Færsluflokkur: Bloggar

Ekki sama hvort Reynir túlkar fréttirnar eða sú forvitna

 

Það er hreint ekki sama hvernig sagt er frá hlutunum; ein og sama fréttin kann að verða að tveimur gjörólíkum, allt eftir því hver túlkar og hverra hagsmunir eru í húfi. Það sýnir sig best á fréttinni hér á undan þar sem sagt er frá 70% aukningu á lestri Mannlífs á milli ára og annarri frétt af þessari söm könnun á vef Ísafoldar

Aukning á lestri Mannlífs verður ekki véfengt eins og sjá má ef skoðaðar eru niðurstöður könnunnar sem Capacent gerði og vitnað er í. En í frétt Reynis vinar míns Traustasonar er sem minnst fjallað um aukningu á lestri Mannlífs, enda ekki hans hagsmunir að tala of hátt um það.

Hann notar hins vegar allt púðrið í að segja frá samdrætti á lestri á Séð & heyrt frá því í vor, þegar Bjarni Brynjólfsson var ritstjóri. Telur sig líklega ná þar góðu skoti á núverandi ritstjóra, Mikael Torfason. Hann lætur þess hins vegar ógetið að S&H var dreift í miklu magni frítt í könnunarvikunni í vor en ekki svo mikið sem einu blaði núna. Þannig liggur í því en Reynir man það kannski ekki eða langar ekkert að muna það enda miklu skemmtilegra fyrir hann að segja frá hrapi S&H en að lestur Mannlífs hafi aukist efir að hann hætti.

Svona gerast kaupin á eyrinni þegar kappið er mikið. Og ekkert nema gaman að því að vera í virkri samkeppni. Ég er jú blaðamaður á Mannlífi og að vonum ánægð. En til gamans geta menn lesið báðar fréttirnar og skoðað könnunina.

Blogg mitt frá í gær er hér:

Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.

Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að við Kristján Þorvaldsson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.

Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.

Og Reynis frétt á Ísafoldarfefnum hér:

Nýjasta könnun Capasent varðandi lestur tímarita felur í sér slæm tíðindi fyrir skemmtiritið Séð og heyrt. Blaðið fellur úr rúmlega 35 prósentustiga lestri í maí 2006 undir ritstjórn Bjarna Brynjólfssonar og niður í 23 prósentustig nú. Þetta er eitt mesta fall sem sést hefur frá því mælingar á lestri tímarita hófust. Á sama tíma er Hér og nú með 16,8 prósentustiga lestur og dregur saman með skemmtiritunum. Nýtt líf tekur einnig djúpa dýfu og mælist með 16,3 prósentustig í stað 19,3 stig áður. Kristján Þorvaldsson, ritstjóri Mannlífs, má vel við una því tímarit hans hans heldur sínu og vel það frá seinustu könnun og mælist með 22,4 prósentustig í lestri sem er tæpu stigi undir sérstakri könnun sem gerð var á lestri blaðsins í fyrrahaust og tveimur prósentustigum undir bestu könnun blaðsins á seinustu tveimur árum. En hástökkvarinn í Fróðasamsteypunni er þó Bleikt og blátt, undir ritstjórn Guðmundar Arnarsonar, sem eykur lestur sinn´um 25 prósent ...

 


Ólína segir söguna alla í nýju Mannlífi

Mannlif.

Auk stjúpdætra forsetans sem eru í býsna skemmtilegu viðtali við Kristján Þorvaldsson er ítarlegt viðtal við Ólínu Þorvarðardóttur sem ég skrifaði. Þar segir hún frá því sem raunverulega kom af stað þeim átökum sem urðu til þess að hún sagði starfi sínu við Menntaskólann lausu. Í viðtalinu er Ólína hreinskilin og málefnaleg og gangrýnir bæði Félag framhaldskólakennara og menntamálaráðuneytið harkalega. Frásögn hennar af því sem gerðist er studd rökum en ekki byggð á óstaðfestum sleggjudómum. Að því leyti er gaman að lesa þetta viðtal en Ólína skefur ekki utan af hlutunum fremur en endranær og kallar hlutina sínum réttu nöfnum.

Rétt er að leiðrétta það sem fram kemur í forsíðutilvitnun, en þar segir að Ólína hafi fengið hjartaáfall en það fékk hún ekki. Hún veiktist hins vegar illa í tvígang af svokallaðri hjartaöng sem er þess eðlis að kransæðarnar kreppast saman og blóð nær ekki að renna til hjartans, rétt eins og þegar þær stíflast. Hún vill lítið gera úr veikindum sínum sem ég hef þó heimildir fyrir að hafi verið býsna alvarleg. Auk þess léttist hún mikið meðan á þessum hamagangi stóð og víst er að fjölmiðlaumræða og ástandið í skólanum gekk mjög nærri henni.

Þegar Ólína er spurð hvernig lætin hafi byrjaða svarar hún:

“Sérhagsmunagæsla og pólitísk afskipti eru eitruð blanda.” Eftir nokkra umhugsun heldur hún áfram: „Breytingar eru alltaf erfiðar, jafnvel þótt þær séu til batnaðar. Þær eru sérstaklega erfiðar þeim sem þær beinast að ég tala nú ekki um ef þeir sem fyrir verða treysta sér ekki til að rísa undir nýjum kröfum. Ef starfsmaður hefur lengi komist upp með það að mæta ekki tvo til þrjá daga í viku en þarf svo skyndilega að standa undir kröfum um verkskil og viðveru segir sig sjálft að honum líður ekki vel. Sama má segja um kennara sem hefur lengi komist upp með að kasta til höndum. Fólki sem lengi hefur farið sínu fram líður ekki vel þegar gerðar eru til þess kröfur um ný vinnubrögð. Það er fátt erfiðara en að breyta sjálfum sér – ég tala nú ekki um ef fólk þarf að viðurkenna vangetu sína eða að vinnubrögðum sé ábótavant. Þeir sem töldu hag sínum ógnað vegna nýrrar stjórnunarstefnu skólameistara áttu ættingja og vini í starfsliðinu sem drógu taum þeirra í hverju sem var. Þannig byrjaði samblásturinn gegn mér og atburðarásin vatt upp á sig.”

Ólína talar einnig um hinn þögla meirihluta sem stóð hjá og vildi ekki láta blanda sér í máilin:

"Stærsti hluti starfsmanna var þó hinn þögli meirihluti sem fylgdist aðgerðalaus með framvindu málsins og beið átekta. Ólína segir það stundum hafa reynst sér erfitt að horfa upp á aðgerðarleysi hins svokallaða „hlutlausa“ hóps, því hann hafi í reynd ráðið mestu um það hvernig fór. „Þetta er hópurinn sem ímyndar sér að hann beri enga ábyrgð af því að hann aðhefst ekkert. En í raun og veru er því öfugt farið. Hópurinn sem horfir á ofbeldi framið án þess að lyfta litlafingri til þess að stilla til friðar eða kalla til aðstoð er samsekur. Þannig er það í öllum eineltismálum að stærsti gerandinn er hópur hinna meðvirku einstaklinga sem hafa sig ekki í frammi. Í þessu máli hefðu ýmsir getað lagt gott til mála sem gerðu það ekki. Því verður líklega erfiðast að kyngja svona eftir á að hyggja.“

Síðar í viðtalinu sakar hún embættismenn í menntamálaráðuneytinu um býsna alvarleg brot gegn sér og eru um að ræða hreint ótrúleg vinnubrögð að hálfu menntamálaráðuneytisins. Það var nú einu sinni ráðherra þessa sama ráðuneytis sem skipaði hana í embætti. En orðrétt segir hún:

“Þetta urðu einfaldlega nornaveiðar, byggðar á sömu aðferðafræði og tíðkaðist í galdramálum 17. aldar” heldur hún áfram. “Ég hef í höndum gögn sem sanna það að ákveðnir embættismenn í menntamálaráðuneytinu fóru á bak við mig, leyndu mig upplýsingum sem hefðu getað breytt framvindunni mér í hag. Mánuðum saman stóð ég í ströggli við að fá afhent gögn sem ráðuneytið hafði undir höndum og því bar að láta mig fá um leið og þau bárust því. Hefði ráðuneytið staðið rétt að málum hefði það án efa breytt framvindu málsins. Svo virðist sem fjölmiðlar hafi átt geiðari aðgang að þessum upplýsingum en ég, einhverra hluta vegna. Oft fékk ég fyrstu vitneskju um tilvist gagna og innihald þeirra í gegnum fjölmiðla sem ég hefði átt að hafa frá ráðuneytinu. Þessi framkoma ráðuneytisins var með öllu óviðunandi og ekki í neinu samræmi við eðlilega stjórnsýsluhætti."


Þrjár lóðatíkur og graðir rakkar!

 

P1010014GGHeimili mitt hefur verið umsetið síðustu daga. Frá því á föstudag hafa þrír sperrtir og þolinmóðir rakkar meira eða minna setið um húsið. Inni eru þrjár tíkur sem allar eru að lóða á sama tíma. Þær vita af þeim úti og rjúka upp um miðjar nætur og heimta að fara út. Fyrir utan óþægindin af þessu umsátri er merkilegt að fylgjast með hvernig náttúran í málleysingjunum brýst út.

Einn þessara höfðingja er sýnu þolinmóðastur, eða líklega er það eitthvað annað en þolinmæði þar á ferð. Hann hefur vomað í kringum húsið og í hvert sinn sem ég hleypi dömunum út í garð kemur hann eins og eldibrandur. Þær dilla skottum og kjá í kauða og síðan sér maður hvernig skottið leggst til hliðar. Tilbúnar í hvað sem er. Ræfillinn getur ekkert gert þar sem girðingin kemur í veg fyrir nánara samneyti. Þá leggst hann niður á lappirnar og ýlfrar. Og mikið sem ég vorkenni karlræflinum.

Ég hef verið hálf óstyrk og ekki þorað að hleypa tíkunum út nema vera með þeim í garðinum af ótta við að hann finni sér leið inn í garðinn. Og viti menn, í kvöld var hann kominn inna á pallinn hjá mér. Ég prísaði mig sæla fyrir að sjá hann í tíma, því ég hefði allt eins getað opnað og þær hlaupið út og það er of seint að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í. Svona reynsluboltar eru ekki lengi að skella sér á bak; og allt fast.

Í ljós kom að hann hafði grafið sig undir girðinguna. Já, í sex stiga frosti tókst honum klóra freðna jörðina þannig að hann gæti smogið undir. Hann var hundslegur þegar ég vísaði honum út. Í kvöld kom annar; frekur djöfull sem hrakti þann þolinmóða á braut. Sá er svo ágengur að hann hamast á bréfalúgunni með tilheyrandi hamagangi sem setur allt í uppnám innandyra.

En um það get ég vitnað að það er ekki það sama, lóðatík og graður rakki. Það get ég svarið að dömurnar mínar sækjast ekki eftir þessum "unaði" eins þeir. Fjarri lagi, þær sofa hinar rólegustu en eðlilega eru þær spenntar þegar allt morar af félagskap í kringum húsið.

Það er nefnilega eftir öllu öðru í málinu, orðið lóðatík. Fyrir utan upphaflegu merkingu orðsins er það eins og allir vita viðhaft um lauslátar konur sem ekki njóta mikillar virðingar. En ég þekki ekki orð sem rakið er til rakka sem lætur sig hafa það að hoka úti í fimm daga og fimm nætur, matarlaus og vatnslaus í þeirri von að komast á tík.

Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að því að finna að neikvæð og niðurlægjandi orð um konur. Um þá er ekki til sambærilegt orð. En þetta eru svo sem engin ný vísindi.

 


Miðlar lifandi vita sínu viti -- Birtíngur að flytja á gamlar slóðir

Miðlar lifandi sögðu frá því fyrir nokkrum dögum að Birtíngur væri á leið í Lynghálsin.

lg_st2Þeir virðast vita sínu viti, því Birtingur er einmitt að flytja í Lynghálsinn eftir nokkra daga. Þar verður fyrirtækið með neðstu hæðina og loksins þá verða allir blaðamenn í opnu rými. Nokkuð sem þau okkar fagna sem vön erum að vinna við þær aðstæður að vera í kallfæri við aðra vinnufélaga. Áttum erfitt með að sætta okkur við það vinnulag að hver væri í sínu horni. Fyrir utan hvað húsnæðið í Höfðabakkanum var óaðlaðandi og leiðinlegt. 

Flutningar gera það líka að verkum að hægt er endurskipuleggja vinnulag og nýting á mannskapnum ætti að verða betri. Starfsandinn er góður og eftir flutingana ætti samheldnin að verða enn þá meiri og vinnustaðurinn skemmtilegri. Það skiptir ekki svo litlu máli að vinna við góðar aðstæður og að starfsmönnum líði vel í vinnu.

 


Eilíf vandamál með fjárans digitalið

Ég er orðin illa þreytt á þessum digital myndlykli sem ég er með. Í gegnum hann á ég að sjá allar þær stöðvar sem ég greiði fullt gjald fyrir og svo hinar sem fljóta með. Þeir yrðu líklega fljótir að loka ef upphæðin sem ég greiddi væri bara si svona eftir eigin geðþótta, 2500 einn mánuðinn og 3000 þann næsta. Nei, þetta er bara á annan veginn.

Sjaldnast er Skjár 1 til friðs en þar stoppar myndin á 20 sekúnda fresti og stendur kyrr. Það er alveg sama hvað ég reyni þegar sá gállinn er á bölvuðu digitalinu, 20 sekúndur eða ekki neitt. Auðvitað gefst ég upp og stilli á aðra stöð ef ég fæ þá ekki meldingu um að smart kortið sé rangt inn sett. Og ég tek það út og set aftur inn, slekk á digitalinu, sjónvarpinu og öllu heila galleríinu; fæ þá frið svo lengi sem ég reyni ekki að skipta um stöð. Þá hefst sama baráttann aftur.

Í dag þegar við ætluðum að horfa á Silfrið var allt dautt. "Smart card wrong insert" á öllum stöðvum. Magnús hringdi í Stöð 2 og fékk þær upplýsingar að hann væri tíundi í röðinni í símanum. Á meðan fór ég inn á vísir.is í tölvunni og reyndi að ná Silfrinu þar. Það gekk ekki heldur; mér var bent á að slá inn leyniorðum sem ég er löngu búin að gleyma.

Það var ekki fyrr en þátturinn var hálfnaður að röðin var loks komin að Magnúsi í símanum og um svipað leyti birtist tengill á visir.is sem opnaði fyrir Silfrið. Náði helmingnum gegnum tölvuna. Ég íhuga alvarlega að skipta og fá lykil hjá Símanum og sleppa Sstöð 2. Eða bara að taka Stöð 2 í gegnum ADLS og horfa þannig. Vita menn hvernig það gengur fyrir sig, er það flókið mál?


Að murka lífið úr sjálfum sér

sígaretta

Ýkjulaust, þá er ég að murka hægfara úr sjálfri mér lífið með reykingum. Er farin að finna verulega fyrir fylgikvillum þessara djöfullegu reykinga. Hefur ekkert að segja, kveiki bara í annarri og hugsa allan tímann hve illa hún fari með mig. Segi við sjálfa mig um leið og ég drep í að nú sé nóg komið, á morgun hætti ég!

Og morgundagurinn rennur upp. Eins og alla aðra daga geng ég blindandi að kaffikönnunni og kveiki á henni. Klára nauðsynleg morgunverk, klæði mig, laga einn rótsterkan og bráðhollan expressó, smyr eina brauðsneið, drattast fram að dyrum og tíni upp blöðin, sest við eldhúsborðið, neyði ofan í mig brauðsneiðina og með sömu þrælslundinni og alla morgna frá nítján hundurð og sextíu og eitthvað - kveiki ég í sigarettunni.

Hef aldrei náð að hætta lengur en þrjá daga. Þá var ég á spítala og gat ekki reist höfuð frá kodda. Sigarettupúkinn var mættur á öxlina á mér um leið og ég skrölti á fætur og hvíslaði í eyrað á mér að kveikja nú í. Svo fann ég hvernig hann kættist og fitnaði. Þrælinn var ekki sloppinn!

Og Winston kallinn í Ameríku verður alltaf ríkari og ríkari. Ég aumari og aumari enda dyggur þræll hans. Markmiðið er auðvitað að halda mér reykjandi þar til að hann kemur mér í gröfina. Kannski að sigarettunum hans takist að kippa undan mér löppunum áður. Huggulegt að rúlla sér áfram í hjólastól með sígarettuna í kjaftinum og kútinn á öxlinni.


Fordómar og forheimska

Magnús, minn ekta maki lenti í heljarinnar debat í vinnunni í gærmorgun þegar ein frúin sem vinnur með honum mátti vart mæla af vandlætingu og hneykslun þegar hún hún lýsti yfir þeirri skelfilegu lífsreynslu sem hún varð fyrir í verslunarleiðangri í Bónus kvöldið áður. Ástæðan varð sú að hún, heiðvirð konan sem átti sér einskis ills von, gekk í flasið á dæmdum morðingja.

Blessuð manneskjan, sem ég þekki reyndar ekki nema af góðu einu, átti þarna við Atla Helgason lögfræðing sem hefur síðust sex ár setið af sér dóm á Litla Hrauni fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana eins og mönnum er vafalaust í fersku minni. Við kaffiborðið sátu fleiri álíka litlar sálir sem tóku undir og fannst það meira en ótækt að heiðvirt fólk gæti átt von á því hitta þennan mann og aðra viðlíka í framtíðinni. Og það í verslunarleiðangri í Bónus!

Þegar Magnús sagði mér frá þessu í kvöld komu mér fordómar vinnufélaga hans ekki á óvart. Ég hef svo oft orðið þess vör hvernig "venjulegt fólk" hugsar; fólk sem telst "réttu megin" í samfélaginu. Hefur gengið áfallalaust í gegnum lífið, vafið inn í bómull. Margir geta ekki með nokkrum móti sett sig í spor þeirra sem lent hafa röngu megin í lífinu.

Ég spyr mig hins vegar, hvernig fólk sem telst þokkalega menntað og hefur jafnvel stundað nám víða um lönd, fer í gegnum virta háskóla án þess að temja sér gagnrýna hugsun, víðsýni og þekkingu á samfélaginu sem það lifir í?

Þess heldur gapir það hvert upp í annað og kokgleypir skoðanir hins án þess svo mikið sem leiða hugann að því að fleiri hliðar kunni að vera á hverju máli. Nei, kristilegu kærleiksblómin spretta ekki á heimilum þessa fólks. 

Fátt gerir mig eins reiða eins og forheimska af þessu tagi. Atli hefur þegar afplánað sex ár af þeim átta sem menn með ævilangan dóm alla jafna sitja af sér. Menn geta varla ætlast til að fangar sem  hafa verið einangraðir frá umheiminum í mörg ár, fái enga aðlögun áður en endanlegri vist þeirra er lokið.  Atli á konu og börn, systkini og móður. Öll hafa þau tekið út sinn dóm, án þess að hafa nokkuð brotið af sér.

Sjálf hef ég hitt Atla Helgason austur á Litla Hrauni þegar ég tók við hann langt viðtal fyrir tveimur eða þremur árum. Auk þess hef ég oft rætt við hann í síma eins og margir fleiri blaðamenn. Hann kemur afskaplega vel fyrir og er elskulegur í alla staði. Áður en hann framdi voðaverknaðinn sem hann var dæmdur fyrir var ég honum málkunnug. Þegar hann var handtekinn á sínum tíma trúði ég ekki að hann hefði orðið manni að bana. Ég sagði það útilokað að hann gæti framið slíkan verknað og taldi lengi vel að hann væri að taka á sig sök. Slík voru kynni mín af honum. Það var ekki fyrr en ég hitti hann sjálfan í fangelsinu að ég trúði að hann hefði verið einn að verki. 

Ég hef tekið viðtöl við fleiri dæmda morðingja sem sitja inni á Litla Hrauni. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Undantekningarlaust hef ég haft mikla samúð með öllu þessu fólki. Ekkert þeirra kaus að lenda í þeim aðstæðum sem urðu til þess að það braut af sér. Það var alkahólismi og ofneysla eiturlyfja sem sljóvgaði dómgreind og heilbrigða hugsun sem vék fyrir þeim dimon sem tók völdin í huga þessa fólks. 

Það vita líklega fáir hvað gerist upp í höfði þeirra sem lengi hafa tekið örvandi efni án þess að hvíla heilann. Hann hættir einfaldlega að funkera eðlilega. Paranojan heltekur fólk og mér hefur verið sagt af þeim sem þekkja slíkt af eigin raun, að gjörðir þeirra stjórnist af því að verja eigið líf.

Þeir sem setja sig í dómarasæti og fordæma þá sem lent hafa röngu megin í lífinu ættu að hugleiða að fordómarnir gætu hitt þá sjálfa fyrir. Allir eiga fjölskyldu og nána ættingja. Enginn getur stjórnað því hvort einhver manni náin lendir í þeim aðstæðum að grípa til örþrifaráða. Hver veit hvað bíður manns við næsta horn?

Atli Helgason var á grænni grein í lífinu. Vinsæll, vel menntaður og þekktur íþróttamaður sem átti framtíðina fyrir sér. Á einu augabragði hrundi allt hans líf og hann er fordæmdur og á allra vörum. En nú er mál að linni. Hann er langt kominn með að afplána sinn dóm og hefur tekið ábyrgð á sínum gjörðum. Nú er komið að því að fyrirgefa.

 

 

 


Morgundreifingin eða -sme?

Hvort það er -sme og breytingin á Blaðinu sem hefur afgerandi áhrif á velgengni Blaðsins í nýrri könnun á dagblaðalestri er ég ekki viss um. Tel það ekki síður vera morgundreifinguna. Í það minnsta er það svo á mínu heimili að Blaðið lenti beint í ruslafötunni þegar ég tók það upp með póstinum við heimkomu á kvöldin.

Nú berast öll blöðin inn um lúguna fyrir klukkan sjö á hverjum morgni heima hjá mér. Oftast byrja ég að að fletta Blaðinu og er fljót að því. Það er svo tilviljun ein hvort ég tek Moggann á undan Fréttablaðinu eða öfugt. Líklega er það þó hvor forsíðan höfðar meira til mín sem stjórnar því.

En hvort sem morgundreifingin eða -sme og Janus sem hafa þessi áhrif er eigi að síður ástæða til að óska þeim feðgum til hamingju með útkomuna. Reyndar eru Blaðið og Fréttablaðið svo áþekk að ég ruglast stundum á þeim. Ætla að lesa Fb. en átta mig svo þá því þegar ég er búin að fletta nokkrum síðum að ég er að lesa Blaðið.

Skýringin á slakri útkomu Moggans tel ég ekki vera breytinguna á blaðinu. Það er eitthvað annað sem þar spilar inn í. Mogginn er svo langum skemmtilegri aflestrar en hann var. Í það minnsta höfðar hann frekar til mín en áður.

Svo má ekki gleyma því að hin blöðin eru fríblöð og berast mönnum hvort sem þeir vilja eða ekki. Moggann þarf að borga og það þarf að hafa fyrir því að taka upp tólið og gerast áskrifandi. Í það minnsta var það mér ofraun lengi vel því ég keypti hann ekki eftir langt hlé fyrr en hringt var í mig og mér boðin hann.


Að bera ábyrgð á orðum sínum

 

Tóta Pönk nefnir í bloggi sínu að hún hafi látið vera að lesa yfir viðtal sem Kolla Bergþórs tók við hana um Þórberg Þórðarson um daginn. Í hennar blaðamennskutíð hafi farið mikið í taugarnar á henni þegar fólk lúslas viðtöl sem tekin voru við það og breytti öllu því það kunni ekki að koma frá sér óbrengluðum setningum. 

Ég held að flestir blaðamenn geti tekið undir þessi orð Þórunnar Hrefnu. Ég get að minnsta kosti gert þau að mínum. Ég lít svo á að viðtal sem ég skrifa eftir einhverri manneskju, túlka í skrifum mínum þau áhrif sem manneskjan hefur á mig og hvernig hún kemur mér fyrir sjónir, sé mitt höfundarverk. Viðmælandi minn á ekki að fá að grufla í mínum texta og slíta allt úr samhengi.

Þetta er leiðinlegur siður og við blaðamenn ættum að afleggja hann eins og við komum honum á. Hér í gamla daga skrifuðu blaðamenn viðtöl og ekki tíðkaðist að þau væru lesin. Ég held að þannig sé það líka víða í útlöndum. Leiðréttið mig þið sem betur vitið ef það er ekki rétt hjá mér.

Þess vegna ætti fólk að gera sér ljóst að það er í viðtali og það sem það segir verður ekki aftur tekið, nema það taki það sérstaklega fram að það sem það segi sé off the record. Það á að bera ábyrgð á orðum sínum því blaðamenn eru ekki komnir til að tjatta bara um daginn og veginn.

Allt annar handleggur er að lesa yfir viðtöl við fólk í síma svo viðkomandi geti leiðrétt staðreyndavillur en ekki efnislega það sem blaðamaður skrifar. Þannig eru siðareglur Fréttablaðsins og DV sem Jónas Kristjánsson samdi, þess eðlis að ekki má senda óbirt viðtöl og fréttir út úr húsi. Á Fréttablaðinu á sínum tíma tókum við þessa reglu mjög alvarlega og fórum eftir henni. Lásum hins vegar yfir viðtöl í síma og það er sko allt önnur Ella því menn gera miklu færri athugasemdir þannig en ef það fær handrit í hendurnar og hefur frjálsar hendur með að grufla í texta. 


Mannlíf rokselst

 

Mannlif-forsida-1006Roksala er í októberhefti Mannlífs en forsíðuna prýðir Þórarinn Tyrfingsson, læknir á Vogi. Viðtalið tók ég og hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma til að vinna það. Lesendur taka vonandi viljann fyrir verkið.

Það gat brugðið til beggja vona með blaðið en það er ekkert gefið í þessum efnum. Aldrei veit maður 100% hvort það efni sem maður býður lesendum hugnast þeim. Þórarinn vekur greinilega forvitni manna.

Það er alltaf léttir þegar þegar ljóst er að fólk vill lesa þau blöð sem maður er búin að streða við að skrifa. Þetta blað fór langt yfir væntingar okkar og skorar hátt í samanburði við önnur blöð ársins. Nú er bara að herða sig á lokasprettinum fyrir nóvemberblaðið og vona að þar veðjum við einnig á réttan hest.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband