Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ótrúlegur skortur á greiðasemi starfsfólks Iceland Express

Christina vinkona mín og vinur hennar Ken héldu af landi brott í gær. Þau voru sæl og ánægð með ferðina og Magnús ók þeim í flugið. Nokkru áður en vélin fór í loftið hringdu þau og sögðu mér að þau væru með lyklana af bílnum á sér; Ken er vanafastur eins og ég og stingur alltaf lyklunum i vasann. Ég var búin að svipast um eftir þeim þegar Stína hringdi og grunaði Ken um að vera með þá. Þau voru eyðilögð yfir gleymsku sinni en voru komin út í að vél og hún á leið í loftið innan hálfrar klukkustundar. Ég benti Stínu á að tala við fólkið í hliðinu og spyrja hvort það gæti ekki tekið lyklana og komið þeim á einhvern sem byggi í bænum og ég myndi ná í þá til viðkomandi eða bílstjórnana á Flugrútunni sem tækju þá á BSÍ.

En trúi því hver sem vill; "Því miður við búum bæði í Keflavík og vitum ekki um neinn sem á heima í bænum, svaraða þetta ágæta starfsfólk Iceland Express þegar Stína spurði hvort þau gætu hjálpað sér að koma lyklinum til skila. Ekki efa ég að örvæntingin hafi leynt sér í fari þeirra Stínu og Ken enda ekki aðrir lyklar til. En það hreyf ekki á parið í hliðinu. Ég bað Stínu að rétta öðru hvoru símann til að ég gæti talað við þau, en það skipti engu. "Því miður við getum bara alls ekki hjálpað," og sama hverju ég stakk upp á, allt var þeim ómögulegt.

Christina varð því að taka lyklana með til Hafnar og freista þess að senda þá með hraðpósti í dag frá Danmörku með ærnum tilkostnaði því það kostar sitt að senda með DHL. Ekki skil ég hvers vegna fólk fær sig til að vera svona óalmennilegt en svo mikið veit ég að hefði ég verið í sporum þessa þokkastarfsfólks, þá hefði það ekki verið spurning að greiða götu þessara farþega þegar svona stóð á. Ég hefði reddað málum, hvernig sem ég hefði farið að því. Ekið með þá sjálf ef því hefði verið að skipta. Og svo þarf enginn að segja mér að ekkert starfsfólk á vellinum sem þetta miður ágæta par umgengst á vinnustað, eigi ekki heima í bænum. Á öllum kaffihúsunum í flughöfninni, í fríhöfninni, í tollinum, bílstjórarnir, farþegar eða bara einhverjir aðrir í þeim stóra hópi fólks sem þarna starfar. Ekki það, að vissulega er það ekki í verkahring flugvallastarfsmanna að þjónusta fólk á þennan hátt; en gerir maður ekki fólki greiða ef maður getur. Að minnsta kosti geri ég það og tel það ekki eftir mér.

Þetta var á milli þrjú og hálf fjögur og vaktinni að brátt að ljúka hjá mörgu þeirra. En letin og skortur á hjálpsemi og þjónustulund urðu til þess að lyklarnir fóru alla leið til Danmerkur. Hvað er eiginlega að fólki? Mér er fyrirmunað að skilja það.


Doktor Christina Folke Ax og ást hennar á landinu

Fyrir réttum tuttugu árum sóttum við Magnús til Keflavíkur feimna nítján ára stúlka frá Danmörku. Hún hafði nokkru áður svarað auglýsingu þar sem óskað var eftir aupair til árs á Íslandi. Ég var þá blaðamaður á Tímanum og önnur yngri dætra minna var að ljúka leikskóla og átti að byrja í skóla um haustið. Reynsla mín af aupairstúlkum var góð frá því þær voru undir leikskólaaldri og mér fannst þjóðráð að fá aftur stúlku til að annast dæturnar á meðan ég var að vinna. Christina skrifaði kurteislegt bréf sem mér leist strax vel á og ég fékk vinkonu mömmu, Ingu Birnu Jónsdóttur menntaskólakennara í Danmörku til að spjalla við hana fyrir mig og hún gaf grænt ljós

Fyrstu vikurnar voru Christinu sem við kölluðum Stínu erfiðar. Hún kom frá góðu millistéttarheimili í Fredriksværk þar sem allt var í föstum skorðum og lítið um uppákomur og havarí eins og á okkar bilaða heimili þar sem börnin mín og Magnúsar voru að lemja börnin okkar, eða því sem næst.

Seinna sagði Christina okkur að hún hafi haldið þetta út með því að ákveða að gefa okkur séns í viku í einu og framlengja svo aftur um viku þar til að hún var orðin það sjóuð að sjá fram á að hún héldi kannski út til jóla. En hún var allt árið og hefur aldrei séð eftir því enda held ég að það sé óvanalegt að slíkt samband við aupair eða skiptinema haldist eins lengi og okkar við Stínu. Og á án vafa eftir að haldast ævi okkar á enda.

Ég held að hvorki hún né við gleymum seint fyrsta borðhaldinu á heimilinu eftir að hún kom. Stína settist niður, þráðbein í baki pen og kurteis og bjó sig undir klukkustundar borðhald eins og hún var alin upp við og Dana er gjarnan siður. Hún var rétt að stinga pent upp í sig fyrstu bitunum þegar obbinn af fjölskyldunni var búin að hesthúsa í sig á methraða og allt að því rokin frá borðum. En eftir árið hjá þessari Adamsfamely hafði hún líka þroskast um minnst fimm ár. Hún var því þakklát þrátt fyrir allt að fá að upplifa þessa reynslu sem hún gerði ekki annað en græða á þegar upp var staðið. 

Nú tuttugu árum síðar er Stína enn eina ferðina á Íslandi. Hún er orðin doktor í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla ogs stundaði auk þess nám við háskólann í Cambridge. (Ég sagði ranglega í upphafi að hún hafi varið ritgerð sína við háskólann í Oxford. Það er hér með leiðrétt.) en doktorsritgerð hennar fjallaði um atvinnuhætti og líf almennings á Íslandi og samskipti landsmanna við herraþjóðina, Danina. Hún er einn fremstri sérfræðingur í Íslenskri sögu í Danmörku og lifir og hrærist í rannsóknarvinnu á þessu tímabili í lífi þessarar þjóðar.

Á milli okkar og hennar hefur verið samband allar götur síðan hún var hér. Eftir mesta kúltursjokkið fór henni að líka þessa þokkafjölskyldu sem átti fátt sameiginlegt með hennar akkúrat fólki heima í Danmörku. Og að ári liðnu hafði hún tekið ástfóstri við landið. Síðan hefur hún verið ein af fjölskyldunni og alltaf velkomin. Fyrstu tíu fimmtán árin kom hún fast að því árlega, var hér einn vetur í Háskóla Íslands og annan við rannsóknarvinnu á Þjóðskjalasafni. Við höfum heimsótt hana, foreldrar hennar og bróðir hafa komið í heimsókn til okkar og við lítum á hana sem eina af fjölskyldunni.

Það gladdi mig því mjög þegar hún tilkynnti komu sína fyrir nokkru en í för með henni er bandarískur vinur hennar sem er pólarfræðingur. Þau hafa verið hér í tíu daga en Stína þekkir landið og fór með vin sinn í ferð um Snæfellsnesið og vestur á firði. 

Þar sem Stína er ein af fjölskyldunni höfum við ekkert fyrir henni og hún veit að hverju hún gengur; ekkert stjan og ekkert vesen. Ef hún er svöng verður hún að fá sér eitthvað í gogginn sjálf og ef hún þarf eitthvað að fara veit hún að hún getur farið á mínum bíl; þarf ekki annað en spyrja hvort ég þurfi að nota hann. Við setjum ekki upp sparisvipinn og þykjumst vera einhver önnur en við erum. Þvert ámóti; við erum jafn biluð og við höfum alltaf verið, eða réttara sagt ég. Ætla ekki að væna Magnús minn um mína klikkun. En koma Stínu raskar ekki nokkru, er reyndar ekki neitt nema ánægjuleg.  

Nokkru sinnum á þessum tuttugu árum hefur hún komið þegar við höfum ekki verið heima og þá segi ég henni bara að ná í lykla og hafa sína hentisemi. Allir afslappaðir og glaðir að hittast. Á morgun eru þau Ken vinur hennar á förum aftur eftir stórkostlegt frí á Íslandi. Hann átti ekki orð til yfir fegurð þessa lands og Vestfirðirnir heilluðu hann gjörsamlega.

Það hefur verið ósköp notalegt að hafa þau hérna og ég efa ekki að ég á eftir að sakna þeirra. Stína er náttúrulega alveg sérstök; talar íslensku eins og innfædd og hefur alltaf fylgst með fjölmiðlum hér; fyrst með því að kaupa Moggann á Ráðhústorginu í Höfn en nú hefur hún náttúrulega netið og getur fylgst með því sem hún kærir sig um.

Doktor Cristina hefur ekki sungið sitt síðasta og langar að halda áfram rannsóknum sínum á lífi okkar hér fyrir tveimur öldum. Hún hefur sérstakan áhuga á skoða betur verslunarhætti okkar eftir að einokun lauk og samskipti Dana og Íslendinga bæði á því sviði og hvernig umgengni á milli aðfluttra Dana og Íslendinga var háttað.

Ef einhverjum dettur í hug hvert hægt er að sækja styrk til slíkrar rannsóknar, fyrir utan Rannnís, þá endilega bendið mér á með tölvupósti á mef@centrum.is eða bed@internet.is Mér finnst það okkar frekar en Dana að styrkja svona verkefni. Þetta er partur af sögunni og aldrei að vita nema eitthvað nýtt kunni að líta dagsins ljós ef grannt er skoðað. Ég held líka að það sé fengur í að annarra þjóða manneskja vinni að svona rannsókn einkum og sér í lagi vegna þess að þannig fáum við ugglaust annan flöt á söguna en séð með okkar Íslendingsaugum.

Og svona til viðbótar þá virðast  ungir Danir vera með svipuð viðhorf til menntunar og við. Þar ætla allir að verða ríkir og vilja litið hafa með hugvísindi eða félagsvísindi að gera en fjölmenna í viðskiptafögin í öllum einkaháskólunum þar. Síðan Christina lauk doktorsnámi sínu hafa að minnsta kosti átta stöður sem hentað gætu henni losnað við Kaupmannahafnarháskóla. Í enga þeirra hefur verið ráðið, heldur eru stöðurnar einfaldlega lagðar niður. Nemendum í hugvísindum fækkar stöðugt. Það er ekki í tísku lengur að vera heimspekingur eða sagnfræðingur enda ekki mikla peninga að græða á því.


Skelfileg lífsreynsla 400 metra utan vegar niður Kambana

Ég varð fyrir skelfilegri lífsreynslu í vikunni þegar ég ók niður Kambana á heimleið síðla dags. Í bílnum með mér voru tveir hunda minna í búri og sjö ára dóttursonur minn. Ég var komin neðarlega í Kambana þegar bíll ók hægra meginn fram úr mér. Áður en ég vissi af var ég komin utan vegar á hentist niður Kambana yfir hraun og hæðir. Bílinn hoppaði yfir allar ójöfnur og skall niður og upp á víxl. Í hvert sinn sem hann skall niður var eins og hnífi væri stungið í bakið á mér og eftir um það bil 400 metra stöðvaðist hann.

Ég ætla ekki að reyna að skýra líðan mína á meðan þessu stóð en ég sá mína sæng upp reidda og átti ekki von á að ég yrði til frásagnar um þetta atvik. Lögreglan ók á eftir mér og þeir hentust út úr bíl sínum og hjálpuðu mér og drengnum út. Ég gat alls ekki skýrt hvað hafði gerst en hef lengi óttast að ég ætti eftir að sofna undir stýri á þessari leið. Hélt í fyrstu að það hefði hent mig en eftir að mesta sjokkið leið hjá og ég gat farið að hugsa skýrt, áttaði ég mig á að svo var ekki. Held að ég hafi blokkerast þegar bílinn fipaði mig dottið út.

Bakið á mér er í maski,ég get ekki beygt mig eða sest niður án þess að ég finni verulega til. Það er svakalegt að finna takmarkanir sínar og geta ekki gert það sem maður vill. Drengurinn slapp vel en kvartaði yfir eymslum í hálsi. En ég er ekki til neins og á von á að þetta eigi eftir að plaga mig lengi ef ég þá næ mér nokkurn tíma.

Þegar ég flutti austur hefur Suðurlandsvegurinn valdið mér ótta. Það kom á daginn að það var ekki að ástæðulausu sem ég bar þann beyg innra með mér. Bílinn minn er gjörónýtur og skoðunarmaðurinn hafði á orði að ég hlyti að vera öll úr lagi gengin eftir þau svakalegu högg sem komu á bílinn í hvert sinn sem hann skall niður í loftköstum sínum niður hlíðina. Ég get hvorki gegnið nema taki í bakið, hnerrað eða hóstað. Eftir nóttina; það er að segja ef ég næ að sofa almennilega er ég lengi að ná úr mér stirðleikanum.

Ég hefði aldrei trúað að hægt væri að sjokkerast svona, ég sé þetta fyrir mér aftur og aftur en þakka guði og öllum góðum vættum fyrir að ég skuli ekki vera dauð eða örkumla. Ég tala nú ekki um drenginn sem virðist bara nokkuð brattur.

Því segi ég, það er kominn tími til að hefja framkvæmdir og breikka veginn. Nýr samgönguráðherra og þingmenn Suðurlands láta vonandi til sín taka og setja allt á fullt og láta verkin tala.


Eins og nýhreinsaður hundur

Ég var að koma heim úr tveggja vikna endurhæfingu á sál og líkama;og veitti ekki af. Fólk þekkti mig ekki lengur á götu ef svo bar til að ég sást á meðal manna, svo illa leit ég út. 

En við hjónin fórum okkar árlegu hvíldarferð til Andalúsíu. Þar á systir mín meðal annars á hús í fjöllunum og á þangað og á til bæjanna við ströndina hefur leið okkar legið síðustu 10- 15 árin. Lán okkar er að Jakobína systir bjó í 15 ár á þessum slóðum og kenndi okkur að meta spænska menningu eins og hún gerist best; einkum í mat og drykk.

Við erum því sjaldnast innan um strandtúristana en leigjum okkur íbúð í gamla bænum í Torrimolinus sem er orðin með fjölskylduvænni bæjum við strandlengju Spánar. Þar er mýgrútur góðra matsölustaða, ekta spænskra og þá þræðum við bæði í hádeginu og kvöldin. Eina trúristamengaði maturinn sem on´í okkur fer, er beikonið og eggin sem við gæðum okkur á áður en við höldum á, í trimm dagsins. Já, segi og skrifa; fyrir hádegi höfum við lokið við 7-10 kílómetra göngu. Undir það síðasta hlaupum við, eða hérumbil, upp tröppurnar löngu upp í bæinn sem stendur á klöpp. Það þarf ekki að spyrja hvernig ég dregst upp þær í byrjun, en mikið fjári er þolið fljótt að koma þegar maður fer að taka reglulega á. En það væri skreytni að segja að ég stæði í manninummínum, hann er mér langtum fremri í gögngunum þrátt fyrir að vera sex árum eldri. Hann lætur sér ekki muna um 15-20 kílómetra ef því er að skipta. Ég afsaka mig með að hann taki þetta á skrefunum. Tvö á móti einu; það munar um það, enda lengra upp í hans klof en mitt.

En blessuð elskan horfir samt á mig með forundran skokka þetta léttilega upp því hann hefur prédikað yfir mér síðustu 20 árin að lungun á mér séu ónýt af reykingum. Það kann vel að vera að þau séu orðin sýkt af einhverri banværri óværu tengdum bölvuðum reykingunum. Lungun eru lúmskt líffæri sem láta ekki vita ef skemmtum fyrr en það er orðið of seint. Den tid den sorg.

En við sumsé lifðum sældarlífi; lásum, sváfum í síestunni, slökuðum á og ráfuðum um milli þess sem við settumst niður yfir dásamlegu kaffi þeirra spænsku, vatninu sem ég drakk ómælt af "agva kon gas" bað hún um blessuð. Það kunni ég að panta. Eins expresso italino eða bjór sem ég reyndar drekk ekki; finnst hann vondur. 

Nú svo heilluðu búðargluggarnir, en ég elska að skoða í búðir og finnst það eins skemmtilegt og mér finnst leiðinlegt að versla. Hef reyndar tekið þá ákvörðun að hætta alfarið að kaupa ódýrt drasl en þess í stað stunda fínu búðirnar; bara sjaldnar. Veit að það margborgar sig að kaupa það sem maður er virkileg ánægur með en drasl sem hangir áfram á herðatrénu eftir heimkomuna þar til ég pakka því niður og sendi í Rauðakrossinn eða bílskúrinn. Auk þess fer maður langum betur með það sem kostar mann stóra peninga.

Á kvöldin lásum við og horfðum á spænsku stöðvarnar og æfðum okkur í að ná því sem um var fjallað. Oftar en ekki vissi maður minnst um hvað var í gangi en latínan sem Mef lærði í menntó á sínum tíma, kom sér oftar en ekki vel til að ná samhengi. 

Ég hefði gjarnan viljað vera í svona heilsuprógrammi í mánuð til, en því miður; það var ekki um það að ræða. Mef er hins vegar enn úti með vini sínum Örnólfi sem kom með vélinni sem ég fór með. Örnólfur tekur gjarnan við af mér og þeir eru góðir saman félagarnir í spænsku menningunni en fáir eru betur að sér þar en einmitt Örnólfur enda gaman að vera með honum á Spánarströndum því hann talar tungumálið eins og innfæddur og kann skil á öllu. Auk þess er hann í oftast essinu sínu og segir skemmtilegar sögur af kynnum sínum við þetta yndislega land og kann að biðja um nákvæmlega það sem maður vill. Ekki amalegt það.

En heilsan hefur ekki verið betri lengi og nú er um að halda henni við með heimsóknum í Laugarskarðið á morgnanna, göngutúrum og sitt lítið af öðru sem auðgar andann og styrkir líkamann. Og svo á ég von á hjóli en hvar á landi er betra að þeysa um á reiðfák en einmitt í Hveragerði! 


Þá hellist minnisleysi yfir sauðsvartan almúgann

Hvurslags skynhelgi er þetta eiginlega í mönnum sem fjalla hér í bloggheimi um ríkisborgararétt  sem veittur var tengdadóttur Jónínu Bjartmarz. Hvenær urðu menn svo heilagir að þeir furði sig á því að Jónína reyni að hafa áhrif á að allsherjarnefnd sýni lipurð að veiti tengdadótturinni þennan rétt fyrst ekkert ólöglegt er við það. Nefndin fer ekki eftir neinum reglum og ekki segja menn þar, ugla sat á kvisti þegar þeir ákveða hverjir skuli fá undanþágu. Nefndin hlýtur að hafa einhverjar upplýsingar sem hún byggir skoðanir sínar á.

Það er fáránlegt að ætla ekki að Jónína hafi ekki hnippt í vini sína innnan nefndarinnar og beðið þá um að horfa mildum augum á umsókn tengdadótturinnar. Ég hefði gert það í hennar sporum og þeir eru ófáir sem nýtt hafa sér tengslanet sín til að koma málum áfram. Oft í viku reyna menn að plögga fréttum og blaðamenn eru mannlegir eins og alþingismenn. Við tökum efni frá kollegum, vinum og kunningjum og reynum að gera eitthvað úr því ef við getum. Mér dettur ekki í hug að neita því að ég hafi orðið vís að því eins og aðrir.

Ég vann líka eitt sinn í banka. Ég fékk betri fyrirgreiðslu þar, en óbreyttur almúginn sem beið í röð fyrir utan Landsbankann á hverjum morgni í þeim tilgangi að fá viðtal við bankastjórana. Þá var skortur á lánsfé og víxlar gengu kaupum og sölu. Fyrir jólin var röðin vanalega langt út í Austurstrætið. Sumir fengu nei, aðrir já, og fæstir þeirra þá upphæð sem þeir þurftu.

Ég var átján ára tryppi og vann á bankastjóraganginum við að vísa fólki inn til stjóranna og sendast fyrir þá um bankann með skjöl. Jónas Haraldz lánaði mér eitt sinn 100 þúsund sem ég bað hann um fyrir frænda minn. Frændanum hafði áður verið hafnað. Tengsl mín hjálpuðu honum.

Þannig hafa kaupin gerst á eyrinni í okkar litla samfélagi svo lengi sem ég man. Ég get talið upp ótal dæmi um kunningjafyrirgreiðslu sem mér hefur verið veitt innan kerfisins, frá því ég komst til manns. Það er eins mannlegt og hugsast getur að vilja hjálpa vinum sínum svo lengi sem maður brýtur ekki lög með því. Ég veit ekki betur en Jónína og þingmenn í allsherjarnefnd séu af holdi og blóði!

Á ég að trúa að allir sem hamast hafa vegna þessa máls séu svo heilagir og siðvandir að þeir þurfi að vera fjargviðrast vegna þessa ríkisborgararéttar. Ég er mest hissa á Jónínu að fara í þessa bullandi vörn. Það hefði verið smart ef hún hefði sagt að hún hefði hringt í Guðrúnu Ögmunds og hvíslaði í eyra Bjarna að tengdadóttir hennar ætti umsókn hjá nefndinni. Nei, mönnum þykir flottara að neita þessu öllu, bæði hún og nefndarmenn.

Jú, jú, ég þekki þetta um að þingmenn eigi að vera okkur fyrirmynd og nýta sér ekki aðstöðu sína til að hygla sínum. Já, já, veit allt um það. Man hins vegar ekki hvenær þingmaður eða ráðherra hér á landi hefur þurft að segja af sér vegna þess að upp um hann hefur komist, nema hamaganginn í kringum Guðmund Árna um árið þegar hann réði vini og kunningja í ráðuneytið.

Það er svo margt sem maður á ekki að gera en gerir samt; vegna þess að það gera það allir. Siðvendnin hefur ekki verið að drepa okkur nema þegar í hlut eiga opinberir starfsmenn, þingmenn, ráðherrar og fjölmiðlar. Þá hellist minnisleysi yfir sauðsvartan almúgann sem man alls ekki eftir að hafa nýtt sér aðstæður sínar eða tengsl til að koma málum áfram.

Jónas Haralz braut ekki lög þegar hann lánaði mér fyrir frændann, blaðamenn brjóta engin lög með því plögga inn fréttum, vinkonur mínar hjá skattinum brutu ekki lög í þau skipti sem þær hafa troðið framtalinu mínu inn, löngu eftir að skilafrestur rann út og Allsherjarnefnd braut engin lög með því að veita tendadóttur Jónínu Bjartmarz ríkisborgararétt. Veit vel að þetta er spurning um siðferði, en það er einmitt það sem ég er að benda á að siðferðinu er kastað fyrir róða þegar í hlut eiga vinir og kunningjar í litla "maður þekkir mann" samfélaginu sem við lifum í.

Það er eins og enginn kannist við að hafa otað sínum tota. Ó, nei sauðsvartur almúginn festir á sig geilsabauginn áður en klifrað er upp í dómarasætið og hamarinn mundaður. Gaman væri að þeir sem hneysklast sem mest spyrji sjálfa sig hvenær þeir nýttu síðast tengsl sín við mann og annan til að fá einhverju framgengt sem ekki var í boði fyrir aðra.


Öruvísi mér áður brá - Björn Bjarnason með skemmtilegri mönnum

Forsíða Mallífs - BJörnÖðru vísi mér áður brá!  flaug í gegnum huga minn þegar mér var sagt frá ummælum Björns Bjarnasonar um mig á heimasíðu hans í vikunni. Tilefnið var viðtal sem ég tók við hann og birtist í splunkunýju Mannlífi sem kom út í gær.

Hvað sem okkar fyrri samskiptum líður, þótti  mér vænt um þau orð sem hann lét um mig falla á síðu sinni í gær. .En staðreyndin er sú að hvað sem allrir pólitík líður féll okkur Birni vel að tala saman. Ég vissi það fyrir, að þrátt fyrir allt er Björn með skemmtilegri mönnum þegar hann hefur kastaf af herðum sínum embættismannakuflinum og er bara hann sjálfur en hann hefur oftar en ekki komið mönnum fyrir sjónir sem þumbaralegur, húmorslaus og hreinlega leiðinlegur. Það er ekki furða að mönnum detti í hug að í honum leynist skemmtilegur húmor í lifandi manni með gamanyrði á vör.

Við Björn Bjarnason höfum ekki alltaf verið sammála og hann hefur heldur ekki skafið utan af því á síðu sinni þegar honum hefur mislíkað leiðaraskrif mín í DV. Björn hefur svarað þeim leiðurum á síðu sinni og var ekkert að spara háðið þegar hann benti fram á með rökum að ég hefði ekki alls kostar rétt fyrir mér í öllu. Mér var það ekkert nema mátulegt, að minnsta kosti þegar ég fór ekki rétt með staðreyndir í fljótfærni minni. Það kaupi ég hikstalaust, en eins og alvöru pólitíkus sæmir sneri hann út úr orðum mínum og var ekkert að upphefja mig fyrir það sem satt og rétt reyndist.

En Björn Bjarnason er alltaf málefnalegur í skrifum sínum og hann er ekki vanur að fara með rangt mál út í loftið í skrifum sínum á www.bjorn.is. Hann er ekki öllum sammála, en hann rökstyður sínar skoðanir og bendir á þekkingarleysi annarra í skrifum sínum. Ég kann alltaf að meta það þegar fólk segir hlutina hreint út og er ekki með neina tæpitungu.

En oflof er háð og það er um hálan ís að tipla ef maður ætlar ekki að falla í þá gryfju. Það er alls ekki mín meining; heldur aðeins að tæpa á hve Björn leynir á sér. Ég vissi það að vísu fyrir þegar ég hitti Björn skömmu fyrir páska, vegna viðtalsins í Mannlíf að mér myndi ekki leiðast. Mér var nefnilega í fersku minni viðtal sem ég tók við hann fyrir mörgum, mörgum árum; líklega 10-12 árum síðan þegar hann var ráðherra menntamála. Í löngu viðtali töluðum við nær eingöngu um menntamál og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Og trúið mér, það var afskaplega gaman að spjalla við Björn um þau mál. Hann lék á alls oddi og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Mig hefði aldrei grunað að hann gæti verið eins skemmtilegur og líflegur eins og hann var í samtalinu við mig þá. Og, já afslappaður í samræðum.

Björn var ekki síður afslappaður og skemmtilegur í viðtalinu við Mannlíf. Og öll samskipti við hann í kringum viðtalið voru sérlega þægilega og áreynslulaus. Aldrei neitt vesen eins og svo oft með viðmælendur í löngum viðtölum.

Ég vona bara að lesendum Mannlífs eigi eftir að falla vel þetta viðtal en þar sýnir Björn lesendum áður óþekktar hliðar; er hreinskilinn og ræðir mál sem hann hefur trúlega aldrei eða í það minnsta sjaldan komið inn á í blaðaviðtali. En sjón er sögu ríkari og hvet ég alla sem hafa áhuga að kynnast manneskjunni Birni og þeim hliðum sem snúa að eldamennskufærni hans og samvistunum við eigin börnin þegar þau voru lítil og uppeldinu í aristókratinu í Hliðunum þar sem sumir skólafélagar hans ólust við allt annað atlæti og bjuggu meira að segja sumir hverjir  í bröggum.

Og Björn talaði líka um veikindin sem hafa plagað hann og hvaða áhrif þau hafa haft. Og síðan og ekki síst viðhorf hans og virðingu sem hann bar fyrir föður sínum Bjarna heitnum og móður Sigríði sem hann missti langt fyrir aldur fram í hörmulegu slysi á Þingvöllum. Og svo auðvitað inn á milli er að finna slatta af pólitík og skoðunum hans á samfélaginu og því sem fram fer í kringum okkur eins á femínistum og fárinu vegna klámfólksins sem hér ætlaði að funda í mesta sakleysi.

Birni þakka ég afar skemmtilegt samstarf og ánægjuleg kynni og óska honum velfarnaðar í þeirrri endurhæfingu sem hann á fyrir höndum.

es. 

Verð að upplýsa hve ótrúlega vel á sig kominn Björn er, en að kvöldi aðgerðardags þegar hann hafði legið í fjöggurra klukkustunda brjóstholsskurði þar sem lungu hans voru meðhöndluð, fékk ég tölvupóst frá honum. Morguninn eftir hringdi hann; kýr skýr í höfðinu og ekki að heyra að maðurinn hefði verið eins stórri aðgerð og raun bar vitni. Ótrúlegt hörkutól Björn. Sjálf hefði ég verið meðvitundarlaus á gjörgæslu með morfín í æð og haldið mig komna í himnariíi nokkrum klukkustundum eftir viðlíka aðgerð!


Alvöru hundaræktunarsýning eða framleiðslusýning Dalsmynnisfjölskyldunnar

Sigmar Guðmundsson skrifar um hundasýningu sem hann fór með dóttur sína á og olli honum miklum vonbrigðum. Ég hefði getað sagt honum það fyrirfram að á þeirri uppákomu væri lítið að græða. En á móti finnst mér gott að óhlutdræg manneskja skuli hafa farið á sýningu Íshunda og ljá síðan máls á þeirri reynslu. Það er þá ekki hægt að segja að mat hans byggist á ríg á milli hundaræktarfélaga.

Hér eru þrjú slík félög, ef félög skyldi kalla. Íshundasýningin sem Sigmar fór á með dóttur sína er einkasýning þeirra Dalsmynnisframleiðanda og ekki við miklu að búast. En Sigmari til upplýsinga er aðeins eitt viðurkennt hundaræktarfélag en það er Hundaræktarfélag Íslands. Ræktunarsýningar á þess vegum eru þrisvar á ári, í byrjun mars, byrjun júní og síðan er stærsta sýningin í október.

Þess á milli hafa verið hundadagar bæði í Garðheimum og Blómavali þar sem kynningar eru á hundum en það er ekki það sama og alþjóðlegar ræktunarsýningar þar sem hundar keppa sína á milli. Ef Sigmari langar að sýna dóttur sinni hunda af öllum tegundum og stærðum verður hann að bíða fram í byrjun júní og sækja þá sýningu í Víðidal og þá fær hann eitthvað fyrir sinn snúð. Búast má við að yfir fimm hundruð hundar keppi þar af tugum tegunda. Þar eru einnig hundategundir sem skoða má í návígi.

Ef Sigmar vill fræðast nánar um hunda áður en hann heldur á hundasýningu getur hann farið inn á síðu HRFÍ eða það sem mér stendur nær; mína eigin síðu, sifjar.is og síðu cavalierdeildarinnar. Það er oft betra að kynna sér málin svo menn verði ekki fyrir vonbrigðum og kasti peningum út í loftið.

Og svo er rétt að taka fram að HRFÍ er ekki bara eitthvað félag sem gleypir allt og hin félögin séu stofnuð vegna þess að klofningur hafi orðið á milli félaga. Það er einfaldlega þannig að í þessum bransa getur aðeins verið eitt viðurkennt ræktunarfélag í hverju landi. Þetta er nefnilega ekki eingöngu spurning um hagsmuni, heldur er HRFÍ fyrst og fremst ræktunarfélaga og það er strangar reglur í kringum slík félög sem ekki er von að leikmenn átti sig á.


Skelfilegir páskar

Þetta voru skelfilegir páskar en oftast hefur mér liðið vel þessa fimm daga. Kann því vel að vera heima og gera ekki neitt. En núna lá ég þá alla og í morgun var ég bæði máttlaus og aum. Ætlaði ekki að komast í vinnu en eftir að blóðið komst aðeins á hreyfingu hef ég náð smá krafti. Má alls ekki við því að vera lasin í dag þar sem mikið er að gera í vinnunni.

Veit í raun ekki hvað hefur verið að gerast þessa dagana og það var ekki fyrr en á páskadag að ég frétti hver vann þetta leiðinlega X-Facktor. Eins og það sé það sem skiptir máli í lífinu! Hef sjaldnast horft á það nema með öðru auganu en ætlaði að fylgjast með þessum síðasta þætti. Var sofnuð enda hef ég meira eða minna sofið frá því á fimmtudag. Ekki furða að ég sé máttlaus!


Legg hér með til að Birtíngur styrki mig til fatakaupa; ég mæti kl.08.30 og allir græði

Að vera feit og falleg; nokkuð til í því með konur á mínum aldri. Það væri líka hið besta mál ef ég stæði ekki fyrir framan fataskápana á morgnana korter eftir korter til að finna eitthvað sem hægt er að draga uppfyrir læri. Og ef með miklum tilfæringum það tækist er stóra vandamálið eftir; að hneppa um mig miðja.

Fínnt og ég fyllist mikilli gleði og held áfram við morgunverkin, svartur expressó, blöðin, hleypa hundunum út og gefa að borða. Og það stendur á endum; ég er um það bil að kafna... já þrátt fyrir að ég, hægt og rólega setjist við elhúsborðið án þess að braki í saumi.

Nei, það þýðir ekki; aftur fara nokkur kortér í að finna eitthvað annað sem sprettur örugglega ekki utan af mér þann daginn í vinnunni. Fyrir vikið er Reynir búin að hringja í tvígang og spyrja hvort ég sé ekki alveg að koma. "Jú, jú  Reynir minn ég er rétt um það vil að ganga úr um dyrnar," svara ég og trúi því sjálf að innan tveggja mínútna verði ég kominn út í bíl.

En það bregst sjaldan; ég drattast inn úr dyrunum í vinnunni klukkustund of seint. En öðlingurinn Reynir er ljúfur að vanda. Hann verður svo glaður að ég skuli loks vera mætt að hann gleymir að skamma mig.

Spurning hvort Birtíngur mynd ekki græða með því að styrkja mig til fatakaupa núm er 42-44 og vinna það til að ég mæti á réttum tíma. Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri.

Eða....mæta í kolaportið til Bryndísar Schram og finna passleg föt á fimm hundruð kall. Las það einvherstaðr í gær eða morgun. Það er margt vitlausara.


Tími til kominn að skólarnir samræmi mætingatíma og liðki fyrir umferð um leið

Áður en ég flutti í Hveragerði bjó ég í Hafnarfirði þar sem ég kunni afar vel við mig; þótti gott að búa í alvörubæ þar sem er höfn, miðbær, gamli bærinn og allt sem góðan bæ má prýða. Lengi vel skutlaðist ég þetta í vinnunna á morgnanna á 15-20 mínútum; allt eftir því hvernig færðin var og hve umferðin var þung. Ég var reyndar komin upp á lag með að vera á ferðinni fyrir eða eftir að flestir voru á leið í vinnu. Liðlega níu var rennifæri í Skaftahlíðina og ég tók Hafnarfjarðarveginn á um það bil tíu tólf mínútum.

Í mogga í morgun er fylgst með mæðgum sem ferðast úr Áslandinu á morgnanna; önnur í Versló og hin á Suðurlandsbrautina. Það tekur þær fjörutíu mínútur á góðum degi. Þær eiga þess ekki kost að fara þessa leið utan mestu umferðar vegna þess að allir skólar höfuðborgarinnar hefjast á sama tíma.

Og það er einmitt mergurinn málsins. Hvers vegna hefja allir skólar höfuðborgarsvæðisins kennslu á nákvæmlega sama tíma. Hvers vegna geta þeir ekki tekið sig saman og skipst á, á tímabilinu 07:30 -09:30. Eina viku í senn gæti Versló hafið kennslu klukknan 07:30 og síðan hinir með hálftíma millibili til 09:30. Sumsé fært kennsklu fram eða aftur eftir því sem við á og lokið kennslu í samræmi við það?

Ég er ekki í vafa um að það myndi miklu breyta. Foreldrar sem aka börnunum í skólann eru neydd til að vera á ferðinni á sama tíma eins og nú er háttað en hafa sjálfir sveigjanlegan vinnutíma sem þeir geta ekki nýtt sér vegna barnna.

Á merðan gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins er ekki betur í stakk búið til að taka við allri þessari umferð myndi það hafa afgerandi áhrif á hve greiðari væri að komast í og úr vinnu.

Ég veit það sjálf hve umferð bíla úr Hafnarfirði til Reykjavíkur jókst á skömmum tíma. Fyrir fimm árum var þetta ekki mikið mál en var orðið óþolandi tveimur árum síðar með tilkomu Vallarhverfis og Áslandsins, svo ekki sé talað um þá viðbót manna sem sótti vinnu til Reykjavíkur af Suðurnesjum eftir að Keflavíkurvegur tvöfaldaðist.

Nú bý ég í Hveragerði en frá hringtorginu við Norðlingaholt er 34 kílómetra akstur austur. Ég fer það á um það bil 20 mínútum. Ég er því fljótari í vinnu úr Hveragerði en ég var þegar ég bjó í Hafnarfirði. Þetta er ekki nokkur hemja að ekki skuli vera hægt að skipuleggja tíma skólanna betur. Og það er ekki spurning, lykilinn að því að breyta þessu eru skólarnir sjálfir. Það sýnir sig eftir að próf hefjast og í jólafríum. Þá rennur umferðin árennslulaust eftir götunum og bílum fækkar um helming.

Þetta er svipað og þegar ekki var komið inn í bankaútibú fyrstu dagana eftir útborgun launa sem miðaðist og gerir enn við fyrsta hvers mánaðar. Tölvuvæðingin kom viðskiptavinum bankanna til hjálpar og gjörbreytti atganginum um hver mánaðarmót; sem reyndar varð úr sögunni því menn sitja einfaldlega við sitt skriforð og sinna sínum bankaviðskiptum í gegnum tölvuna.

En það datt aldrei neinum í hug að gera alvöru úr því að breyta útborgunardögum. Það hefði ekki þurft annað en að ríkið færði daginn aðeins fram eða aftur til að losa tappann sem myndaðist alltaf fyrstu dagana í hverjum mánuði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband