Færsluflokkur: Fjölmiðlar og fólk
Það er fínt fyrir stjórnmálamenn að deila út dúsum til að stinga upp í lýðinn þessa dagana. Kosningar í vor og svo mikið er víst að "ekki fara allir á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor".
Það getur enginn verið viss um að stíga dansinn þar, en það breytir engu fyrir pólitíkusa sem þurfa á atkvæðum að halda. Og kemur ekki í veg fyrir að loforðum er dreift bæði til hægri og vinstri.
Þannig er samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson óhræddur að lofað umbótum og fé í Suðurlandsveg til að þagga niður í fjölmiðlum og róa lýðinn. Það er eins gott að við það loforð verði staðið og líklega er Sturla borubrattur þar sem hann veit að það er þverpólitísk samstaða meðal þingmanna Suðurlands fyrir tvöföldun vegarins. En það er gott að eigna sér verkið og berja sér á brjóst og segja; "Í minni ráðherratíð var tekin ákvörðun um breikkun vegarins. Ég átti frumkvæðið.
Er hún ekki furðuleg þessi pólitík?
6.12.2006 | 03:49
Ekki sama hvort Reynir túlkar fréttirnar eða sú forvitna
Það er hreint ekki sama hvernig sagt er frá hlutunum; ein og sama fréttin kann að verða að tveimur gjörólíkum, allt eftir því hver túlkar og hverra hagsmunir eru í húfi. Það sýnir sig best á fréttinni hér á undan þar sem sagt er frá 70% aukningu á lestri Mannlífs á milli ára og annarri frétt af þessari söm könnun á vef Ísafoldar
Aukning á lestri Mannlífs verður ekki véfengt eins og sjá má ef skoðaðar eru niðurstöður könnunnar sem Capacent gerði og vitnað er í. En í frétt Reynis vinar míns Traustasonar er sem minnst fjallað um aukningu á lestri Mannlífs, enda ekki hans hagsmunir að tala of hátt um það.
Hann notar hins vegar allt púðrið í að segja frá samdrætti á lestri á Séð & heyrt frá því í vor, þegar Bjarni Brynjólfsson var ritstjóri. Telur sig líklega ná þar góðu skoti á núverandi ritstjóra, Mikael Torfason. Hann lætur þess hins vegar ógetið að S&H var dreift í miklu magni frítt í könnunarvikunni í vor en ekki svo mikið sem einu blaði núna. Þannig liggur í því en Reynir man það kannski ekki eða langar ekkert að muna það enda miklu skemmtilegra fyrir hann að segja frá hrapi S&H en að lestur Mannlífs hafi aukist efir að hann hætti.
Svona gerast kaupin á eyrinni þegar kappið er mikið. Og ekkert nema gaman að því að vera í virkri samkeppni. Ég er jú blaðamaður á Mannlífi og að vonum ánægð. En til gamans geta menn lesið báðar fréttirnar og skoðað könnunina.
Blogg mitt frá í gær er hér:
Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.
Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að við Kristján Þorvaldsson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.
Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.
Og Reynis frétt á Ísafoldarfefnum hér:
Nýjasta könnun Capasent varðandi lestur tímarita felur í sér slæm tíðindi fyrir skemmtiritið Séð og heyrt. Blaðið fellur úr rúmlega 35 prósentustiga lestri í maí 2006 undir ritstjórn Bjarna Brynjólfssonar og niður í 23 prósentustig nú. Þetta er eitt mesta fall sem sést hefur frá því mælingar á lestri tímarita hófust. Á sama tíma er Hér og nú með 16,8 prósentustiga lestur og dregur saman með skemmtiritunum. Nýtt líf tekur einnig djúpa dýfu og mælist með 16,3 prósentustig í stað 19,3 stig áður. Kristján Þorvaldsson, ritstjóri Mannlífs, má vel við una því tímarit hans hans heldur sínu og vel það frá seinustu könnun og mælist með 22,4 prósentustig í lestri sem er tæpu stigi undir sérstakri könnun sem gerð var á lestri blaðsins í fyrrahaust og tveimur prósentustigum undir bestu könnun blaðsins á seinustu tveimur árum. En hástökkvarinn í Fróðasamsteypunni er þó Bleikt og blátt, undir ritstjórn Guðmundar Arnarsonar, sem eykur lestur sinn´um 25 prósent ...
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.12.2006 | 14:55
Mannlíf eykur lesturinn um tæp 70%
Það var meira en ánægjulegt að sjá árangur starfa sinna, þegar könnunin um lestur tímarita var birt í morgun. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita í nóvember eykst lestur á Mannlífi milli ára um tæp 70%. Lesturinn í október í fyrra var 14,8% en blaðið tók stórt stökk og og fjölgaði lesendum í 22,4% í nóvember í ár. Þar með er Mannlíf mest lesna tímarít á Íslandi um þessar mundir.
Auðvitað er ég sæl og glöð enda sýnir sig að Forvitna blaðakonan ég, Kristján Þorvaldsson, Guðmundur Arnarson og fleira gott fólk, erum á réttri leið. Aukning frá því í maí í vor frá því Reynir vinur minn Traustason yfirgaf skútuna og tók að undirbúa blað sitt Ísafold, er einnig umtalsverð en við sem stöndum að blaðinu tókum við því á miðju sumri. Þetta er ekki síður rós í hnappagat Mikka Torfa en hann kom einnig til starfa um svipað leyti.
Það er alltaf gaman að finna meðbyr og sannarlega hvetjandi að finna að fólk vill lesa það sem maður leggur sig allan fram um að skrifa. Til samanburðar er DV mitt gamla blað með 0,2% minni lestur en Mannlíf.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 6.12.2006 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.12.2006 | 23:49
Ekki fleiri karlkonur - verið konur!
Talandi um karlkonur, þá er ég þeirrar skoðunar að þær einar nái einhverjum frama sem karlgeri sig. Hegði sér eins og karlar, komi fram eins og karlar og taki upp þeirra hegðun. Það þykir mér slæmt, því íslenskt stjórnkerfi þarf einmitt á alvöru konum að halda; konum sem eru það inn að beini.
Ég hef heyrt það utan að mér að ég sé svo mikill antifeministi og lesa megi það í gegnum skrif mín þegar þau mál beri á góma. Ég átti til að skrifa leiðara í DV á sínum tíma, þar sem ég gagnrýndi feminista. Og það er alveg satt; ég er ekki feministi út frá skilgreiningu Feministafélagsins á því fyrirbæri. En ég er jafnréttissinni og kona; alveg inn að beini meira að segja. Hins vegar held ég að einhver misskilji mig og ég veit hvaða færsla mín varð þess valdandi ef hún var lesin með því hugarfari að ég væri karlremba.
Ég áttaði mig á þessu á mínum eftirminnilegu dögum á DV. Það var Mikki sem benti mér á hvar bæri á milli. Hann var að tala um að okkur vantaði fleiri ekta konur á ritstjórnina. Ég taldi upp nokkrar konur spurði hvað við hefðum að gera með fleiri. Jú, hann þurfti ekki karkonur, hann vildi konur með það í farteskinu sem greindi að konur og karla. Það sem þær hefðu fram yfir karla, kvenlega hugsun og aðra nálgun á málin. Hann vildi meina að konur sem leyfðu sér að vera það og nýttu sér til framdráttar í starfi, þroska sinn sem þær höfðu; einmittt fyrir þær sakir að vera konur, væru allra bestu blaðamenn sem völ væri á. Taldi sig meira að segja hafa eina slíka á ritstjórninni.
Mikki var ekki að tala um starfkraft til að skrifa um bakstur og bleiuþvott. Hann var að tala um konu í harða blaðamennsku. Hann hafði áttað sig á hvað konur höfðu fram yfir karla við að nálgast erfið mál. "Það er hægt að fá nóg að kröftugum karlkonum með metnað, en þær hef ég ekkert að gera við, get alveg eins ráðið einhvern karlmann. Ég vil alvöru konu," sagði hann blessaður.
Og við fórum í huganum yfir blaðakonur, stjórnmálakonur og aðrar konur sem náð höfðu langt; Þegar að var gáð voru þær flestar svona karlkonur. Og það hafði fleytt þeim þangað sem þær voru; því miður. Mér finnst það aumt og sé ekki tilgang í að konur karlgeri sig til að ná sínu fram. Þannig fjölgar bara "körlunum" á kostnað kvenna.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 3.12.2006 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.12.2006 | 22:50
Margrét ætti að þakka pent og segja bless
Mér hefur alltaf fundist sú mikla sómakona, Margrét Sverrisdóttir alls ekki eiga heima innan Frjálslynda flokksins. Það sýnir sig gjörla þessa dagana þegar kverúlantarnir í flokknum hafa fengið sitt fram og otað henni úr starfi; konunni sem var sálin og hjartað í þessum flokki. Ef meðal áhagenda þessa furðulega flokks eru einhverjir með viti, er ég hrædd um að þeir snúi við honum baki núna.
Þá sitja þeir eftir karllufsurnar og Guðrún Ásmundsdóttir. Skil ekki í að þau verði mörg atkvæðin sem þeir telji upp úr kössunum í vor, þegar kynþáttahatararnir og aðrir kverúlantar verða búnir að gleyma útspili þeirra Magnúsar Hafsteinssonar og Jóns Magnússaonar. Eftir sitja lúserarnir sem halda að þeir græði eitthvað á að styðja flokkinn.
Margrét á hvergi heima annars staðar en í Samfylkingunni og hún hefði betur verið búin að stíga skrefið til fulls og gefa karllufsunum langt nef og kveðja. En hún er eins og aðrar konur; trygg sínum og hverfur ekki svo glatt frá hálfunnu verki. Ekta kona Margrét, en ekki karlkona eins og margar þær konur sem náð hafa langt í pólitík.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 3.12.2006 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2006 | 14:36
Menn hafa sannarlega kippt við sér...
...og hvorki færri né fleiri en átta komment þegar ég opnaði síðuna í morgun. Ég er eins og krakki sem á vona á dóti í pakka þegar ég opna fyrir. Hvort það er ekki í lagi að vera ögn barnalegur stundum. Þakka ykkur sem sýnt hafið mér viðbrögð. Og endilega haldið áfram að setja fram skoðanir ykkar ef þið eruð mér sammála eða ósámmála. Og líka þið sem ég þekki, minnst heyri ég frá ykkur sem ég veit að fylgist með. Lofa að ég reyni að vera skemmtileg.
2.12.2006 | 00:13
Fjöldamet á tveimur dögum - punktur.
Vikan sem er að líða er er sú fjölsóttasta frá upphafi inn á síðuna mína; nema einhver mistök hafi átt sér stað. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar heimsóknir skiptu hundruðum einn daginn og ekkert lát var á þeim daginn eftir. Mér datt strax í hug að einhver ofurbloggari hafi tengt inn á síðuna mína eða hefði fjallaði um eitthvað sem snerti bloggið mitt.
En ég er engu nær og hef ekki frétt eða rekið mig á neitt sem skýrt getur allar þessar heimsóknir á tveimur dögum. EN þrátt fyrir tíðar heimsóknir virðast kommentum ekki ætla að fjölga hjá mér. Ósköp hvað menn eru misjafnlega duglegir við það. Meira að segja mínir bestu vinir og félagar sem segjast lesa bloggið mitt, sjá ekki ástæðu til að skiptast á skoðunum við mig.
Spyr ykkur því sem jafnan eru með sprungin kommentkerfi, hvað þarf til? Hvers vegna eru sumir að drukkna í kommentum á meðan aðrir virðast ekki hreyfa við neinum. Það er svo dapurt að vera að skrifa eitthvað sem maður vonast til að einhver þarna úti hafi skoðun á og síðan er ljóst að enginn, já, ENGINN hefur nokkurn áhuga á að taka undir með manni.
Svo upplifir maður bara að þetta sé allt svo ómerkilegt sem maður er að berja saman. Hvað veit maður? En ég tóri áfram og held áfram á meðan ég hef gaman af þessu og bíð í voninni.
28.11.2006 | 00:43
Mistök Fréttablaðsins og Hugrún
Ég er sammála Pétri Gunnarssyni um frétt Fréttablaðsins í morgun, þar sem rætt var við Dofra Hermannsson. Rak í rogastans þegar ég las þetta. En ég er ekki sammála honum um að Hugrún hafi vísvitandi unnið þessa frétt í annarlegum tilgangi eða misnotað aðstöðu sína í pólitískum tilgangi. Ég er heldur ekki sammála um að ábyrgðin sé hennar.
Ég þekki Hugrúnu ekki nema af góðu einu. Hún er dugleg fréttakona og heiðarleg. En hún hefur ekki langa reynslu, raunar mjög skamma, hefur aðeins verið í blaðamennsku í eitt og hálft ár. Því lít ég svo á að ábyrgðin sé fyrst og fremst fréttastjóranna eða vaktstjóranna sem eiga að leiðbeina fólki. Þeir eiga líka að fara yfir fréttir og senda þær til baka með athugasemdum ef þær eru ekki í lagi.
Ef sá sem var á vakt hefði unnið vinnuna sína, hefði fréttin ekki farið svona í gegn. Nú nema fréttastjóri hafi óskað sérstaklega eftir vinnslu fréttarinnar á þennan hátt. Sé ekki fyrir mér að þau Trausti, Sigga eða Arndís vinni þannig.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2006 | 07:57
Eins og sprautuð með spítti!
Það er eins og ég hafi verið sprautuð með spítti á spítalanum í vikunni en eins og lesendur mínir hafa geta ráðið í, var ég víðs fjarri í vikunni og kom heim með löppina í fatla á föstudag. Síðan hef ég verið óstöðvandi, þrátt fyrir að vera ekki gróin meina minna. Það er barnaleikur einn að vera með 60 eða 80 heft í löppinni (nú eru menn ekki lengur saumaðir saman heldur heftir með venjulegu hefti), miðað við krankleika minn áður en löppin var löguð. Mér finnst ég bókstaflega fljúga um.
Ég áttaði mig sumsé ekki á því hve slæm ég væri orðin og hve handikapperuð og þjökuð ég var af slæmskunni. Ég hef augljóselga verið að versna smátt og smátt og átti orðið bágt með gang. Svo bágt að það var farið að taka verulega á að vinna léttustu verk, eins og taka til heima hjá mér og ganga úti með hundana mína. Menn töldu mig þjást af þunglyndi og einskærri leti.
Þessa tvo daga hef ég ekki kunnað mér læti og verið eins og lamb að vori. Ætt um allt í göngutúrum með hundræflana mína sem hafa sannarlega fengið að kenna á slæmsku minni síðast liðið ár. Ég hef skúrað og skrúbbað og ætla út nú á eftir að þvo bílinn minn bæði að utan og innan. Hef hreinlega ekki getað stoppað.
Ég hefði ekki trúað hve gott er að fá aftur löpp með fullum krafti. Ég meira að segja get hugsað mér að fara að hlaupa upp um allt, en síðustu ár hef ég fengið hroll ef minnst hefur verið á líkamsrækt og fjallgöngur. Lét duga að segja að göngutúrar væru mín líkamsrækt. Það er ekki að furða og ég átta mig nú á að ég hef líklega verið orðin slæm fyrir 6-8 árum. Gleði mín er fölskvalaus og meira að segja er ég léttari og hamingjusamari í skapinu, en þeir sem þekkja mig vita að ég hef svo sem sjaldan verið þung og gleðisnauð.
En þið vinir og vinnufélagar sem hitt hafið illa á mig, ef einhverjir eru, vitið þá núna að ég var kona verulega bækluð, bæði andlega og líkamlega. Afsakið mig og mína leti sem var sum sé ekki nein leti. Nú er lífið farið að vera skemmtilegt aftur, eins og það á að vera.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 14:38
Komin aftur - með löppina í fatla
Komin til baka með löppina í fatla. Bara fjári brött eftir þetta inngrip vísindanna. Brátt fer ég að geta hlaupið um eins og fjallaljón; og ætla að gera það.
Við hlið mér lá stúlka sem á nýfætt barn, rétt þriggja vikna. Á meðan hún fór í aðgerð var maðurinn hennar heima með barnið og fjögurra ára son þeirra. Hann gat sannarlega ekki skellt barninu á brjóst í hvert sinn sem það vaknaði á næturnar eins og mamman, en hann kvartaði ekki. Kom á hverjum morgni til konu sinnar með litla barnið, eftir að hafa komið því eldra í leikskólann og sat hjá henni fram eftir degi.
Fór síðan heim og sótti eldra barnið í leikskóla og heim með börnin. Og því er ég að segja frá þessu; á þetta ekki að vera sjálfsagður hlutur? Einmitt; en það segir meira en nokkur orð að mér skuli þykja það í frásögu færandi. Það gerir mig urrandi vonda.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)