhryggist innilega. Það að missa hundinn minn er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum og ég skil ykkur svo vel :( Hugsið vel um ykkur. Ég vona að það verði eitthvað gert í dýraverndunarlögunum á næstunni.

Ég vil samt líka segja ykkur að reyna að gleyma ykkur ekki í reiðinni. Reiðin getur tekið völdin og hún endist lengi... Hugsið um allar góðu stundirnar sem þið áttuð saman frekar en að hugsa um síðasta kvöldið, þó það geti verið erfitt.

Berglind (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 18:30

7 identicon

Sæl

Samhryggist ykkur innilega. Að missa einhvern úr fjölskyldunni er það erfiðasta sem maður upplifir á ævinni. Ég held að fólk sem ekki hefur átt dýr átti sig ekki á því að þegar dýr kemur inn á heimilið, verður hann partur af fjölskyldunni.

Ég gæti ekki verið meira sammála þér með dýraverndunarlög hér á Íslandi. Að mínu mati eru þau til skammar. Við erum langt aftur í fornöld á því sviði.

Lögreglan á alveg rétt á því að vera gagnrýnd fyrir sín störf, rétt eins og aðrar atvinnugreinar. Þeir eru ekki heilagir og gera mistök eins og aðrir. Vonandi meðtaka þeir þessi mistök og læra af þeim.

Gangi þér vel í þessum sorgarferli.

Knúsaðu mömmu Asks frá mér.

Sidda (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband