Siðaskrá DV - Geiri - Ragnheiður - Jakobína og forvitna blaðakonan

 

Denni skrifar færslu um hina nýju siðaskrá DV, sem birt var á heilsíðu í fyrsta tölublaði nýs árs, undir ristsjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Við lestur hennar leyna sér ekki fingraför míns gamla ritsjóra, Jónasar Kristjánssonar. Og þar er svo sem fátt nýtt ef litið er til árdaga Fréttablaðsins en hún minnir um margt á þá siðaskrá sem hann samdi fyrir hið nýja fríblað á sínum tíma.

Ég minnist þess að lögð var áhersla á að við færum eftir siðaskrá blaðsins í einu og öllu og tækjum þær reglur sem þar voru settar fram hátíðalega. Sem og við gerðum. Man ég í því sambandi eftir atviki sem olli mér nokkru hugarangri en það var þegar ég ég heimsótti skömmu síðar Íslenskan heimilisiðnað að leita fanga fyrir Heimilisblaðið sem þá kom út vikulega.

Konurnar sem ég ræddi við voru einkar almennilegar og vildu endilega leysa mig út með gjöfum, ef hægt er að kalla þær því nafni. Svo lítilfjörlegt var það að ekki flokkast það undir mútur. Annarsvegar var íslensk grjótvala in í prjónuðum litlum pung, dregnum saman að ofan og penni, merktur Íslenskum heimilisiðnaði. Þegar ég kom upp á blað, helltist yfir mig samviskubit þegar ég áttaði mig á að ég var að brjóta siðareglur blaðsins með því að þiggja þetta lítilræði að gjöf en afþakka það ekki.

Ég var fljót að láta þetta hverfa af skrifborðinu mínu og fór með það heim og gaf það einhverju af fólkinu mínu. Og fann fyrir miklum létti. Var dauðskelkuð um að Jónas tæki eftir þessu og færi að spyrja út í þetta smádót. Sem var náttúrulega tóm paranoja því Jónas gekk alls ekki um sali í þeim tilgangi að nappa mann og annan.

Þannig tókum við á hlutunum í þá daga. Og allar götur síðan á FB gætti ég þess sérstaklega að fara í einu og öllu eftir reglunum. Oft þurftum við mikið að hafa fyrir því, eins og að láta ekki frá okkur viðtöl út úr húsi. Þá fór maður sjálfur með þau tilbúin til viðmælenda og hann fékk að lesa yfir og breyta; en aðeins því sem haft var eftir viðkomandi í beinni ræðu. Á meðan stóð maður yfir viðmælandanum og gætti þess vel og vandlega að hann færi ekki að krukka í það sem frá manni sjálfum kom eða það sem skrifað var í óbeinni ræðu.

Ég minnist á þetta hér vegna þess að Denni birtir bréf frá einhverjum ónefndum. Þar er vakin athygli á að systir mín á DV hafi alls ekki farið að reglum í þessu fyrsta blaði. Ég hef ekki talað við Jakobínu og spurt út í þessar tilteknu fréttir eða viðtöl þar sem hún ræðir að því Denni segir við bróður okkar Ásgeir Þór Davíðsson og systur okkar Ragnheiði.

Nú veit ég ekki hvort Jakobína sem er úrvalsblaðamaður ræddi í eigin persónu við systkini okkar eða fékk einhvern annan blaðamann til að leita upplýsinga hjá þeim sem hún síðar nýtti í sínar greinar. En svo mikið þekki ég Jakobínu að ég veit að hún er samviskan uppmáluð og eins og tvisvar tveir eru fjórir hefði hún aldrei rætt við Ragnheiði og Geira sjáfl, nema vegna þess að hún hefur talið það í lagi. Siðaskrá Jónasar hefur líklega ekki verið birt fyrr en í blaðinu um leið og það kom út; án þess að ég viti það. Líklegra finnst mér að einhver annar maður hafi leitað umsagna hjá þeim Ragnheiði og Ásgeiri Þór og Jakobína fellt inn í sína frétt/grein. 

Þannig unnum við blaðamenn á Frettabl. og DV, fréttir ef hagsmunir voru í húfi. Enda sjálfsagt að fara að reglum. Undanteking á þeirri reglu var innblaðsefni; hreint skemmtiefni.

"Bréfritari" Denna bendir á að síðustu að aðeins hafi vantað mig, stóru systur: "Hún hefur líklega ekki náð í blaðkonuna Bergljótu Davíðsdóttir stóru systir sína sem alltaf lumar á góðum fréttum." Hvað hún hefði svo sem átt að spyrja mig um, veit ég ekki enda er ég bara nobody og lítið spennandi að spyrja mig einhvers.

"Gaman væri Denni minn, að vita frá hverjum hugasemdin eða bréfið barst, viljirðu nefna það svo. Ég er ekki forvitna blaðakonan fyrir ekki neitt og iða í skinninu; ja nema.... já nema... Nei best að segja sem fæst. En svo mikið veit ég að það eru aðeins þeir sem þekkja okkur sem tengja okkur systkinin sama Ekki kannast ég við að nokkur viti um tengsl okkar, nema starfsfólk fjölmiðlanna sjálfra sem við höfum starfað á og það er fjarri lagi að þeir séu margir; kannski örfáir.

 Mér finnst ég samt; svona innst inni, finna lyktina af þessum pistli langar leiðir. Lyktina sem þessi ábyggilegi fréttamaður á fyrrverandi DV skilur eftir sig og angar alla leið hingað austur í Hveragerði. Ekki kæmi mér á óvart að þetta bréfkorn sé runnið undan rifjum góðvinar míns og kollega á DV, nú á Fréttablaðinu. Gæti verið að fyrsti stafurinn í nafninu hans sé JAKOB? Þori þó ekki að fullyrða það, en nokkrir aðrir koma til greina.

Spyr sá sem ekki veit! En til að taka af öll tvímæli er mér slétt sama þó á mig sé minnst; ætti að kitla hégómagirndina í öllum venjulegum nobodyum. En ég hef svo sem aldrei verið venjuleg. Verra finnst mér að fagmennska systur minna Jakobínu skuli dregin í efa. Það á hún sannarlega ekki skilið. Denni minn, þú mátt gjarnan svala forviti minni og upplýsa þetta mál, eða biðja "mannskrattan" að skrifa mér sjálfur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg frásögn af mútunum. :)

Ég er þeirrar skoðunar að blaðamenn eigi að semja sínar eigin siðareglur, eða að minnsta kosti að taka þátt í að semja þær. Þannig held ég að sé tryggast að þeir fari eftir þeim. Þó það hafi reyndar aldrei verið neitt vandamál. Nú veit ég ekki hvernig siðareglur DV hins nýja voru gerðar en mér hefði þótt indælt að vita til þess að Jónas/sme hefðu leitt hópastarf á ritstjórn þar sem siðareglurnar hefðu verið ræddar og mótaðar í sameiningu frekar en að einn ritstjóri eða tveir hefðu sett reglur fyrir stasjónina að fylgja. Mér finnst að blaðamenn eigi að koma að þessu starfi.

ghs (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 09:40

2 Smámynd: Steingrímur Sævarr Ólafsson

Sæl og blessuð

Það ættirðu að vita betur en að spyrja blaðahunda um að gefa upp heimildarmenn sína. Þér ætti nú líka að vera ljóst að Ísland er lítið land, eiginlega minna, og fjölskyldutengsl fara hátt þó þú heyrir það kannski ekki sjálf. Ég hef t.d. vitað um þessi tengsl ykkar systkina í mörg ár og svo er um fleiri svo ég efa að það sé einungis þeir sem þekkja ykkur sem vita um málið.

Og varla trúi ég að systir þín setji stafina sína undir frétt sem hún skrifar ekki sjálf. Er það ekki skrýtin fréttamennska að merkja sér grein sem er unnin af öðrum?

Hér verður sem sagt engri forvitni svalað nema þeirri að fjölskyldutengsl frægra einstaklinga á Íslandi eru ekki og hafa aldrei verið leyndarmál.

 bestu kveðjur

 Steingrímur

Steingrímur Sævarr Ólafsson, 10.1.2007 kl. 09:43

3 identicon

Begga!

Ertu gersamlega að ganga af göflunum þarna í henni Hveragerði? Hvernig í ósköpunum dettur þér í hug að ég sé einhver sérstakur heimildamaður Denna hvað þá að ég sé að skrifa honum bréf til birtingar á vef hans? Ég held þú sért ekki með réttu ráði. Þá lýsi ég yfir sérstakri furðu minni á þeirri hugdettu þinni að krefja Denna svara við því hvernig hans upplýsingar eru til komnar. Biðja hann um að nefna heimildamenn sína! Ég lýsi jafnframt yfir furðu minni á þeirri hugmynd þinni að innblaðsefni, sem er síst ómerkilegra en það sem staðlað og oft úrsérgengið fréttamat segir til um, sé undanþegið almennum vinnureglum. Og ég lýsi yfir furðu minni á þeirri skoðun þinni að af því að Jakobína er svo ofboðslega heiðarleg (ég get svo sem alveg staðfest að svo er), þá eigi hún að vera undanþegin þessum siðareglum. Því augljóst virðist mér að þarna hafi þessar reglur einfaldlega verið þverbrotnar. Ég reyndar lýsi yfir furðu minni á einu og öðru sem er í þessum siðareglum, sem eru hroðvirknislegar. Og oft ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eða bara mannlega hegðun og réttindi einstaklinga yfirleitt. Til að mynda þetta atriði sem Denni reyndar hefur nefnt og varðar það að starfsmenn blaðsins megi ekki þiggja gjafir! Og ekki stafur um það hvort þessar gjafir tengist vinnunni eða séu bara ósköp eðlilegar... gjafir. Kannski tengjast allar gjafir sem blaðamenn fá vinnunni? Er annars Jakobína ekki örugglega búin að skila jólagjöfinni sem hún fékk frá þér? Eða greina sme sérstaklega frá því að þú hafir reynt að gefa sér gjöf?

Kveðja, Jakob

Jakob (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 12:49

4 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Nú er ég bara kjaftstopp, enda hef ég víst hlaupið illileg á mig. Stundum dálítið hvatvís sú gamla. Ekki út í loftið að Magnús segi stundum bæði í gríni og alvöru að það þurfi mann á mig.

En Jakob bið ég afsökunnar á aðdróttunum í hans garð og ekki síður að gera lítið úr innblaðsefni, sem ekki var ætlun mín, var víst að reyna að útskýra eitthvað sem tókst ekki betur til en svona.

Denna bið ég líka forláts, gleymdi að hugsa enda dauðsyfjuð. Kennir manni að setja ekki inn færslur um miðja nótt. Auðvitað átti ég að vita betur en svo að Jakob stendur ekki daginn langann í bréfskriftum við Denna.. Er líka sammála þér Jakob minn að þær eru í meira en lagi skrýtnar þessar siðareglur. En sorry báðir tveir.

Auðmjúka Begga

Forvitna blaðakonan, 10.1.2007 kl. 16:47

5 identicon

Kæru starfsbræður Denni, Jakob og Bergljót.

Ég er nú svo mikill nýgræðingur í blaðamennsku að ég gerði mér ekki grein fyrir því að blaðamenn taka aldrei viðtal við neinn sem þeir þekkja eða eru skyldir á einn eða annan hátt. Ég hélt að á Íslandinu okkar litla og fámenna þá væri erfitt að komast hjá því að tala við viðmælendur sem blaðamenn þekkja. Sjálfsagt var það vanhugsað af mér að taka viðtal við mína eigin systur. Það vill svo til að hún er sú manneskja sem hefur verið mest áberandi í umræðuni um umferðarmál og forvarnir en ég átti að sjálfsögðu að tala við einhvern annan og viðurkenni ég fúslega að mistökin voru mín.

Varðandi Ásgeir Davíðsson þá er sú grein ekki merkt mér og því ekki hægt að klína á mig að ég sé að koma honum á framfæri. Það vildi bara þannig til að það barst okkur til eyrna að hann hefði keypt ákveðna fasteign í miðbæ Reykjavíkur og blaðamaður DV talaði við hann og skrifaði fréttina.

Engu að síður er þetta góð ábending til mín sem reynslulítils blaðamanns og mun ég svo sannarlega hafa hana í huga í náinni framtíð og varast að hringja í viðmælendur sem ég þekki jafnvel þó það séu einstaklingar sem mikið eru í fjölmiðlum.

Með vinsemd,

Jakobína

Jakobína Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 12:48

6 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Grunaði ekki Gvend! Líklega má skrifa þetta klúður á fréttastjóra eða ritstjóra. Veit fyrir víst að bæði Þröstur og sme vita um þessi tengsl. Það er í þeirra verkahring og þeir bera þegar upp er staðið ábyrgina.

Það er líka rétt hjá minni kæru systur JD að hún á ekki langan feri að baki. Eins og ég hélt þá hreinlega gerði hún sér þetta ekki ljóst enda víst enginn haft fyrir að segja henni þetta.

Forvitna blaðakonan, 11.1.2007 kl. 13:52

7 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég hef oft tekið viðtöl við fólk sem ég þekki, enda þekkjast margir í þessu samfélagi. Tók einu sinni viðtal við frænku mína en lét ritstjóra vita af því fyrirfram hvernig við værum tengdar og ekki voru gerðar athugasemdir við það, enda var það ekki á hinu nýja DV.

Ég hef örsjaldan gjafir í starfi og þá hefur það verið eitthvað smotterí. Kannski eins gott að maður sé að fara á vinnustað þar sem ekki eru gerðar svona strangar siðakröfur. Býst samt ekki við neinum gjöfum þar. ;)

Svala Jónsdóttir, 13.1.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband